Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 237. máls.

Þingskjal 366  —  237. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, með síðari breytingum (jöfnunargjald).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)
1. gr.

    Á eftir orðunum „hverju sinni“ í 3. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: í samræmi við innheimt jöfnunargjald skv. 3. gr. a.

2. gr.

    Á eftir 3. gr. laganna kemur ný grein, 3. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Jöfnunargjald vegna dreifingar raforku.

    Til að standa straum af jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku til almennra notenda samkvæmt lögum þessum er innheimt sérstakt jöfnunargjald.
    Dreifiveitur greiða jöfnunargjald samkvæmt grein þessari af raforku sem er móttekin frá flutningskerfi flutningsfyrirtækisins eða beint frá virkjunum að frádreginni þeirri raforku sem fer frá dreifikerfinu inn á flutningskerfið.
    Fjárhæð jöfnunargjalds er 0,30 kr. á hverja kílóvattstund (kWst). Fjárhæð jöfnunargjalds vegna raforku sem samið hefur verið um að megi skerða (skerðanlegrar raforku) er 0,10 kr. á hverja kílóvattstund (kWst).
    Orkustofnun annast innheimtu jöfnunargjalds fyrir ríkissjóð. Gjalddagi er 1. mars ár hvert vegna þess almanaksárs og byggist gjaldið á rauntölum vegna liðins árs. Aðför má gera til fullnustu kröfum um gjaldið án undangengins dóms, úrskurðar eða sáttar.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um innheimtu jöfnunargjalds.

3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 3. gr. a skal fjárhæð jöfnunargjalds á árinu 2014 vera 0,10 kr. á hverja kílóvattstund (kWst) og 0,20 kr. á árinu 2015 á hverja kílóvattstund (kWst).
    Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 3. gr. a skal fjárhæð jöfnunargjalds á skerðanlega raforku á árinu 2014 vera 0,033 kr. á hverja kílóvattstund (kWst) af skerðanlegri raforku og 0,066 kr. á árinu 2015 á hverja kílóvattstund (kWst) af skerðanlegri raforku.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, er kveðið á um að greiða skuli niður kostnað við dreifingu raforku í dreifbýli sé hann umfram viðmiðunarmörk sem taki mið af hæstu gjaldskrá dreifiveitu í þéttbýli, eftir því sem fé er veitt til í fjárlögum. Frá árinu 2005 hefur af fjárlögum árlega verið varið 240 millj. kr. í jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku (fjárlagaliður 04-585). Í landinu eru reknar sex dreifiveitur fyrir rafmagn og tvær af þeim dreifa verulegum hluta raforkunnar eftir svokallaðri dreifbýlisgjaldskrá. Þar sem fjárveitingin hefur verið óbreytt frá árinu 2005 er nú svo komið að kostnaður við fulla jöfnun, í samræmi við lögin, er áætlaður um 1 milljarður kr.
    Kostnaður við dreifingu raforku er mun meiri í dreifbýli en í þéttbýli og eru dreifbýlisgjaldskrár veitna því talsvert hærri en þær gjaldskrár sem gilda fyrir dreifingu raforku í þéttbýli. Að óbreyttu liggur fyrir að hækka þurfi frekar taxta í dreifbýli á næstunni þar sem færri og færri standa undir kostnaðinum við það kerfi, á meðan fjölgar notendum í þéttbýli og þar með hagkvæmni þess kerfis. Á það hefur verið bent að háir taxtar á dreifikostnaði í dreifbýli stuðli í auknum mæli að fólksfækkun, samdrætti í atvinnurekstri og tilheyrandi neikvæðum byggðalegum áhrifum.
    Á vettvangi ráðuneytis og Orkustofnunar, og í samráði við Samorku, hefur að undanförnu verið leitað leiða til að bregðast við framangreindu vandamáli og tryggja betur en nú er raunverulega jöfnun dreifikostnaðar raforku til almennra notenda. Niðurstaða þeirrar könnunar er að í frumvarpi þessu er lagt til að tekið verði upp sérstakt jöfnunargjald á þá raforku sem fer um dreifikerfi dreifiveitna, í áföngum, til að standa undir fullri jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

2. Meginefni frumvarpsins.
    Dæmi eru um að sérstakt jöfnunargjald sé lagt á til jöfnunar kostnaðar vegna nauðsynlegra innviða, sbr. til dæmis lög nr. 103/1994, um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara. Einnig má nefna ákvæði 22. gr. laga um fjarskipti, nr. 81/2003, um jöfnunargjald vegna fjarskiptaþjónustu.
    Heildarorkuöflun inn á dreifikerfi dreifiveitna er um 3.385 GWst, að meðtöldu orkutapi og skerðanlegri orku (þ.e. orku sem samið hefur verið um að megi skerða). Er þá átt við þá raforku sem fer inn á dreifikerfið frá Landsneti, ásamt orku frá virkjunum tengdum dreifikerfinu, að frádreginni þeirri raforku sem fer frá dreifikerfinu á Landsnetið. Til samanburðar er heildarraforkuframleiðsla í landinu rúmlega 17.000 GWst.
    Fordæmi er fyrir því að dreifiveitur greiði sérstakt gjald vegna þeirrar raforku sem er móttekin frá flutningskerfi Landsnets eða beint frá virkjunum, sbr. raforkueftirlitsgjald í 31. gr. raforkulaga, nr. 65/2003.
    Samkvæmt frumvarpinu verður lagt sérstakt jöfnunargjald á þá raforku sem dreifiveitur móttaka frá flutningskerfi Landsnets eða beint frá virkjunum, að frádreginni þeirri raforku sem fer frá dreifikerfinu inn á flutningskerfið. Markmið gjaldtökunnar er að fjármagna að fullu þann jöfnuð dreifikostnaðar í dreifbýli og þéttbýli sem núverandi lög heimila.
    Áætlað er að af þeim 3.385 GWst sem fara inn á dreifikerfi dreifiveitna séu um 500 GWst skerðanleg orka (einnig nefnt ótrygg orka). Þar sem sú orka er ótryggari er hún verðlögð lægra en forgangsorka. Almennt má segja að forgangsorka sé þrisvar sinnum dýrari en skerðanleg orka. Með frumvarpinu er lagt til að jöfnunargjaldið leggist á þessa raforku, sem fer um dreifikerfi dreifiveitna, með sama hlutfalli og í tilfelli forgangsorku. Er því lagt til að jöfnunargjaldið á skerðanlega orku verði 0,10 kr./kWst í stað 0,30 kr./kWst.
    Fyrirhugað er að gjaldið verði lagt á í jöfnum áföngum á þremur árum og að það verði 0,30 kr./kWst á forgangsorku, sem gefi tekjur í kringum 862 millj. kr. (2.875 GWst * 0,30) og 0,10 kr./kWst jöfnunargjald á ótrygga orku sem gefur tekjur upp á um 51 millj. kr. (510 GWst * 0,10), samtals 913 millj. kr. á árinu 2016. Á næsta ári er því gert ráð fyrir að tekjurnar verði þriðjungur af þessu, um 304 millj. kr. Þessar nýju tekjur kæmu þá til viðbótar við 240 millj. kr. framlag fjárlagaliðarins en gert er ráð fyrir að þegar gjaldtakan verði að fullu komin fram á árinu 2016 muni það framlag falla niður. Hafa ber í huga að með aukinni raforkunotkun munu tekjur af jöfnunargjaldinu hækka.
    Um er að ræða nýtt gjald á tiltekinn afmarkaðan hluta þeirrar raforku sem framleidd er í landinu. Tekjur af gjaldinu munu renna í ríkissjóð en ein af forsendum gjaldtökunnar er sú að tekjum af jöfnunargjaldinu verði varið í jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, til samræmis við lög nr. 98/2004.
    Til að tryggja þetta er ekki lagt til að stofnaður verði sérstakur jöfnunarsjóður eða að tekjur af jöfnunargjaldinu verði sérmerktar slíkum sjóð. Samkvæmt frumvarpinu er áfram gert ráð fyrir að í fjárlögum verði sérstakur liður um jöfnun dreifikostnaðar og er því lagt til að innheimtar tekjur af jöfnunargjaldinu renni til þess fjárlagaliðar.
    Við gerð frumvarpsins var haft til hliðsjónar að gjaldtakan verði gegnsæ og sé eingöngu í þeim tilgangi að jafna niður þann mun sem er á dreifingarkostnaði raforku í þéttbýli annars vegar og dreifbýli hins vegar. Verði frumvarpið að lögum munu dreifiveiturnar áfram sjá sér hag í því að bæta rekstur sinn til hagsbóta fyrir viðskiptavini sína.
    Lagt er til að innheimta jöfnunargjaldsins sé með sama hætti og kveðið er á um í 31. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, varðandi raforkueftirlitsgjald. Orkustofnun annast innheimtu jöfnunargjaldsins fyrir ríkissjóð og skal gjalddagi vera 1. mars ár hvert vegna þess almanaksárs og gjaldtakan byggjast á rauntölum vegna liðins árs. Lagt er til að gjaldtakan sé miðuð við rauntölur liðins árs þar sem sveiflur í raforkunotkun eru að jafnaði ekki umtalsverðar.
    Til að jöfnunargjaldið valdi ekki snöggri hækkun á gjaldskrám er með frumvarpinu lagt til að gjaldið verði lagt á í þremur áföngum. Árið 2014 er lagt til að jöfnunargjaldið verði 10 aurar á kílóvattstund, árið 2015 verði það 20 aurar og komi að fullu til framkvæmda frá og með 2016 og verði 30 aurar á kílóvattstund. Að sama skapi er lagt til að jöfnunargjald vegna skerðanlegrar orku verði tekið upp í þrepum. Gert er því ráð fyrir að á árunum 2014 og 2015 verði áfram sérstök framlög í fjárlögum til jöfnunar kostnaðar við dreifingu raforku og að frá og með 2016 verði sá fjárlagaliður að fullu fjármagnaður með tekjum af jöfnunargjaldinu.

3. Samráð við gerð frumvarpsins.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Orkustofnun, Samorku og Hagstofu Íslands.

4. Mat á áhrifum frumvarpsins.
1. Áhrif á almenna raforkunotkun.
    Meðalnotkun heimila á almennri raforku er í kringum 5.000 kWst. Verði frumvarpið að lögum er áætlað að meðaltalshækkun raforkureiknings hins almenna notanda í þéttbýli verði um 2,4% eða 150–160 kr./mánuði miðað við 30 aura á kílóvattstund. Raforkukostnaður í dreifbýli lækkar hins vegar um 8,3% eða 730–890 kr./mánuði.
    Eftirfarandi tafla sýnir öll dreifiveitusvæðin miðað við núverandi fyrirkomulag með þá fjármuni sem ríkisvaldið hefur lagt til málaflokksins, 240 millj. kr. sem fyrir eru í fjárlögum, og áhrif þess að miðað sé við að jöfnunargjald, 0,30 kr./kWst, sé sett á notendur og dreifbýlisframlagið hækkað að sama skapi. Allt annað er óbreytt, þ.e. einingarverð, orkuskattur og virðisaukaskattur. Til grundvallar er 5.000 kWst ársnotkun en þorri landsmanna er ekki með meiri notkun en það. Fastagjald dreifiveitna er ekki inni í töflunni en það er mismunandi milli dreifiveitna.

Dreifiveita Dreifing
kr./kWst
Niðurgreiðsla
dreifbýli
kr./kWst
Sala
kr./kWst
Orku-
skattur
kr./kWst
Samtals
almenn
notkun
m/vsk
Jöfnunargjald
(2016)
kr./kWst
Niður-
greiðsla
dreifbýli
kr./kWst
Samtals
almenn
notkun
m/vsk
e. breyt.
RARIK þéttbýli 4,91 5,02 0,126 67.691 0,30 69.573
RARIK dreifbýli 7,94 -0,56 5,02 0,126 85.525 0,30 -2,27 76.659
OV þéttbýli 4,83 5,02 0,126 67.024 0,30 68.907
OV dreifbýli 7,91 -0,65 5,02 0,126 84.567 0,30 -2,65 73.899
OR þéttbýli 5,54 5,02 0,126 70.065 0,30 71.947
HS-veitur þéttbýli 4,89 5,02 0,126 65.920 0,30 67.803
Norðurorka þéttbýli 4,56 5,02 0,126 63.732 0,30 65.615
Rafv. Reyðarfjarðar þéttbýli 4,39 5,02 0,126 63.934 0,30 65.816

2. Áhrif á rafhitun húsnæðis.
    Upptaka jöfnunargjalds hefur jafnframt áhrif á þá notendur sem hita hús sín með rafmagni og njóta niðurgreiðslna á grundvelli laga nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar. Ef miðað er við 35.000 kWst ársnotkun yrði hækkun raforkureiknings hins almenna notanda í þéttbýli við þessa aðgerð að meðaltali um 4% eða 960 kr./mánuði miðað við 30 aura. Raforkukostnaður í dreifbýli lækkar hins vegar um 4–5,5% eða 1.202–1.558 kr./mánuði. Það er því mat Orkustofnunar að upptaka jöfnunargjalds muni leiða til þess að þörf á niðurgreiðslum til húshitunar minnki. Það gefur svigrúm til hækkunar á niðurgreiðslum sem á að duga til að vega upp á móti hækkun vegna jöfnunargjalds hjá hinum almenna íbúa með rafhitun í þéttbýli.

3. Önnur áhrif.
    Það er mat Hagstofu Íslands að jöfnunargjald á raforkudreifingu, samkvæmt frumvarpinu, hafi ekki áhrif á vísitölu neysluverðs, svo framarlega sem það gengur eftir að allt gjaldið sem verði innheimt fari óskert í niðurgreiðslu á dreifikostnaði á tilteknum svæðum. Varðandi áhrif á ríkissjóð vísast til meðfylgjandi kostnaðarumsagnar frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Með greininni er lagt til að tilgreint verði að sú fjárhæð sem ákveðin er í fjárlögum hverju sinni til jöfnunar kostnaðar við dreifingu raforku skuli vera í samræmi við innheimt jöfnunargjald skv. 3. gr. a frumvarpsins, þ.e. að innheimt jöfnunargjald standi undir fjármögnun jöfnunar kostnaðar við dreifingu raforku samkvæmt lögunum. Nánar vísast til almennra athugasemda.

Um 2. gr.


    Lagt er til að sérstök grein bætist við lögin sem kveði á um jöfnunargjald vegna dreifingar raforku. Í greininni er kveðið á um á hvaða raforku gjaldið leggist, í hvaða tilgangi og hvernig skuli staðið að innheimtu þess. Nánar vísast til almennra athugasemda.

Um 3. gr.


    Með greininni er lagt til að jöfnunargjald, annars vegar á forgangsorku og hins vegar skerðanlega orku, verði tekið upp í þremur jöfnum áföngum frá 2014 til 2016. Nánar vísast til almennra athugasemda.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, með síðari breytingum (jöfnunargjald).

    Samkvæmt núgildandi lögum er gert ráð að kostnaður almennra notenda vegna dreifingar raforku, á þeim svæðum sem Orkustofnun hefur heimilað sérstakar dreifibýlisgjaldskrár, sé greiddur niður eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni. Skilyrði fyrir niðurgreiðslu er að meðaldreifingarkostnaður notenda á orkueiningu sé umfram viðmiðunarmörk sem taki mið af hæstu gjaldskrá dreifiveitu í þéttbýli. Er því gert ráð fyrir að þeirri fjárhæð, sem ákveðin er í fjárlögum til þessarar jöfnunar, sé síðan skipt hlutfallslega eftir orkunotkun á dreifbýlisgjaldskrársvæðum miðað við kostnað dreifiveitu umfram viðmiðunarmörk í reglugerð sem ráðherra setur. Frá árinu 2005 hefur árlega verið veitt framlag í fjárlögum í þessu skyni á fjárlagalið 04-585 Jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku og er í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014 gert ráð fyrir 240 m.kr. til þessarar jöfnunar. Samkvæmt reglugerð nr. 697/ 2013 með lögunum er nánar útlistað með hvaða hætti Orkustofnun skal framfylgja lögunum. Í landinu eru nú reknar sex dreifiveitur fyrir rafmagn og tvær af þeim dreifa verulegum hluta raforkunnar á svokallaðri dreifbýlisgjaldskrá. Árið 2005 nægðu 230 m.kr. til fullrar jöfnunar en frá þeim tíma hafa gjaldskrár dreifiveitna hækkað umtalsvert, m.a. vegna almennra vísitöluhækkana, og er nú gert ráð fyrir að kostnaður við fulla jöfnun sé um 1 mia.kr. samkvæmt áætlunum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að lagt verði sérstakt jöfnunargjald á þá raforku sem fer um dreifikerfi dreifiveitna með það að markmiði að standa undir fullri jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku til almennra notenda, þ.e. heimila og fyrirtækja sem fá raforku sína beint frá dreifiveitunum. Þar sem álver, og önnur stóriðja, fá sína orku beint frá flutningskerfi Landsnets, en ekki í gegnum dreifiveiturnar, munu þau ekki greiða þetta sérstaka jöfnunargjald. Heildar orkuöflun inn á dreifikerfi dreifiveitna er um 3.385 GWst en þar af eru um 510 GWst skerðanleg orka. Þar sem sú orka er ótryggari er hún verðlögð með ódýrari hætti en forgangsorkan. Fyrirhugað er að gjaldið verði lagt á í jöfnum áföngum á þremur árum og að það verði á endanum 0,30 kr./kWst á forgangsorku, sem gefi tekjur í kringum 862 m.kr. (2.874 GWst * 0,30), og 0,10 kr./kWst jöfnunargjald á ótrygga orku sem gefi tekjur uppá um 51 m.kr. (510 GWst * 0,10). Samtals er því reiknað með að tekjurnar af gjaldinu nemi um 913 m.kr. á árinu 2016. Fyrsta skrefið af þremur í álagningu gjaldsins verði stigið á næsta ári og er áætlað að það skili þriðjungnum af þessum tekjum eða um 304 m.kr. Þessar nýju tekjur kæmu þá til viðbótar við fyrrgreinda 240 m.kr. fjárheimild sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu til jöfnunarinnar. Gangi þessi áform um upptöku jöfnunargjalds eftir gerir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið ráð fyrir að meðaltalshækkun raforkureiknings hins almenna notanda í þéttbýli verði um 2,4% eða um 1.800 til 1.920 kr. á ári, miðað við 0,3 kr./kWst., og að raforkukostnaður í dreifbýli muni hins vegar lækka á móti um 8,3% eða um 8.760 til 10.680 kr. á ári. Er þá miðað við að meðalnotkun heimila á almennri raforku sé í kringum 5.000 kWst á ári.
    Gert er ráð fyrir að Orkustofnun annist innheimtu jöfnunargjalds fyrir ríkissjóð og skal gjalddagi vera 1. mars ár hvert vegna þess almanaksárs og byggjast á rauntölum liðins árs. Er þetta fyrirkomulag sambærilegt við það sem kveðið er á um í 31. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, vegna raforkueftirlitsgjalds. Lagt er til að gjaldtakan sé miðuð við rauntölur liðins árs þar sem sveiflur í raforku eru að jafnaði ekki umtalsverðar. Um framkvæmd gjaldtökunnar að öðru leyti er gert ráð fyrir að hún verði með svipuðum hætti og núgildandi lög gera ráð fyrir. Áfram er því gert ráð fyrir að fyrir 15. febrúar ár hvert skuli dreifiveiturnar, sem fengið hafa leyfi fyrir sérstakri dreifbýlisgjaldskrá, senda Orkustofnun upplýsingar um fjölda kWst sem áætlað er að dreift verði á viðkomandi svæði á árinu, sundurliðað í orkugjöld, aflgjöld og föst gjöld. Orkustofnun reiknar síðan út hlutdeild viðkomandi svæðis og greiðir helming niðurgreiðslufjárins fyrir 1. apríl. Fyrir 15. júlí skal svo viðkomandi dreifiveita senda Orkustofnun endurskoðaða ársáætlun sem greiðir svo síðari hluta framlags ársins samkvæmt endurskoðaðri áætlun fyrir 1. ágúst. Hlutverk Orkustofnunar verður því að fylgjast með tekjuinnkomunni af jöfnunargjaldinu og stilla hana af miðað við lagaákvæði um hvernig mismunur dreifingarkostnaðar í þéttbýli og dreifbýli skuli metinn.
    Í greinargerð frumvarpsins segir m.a. að upptaka jöfnunargjaldsins muni jafnframt hafa áhrif á þá notendur sem hita hús sín með rafmagni og njóta niðurgreiðslna á grundvelli laga nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014 er gert ráð fyrir um 1.344 m.kr. fjárheimild á fjárlagalið 04-583 Niðurgreiðslur á húshitun vegna þeirra laga. Verði jöfnunargjald lagt á er gert ráð fyrir að raforkukostnaður í þéttbýli aukist en minnki í dreifbýli. Orkustofnun áætlar að upptaka jöfnunargjalds muni leiða til þess að þörf á niðurgreiðslum húshitunarkostnaðar minnki í dreifbýli. Á hinn bóginn er reiknað með að niðurgreiðsluþörfin í þéttbýli, þ.e. þeirra sem eru með rafhitun, muni aukast samhliða hærri raforkukostnaði vegna jöfnunargjaldsins. Má því búast við að heildarþörfin fyrir niðurgreiðslu til húshitunar jafnist út og verði því að mestu óbreytt.
    Samkvæmt frumvarpinu rennur jöfnunargjaldið í ríkissjóð. Tekjur af jöfnunargjaldinu munu því ekki teljast til markaðra tekna í skilningi þess orðs og framlag í fjárlögum til málaflokksins verður því fjármagnað með greiðslu úr ríkissjóði. Fjármála- og efnahagsráðuneytið telur þetta æskilegt fyrirkomulag því mörkun ríkistekna veikir fjárstjórnarvald Alþingis, beinir ríkistekjum í fyrirframákveðna útgjaldafarvegi, veldur óvissu um endanlegar fjárheimildir, og eykur flækjustig í meðhöndlun tekna í fjárlagagerð og bókhaldi ásamt uppgjöri þeirra í ríkisreikningi með tilheyrandi eftirábreytingu fjárheimilda í lokafjárlögum vegna frávika teknanna frá fjárlögum og fjáraukalögum. Eftir sem áður verður að gera ráð fyrir að fjárheimild til jöfnunar raforkukostnaðarins í fjárlögunum taki mið af tekjunum eins og þær eru áætlaðar hverju sinni.
    Varðandi efnahagsleg áhrif frumvarpsins má reikna með að þau verði ekki veruleg. Gera má ráð fyrir að frumvarpið muni hafa lítils háttar áhrif á vísitölu neysluverðs. Þá má reikna með að ráðstöfunartekjur heimila í dreifbýli muni aukast lítillega á meðan þær minnki í þéttbýli sem geri það að verkum að tekjuáhrifin jafnist út.
     Eins og áður segir gerir frumvarpið ráð fyrir að ákvörðun og innheimta skattsins verði í höndum Orkustofnunar og verða ákvarðanir stofnunarinnar kæranlegar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993. Engin viðurlög, svo sem dráttarvextir, eru við því ef skatturinn er ekki greiddur á gjalddaga eins og almennt er í skattalögum og engin refsiviðurlög eru vegna brota á lögunum sem einnig er í ósamræmi við skattalög. Þótt einhver eldri fordæmi finnist fyrir skattlagningu af þessum toga, svo sem í lögum nr. 103/1994, um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, og fjarskiptalögum, nr. 81/2003, um jöfnunargjald vegna fjarskiptaþjónustu, þá verður almennt að teljast óheppilegt að stuðla að frekara ósamræmi milli þeirra laga er varða skattlagningu fyrirtækja enda hefur slíkt óhjákvæmilega í för með sér ójafnræði, m.a. varðandi málsmeðferð, þ.m.t. kærumeðferð, innheimtu og viðurlög.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af nýju jöfnunargjaldi geti orðið um 304 m.kr. á árinu 2014, um 608 m.kr. á árinu 2015 og 913 m.kr. á árinu 2016 þegar gjaldtakan verður að fullu komin fram. Hins vegar má gera ráð fyrir að á fjárlagalið 04-585 Jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku verði veitt jafnhá framlög sem taki mið af innheimtum tekjum af jöfnunargjaldinu til að jafna kostnað við dreifingu raforku í samræmi við þá stefnumörkun sem felst í frumvarpinu. Þá er gert ráð fyrir að á árinu 2016 falli niður núverandi 240 m.kr. framlag ríkissjóðs á fjárlagalið 04-585 þegar gjaldtökuáformum frumvarpsins verður náð. Að samanlögðu má því gera ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs verði óbreytt á árunum 2014 og 2015 en að á árinu 2016 muni hún batna um 240 m.kr. Ekki hefur verið gert ráð fyrir hvorki tekjum af jöfnunargjaldinu né ráðstöfun þess til útgjalda í forsendum fjárlagafrumvarps fyrir árið 2014.