Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 350  —  1. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2014.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur haft frumvarpið til umfjöllunar eftir að málið gekk til fjárlaganefndar 4. október sl. Nefndin hefur haldið 20 fundi um málið og kallað á sinn fund fjölmarga gesti, einkum fulltrúa ráðuneyta og fulltrúa meira en 50 sveitarfélaga, auk Ríkisendurskoðunar, Hagstofu Íslands, fulltrúa aðila vinnumarkaðarins og fleiri. Fulltrúar þeirra ráðuneyta sem vega þyngst í ríkisútgjöldum hafa komið í tvígang eða oftar á fund nefndarinnar, þ.e. fulltrúar velferðarráðuneytis, innanríkisráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis.
    Reiknað er með að mál sem varða aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um höfuðstólslækkun húsnæðislána sem kynnt var 30. nóvember verði afgreidd við 3. umræðu.
    Meiri hlutinn gerir breytingartillögu við tekjuáætlun frumvarpsins sem nemur 4.264,9 m.kr. til hækkunar og einnig breytingartillögu við sundurliðun 2, þ.e. fjármál ríkisaðila í A-hluta, sem samtals nemur 4.061,9 m.kr. til hækkunar gjalda. Á rekstrargrunni verða því heildartekjur ársins 591.819,2 m.kr. og heildargjöld 591.157,5 m.kr. Nú er því gert ráð fyrir örlítið betri afkomu en í frumvarpinu, eða sem nemur 203 m.kr. Afkoman er áætluð jákvæð um 661,7 m.kr.
    Tillögur til hækkunar tekna byggjast nær alfarið á endurmati fjármálaráðuneytisins á tekjum næsta árs. Endurmatið byggist á þróun innheimtu tekna það sem af er árinu 2013 og endanlegri álagningu lögaðila fyrir sl. ár, auk þess sem tekið hefur verið tillit til nýrrar þjóðhagspár Hagstofu Íslands sem kom út 15. nóvember sl.
    Tekjurnar hækka í heild um 4,3 milljarða kr. og vegur þar þyngst að skattar á tekjur og hagnað eru taldar skila 3 milljörðum kr. umfram fjárlög og skattar á vörur og þjónustu 2,3 milljörðum kr. en á móti vegur lækkun arðgreiðslna o.fl. um 1,8 milljarða kr. Önnur frávik eru minni.
    Á gjaldahlið munar mest um hækkanir hjá velferðarráðuneytinu sem samtals nema 4,1 milljarði kr., eða því sem næst sömu fjárhæð og heildarhækkun gjalda, sem var 4.061,9 m.kr. eins og áður kom fram. Með þessum hækkunum kemur fram stefnumótun stjórnvalda í þágu reksturs heilbrigðiskerfisins. Eins og fram kemur í umfjöllun um einstaka liði hækka rekstarfjárveitingar til Landspítalans, Sjúkrahússins á Akureyri og heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Að auki hækka tækjakaupa- og viðhaldsfjárveitingar til sömu aðila.
    Fjárheimildir annarra ráðuneyta breytast mun minna. Hækkanir eru óverulegar og lækkanir skýrast einkum af sérstakri aðhaldskröfu til viðbótar því sem kom fram í frumvarpinu. Þannig lækka framlög til utanríkisráðuneytisins um 620 m.kr. og til umhverfis- og auðlindaráðuneytis um 106 m.kr.
    Ekki eru miklar breytingar á bótaliðum, t.d. engin breyting á barnabótum en vaxtabætur lækka um 500 m.kr. frá frumvarpinu.
    Meiri hlutinn beitti sér fyrir því að aðalskrifstofur ráðuneyta auk nokkurra stofnana og annarra fjárlagaliða tækju á sig um 5% aðhaldskröfu til þess að ná fram forgangsröðun í þágu heilbrigðismála. Meiri hlutinn lagði mikla vinnu í að hagræða til að skapa svigrúm fyrir hækkun til heilbrigðisþjónustu án þess að fórna markmiðum um hallalaus fjárlög.
    Eins og kunnugt er hefur aðhaldskrafa í fjárlögum verið umtalsverð á síðastliðnum árum í kjölfar bankahrunsins. Oftar en ekki hefur útgjaldalækkun komið fram í frestun framkvæmda en meiri hluti fjárlaganefndar hefur hug á að breyta um áherslur og beita sér fyrir því að aðhaldskröfum næstu ára verði í auknum mæli mætt með skipulagsbreytingum í ríkisrekstri samfara endurskoðun á verkefnum í stað þess að fresta tækjakaupum og viðhaldi.
    Lagt er til að 13 ný ákvæði bætist við 6. gr. frumvarpsins sem varða einkum heimildir fjármála- og efnahagsráðherra til að kaupa og selja eignir. Þá er lögð til ein breyting á sundurliðun 4 sem varðar fjármál Íbúðalánasjóðs í C-hluta.

SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR Á GJALDAHLIÐ



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Guðlaugur Þór Þórðarson tók þátt í allri umfjöllum um málið og er samþykkur áliti þessu.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum þeim sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 11. desember 2013.



Vigdís Hauksdóttir,


form., frsm.


Líneik Anna Sævarsdóttir.


Haraldur Benediktsson.



Valgerður Gunnarsdóttir.


Willum Þór Þórsson.