Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 192. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 328  —  192. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Margréti Gauju Magnúsdóttur um tóbaksvarnir.


     1.      Telur ráðherra að herða megi ákvæði tóbaksvarnalaga hvað varðar eftirlit og viðurlög við því að selja börnum yngri en 18 ára tóbak?
    Starfshópur um stefnumörkun í tóbaksvörnum var skipaður í janúar 2013. Hlutverk hans er að leggja fram tillögur að heildstæðri stefnu í tóbaksvörnum. Í vinnu starfshópsins hefur verið tekið mið af áherslum í drögum að heilbrigðisáætlun til ársins 2020 eftir því sem við á, rammasamningi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í tóbaksvörnum, lögum og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum, nýjustu þekkingu og þróun í málaflokknum á umliðnum árum auk annars. Starfshópurinn hefur fundað með fjölmörgum aðilum, félagasamtökum og stofnunum, og fyrirhugað er að tillögum að stefnu og meginmarkmiðum verði skilað fyrri hluta næsta árs.
    Að lokinni þessari vinnu starfshópsins mun velferðarráðuneytið yfirfara lög og reglugerðir er varða tóbaksmál í ljósi nýrrar stefnu. Er gert ráð fyrir að kafli tóbaksvarnalaga sem lýtur að eftirliti verði endurskoðaður, m.a. í ljósi rammasamnings Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um tóbaksvarnir og athugasemda sem ráðuneytinu hefur borist með það að leiðarljósi að auka skýrleika ákvæðanna.

     2.      Stendur til að taka lög um tóbaksvarnir til heildarendurskoðunar?
    Að lokinni vinnu starfshópsins um stefnumörkun í tóbaksvörnum verða lög og reglugerðir yfirfarin af velferðarráðuneytinu. Að svo stöddu er heildarendurskoðun laga um tóbaksvarnir ekki forgangsverkefni ráðherra.