Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 360  —  1. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2014.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.


    Í upphafi er rétt að fara nokkrum orðum um það vinnulag sem einkennt hefur meðferð fjárlagafrumvarpsins á þessu hausti. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fékk meiri tíma til að vinna að og leggja fram frumvarp en núgildandi lög gera ráð fyrir en þingsetningu og þar með framlagningu frumvarpsins var frestað um þrjár vikur í haust. Þrátt fyrir það er svo komið að ekki tekst að halda starfsáætlun Alþingis hvað fjárlagafrumvarpið varðar.
    Eftir að þingið og fjárlaganefnd fengu frumvarpið til umfjöllunar hefur orðið mikill dráttur á afgreiðslu þess úr nefndinni enda bárust tillögur um breytingar á frumvarpinu seint frá ríkisstjórn. Þetta vinnulag skerðir sjálfstæði þingsins og þingnefnda og minnkar svigrúm til vinnu og umræðu. Því miður lítur út fyrir að gamlir stjórnarhættir séu að ryðja sér aftur til rúms þar sem þingið tekur því sem að því er rétt og löggjafarvaldið er sett undir framkvæmdarvaldið í einu og öllu. Það er ekki í anda þess lærdóms sem við eigum að hafa dregið af lestri skýrslu rannsóknanefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 þar sem m.a. er fjallað um slíkt vinnulag og enn síður í anda þess sem forseti Alþingis hefur boðað um sjálfstæði þingsins og virðingu. Hvort tveggja hefur sett niður með vinnulaginu í kringum fjárlagafrumvarp fyrir árið 2014.

Leiðin til endurreisnar.
    Fjárlagafrumvarp er mikilvægasta þingmál hverrar ríkisstjórnar. Í því birtist meginstefna ríkisstjórnar um hvernig hún hyggst hafa áhrif á samfélagið og samfélagsgerðina. Eðli málsins samkvæmt nær hvert fjárlagafrumvarp til eins árs í senn og mælir fyrir um tekjuöflun og hvernig útgjöldum ársins skuli háttað. Hvert fjárlagafrumvarp er hins vegar varða á lengri leið um mótun samfélags, skiptingu skatttekna og stefnu stjórnvalda í átt til þeirrar samfélagsgerðar sem stjórnmálamenn og flokkar stefna að. Í því ljósi er rétt að bera saman þá stefnu sem mótuð var af hálfu vinstri flokkanna í fjárlögum fyrsta kjörtímabils eftir efnahagshrunið og þess sem nú liggur fyrir af hálfu hægri stjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
    Strax að loknum kosningum vorið 2009 var lagður grunnur að þeirri aðferðafræði sem beitt var við uppbyggingu efnahagslífsins. Hún fólst annars vegar í því að afla ríkinu nýrra tekna til að mæta miklu tekjufalli í kjölfar efnahagshrunsins og auknum útgjöldum, svo sem vegna aukins atvinnuleysis og hækkandi vaxtagreiðslna. Þar með var hægt að milda óumflýjanlegan niðurskurð í útgjöldum, sem hins vegar var útfærður þannig að vægi niðurskurðar í útgjöldum yrði hlutfallslega mest í rekstri og stjórnsýslu ríkisins en minnst í velferðar- og heilbrigðismálum.

Hlutfallslegur samdráttur í útgjöldum á árunum 2009–2013.

Aðhaldsráðstafnanir í rekstri Fjárlög 2009 Fjárlög 2010 Fjárlög 2011 Fjárlög
2012
Fjárlög 2013
Almenn opinber þjónusta 5% (+2%)* 10% 9% 3% 1,8%
Stjórnsýsla og eftirlitsstofnanir 5% (+2%)* 10% 9% 3% 1,8%
Framhaldsskólar 3% (+1,6%)* 7% 5% 1,5% 1%
Háskólar 3% (+1,6%)* 7% 7,5% 1,5% 1,2%
Löggæslustofnanir 3% (+2%)* 5% 5% 1,5% 0,5%
Sjúkrahús 3% (+1%)* 5% 5% 1,5% 0%
Heilbrigðis- og öldrunarstofnanir 3% (+1%)* 5% 5% 1,5% 0%
Málefni aldraðra 3% (+1%)* 5% 5% 1,5% 0%
*Fjáraukalög 2009

    Sumarið 2009 var gripið til umfangsmikilla aðgerða innan þágildandi fjárlaga, sem skiluðu ríkissjóði 22 milljörðum kr. upp í hátt í 200 milljarða kr. halla sem þá virtist stefna í. Samhliða því að dregið var úr útgjöldum og nýrra tekna aflað var lagt upp í mikilvægar kerfisbreytingar sem lýstu stefnu stjórnarflokkanna í skattamálum. Nýtt þrepaskipt skattkerfi var innleitt sem hafði það að markmiði að auka tekjur, gera skattkerfið skilvirkara og síðast en ekki síst réttlátara en áður hafði verið. Í þrepaskiptingu skattkerfisins fólst ákvörðun um að færa byrðar efnahagshrunsins í efri tekjulögin en reyna að hlífa þeim sem lægri tekjur höfðu sem mest mátti. Árin á undan hafði verið innleiddur flatur tekjuskattur í einu þrepi óháð tekjum að frátöldum persónuafslætti. Áttu þessar nýfrjálshyggjuáherslur í skattamálum sinn þátt í ört vaxandi misskiptingu árin fyrir hrun. Tekinn var upp auðlegðarskattur á hreina eign umfram ákveðin mörk og skattur á fjármagnstekjur var tvöfaldaður en tekið upp frítekjumark sem hlífði venjulegum sparnaði. Skattur á hagnað fyrirtækja var sömuleiðis hækkaður og færður nær því sem annars staðar þekktist. Þessar aðgerðir skiluðu þá þegar miklum árangri og hafa alla tíð síðan verið grunnurinn í bættri og sanngjarnari tekjuöflun ríkisjóðs. Segja má að þær aðgerðir sem gripið var til á þessum tíma hafi verið lykillinn að því að forða landinu frá þroti og um leið að móta samfélag í anda þeirra ríkisstjórnar sem þá var við völd, samfélag aukins jöfnuðar.
    Áfram var haldið á sömu braut í fjárlögum fyrir árið 2010. Farin var blönduð leið aukinna tekna og niðurskurðar í útgjöldum ríkisins. Markmiðin voru enn þau sömu, að vinna hratt á hallarekstri ríkissjóðs og forðast þjóðargjaldþrot, en leggja um leið grunn að betra samfélagi sem rísa mundi úr efnahagshruninu. Áfram var sömu aðgerðum beitt, velferðarkerfinu hlíft en hlutfallslega mestar byrðar voru lagðar á rekstur og stjórnsýslu. Samanlagðar aðgerðir í tekjuöflun og lækkun útgjalda skiluðu ríkissjóði um 55 milljörðum kr. á árinu 2010.
    Fjárlög áranna 2011 og 2012 báru sömu merki. Farin var blönduð leið tekjuöflunar og lækkunar útgjalda sem skiluðu miklum árangri við afar erfiðar aðstæður. Tekjur jukust jafnt og þétt vegna þeirra aðgerða sem áður hafði verið gripið til sem forðaði frekari niðurskurði í útgjöldum. Með nýjum tekjum tókst að verja grunnþætti samfélagsins og ekki síður störf og koma þannig í veg fyrir gríðarlegt atvinnuleysi sem spáð var í kjölfar efnahagshrunsins.
    Þegar upp var staðið var hlutfall tekna og niðurskurðar í útgjöldum nánast það sama í fjárlögum áranna 2010–2013. Halli á ríkissjóði af stærðargráðunni 200 milljarðar kr. var lækkaður um nær helming með tekjuöflun á móti lækkun útgjalda.

Óumdeildur árangur.
    Árangurinn af þeim aðgerðum og aðferðafræði sem beitt var í fjárlögum fyrstu árin eftir efnahagshrunið og hér hefur verið lýst, er óumdeildur og kom vel fram í fjárlögum fyrir árið 2013, sem voru fyrstu fjárlög frá hruni án niðurskurðar í grunnþjónustu, velferðar- og heilbrigðiskerfi. Ísland stendur nú nær öðrum norrænum þjóðum en áður í því hvernig tekna er aflað og velferðar- og menntakerfið stendur eftir sem grunnstoð opinberrar þjónustu, þrátt fyrir umtalsverðar þrengingar vegna hrunsins sem ekki skal gert lítið úr.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Hagvöxtur á Íslandi hefur verið mun meiri en í öðrum löndum og ris efnahagslífsins sömuleiðis hraðara og meira. Það sem mest er um vert er að Ísland hefur að nýju öðlast traust á alþjóðavettvangi sem áður var ekkert og íslensk þjóð aftur fengið trú á sjálfri sér og eigin getu til að takast á við erfiðleika samtímans.
    Agi og eftirfylgni í tengslum við fjárlög hefur aukist á undanförnum árum og áætlanagerð hefur stórlega batnað. Um það vitnar frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2013 þar sem segir m.a.:
    „Þannig kemur fram að á árabilinu 1998 til 2008 var meðaltal frávika í fjáraukalögum um 5% af frumútgjöldum fjárlaga þrátt fyrir að óreglulegir liðir séu undanskildir. Þótt nokkur hluti frávikanna hafi verið vegna launa- og verðlagsbóta í kjölfar kjarasamninga nokkur árin má telja að frávikin hafi í gegnum tíðina verið í þeim mæli að þau samrýmist varla því hlutverki sem fjáraukalögum er ætlað að gegna í fjárlagagerð og stjórn ríkisfjármálanna. Þannig hefur í of miklum mæli verið vikist hjá því að fjalla um eða standa við ákvarðanir um fyrirsjáanlegar fjárráðstafanir í fjárlögum, sem hefur haft í för með sér að útgjaldarammar hafa ekki haldið og mál eru tekin upp aftur í fjáraukalögum. Mikilvægt er að sporna við þessari tilhneigingu með því að beita agaðri vinnubrögðum við gerð og framfylgd fjárlaga. Reyndar sýnir myndin líka að aukið aðhald í ríkisfjármálum sem innleiða þurfti í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 hefur stuðlað að talsvert bættu verklagi að þessu leyti undanfarin ár. Þannig er meðaltal frávika á árabilinu 2009 til 2013 liðlega 1,5%.“
    Þær breytingar sem hafa orðið á fjármálum íslenska ríkisins og ytri umgjörð þeirra hafa ekki síður vakið athygli erlendis en hér heima. Um það hafa viðurkenndir fræðimenn skrifað og gert að umtalsefni. Meðal þeirra er nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman sem hefur fylgst vel með framgangi efnahagsmála á Íslandi frá hruni. Hann, eins og fleiri, heldur því með réttu fram að sú leið sem stjórnvöld fóru sé bæði eftirtektarverð og árangursrík. Um það hefur hann sagt: „Ísland hefur náð óumdeildum árangri án þess að breyta samfélagskerfinu, án þess að koma sér undan skuldbindingum, sýnt mikinn aga í efnahagsmálum, með óhefðbundnum hætti, þveröfugt við það sem AGS hefur ráðlagt hingað til. Og það hefur virkað.“

Skýr markmið – árangursrík stefna.
    Markmið stjórnvalda í skattamálum var ekki einungis að afla ríkissjóði nauðsynlegra tekna, sem óhjákvæmilegt var að gera heldur, og ekki síður, að gera skattkerfið réttlátara en það hafði verið á tímum hægri manna með flötum lágum sköttum á alla óháð tekjum og efnahag.
    Á myndunum hér á eftir má sjá hver jöfnunaráhrif skattkerfisbreytinga síðustu ára urðu. Skattbyrði lágtekjufólks, sem hafði hækkað í aðdraganda efnahagshrunsins, lækkaði. Skattbyrðin jókst síðan með hækkandi tekjum, öfugt við það sem áður hafði verið.
    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014 er snúið af þessari braut með skattalækkunum sem gagnast tekjuhærra fólki en hinum tekjulægstu ekkert. Það mun á ný leiða til vaxandi ójafnaðar með sama hætti og síðast þegar hægri flokkarnir tveir fóru með stjórn landsins.
    Reynslan er ólygnust í þessum efnum sem öðrum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Allar aðgerðir vinstri stjórnarinnar til aðstoðar þeim heimilum sem verst fóru út úr hruninu, byggðust á félagslegum grunni og beindust að þeim sem í mestum erfiðleikum áttu. Vaxtabætur eru lýsandi dæmi um það þar sem bæturnar fóru hlutfallslega í meira mæli til tekjulægsta hópsins og minnkuðu síðan með vaxandi tekjum.
    Þær aðgerðir sem ríkisstjórn hægri manna hefur nú boðað, bæði í skattamálum og skuldaleiðréttingum, eru með öfugum formerkjum og koma í ríkari mæli þeim til góða sem meiri tekjur hafa en skila minna eða engu til hinna tekjulægstu. Það mun leiða aftur til aukins ójöfnuðar.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Ólíkar leiðir.
    Tvær leiðir eru til að takast á við samdrátt í tekjum og aukin útgjöld. Annars vegar að draga úr útgjöldum svo að tekjurnar dugi og hins vegar að auka tekjurnar til að standa straum af auknum útgjöldum. Vinstri flokkarnir blönduðu þessum tveimur ólíku aðferðum saman til að mæta áföllum af völdum efnahagshrunsins, eins og áður hefur verið gerð grein fyrir. Blönduð leið aukinna tekna og samdráttar í útgjöldum reyndist landinu farsæl.
    Nú hefur verið tekinn 180 gráðu snúningur frá þeirri stefnu og ráðist hefur verið í tilefnislausan niðurskurð sem leiðir af sér fækkun starfa, fjöldauppsagnir og skerðingu á þjónustu umfram ástæður. Það er ólík framtíðarsýn sem blasir við okkur eftir stjórnarskiptin. Draumurinn um lágmarksríkið hefur öðlast nýtt líf.

Öllu snúið á hvolf.
    Fjárlagafrumvarpið ber öll helstu einkenni hægristefnu og þeirra fjárlagafrumvarpa sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa áður lagt fram hér á Alþingi í sínu fyrra samstarfi. Í stað eðlilegrar og réttlátrar tekjuöflunnar er nú ráðist í skattalækkanir gagnvart efnamesta hópi landsmanna, fyrirtækja og auðmanna. Í stað þess að nýta nú tækifærið sem þessum tveimur flokkum hefur verið fært í hendur til að halda áfram að skapa hér sanngjarnara samfélag en áður, þá er tíminn færður aftur til þess sem var þegar þessir tveir flokkar stjórnuðu landinu síðast. Í stað þess að byggja á traustum grunni, tryggum tekjum og raunhæfum áætlunum er aftur hafist handa við að reisa loftkastala og byrðum velt yfir á framtíðartekjur barnanna okkar. Í stað þess að skjóta styrkari stoðum undir nýjar atvinnugreinar, rannsóknir, nýsköpun, skapandi greinar og aðrar vaxtargreinar sem ekki ganga á takmarkaðar auðlindir, er aftur tekið til við að virkja stórkarlalegar hugmyndir um gamaldags atvinnugreinar, hvað sem það kostar, og menn eru óþolinmóðir að komast til verka.

Vaxandi óvissa í efnahagsmálum.
    
Þrátt fyrir þær viðvörunarbjöllur sem þegar eru farnar að hringja og þau varnaðarorð sem bæði innlendir og erlendir aðilar hafa nú uppi, er óhikað stefnt í sama far og áður. Þeir sem efast eru sakaðir um lygar. Allt gamalkunnugt þeim sem muna meira en einn dag í senn. Margir verða nú til þess að vekja athygli á veikleikum í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014 og lýsa áhyggjum af aukinni óvissu í opinberum fjármálum. Meðal þeirra er Seðlabanki Íslands. Í Peningamálum, riti Seðlabankans frá því í nóvember 2013, voru þessum málum gerð ítarleg skil. Þar segir m.a.:
    „Samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir lítils háttar afgangi á rekstri ríkissjóðs á næsta ári og áframhaldandi lækkun skulda ríkissjóðs í hlutfalli af landsframleiðslu. Afgangurinn er hins vegar minni en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir og byggist að hluta á brothættum og óljósum forsendum. Að sama skapi liggur ekki fyrir hvernig fyrirætlanir stjórnvalda um almenna niðurfærslu verðtryggðra skulda heimila verða framkvæmdar og hvort og þá hvernig þær muni hafa áhrif á fjárhag ríkissjóðs. Þá er vandi Íbúðalánasjóðs óleystur. Töluverð óvissa er því um horfur í opinberum fjármálum og sú hætta fyrir hendi að lykilforsendur gangi ekki eftir. Í ljósi mikilla skulda hins opinbera gæti verri afkoma haft víðtæk neikvæð áhrif og orðið til þess að draga losun fjármagnshafta á langinn eða gert hana áhættusamari en ella. Seðlabankinn gæti þurft að bregðast við auknum slaka í opinberum fjármálum með þéttara peningalegu taumhaldi til þess að koma í veg fyrir að hann valdi aukinni verðbólgu. Efnahagsbatinn gæti því orðið hægari en spáð er í grunnspánni.“
    Í stuttu máli segir Seðlabankinn að forsendur fjárlaga séu byggðar á afar veikum, óljósum og brothættum forsendum. Seðlabankinn segir töluverða óvissu vera um horfur í opinberum fjármálum og hættu á að lykilforsendur fjárlaga gangi alls ekki eftir.
    Seðlabankinn bendir einnig á að skuldaniðurfærsluaðgerð ríkisstjórnarinnar skapi óvissu um afkomu ríkisins og opinber fjármál til framtíðar. Það ráðist þó allt af því hvert umfang þeirra aðgerða verður og hvernig þær verða framkvæmdar. Nú liggur það fyrir í stórum dráttum þótt afar margt sé þar enn óljóst og brothætt. Það er því ekki bara eðlilegt heldur bráðnauðsynlegt fyrir Alþingi að fá mat Seðlabankans á aðgerðum stjórnvalda og breytingum sem lagðar eru til í fjárlagafrumvarpinu áður en það kemur til afgreiðslu. Ekki skal gleyma því að það er lögbundið hlutverk Seðlabankans að framfylgja stefnu stjórnvalda í efnahagsmálum, svo framarlega sem sú stefna raskar ekki stöðugleika efnahagsmála að mati bankans.

Flögrandi fuglar í skógi.
    
Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að ríkið spari sér útgjöld upp á nærri 11 milljarða kr. með því að breyta skilmálum skuldabréfs sem gefið var út á sínum tíma til að endurreisa Seðlabankann í kjölfar efnahagshrunsins. Þetta á að gera með því að lengja í skuldabréfinu í allt að 20 ár og hafa það vaxtalaust. En samkvæmt því sem komið hefur fram hér í þinginu er þetta mál ekki útkljáð við Seðlabankann. Eru þetta peningar í hendi eða enn einn flögrandi fuglinn í skógi ráðherrans? Hvað segir Seðlabankinn, handhafi skuldabréfsins, um þetta?
    Í viðtali við fjölmiðla um málið í byrjun október sagði seðlabankastjóri að það hljóti „allir að átta sig á því að þetta skiptir ekki stóru máli til eða frá“. Þetta væri „fyrst og fremst ásýndarmál og að sumu leyti bókhaldsæfingar“. Það hlýtur að vera ríkisstjórninni áhyggjuefni að einn stærsti einstaki tekjupóstur fjárlagafrumvarpsins sé að mati Seðlabanka þjóðarinnar talinn vera bókhaldsæfing og ásýndarmál en við þessari gagnrýni hefur þó ekki verið brugðist.
    Ætla má að þessar æfingar geti skaðað ríkissjóð og orðspor ríkisins sem reynt hefur verið að byggja upp frá hruni. Það er því ekki aðeins óvissa um þessa 11 milljarða kr. sem gert er ráð fyrir að muni sparast heldur er litið á það sem bókhaldsbrellur og ásýndarmál sem ekki er til þess fallið að auka traust til ríkisstjórnarinnar. Með sama hætti er einnig óvissa um tekjur af nýrri skattlagningu á þrotabú gömlu bankanna upp á rúmlega 11 milljarða kr. Ekkert liggur fyrir um það hvort þessi skattheimta sé gerleg. Hér þyrfti að sjálfsögðu að liggja fyrir greining og könnun á því hvort meiri möguleikar eða minni séu á því að hægt verði að innheimta þennan nýja skatt. Hér er því samanlagt um 22 milljarða kr. nýjar tekjur að ræða sem að hálfu munu engu skila og að hálfu ríkir óvissa um.

Versnandi viðskiptakjör.
    Fram hefur komið af hálfu Seðlabankans að viðskiptakjör Íslands hafi versnað mjög að undanförnu og að gera megi ráð fyrir því að þau eigi enn eftir að versna. Fari sem horfi muni viðskiptakjör landsins versna um nærri 17% milli ára. Það þýðir að viðskiptakjör Íslands hafa ekki verið verri frá árinu 1964 eða í hálfa öld. Engin merki eru í fjárlagafrumvarpinu um hver viðbrögð ríkisstjórnarinnar verða við þessu.

Óásættanlegar horfur.
    Eins og fram hefur komið er fjárlagafrumvarp mikilvægasta þingmál hverrar ríkisstjórnar og mótar stefnu hennar til lengri tíma en hvers fjárlagaárs í senn. Fjárlög hnýta því saman stefnu og markmið ríkisstjórna og varða leiðina að settum framtíðarmarkmiðum.
    Skuldir ríkisins eru miklar og vaxtagjöld há. Því er afar brýnt að sem fyrst skapist svigrúm í ríkisfjármálum til að greiða niður skuldir og breyta vaxtagreiðslum í framlög til velferðar. Því miður er fátt í fjárlagafrumvarpinu og stefnu ríkisstjórnarinnar sem bendir til þess að skuldir ríkisins verði greiddar niður á næstu árum. Til þess eru tekjuáform stjórnarinnar næstu árin of veik. Ríkissjóður mun á næsta ári fá tekjur af auðlegðarskatti upp á 8–9 milljarða kr. Ríkisstjórnin hefur hins vegar afráðið að hætta álagningu auðlegðarskatts sem mun leiða til þess að mæta þarf tapinu sem af því verður á fjárlögum 2015. Ekki er óvarlegt að áætla að skattstofn auðlegðarskattsins muni halda áfram að styrkjast á næstu árum og tekjurnar af skattinum sömuleiðis ef hann yrði áfram í gildi. Tekjutap af lækkun veiðigjalda upp á kr. 6,4 milljarða kr. kemur að fullum þunga fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014 og mun ef eitthvað er kosta ríkissjóð talsvert hærri upphæð á árinu 2015 vegna aukinna aflaheimilda og bættrar afkomu. Stjórnvöld hafa boðað afnám á orkuskatti og kolefnisgjöldum sem skilar ríkissjóði nærri 6 milljörðum kr. á næsta ári. Þessu til viðbótar gerir stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar ráð fyrir enn frekari skattalækkunum á næstu árum á einstaklinga og fyrirtæki til viðbótar þeim 5 milljörðum kr. sem tekjuskattur á að lækka um á næsta ári. Samkvæmt þeim fyrirætlunum sem fram koma í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014, stefnuyfirlýsingu stjórnarflokkanna og einstakra forustumanna þeirra er ljóst að ríkissjóður mun missa 25–30 milljarða kr. tekjur á næstu árum. Því verður ekki mætt með öðru en hrottafengnum niðurskurði til viðbótar þeim sem nú þegar blasir við. Og jafnvel þó svo að skorið verði niður til jafns á móti tekjutapinu mun það ekki verða til að skapa svigrúm til greiðslu skulda heldur þarf að ganga talsvert lengra í niðurskurði ef svo á að verða.
    Fjármála- og efnahagsráðherra hefur sjálfur lýst áhyggjum af versnandi horfum í ríkisfjármálum og sagt þær óásættanlegar. Það er rétt að taka undir þær áhyggjur með ráðherranum og um leið að vekja athygli á því að það er hans eigin stefna og stefna ríkisstjórnarinnar sem er ástæða þess viðbótarvanda sem blasir við ríkissjóði á allra næstu árum. Þeirri stefnu má breyta.

Áhrif skuldaleiðréttinga.
    Nú liggur fyrir aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um niðurfærslu á verðtryggðum lánum. Fyrir kosningar lofaði forsætisráðherra niðurfærslum upp á 240–300 milljarða kr. og að peningarnir yrðu fengnir frá fyrrverandi lánveitendum hinna föllnu banka. Ekkert slíkt er hins vegar að finna í tillögunum sem nú hafa verið kynntar. Umfangið er aðeins tæpur þriðjungur af því sem áður hafði verið lofað og peningarnir eiga að koma úr ríkissjóði og frá sveitarfélögunum. Aðgerðin er öll á ábyrgð hins opinbera þó svo til standi að afla tekna með hækkun bankaskatts sem óvissa ríkir um eins og áður sagði. Það yrðu eftir sem áður skatttekjur óháðar því hvernig þeim verður ráðstafað. Að sögn stjórnvalda munu þessar aðgerðir ekki hafa teljandi áhrif á efnahagsmál landsins en þó fremur jákvæð en hitt. Margir eru eigi að síður þeirrar skoðunar að aðgerðirnar muni hafa neikvæð áhrif á verðbólgu og þar með verðtryggð lán og þá verði áhrifin ekki síður neikvæð á ríkissjóð, bæði efnahagslega og ekki síður í sambandi við trúverðugleika ríkisfjármála og þar með landsins á erlendum vettvangi. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) er einn þeirra sem vara við tillögunum, segir þær „misráðnar“ og kunna að leiða til þess að auka þurfi framlög ríkissjóðs til Íbúðalánasjóðs um 40 milljarða kr. á næstu fjórum árum, eigi að halda eiginfjárhlutfallinu í 2,5%, sem er aðeins helmingur þess sem ráðgert er að hlutfallið verði miðað við. Þessu til viðbótar telur AGS að tillögurnar eigi eftir að auka verðbólgu og kunni að leiða til hækkunar á skuldum hins opinbera, ef látið verður reyna á bankaskatt fyrir dómstólum.

Versnandi horfur.
    Nú hefur skuldatryggingarálag á Ísland rokið upp og ekki verið hærra í nærri heilt ár. Fram að því hafði það farið stöðugt lækkandi samhliða því sem trúverðugleiki landsins jókst á alþjóðavettvangi. Nú eru hins vegar uppi efasemdir um að Ísland sé á þeirri réttu leið sem það var á síðasta kjörtímabili. Fram að því voru engar efasemdir um að við værum á réttri leið, um það vitnuðu öll efnahagsleg mælitæki, innlend sem erlend. Hins vegar var deilt um það hversu hratt væri farið, en ekki um það hvort við værum á réttri braut.
    Nú er þetta að breytast. Nú er aftur farið að efast um aðferðafræðina, stefnuna og framtíðarmöguleikanna, rétt eins og fyrir hrun. Það hlýtur að vekja ugg í brjóstum stjórnarliða eða efasemdir. Nema menn séu kannski svo borubrattir og kokhraustir, sannfærðir um eigið ágæti og óskeikulleika að þeim finnst í lagi að láta aðvörunarorð sem vind um eyru þjóta.

Breytingartillögur stjórnarmeirihlutans
    Nokkur óvissa hefur verið um hvaða breytingartillögur yrðu lagðar fram af hálfu meiri hlutans. Þannig hafa fulltrúar meiri hlutans talað fyrir og á móti sömu tillögum sem hefur gert umræðuna afar ruglingslega. Þannig hefur framganga meiri hlutans verið með miklum ólíkindum.
    Þær breytingartillögur sem stjórnarmeirihlutinn lagði að lokum fram eru dapurlegar. Í skjóli þess að draga til baka þá skerðingu til heilbrigðiskerfisins sem stjórnarmeirihlutinn lagði sjálfur til í frumvarpinu leggur meiri hlutinn nú til að skorið verði niður þar sem varnirnar eru veikastar. Á sama tíma og veiðigjöld eru lækkuð á stóran hluta útgerða, ráðist er í ótímabærar skattalækkanir á millitekjuþrepið, boðað er að auðlegðarskattur verði lagður af og auknum fjármunum er varið til ríkisstjórnar og aðstoðarmanna, á nú að tillögu stjórnarmeirihlutans að skera niður vaxtabætur til skuldugra heimila og láglaunafólks. Til að bíta svo höfuðið af skömminni skal svo höggvið þar sem helst ætti að hlífa með því að lækka framlög til þróunarhjálpar og samvinnu um hundruð milljóna. Það er dapurlegt að þjóð sem lengst af hefur notið stuðnings annarra ríkja við uppbyggingu á innviðum samfélagsins leggi ekki meira af mörkum í þróunaraðstoð. Íslendingar þáðu alþjóðlega aðstoð við að byggja spítala þegar þeir þurftu mest á því að halda. Sú þróunaraðstoð sem Ísland hefur veitt hefur stutt aðrar þjóðir til hins sama og það skýtur skökku við að auðug vestræn þjóð sem þáð hefur aðstoð á erfiðum tímum neiti nú öðrum um aðstoð.
    Reiknað hefur verið út að Íslendingar hafa þegið meiri þróunaraðstoð frá stofnun lýðveldisins í heild en þeir hafa veitt. Meiri hlutinn hefur með þessum tillögum berað forgangsröðun sína betur en nokkru sinni fyrr.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Breytingartillögur.
    Breytingartillögur 2. minni hluta fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs snúa allar að því að endurheimta það sem til stendur að leggja niður og snúa stefnu ríkisstjórnarinnar í farsælli átt.
    2. minni hluti gerir tillögur um að staðið verði þá fjárfestingaáætlun sem samþykkt var samhliða fjárlögum ársins. Lagt er til að sóknaráætlun landshluta verði endurreist frá frumvarpinu. Þá er gerð tillaga um að staðið verði við tímabæra áætlun um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar, eins og lagt var upp með í fjárlögum fyrir árið 2013. Tillögur um úrbætur í innanlandsflugi eru í takti við fyrri áætlanir. 2. minni hluti telur mikilvægt að staðið verði við framlög í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Sömuleiðis er lagt til að framlög til skapandi greina, rannsóknarsjóða, Tækniþróunarsjóðs og markáætlunar verði aukin og gerðar verði áætlanir um áframhaldandi eflingu þeirra.
    2. minni hluti vill að Ríkisútvarpið verði það almannaútvarp sem því hefur verið ætlað að vera og það fái það fjármagn sem til þarf og samþykkt var að það fengi á Alþingi síðastliðinn vetur. Þá gerir 2. minni hluti tillögu um að framhaldsskólar landsins fái aukið fjármagn í stað þess niðurskurðar sem boðaður er og að haldið verði áfram uppbyggingu dreifnáms sem hefur vaxið og dafnað á undanförnum árum, ekki síst vegna frumkvæðis heimamanna víða um land. Einnig er lagt til að staðið verði við lengingu fæðingarorlofs og að íslensk stjórnvöld sýni þann lágmarks sóma af sér að þoka framlögum til þróunarsamvinnu í átt að því sem skylda ber til að gera.
    2. minni hluti gerir tillögu um að Alþingi samþykki aukin útgjöld til heilbrigðismála frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu upp á tæpa 5 milljarða kr.
    Alls leggur 2. minni hluti fram tillögur um aukin útgjöld upp á tæplega 11 milljarða kr. í þá málaflokka sem hér hafa verið nefndir.
    Til að mæta auknum útgjöldum eru gerðar tillögur um að auka tekjur ríkissjóðs á móti. Í fyrsta lagi er lagt til að útgerðarfyrirtækin greiði sanngjarnt auðlindagjald og taki þannig á sig hlut í því verkefni að byggja upp innviði samfélagsins eftir efnahagsþrengingar undanfarinna ára. Því er gerð tillaga um hækkun sérstaks veiðigjalds fyrir botnfisk frá og með næsta fiskveiðiári. Til að byrja með er lagt til að greitt verði fast leigugjald sem nemi 20 kr. á hvert kíló af lönduðum afla á makríl. Samanlagt skila þessar aðgerðir 4,7 milljörðum kr. tekjum í ríkissjóð á árinu 2014 og munu skila meiru til framtíðar.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Þá er lagt til að fallið verði frá boðaðri tekjuskattslækkun upp á 5 milljarða kr. og að virðisaukaskattur á gistingu verði hækkaður úr 7% í 14% eins og gert hafði verið ráð fyrir, sem skili ríkissjóði 1,8 milljörðum kr. á árinu 2014 miðað við að innheimta hefjist 1. mars næstkomandi.
    Loks gerir 2. minni hluti tillögu um að tekjustofn Ríkisútvarpsins renni allur í ríkissjóð til að mæta viðbótarútgjöldum til stofnunarinnar enda var það ætlunin í nýjum lögum um Ríkisútvarpið sem sett voru á árinu.

Verðmætasköpun, velferð og tekjuöflun
    Breytingartillögur 2. minni hluta eru í samræmi við stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og sýna að það er valkostur við þá leið sem stjórnarflokkarnir hafa farið án þess að horfið sé frá markmiðinu um hallalaus fjárlög. Þannig byggist leið stjórnarflokkanna á niðurskurði um leið og sköttum er létt af þeim sem einna helst geta borið þá og er þar nærtækast að nefna sérstaka veiðigjaldið. Um leið hverfa þeir frá fjárfestingum í vaxtargreinum á borð við rannsóknir, þróun, nýsköpun, ferðaþjónustu og skapandi greinum. Tillögur 2. minni hluta byggjast á blandaðri leið tekjuöflunar og aðhalds, ásamt því sem áhersla er lögð á að hefja uppbyggingu á almannaþjónustu til að efla á nýjan leik velferðarkerfi landsmanna, skólakerfi og heilbrigðisþjónustu. Enn fremur fela tillögurnar í sér að örva fjárfestingu þannig að hér á landi verði stuðlað að sjálfbærum vexti og aukinni verðmætasköpun án þess að ganga um of á takmarkaðar auðlindir landsins. Það er í takt við umræðu á alþjóðavettvangi þar sem æ fleiri taka undir þau sjónarmið að nauðsynlegt sé að örva hagkerfið í þrengingum og ekki sé hægt að spara sig út úr kreppu.

Alþingi, 12. desember 2013.Bjarkey Gunnarsdóttir.