Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 238. máls.

Þingskjal 367  —  238. mál.
Frumvarp til laga

um greiðslur yfir landamæri í evrum.

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)
1. gr.
Gildissvið.

    Ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 924/2009 frá 16. september 2009 um greiðslur yfir landamæri í Bandalaginu og um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 2560/ 2001 skulu hafa lagagildi hér á landi í samræmi við bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem bókunin er lögfest. Reglugerðin var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2013, frá 3. maí 2013, sem birt var 31. október 2013 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 61/2013. Reglugerðin er prentuð sem fylgiskjal með lögum þessum.

2. gr.

    Ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 260/2012 frá 14. mars 2012 um að koma á tæknilegum og viðskiptalegum kröfum fyrir millifærslur fjármuna og beingreiðslur í evrum og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 924/2009, skulu hafa lagagildi hér á landi í samræmi við bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem bókunin er lögfest. Reglugerðin var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 86/2013, frá 3. maí 2013, sem birt var 31. október 2013 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 61/2013. Reglugerðin er prentuð sem fylgiskjal með lögum þessum.

3. gr.
Eftirlit.

    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara að því er varðar eftirlitsskylda aðila samkvæmt lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Um eftirlit Fjármálaeftirlitsins fer samkvæmt ákvæðum laga þessara og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

4. gr.
Stjórnvaldssektir.

    Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn eftirtöldum ákvæðum og, eftir atvikum, reglum settum á grundvelli laga þessara:
     a.      1. mgr. 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 924/2009 um gjöld sem greiðsluþjónustuveitandi leggur á notanda greiðsluþjónustu,
     b.      1. mgr. 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 924/2009 um að greiðsluþjónustuveitandi skuli, þegar við á og án endurgjalds, tilkynna notanda greiðsluþjónustu um alþjóðlegt bankareikningsnúmer notandans (IBAN) og auðkenniskóða banka greiðsluþjónustuveitandans (BIC),
     c.      1. mgr. 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 924/2009 um að greiðsluþjónustuveitandi skuli, þegar við á og án endurgjalds, tilgreina alþjóðlegt bankareikningsnúmer notanda greiðsluþjónustu og auðkenniskóða banka greiðsluþjónustuveitandans á reikningsyfirlitum, eða í viðauka þeirra,
     d.      3. mgr. 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 924/2009 um þau skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt til að greiðsluþjónustuveitanda sé heimilt að innheimta viðbótargjöld frá notanda greiðsluþjónustu,
     e.      3. gr. reglugerðar (ESB) nr. 260/2012 um aðgengi að greiðsluþjónustuveitanda vegna greiðslna og beingreiðslna yfir landamæri,
     f.      4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 260/2012 um þau skilyrði sem greiðslufyrirkomulag sem greiðsluþjónustuveitandi ætlar sér að nota þarf að uppfylla,
     g.      5. gr. reglugerðar (ESB) nr. 260/2012 um kröfur til greiðsluþjónustuveitanda varðandi millifærslur fjármuna og beingreiðslufærslur,
     h.      8. gr. reglugerðar (ESB) nr. 260/2012 um hvenær greiðsluþjónustuveitanda er heimilt að leggja á millibankagjöld fyrir beingreiðslufærslur,
     i.      9. gr. reglugerðar (ESB) nr. 260/2012 um aðgengi að greiðslum.
    Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 10 þús. kr. til 20 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 50 þús. kr. til 50 millj. kr. Við ákvörðun sekta skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Ákvarðanir um stjórnvaldssektir skulu teknar af stjórn Fjármálaeftirlitsins og eru þær aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi. Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara, reglur settar á grundvelli þeirra eða ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila, enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.
    Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Fjármálaeftirlitið skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.
    Heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
    Frestur skv. 5. mgr. rofnar þegar Fjármálaeftirlitið tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.

5. gr.
Reglur.

    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd laga þessara, þ.m.t. um hvað teljist samsvarandi greiðslur í skilningi 1.–2. mgr. 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 924/2009.

6. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 146/2004, um greiðslur yfir landamæri í evrum.

7. gr.
Breytingar á öðrum lögum.

    Eftirfarandi breytingar verða á lögum nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu:
     a.      Á eftir orðinu „skal“ í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur: ávallt.
     b.      Í stað orðanna „greiðslufjöldi (PV)“ í 3. mgr. 12. gr. laganna kemur: greiðslumagn (GM).
     c.      4. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
                      Aðferð C: Fjárhæð eigin fjár greiðslustofnunar skal vera að minnsta kosti viðeigandi vísir sem skilgreindur er í a- og b-liðum, margfaldaður með margfeldisstuðlinum sem skilgreindur er í c-lið og með kvarðastuðlinum k sem skilgreindur er í 5. mgr.
     d.      Í stað orðanna „skal setja reglur“ í 2. mgr. 14. gr. laganna kemur: setur nánari viðmið.
     e.      Í stað orðanna „greiðsluþjónustuveitanda, þ.m.t. greiðslustofnunar“ í 1. mgr. 18. gr. laganna kemur: greiðslustofnunar.


Ákvæði til bráðabirgða

    Þrátt fyrir ákvæði laga þessara gilda um greiðsluþjónustuveitendur takmarkanir sem kunna að felast í ákvæðum laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, og reglum sem settar eru með stoð í þeim, á hverjum tíma.

Fylgiskjal I.


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 924/2009
frá 16. september 2009
um greiðslur yfir landamæri í Bandalaginu og um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 2560/2001


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 95. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
með hliðsjón af áliti Seðlabanka Evrópu ( 2 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Til að starfsemi innri markaðarins sé með eðlilegum hætti og til að greiða fyrir viðskipti yfir landamæri innan Bandalagsins er mikilvægt að gjöld vegna greiðslna yfir landamæri í evrum séu þau sömu og fyrir samsvarandi greiðslur innan aðildarríkis. Þessari meginreglu um jöfn gjöld var komið á með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2560/2001 frá 19. desember 2001 um greiðslur yfir landamæri í evrum ( 4 ) sem gildir um greiðslur yfir landamæri í evrum og sænskum krónum, allt að 50 000 evrur, eða jafngildi þeirra.
2)          Í skýrslu framkvæmdastjórnarinnar frá 11. febrúar 2008 um beitingu reglugerðar (EB) nr. 2560/2001 um greiðslur yfir landamæri í evrum er staðfest að beiting þeirrar reglugerðar hafi í raun lækkað gjöld af greiðslum yfir landamæri í evrum til jafns við landsbundin gjöld og verið evrópskri greiðslumiðlunarstarfsemi hvatning til að gera nauðsynlegt átak til að koma upp innviðum fyrir greiðslur alls staðar í Bandalaginu.
3)          Í skýrslu framkvæmdastjórnarinnar voru rannsökuð vandamál við framkvæmd sem verða í tengslum við beitingu reglugerðar (EB) nr. 2560/2001. Niðurstaðan var að gerðar voru tillögur að nokkrum breytingum á reglugerðinni til að takast á við þau vandamál sem rannsóknin leiddi í ljós. Þessi vandamál varða röskun á innri greiðslumarkaði sem stafar af mismunandi kvöðum um hagskýrslur, framkvæmdar á reglugerð (EB) nr. 2560/2001 vegna skorts á skilgreindum lögbærum landsyfirvöldum, vöntunar á aðilum til að leysa úr ágreiningi í tengslum við þá reglugerð utan dómstóla og vegna þess að reglugerðin nær ekki yfir beingreiðslur.
4)          Með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/ 64/EB frá 13. nóvember 2007 um greiðsluþjónustu á innri markaðnum ( 5 ) er lagður nútímalegur lagagrunnur fyrir myndun innri greiðslumarkaðar alls staðar í Bandalaginu. Til að tryggja lagalegt samræmi milli beggja lagagerninganna er ráðlegt að breyta viðeigandi ákvæðum reglugerðar (EB) nr. 2560/2001, einkum skilgreiningunum.
5)          Reglugerð (EB) nr. 2560/2001 tekur til færslu fjármuna yfir landamæri og rafrænnar greiðslumiðlunar yfir landamæri. Í samræmi við markmið tilskipunar 2007/64/EB, sem er að gera beingreiðslur yfir landamæri mögulegar, er ráðlegt að rýmka gildissvið reglugerðar (EB) nr. 2560/2001. Ekki er ráðlegt að beita meginreglunni um jöfn gjöld að því er varðar greiðslumiðla sem eru aðallega eða eingöngu á pappírsformi, svo sem ávísanir, þar sem þeir eru, eðli málsins samkvæmt, ekki eins skilvirkir og rafrænar greiðslur.
6)          Meginreglan um jöfn gjöld á við um greiðslur sem hefjast eða er lokið á pappír eða í reiðufé og sem framkvæmdar eru í rafrænu greiðsluferli, þó ekki ávísanir, og um öll gjöld sem tengjast með beinum eða óbeinum hætti greiðslumiðlun, þ.m.t. gjöld í tengslum við samning en að undanskildum gjöldum vegna umreiknings gjaldmiðils. Óbein gjöld taka til gjalda fyrir uppsetningu varanlegra greiðslufyrirmæla eða gjalda fyrir notkun greiðslukorts sem skulu vera þau sömu fyrir greiðslumiðlun innanlands og yfir landamæri innan Bandalagsins.
7)          Til að koma í veg fyrir skiptingu greiðslumarkaða, þykir rétt að beita reglunni um jöfn gjöld. Í þeim tilgangi skal, fyrir hverja tegund greiðslu yfir landamæri, skilgreina greiðslu innanlands, með sömu eða mjög lík einkenni og greiðsla yfir landamæri. Það ætti m.a. að vera unnt að nota eftirfarandi viðmiðanir til að skilgreina greiðsluna innanlands sem samsvarar greiðslu yfir landamæri: leiðin sem notuð er til að hefja, framkvæma og ljúka greiðslu, stig sjálfvirkni, hvort um er að ræða greiðsluábyrgð, staða viðskiptavinar og tengsl hans við greiðsluþjónustuveitandann, eða greiðslumiðilinn, sem notaður er, eins og skilgreint er í 23. mgr. 4. gr. í tilskipun 2007/64/EB. Þessar viðmiðanir skulu ekki teljast tæmandi.
8)          Lögbær yfirvöld skulu gefa út leiðbeiningar um auðkenningu á samsvarandi greiðslum ef þau telja það nauðsynlegt. Framkvæmdastjórnin skal, með aðstoð greiðslunefndar ef við á, veita fullnægjandi leiðbeiningar og aðstoða lögbær yfirvöld.
9)          Mikilvægt er að greiða fyrir framkvæmd greiðslumiðlana á greiðslum yfir landamæri. Í tengslum við þetta skal efla stöðlun, einkum að því er varðar notkun alþjóðlegs bankareikningsnúmers (IBAN) og auðkenniskóða banka (BIC). Því er rétt að greiðsluþjónustuveitendur láti notendum greiðsluþjónustu í té alþjóðlegt bankareikningsnúmer og auðkenniskóða banka viðkomandi reiknings.
10)          Mismunandi kvaðir um skil hagskýrslna um greiðslujöfnuð, sem eiga eingöngu við um greiðslur yfir landamæri, koma í veg fyrir þróun samþætts greiðslumarkaðar, einkum innan vébanda sameiginlegs evrugreiðslusvæðis (SEPA). Ráðlegt er, að því er varðar sameiginlegt evrugreiðslusvæði, að endurmeta, eigi síðar en 31. október 2011, hvort viðeigandi sé að afnema þessar kvaðir um skýrslugjöf á grundvelli bankauppgjöra. Til að tryggja að lagðar séu fram samfelldar, tímanlegar og skilvirkar hagskýrslur um greiðslujöfnuð er æskilegt að sjá til þess að áfram verði unnt að safna aðgengilegum gögnum um greiðslur, s.s. alþjóðlegu bankareikningsnúmeri, auðkennisnúmeri banka og fjárhæð greiðslu eða samanteknum grunngögnum um mismunandi greiðslumiðla, ef gagnasöfnunin truflar ekki sjálfvirka vinnslu greiðslnanna og hún getur verið algerlega sjálfvirk. Þessi reglugerð hefur ekki áhrif á kvöð um skýrslugjöf í öðrum tilgangi, s.s. til að koma í veg fyrir peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverkastarfsemi, eða vegna skattamála.
11)          Eins og sakir standa eru mismunandi viðskiptalíkön notuð fyrir núverandi beingreiðslukerfi. Til að greiða fyrir því að beingreiðslukerfi innan sameiginlegs evrugreiðslusvæðis sé komið á fót er nauðsynlegt að koma upp sameiginlegu viðskiptalíkani og auka skýrleika laga að því er varðar marghliða millibankagjöld. Varðandi beingreiðslur yfir landamæri er hægt að ná þessu fram, í sérstökum undantekningartilvikum, með því ákvarða hámarksfjárhæð marghliða millibankagjalda fyrir hverja færslu á aðlögunartímabili. Aðilum að marghliða samkomulagi skal þó frjálst að ákvarða lægri fjárhæð eða enga í marghliða millibankagjaldi. Að því er varðar beingreiðslur innan sameiginlegs evrugreiðslusvæðis er heimilt að nota sama millibankagjaldið innanlands eða annað millibankagjald, sem samið er um, milli greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu og greiðanda og var notuð fyrir gildistökudag þessarar reglugerðar. Ef þess háttar marghliða millibankagjald innanlands eða annað millibankagjald, sem samið er um, er lækkað eða fellur niður á aðlögunartímabilinu, t.d. vegna beitingar á samkeppnislögum, á endurskoðað fyrirkomulag við um innlendar beingreiðslur innan sameiginlegs evrugreiðslusvæðis á aðlögunartímabilinu. Ef beingreiðsla fellur undir tvíhliða samning, skulu skilmálar þess háttar tvíhliða samnings þó vera rétthærri en marghliða millibankagjöld eða önnur millibankagjöld. Atvinnugrein getur nýtt sér réttarvissu, sem veitt er á aðlögunartímabilinu, til að þróa og ná samkomulagi um sameiginlegt, langtíma viðskiptalíkan fyrir rekstur beingreiðslna innan sameiginlegs evrugreiðslusvæðis. Við lok aðlögunartímabilsins skal langtímalausn vegna viðskiptalíkans beingreiðslna innan sameiginlegs evrugreiðslusvæðis vera tilbúið í samræmi við samkeppnislög og regluramma Bandalagsins. Framkvæmdastjórnin hyggst eins fljótt og auðið er, innan ramma viðvarandi skoðanaskipta við bankakerfið og á grundvelli framlags viðkomandi markaðsaðila, leggja fram leiðbeiningar um hlutlægar og mælanlegar viðmiðanir fyrir samhæfi þess háttar marghliða millibankagjalda, sem gætu falið í sér marghliða millibankagjöld, við samkeppnislög og regluramma Bandalagsins.
12)          Eigi að vera unnt að framkvæma beingreiðslu verður reikningur greiðanda vera aðgengilegur. Til að hvetja til árangursríkrar upptöku á beingreiðslum innan sameiginlegs evrugreiðslusvæðis er því mikilvægt að allir reikningar greiðenda séu aðgengilegir, ef það er þegar reyndin að því er varðar núverandi beingreiðslur í evrum innanlands, annars njóta greiðandi og viðtakandi greiðslu ekki ávinnings af samsöfnun beingreiðslna yfir landamæri. Ef reikningur greiðanda er ekki aðgengilegur samkvæmt beingreiðsluáætlun innan sameiginlegs evrugreiðslusvæðis njóta greiðandi (skuldari) og viðtakandi greiðslu (kröfuhafi) ekki ávinnings af nýjum möguleikum í tengslum við beingreiðslu. Þetta skiptir einkum máli ef viðtakandi greiðslu safnar beingreiðslum saman í bunkaskrá, t.d. mánaðarlega eða ársfjórðungslega vegna rafmagnsreikninga eða annarra reikninga frá veitustofnunum, en ekki sérstaklega fyrir hvern viðskiptavin. Ef skuldareigendur geta ekki náð sambandi við alla skuldara sína í einni aðgerð, er auk þess þörf á handvirkum inngripum, sem mun líklega auka kostnað. Ef ekki er gerð krafa um að greiðsluþjónustuveitandi greiðanda tryggi aðgang að reikningi hans er skilvirkni samsöfnunar á beingreiðslum þar af leiðandi ekki fullkomin og samkeppni á samevrópskum grundvelli verður áfram takmörkuð. Vegna sérkenna beingreiðslna milli fyrirtækja, skal þetta þó aðeins eiga við um kjarna beingreiðsluáætlunar innan sameiginlegs evrugreiðslusvæðis en ekki um áætlun innan sameiginlegs evrugreiðslusvæðis um beingreiðslur milli fyrirtækja. Aðgengisskyldan felur í sér rétt greiðsluþjónustuveitanda til að framkvæma ekki beingreiðslu í samræmi við áætlunina um beina skuldfærslu, t.d. varðandi höfnun, synjun eða endurgreiðslu á færslu. Aðgengiskyldan skal ekki heldur eiga við greiðsluþjónustuveitendur sem hafa heimild til að veita og framkvæma beingreiðslufærslur en stunda ekki atvinnustarfsemi af því tagi.
13)          Vegna tæknilegra krafna, sem nauðsynlegar eru til að tryggja aðgengi, er enn fremur mikilvægt að greiðsluþjónustuveitandi greiðanda hafi nægan tíma til að undirbúa að fylgja ákvæðum um aðgengisskyldu. Greiðsluþjónustuveitandi skal því fá aðlögunartímabil sem að hámarki er eitt ár frá gildistökudagi þessarar reglugerðar í því skyni að fara að þeirri skyldu. Þar sem greiðsluþjónustuveitendur aðildarríkja utan evrusvæðisins þyrftu að inna af hendi meiri undirbúningsvinnu skal heimila þeim greiðsluþjónustuveitendum að fresta beitingu skyldu um aðgengi í 5 ár að hámarki frá gildistökudagi þessarar reglugerðar. Þó er gerð sú krafa að greiðsluþjónustuveitendur, sem eru í aðildarríki sem hefur innleitt evruna sem gjaldmiðil innan fjögurra ára frá gildistökudegi þessarar reglugerðar, fylgi aðgengisskyldunni innan eins árs frá þeim degi sem hlutaðeigandi aðildarríki sameinaðist evrusvæðinu.
14)          Lögbærum yfirvöldum skal veitt vald til að uppfylla eftirlitsskyldur sínar með skilvirkum hætti og gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að greiðsluþjónustuveitendur fari að þessari reglugerð.
15)          Til að gera úrlausn mögulega, ef þessari reglugerð hefur verið beitt með röngum hætti, skulu aðildarríki koma á fullnægjandi og skilvirkri kæru- og úrlausnarmeðferð til að leysa úr hvers konar ágreiningi milli notenda greiðsluþjónustu og greiðsluþjónustuveitanda. Einnig er mikilvægt að lögbær yfirvöld og stofnanir, sem leysa úr ágreiningi utan dómstóla, séu tilnefnd, annaðhvort með því að tilnefna starfandi stofnanir eða, eftir því sem við á, með því að koma á fót nýjum stofnunum.
16)          Mikilvægt að lögbær yfirvöld og stofnanir, sem leysa úr ágreiningi utan dómstóla, innan Bandalagsins starfi ötullega saman að snurðulausri og tímanlegri úrlausn deilumála yfir landamæri samkvæmt þessari reglugerð. Þess háttar samstarf skal geta verið í formi skipta á upplýsingum um lög eða réttarvenjur innan lögsögu þeirra eða yfirfærslu eða yfirtöku kæru- og úrlausnarmeðferðar ef við á.
17)          Nauðsynlegt er að aðildarríki mæli fyrir um viðurlög, sem eru skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi, í landslögum vegna brota á þessari reglugerð.
18)          Augljós ávinningur er af rýmkun á beitingu þessarar reglugerðar með þeim hætti að hún nái yfir aðra gjaldmiðla en evru, einkum með tilliti til fjölda greiðslna sem hún næði yfir. Til að heimila aðildarríkjum, sem ekki hafa evru sem gjaldmiðil, að rýmka beitingu þessarar reglugerðar þannig að hún taki til greiðslna yfir landamæri í gjaldmiðlum þeirra, skal koma á fót málsmeðferð um tilkynningar. Þó skal sjá til þess að aðildarríki, sem þegar uppfylla þá málsmeðferð um tilkynningar, þurfi ekki að leggja fram nýja tilkynningu.
19)          Æskilegt er að framkvæmdastjórnin leggi fram skýrslu um hvort viðeigandi er að fella niður kvaðir um landsbundna skýrslu á grundvelli uppgjörs. Einnig er rétt að framkvæmdastjórnin leggi fram skýrslu um beitingu þessarar reglugerðar þar sem einkum er metin notkun alþjóðlegra bankareikningsnúmera og auðkenniskóða banka til að auðvelda greiðslur innan Bandalagsins og markaðsþróun í tengslum við beitingu ákvæða um beingreiðslufærslur. Í tengslum við þróun sameiginlegs evrugreiðslusvæðis er einnig æskilegt að í þess háttar skýrslu sé lagt mat á hvort rétt sé að hafa hámarksfjárhæð greiðslu 50 000 evrur, eins og nú á við samkvæmt reglunni um jöfn gjöld.
20)          Í þágu réttarvissu og skýrleika laga ber að fella niður reglugerð (EB) nr. 2560/2001.
21)          Til að tryggja lagalega samfellu milli reglugerðar þessarar og tilskipunar 2007/64/EB, einkum að því er varðar gagnsæi skilyrða og kröfur um upplýsingar til greiðsluþjónustu og að því er varðar réttindi og skyldur greiðsluþjónustuveitanda og notenda greiðsluþjónustu, þykir rétt að þessari reglugerð sé beitt frá 1. nóvember 2009. Rétt þykir að gefa aðildarríkjum frest til 1. júní 2010 til að samþykkja ráðstafanir um viðurlög vegna brota á þessari reglugerð.
22)          Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiðum þessarar reglugerðar og þeim verður betur náð á vettvangi Bandalagsins vegna þess hve aðgerðirnar eru umfangsmiklar eða hafa víðtæk áhrif, er Bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, ganga ákvæði þessarar reglugerðar ekki lengra en nauðsynlegt er til að þessum markmiðum verði náð.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:

1. gr.
Efni og gildissvið

1.     Í þessari reglugerð er mælt fyrir um reglur um greiðslur yfir landamæri í Bandalaginu, til að tryggja að gjöld fyrir greiðslur yfir landamæri í Bandalaginu séu þau sömu og fyrir greiðslur í sama gjaldmiðli innan aðildarríkis.
2.     Reglugerð þessi skal gilda um greiðslur yfir landamæri, í samræmi við ákvæði tilskipunar 2007/ 64/EB, sem eru tilgreindar í evrum eða gjaldmiðli þess aðildarríkis sem tilkynnti um ákvörðun sína um að rýmka beitingu þessarar reglugerðar þannig að hún taki til innlends gjaldmiðils, í samræmi við 14. gr.
3.     Þessi reglugerð gildir ekki um greiðslur sem greiðsluþjónustuveitandi framkvæmir fyrir eigin reikning eða fyrir hönd annarra greiðsluþjónustuveitanda.
4.     Í 6., 7. og 8. gr. er mælt fyrir um reglur um beingreiðslufærslur, tilgreindar í evrum, milli greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu og greiðanda.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1.    „greiðslur yfir landamæri“: rafræn greiðsla, sem stofnað er til af greiðanda eða af eða fyrir milligöngu viðtakanda greiðslu ef greiðsluþjónustuveitandi greiðanda og greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu eru ekki í sama aðildarríki,
2.    „landsbundin greiðsla“: rafræn greiðsla, sem stofnað er til af greiðanda eða af eða fyrir milligöngu viðtakanda greiðslu ef greiðsluþjónustuveitandi greiðanda og greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu eru í sama aðildarríki,
3.    „greiðandi“: einstaklingur eða lögaðili sem á greiðslureikning og heimilar greiðslufyrirmæli af þeim greiðslureikningi eða, ef ekki er um greiðslureikning að ræða, einstaklingur eða lögaðili sem gefur greiðslufyrirmæli,
4.    „viðtakandi greiðslu“: einstaklingur eða lögaðili sem er fyrirhugaður viðtakandi fjármuna sem hafa verið viðfang greiðslu,
5.    „greiðsluþjónustuveitandi“: allir þeir lögaðilar sem um getur í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 2007/ 64/EB og einstaklingar eða lögaðilar, sem um getur í 26. gr. þeirrar tilskipunar, að undanskildum þeim stofnunum sem taldar eru upp í 2. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/ EB frá 14. júní 2006 um stofnun og rekstur lánastofnana ( 6 ) og hafa fengið undanþágu hjá aðildarríki í krafti 3. mgr. 2. gr. tilskipunar 2007/ 64/EB,
6.    „notandi greiðsluþjónustu“: einstaklingur eða lögaðili sem nýtir sér greiðsluþjónustu, annaðhvort sem greiðandi eða viðtakandi greiðslu, eða hvort tveggja,
7.    „greiðsla“: aðgerð sem stofnað er til að frumkvæði greiðanda eða viðtakanda greiðslu, eða með milligöngu viðtakanda greiðslu, með því að leggja inn, millifæra eða taka út fjármuni, án tillits til þess hvort einhverjar skuldbindingar milli greiðanda og viðtakanda greiðslu liggja til grundvallar,
8.    „greiðslufyrirmæli“: hvers kyns fyrirmæli greiðanda eða viðtakanda greiðslu til greiðsluþjónustuveitanda um framkvæmd greiðslu,
9.    „gjald“: gjald sem greiðsluþjónustuveitandi leggur á notendur greiðsluþjónustu beint eða óbeint í tengslum við greiðslu,
10.    „fjármunir“: peningaseðlar og mynt, inneign á reikningum og rafeyrir samkvæmt skilgreiningu í b-lið 3. mgr. 1. gr. í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/46/EB frá 18. september 2000 um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og eftirlit með þeim ( 7 ),
11.    „neytandi“: einstaklingur sem kemur fram í öðrum tilgangi en vegna atvinnugreinar sinnar, viðskipta eða starfs,
12.    „örfyrirtæki“: fyrirtæki sem við gerð greiðsluþjónustusamnings er fyrirtæki eins og það sem skilgreint er í 1. gr. og 1. og 3. mgr. 2. gr. viðauka við tilmæli framkvæmdastjórnarinnar 2003/ 361/EB frá 6. maí 2003 um skilgreininguna á örfyrirtækjum, litlum og meðalstórum fyrirtækjum ( 8 ),
13.    „millibankagjald“: gjald sem greitt er milli greiðsluþjónustuveitanda greiðanda og greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu vegna hverrar beingreiðslufærslu,
14.    „beingreiðsla“: greiðsluþjónusta við skuldfærslu á greiðslureikning greiðanda ef viðtakandi greiðslu á frumkvæði að greiðslu á grundvelli samþykkis greiðanda, sem hann veitir viðtakanda greiðslu, til greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu eða til eigin greiðsluþjónustuveitanda greiðanda,
15.    „beingreiðslukerfi“: sameiginlegar reglur, aðferðir og staðlar samþykktar af greiðsluþjónustuveitendum varðandi framkvæmd beingreiðslufærslna.

3. gr.
Gjöld fyrir greiðslur yfir landamæri og samsvarandi greiðslur innanlands

1.     Gjöld sem greiðsluþjónustuveitandi leggur á notanda greiðsluþjónustu fyrir greiðslur yfir landamæri að fjárhæð allt að 50 000 evrur, skulu vera þau sömu og gjöld sem sú greiðsluþjónustuveitandi leggur á notendur greiðsluþjónustu vegna samsvarandi greiðslna innanlands að sömu fjárhæð og í sama gjaldmiðli.
2.     Við mat á gjaldtöku fyrir greiðslu yfir landamæri skal greiðsluþjónustuveitandi, í þeim tilgangi að fylgja 1. mgr., tilgreina samsvarandi greiðslu innanlands.
Lögbær yfirvöld skulu gefa út leiðbeiningar um tilgreiningu á samsvarandi greiðslum innanlands ef þau telja það nauðsynlegt. Lögbær yfirvöld skulu eiga virkt samstarf innan greiðslunefndar, sem komið er á fót í samræmi við 1. mgr. 85. gr. tilskipunar 2007/ 64/EB, til að tryggja samræmi í leiðbeiningum að því er varðar samsvarandi greiðslur innanlands.
3.     Hafi aðildarríki tilkynnt þá ákvörðun sína að rýmka beitingu þessarar reglugerðar svo að hún taki til innlends gjaldmiðils í samræmi við 14. gr. má telja að greiðsla innanlands, sem tilgreind er í gjaldmiðli þess aðildarríkis, samsvari greiðslu yfir landamæri sem tilgreind er í evrum.
4.     Þessi reglugerð gildir ekki um gjöld vegna umreiknings gjaldmiðils.

4. gr.
Ráðstafanir til að auðvelda sjálfvirkni greiðslna

1.     Greiðsluþjónustuveitandi skal, þegar við á, tilkynna notanda greiðsluþjónustu um alþjóðlegt bankareikningsnúmer notandans (IBAN) og auðkenniskóða banka greiðsluþjónustuveitandans (BIC).
Auk þess skal greiðsluþjónustuveitandi, þegar við á, tilgreina alþjóðlegt bankareikningsnúmer notanda greiðsluþjónustu og auðkenniskóða banka greiðsluþjónustuveitanda á reikningsyfirlitum, eða í viðauka þess.
Greiðsluþjónustuveitandi skal leggja fram þær upplýsingar til handa notanda greiðsluþjónustu, sem krafist er samkvæmt þessari málsgrein, án endurgjalds.
2.     Eftir því sem við á, með tilliti til eðlis viðkomandi greiðslu:
a)    skal greiðandi, að því er varðar greiðslur sem greiðandi hefur frumkvæði að, samkvæmt beiðni, upplýsa greiðsluþjónustuveitanda um alþjóðlegt bankareikningsnúmer viðtakanda greiðslu og auðkenniskóða banka greiðsluþjónustuveitanda viðtakandans.
b)    skal viðtakandi greiðslu, að því er varðar greiðslur sem viðtakandi greiðslu hefur frumkvæði að, samkvæmt beiðni, upplýsa greiðsluþjónustuveitanda um alþjóðlegt bankareikningsnúmer greiðanda og auðkenniskóða banka greiðsluþjónustuveitanda greiðanda.
3.     Greiðsluþjónustuveitandi getur lagt á önnur gjöld til viðbótar við þau sem lögð eru á notanda greiðsluþjónustu í samræmi við 1. mgr. 3. gr. ef notandi óskar eftir því að greiðsluþjónustuveitandi framkvæmi greiðslu án þess að upplýsa um alþjóðlegt bankareikningsnúmer og auðkenniskóða banka í samræmi við 2. mgr. þessarar greinar. Þessi gjöld skulu vera viðeigandi og í samræmi við kostnað. Þau skulu samþykkt af greiðsluþjónustuveitanda og notanda greiðsluþjónustu. Greiðsluþjónustuveitandi skal upplýsa notanda greiðsluþjónustu um fjárhæð viðbótargjalda með góðum fyrirvara áður en notandi greiðsluþjónustu er skuldbundinn af samkomulaginu.
4.     Þegar við á vegna eðlis viðkomandi greiðslna að því er varðar gerð allra vöru- og þjónustureikninga í Bandalaginu skal aðili, sem býður vöru og þjónustu og tekur við greiðslum, sem falla undir þessa reglugerð, upplýsa viðskiptavini sína um alþjóðlegt bankareikningsnúmer sitt og auðkenniskóða banka greiðsluþjónustuveitanda síns.

5. gr.
Kvaðir um skýrslugjöf um greiðslujöfnuð

1.     Frá og með 1. janúar 2010 skulu aðildarríki afnema kvaðir sem lagðar eru á greiðsluþjónustuveitendur um skýrslugjöf á grundvelli uppgjörs vegna hagskýrslna um greiðslujöfnuð í tengslum við greiðslur viðskiptavina þeirra að fjárhæð allt að 50 000 evrur.
2.     Án þess að það hafi áhrif á 1. mgr. getur aðildarríki haldið áfram að safna samanteknum gögnum eða öðrum fyrirliggjandi upplýsingum sem máli skipta, að því tilskildu að söfnunin hafi ekki áhrif á samfellda vinnslu (STP) greiðslna og að greiðsluþjónustuveitandi geti framkvæmt hana algerlega sjálfvirkt.

6. gr.
Millibankagjald fyrir beingreiðslufærslur yfir landamæri

Ef tvíhliða samningur milli greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu og greiðsluþjónustuveitanda greiðanda er ekki fyrir hendi skal leggja á 0,088 evru marghliða millibankagjald á hverja beingreiðslufærslu yfir landamæri sem framkvæmd er fyrir 1. nóvember 2012 sem greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu skal greiða greiðsluþjónustuveitanda greiðanda, nema viðkomandi greiðsluþjónustuveitendur hafi samið sín á milli um lægri marghliða millibankagjald.

7. gr.
Millibankagjald fyrir beingreiðslufærslur innanlands

1.     Ef marghliða millibankagjald eða annað umsamið endurgjald fyrir beingreiðslufærslu innanlands, sem framkvæmd er fyrir 1. nóvember 2009, gildir milli greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu og greiðsluþjónustuveitanda greiðanda skal þess háttar marghliða millibankagjald eða annað umsamið endurgjald gilda um allar innlendar beingreiðslufærslur sem framkvæmdar eru fyrir 1. nóvember 2012, án þess að það hafi áhrif á 2. og 3. mgr.
2.     Ef þess konar marghliða millibankagjald eða annað umsamið endurgjald er lækkað eða afnumið fyrir 1. nóvember 2012 skal lækkun eða afnám eiga við um allar beingreiðslufærslur innanlands sem framkvæmdar eru fyrir þann dag.
3.     Ef um er að ræða tvíhliða samning milli greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu og greiðsluþjónustuveitanda greiðanda vegna beingreiðslufærslu innanlands gilda ákvæði 1. og 2. mgr. ekki ef viðkomandi beingreiðslufærsla innanlands var framkvæmd fyrir 1. nóvember 2012.

8. gr.
Aðgengi að beingreiðslufærslum

1.     Ef greiðsluþjónustuveitandi greiðanda veitir aðgang að beingreiðslufærslu innanlands, sem tilgreind er í evrum á reikningi viðkomandi greiðanda, skal einnig, í samræmi við beingreiðsluáætlunina, veita aðgang að beingreiðslufærslum sem tilgreindar eru í evrum sem viðtakandi greiðslu hefur frumkvæði að fyrir milligöngu greiðsluþjónustuveitana í einhverju aðildarríki.
2.     Ákvæði 1. mgr. gilda aðeins um beingreiðslufærslur sem eru aðgengilegar neytendum samkvæmt beingreiðsluáætluninni.
3.     Greiðsluþjónustuveitendur skulu uppfylla kröfur 1. og 2. mgr. eigi síðar en 1. nóvember 2010.
4.     Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. skulu greiðsluþjónustuveitendur í aðildarríkjum, sem ekki hafa evru sem gjaldmiðil, uppfylla skilyrði 1. og 2. mgr. að því er varðar beingreiðslufærslur, sem tilgreindar eru í evrum, eigi síðar en 1. nóvember 2014. Ef evra er þrátt fyrir það innleidd sem gjaldmiðill þess háttar aðildarríkis fyrir 1. nóvember 2013 skal greiðsluþjónustuveitandi í því aðildarríki uppfylla skilyrði 1. og 2. mgr. innan eins árs frá þeim degi sem hlutaðeigandi aðildarríki sameinaðist evrusvæðinu.

9. gr.
Lögbær yfirvöld

Aðildarríki skulu tilnefna þau lögbæru yfirvöld sem bera ábyrgð á að þessari reglugerð sé fylgt.
Aðildarríki skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um þau lögbæru yfirvöld eigi síðar en 29. apríl 2010. Þau skulu tilkynna framkvæmdastjórninni, án tafar, um hvers konar síðari breytingar varðandi þessi yfirvöld.
Aðildarríkjum er heimilt að tilnefna starfandi stofnanir til að gegna hlutverki lögbærra yfirvalda.
Aðildarríki skulu skylda lögbær yfirvöld til að hafa eftirlit með því að farið sé með virkum hætti eftir þessari reglugerð og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að farið sé að ákvæðum hennar.

10. gr.
Meðferð kærumála vegna meintra brota á þessari reglugerð

1.     Aðildarríki skulu koma á málsmeðferð sem gerir notendum greiðsluþjónustu og öðrum hagsmunaaðilum kleift að leggja fram kærur til lögbærra yfirvalda að því er varðar meint brot greiðsluþjónustuveitenda á þessari reglugerð.
Aðildarríkjum er heimilt að nota eða rýmka gildandi málsmeðferð í þeim tilgangi.
2.     Ef við á og með fyrirvara um réttinn til að hefja málsókn fyrir rétti í samræmi við landslög sem gilda um málsmeðferð í einstökum ríkjum skal í svari lögbærra yfirvalda upplýsa kæranda um meðferð og lausn kæru- og úrlausnarmála án atbeina dómstóla í samræmi við 11. gr.

11. gr.
Kæru- og úrlausnarmeðferð án atbeina dómstóla

1.     Aðildarríkin skulu koma á fullnægjandi og skilvirkri kæru- og úrlausnarmeðferð án atbeina dómstóla til að leysa ágreiningsmál um réttindi og skyldur sem kunna að rísa af þessari reglugerð milli notenda greiðsluþjónustu og þeirra sem veita þeim hana. Í þeim tilgangi skulu aðildarríki tilnefna starfandi stofnanir, eftir því sem við á, eða koma á fót nýjum stofnunum.
2.     Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um þessar stofnanir eigi síðar en 29. apríl 2010. Þau skulu tilkynna framkvæmdastjórninni án tafar um hvers konar síðari breytingar varðandi þessar stofnanir.
3.     Aðildarríki geta kveðið á um að þessi grein gildi aðeins um notendur greiðsluþjónustu sem eru neytendur eða örfyrirtæki. Í þeim tilvikum skulu aðildarríki upplýsa framkvæmdastjórnina um það.

12. gr.
Samstarf yfir landamæri

Lögbær yfirvöld og þær stofnanir sem bera ábyrgð á kæru- og úrlausnarmeðferð án atbeina dómstóla í aðildarríkjunum, sem um getur í 9. og 11. gr., skulu með virkum og skjótum hætti vinna saman að lausn deilumála yfir landamæri. Aðildarríki skulu sjá til þess að þess háttar samstarf eigi sér stað.

13. gr.
Viðurlög

Án þess að hafa áhrif á 17. gr. skulu aðildarríkin eigi síðar en 1. júní 2010 mæla fyrir um reglur um viðurlög við brotum á þessari reglugerð og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til sjá til þess að þeim sé beitt. Slík viðurlög skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brot og letjandi. Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um þessi ákvæði fyrir 29. október 2010 og skulu tilkynna henni, án tafar, um hvers konar breytingar sem síðar verða á þeim.

14. gr.
Beiting vegna annarra gjaldmiðla en evru

1.     Aðildarríki, sem notar ekki evru sem gjaldmiðil og ákveður að rýmka beitingu þessarar reglugerðar, að undanskildum 6., 7. og 8. gr., svo að hún taki til innlends gjaldmiðils þess, skal tilkynna framkvæmdastjórninni um það. Birta skal þá tilkynningu í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins. Rýmkuð beiting þessarar reglugerðar skal koma til framkvæmda 14 dögum eftir þá birtingu.
2.     Aðildarríki, sem notar ekki evru sem gjaldmiðil og ákveður að rýmka beitingu 6., 7. eða 8. gr., eða einhverja samsetningu þeirra, svo að þær taki til innlends gjaldmiðils þess, skal tilkynna framkvæmdastjórninni um það. Birta skal þá tilkynningu í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins. Rýmkuð beiting 6., 7. eða 8. gr. skal koma til framkvæmda 14 dögum eftir þá birtingu.
3.     Aðildarríkjum, sem fylgdu þegar þann 29. október 2009, málsmeðferð um tilkynningar skv. 9. gr. reglugerðar (EB) nr. 2560/2001, skal ekki gert að leggja fram tilkynningu eins og um getur í 1. mgr. þessarar greinar.

15. gr.
Endurskoðun.

1.     Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 31. október 2011, leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið, efnahags- og félagsmálanefnd Evrópubandalaganna og Evrópska seðlabankann um það hvort viðeigandi sé að afnema kvaðir um skýrslugjöf á grundvelli innlends uppgjörs. Skýrslunni skal fylgja tillaga, ef við á.
2.     Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 31. október 2012, leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið, efnahags- og félagsmálanefnd Evrópubandalaganna og Evrópska seðlabankann um beitingu þessarar reglugerðar ásamt tillögu, ef við á. Í skýrslunni skal einkum fjalla um:
a)    notkun alþjóðlegra bankareikningsnúmera (IBAN) og auðkenniskóða banka (BIC) í tengslum við sjálfvirkni greiðslna,
b)    það hvort hámarkið, sem kveðið er á um í 1. mgr. 3. gr., sé viðeigandi og
c)    markaðsþróun í tengslum við beitingu 6., 7. og 8. gr.

16. gr.
Niðurfelling

Reglugerð (EB) nr. 2560/2001 er felld úr gildi frá og með 1. nóvember 2009.
Líta ber á tilvísanir í niðurfelldu reglugerðina sem tilvísanir í þessa reglugerð.

17. gr.
Gildistaka

Reglugerð þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Hún kemur til framkvæmda frá og með 1. nóvember 2009.

Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Strassborg 16. september 2009.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
forseti. forseti.
J. BUZEK C. MALMSTRÖM


Fylgiskjal II.


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 260/2012
frá 14. mars 2012
um að koma á tæknilegum og viðskiptalegum kröfum fyrir millifærslur fjármuna og beingreiðslur í evrum og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 924/2009


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins, einkum 114. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins,
eftir að hafa lagt drög að lagagerð fyrir þjóðþingin,
með hliðsjón af áliti Seðlabanka Evrópu ( 1 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 2 ),
í samræmi við almenna lagasetningarmeðferð ( 3 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Nauðsynlegt er að koma á fót samþættum markaði fyrir rafrænar greiðslur í evrum, þar sem enginn greinarmunur er gerður á greiðslum innanlands og yfir landamæri, til að innri markaðurinn geti starfað eðlilega. Markmiðið með verkefninu um sameiginlegt evrugreiðslusvæði (e. SEPA) er að þróa greiðsluþjónustu í þessu skyni á vettvangi Sambandsins sem kemur í stað núverandi landsbundinnar greiðsluþjónustu. Með innleiðingu á opnum, sameiginlegum stöðlum, reglum og aðferðum varðandi greiðslu og með samþættri vinnslu greiðslna mun sameiginlegt evrugreiðslusvæði veita borgurum og fyrirtækjum Sambandsins örugga, notendavæna og áreiðanlega greiðsluþjónustu í evrum, á samkeppnishæfu verði. Þetta gildir um greiðslur sameiginlegs evrugreiðslusvæðis innan landamæra ríkja og yfir landamæri ríkja, samkvæmt sömu grundvallarskilyrðum og með sömu réttindum og skyldum, án tillits til staðsetningar innan Sambandsins. Sameiginlegu evrugreiðslusvæði skal hrint í framkvæmd á þann hátt að það auðveldi aðgengi fyrir nýja aðila á markaðnum og þróun nýrra afurða og skapi hagstæð skilyrði fyrir aukna samkeppni í greiðsluþjónustu og fyrir óhindraða þróun og skjóta framkvæmd nýjunga á vettvangi Sambandsins að því er varðar greiðslur. Af þessum sökum ætti bætt stærðarhagkvæmni, aukin skilvirkni rekstrar og meiri samkeppni að valda þrýstingi til verðlækkunar á rafrænni greiðsluþjónustu í evrum, á grundvelli þess hver býður bestu þjónustuna. Áhrifin af þessu ættu að vera umtalsverð, einkum í aðildarríkjum þar sem greiðslur eru hlutfallslega dýrar í samanburði við önnur aðildarríki. Umbreytingin yfir í sameiginlegt evrugreiðslusvæði ætti því hvorki að leiða til heildarverðhækkana fyrir notendur greiðsluþjónustu almennt né neytendur sérstaklega. Þess í stað skal hvetja til þess að meginreglunni um að leggja ekki á hærri gjöld sé beitt ef notandi greiðsluþjónustu er neytandi. Framkvæmdastjórnin mun halda áfram að fylgjast með verðþróun í greiðslugeiranum og er hvött til að leggja fram árlega greiningu um málefnið.
2)          Góður árangur sameiginlegs evrugreiðslusvæðis er mjög mikilvægur bæði í efnahagslegu og stjórnmálalegu tilliti. Sameiginlegt evrugreiðslusvæði er algjörlega í samræmi við stefnumörkunina fyrir Evrópu 2020 sem miðar að betra hagkerfi þar sem hagsæld leiðir af nýsköpun og skilvirkari notkun tiltækra tekjulinda. Bæði Evrópuþingið, með ályktunum sínum frá 12. mars 2009 ( 4 ) og 10. mars 2010 ( 5 ) um framkvæmd sameiginlegs evrugreiðslusvæðis, og ráðið, í niðurstöðum sínum sem samþykktar voru 2. desember 2009, hafa undirstrikað mikilvægi þess að tryggja skjót umskipti yfir í sameiginlegt evrugreiðslusvæði.
3)          Með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/64/EB frá 13. nóvember 2007 um greiðsluþjónustu á innri markaðnum ( 6 ) er lagður nútímalegur lagagrunnur fyrir myndun innri greiðslumarkaðar, þar sem sameiginlegt evrugreiðslusvæði myndar grundvallarþátt.
4)          Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 924/2009 frá 16. september 2009 um greiðslur yfir landamæri í Bandalaginu ( 7 ) kveður einnig á um fjölda ráðstafana til að stuðla að góðum árangri sameiginlegs evrugreiðslusvæðis, s.s. rýmkun meginreglunnar um sömu gjöld að því er varðar beingreiðslur yfir landamæri og aðgengi að beingreiðslum.
5)          Sjálfseftirlit evrópska bankageirans fyrir milligöngu framtaksverkefnisins sameiginlegt evrugreiðslusvæði hefur ekki reynst fullnægjandi til að knýja áfram samstillt umskipti yfir í fyrirkomulag á vettvangi Sambandsins varðandi millifærslu fjármuna og beingreiðslur á bæði framboðs- og eftirspurnarhliðinni. Einkum hefur ekki verið tekið tillit til hagsmuna neytenda og annarra notenda á fullnægjandi og gagnsæjan hátt. Raddir allra viðkomandi hagsmunaaðila skulu fá áheyrn. Enn fremur hefur sjálfseftirlitsferlið ekki fallið undir viðeigandi stjórnfyrirkomulag, sem gæti að hluta til skýrt hvers vegna hægt hefur gengið að taka það upp á eftirspurnarhliðinni. Þótt nýleg stofnsetning ráðs sameiginlega evrugreiðslusvæðisins sé umtalsverð bót á stjórnunarháttum verkefnisins um sameiginlegt evrugreiðslusvæði, er stjórnunin í grundvallaratriðum og formlega enn í höndum Evrópska greiðslumiðlunarráðsins (e. European Payments Council (EPC)). Framkvæmdastjórnin skal því endurskoða stjórnunarfyrirkomulag verkefnisins um sameiginlegt evrugreiðslusvæði í heild sinni fyrir lok ársins 2012 og, ef nauðsyn krefur, leggja fram tillögu. Við þá endurskoðun skal m.a. athuga samsetningu Evrópska greiðslumiðlunarráðsins, samspil Evrópska greiðslumiðlunarráðsins og æðra eftirlits- og stjórnunarkerfis, s.s. ráðsins um sameiginlegt evrugreiðslusvæði, og hlutverk þeirrar æðri stofnunar.
6)          Aðeins með skjótum og alhliða umskiptum yfir í millifærslur fjármuna og beingreiðslur á vettvangi Sambandsins næst fullur ávinningur af samþættum greiðslumarkaði, þannig að hægt verði að losna við mikinn kostnað vegna samhliða rekstrar á bæði „hefðbundnum“ afurðum og afurðum sameiginlega evrugreiðslusvæðisins. Þess vegna skal mæla fyrir um reglur sem ná yfir framkvæmd allra millifærslna fjármuna og beingreiðslufærslna, sem tilgreindar eru í evrum, innan Evrópusambandsins. Þær skulu þó ekki ná yfir kortafærslur á þessu stigi, þar sem sameiginlegir staðlar um kortagreiðslur innan Sambandsins eru enn í þróun. Peningasendingar, greiðslur sem meðhöndlaðar eru innanhúss, greiðslur hárra fjárhæða, greiðslur milli greiðsluþjónustuveitenda (e. payment service providers (PSPs)) fyrir þeirra eigin reikning og greiðslur fyrir milligöngu farsíma eða annars konar fjarskiptabúnaðar, stafræns búnaðar eða upplýsingatæknibúnaðar skulu ekki falla undir gildissvið þessara reglna þar sem viðkomandi greiðsluþjónusta er ekki sambærileg millifærslu fjármuna eða beingreiðslum. Ef greiðslukort á greiðslustað eða annars konar búnaður, s.s. farsími, er notaður til að stofna til greiðslu, annaðhvort á greiðslustaðnum eða úr fjarlægð, sem leiðir beint til millifærslu fjármuna eða beingreiðslu til og af greiðslureikningi, sem auðkenndur er með gildandi grunnbankareikningsnúmeri ríkis (BBAN-númeri) eða alþjóðlegu bankareikningsnúmeri (IBAN-númeri) skal viðkomandi greiðsla þó teljast með. Auk þess er ekki viðeigandi að greiðslur sem unnar eru í greiðslukerfi fyrir háar fjárhæðir falli undir þessa reglugerð, vegna sérstakra eiginleika þeirra, þ.e. vegna þess að þær njóta forgangs, eru áríðandi, og nema aðallega háum fjárhæðum. Ekki skal undanskilja beingreiðslur nema greiðandinn hafi sérstaklega óskað eftir því að greiðslan sé send fyrir milligöngu greiðslukerfis fyrir háar fjárhæðir.
7)          Nokkrar greiðsluþjónustur eru nú starfandi, aðallega fyrir greiðslur um Netið, sem einnig nota alþjóðlegt bankareikningsnúmer og auðkenniskóða banka (BIC-kóða) og byggja á millifærslum fjármuna eða beingreiðslum en hafa einnig viðbótareiginleika. Þess er vænst að viðkomandi þjónusta muni ná yfir núverandi landamæri og geti uppfyllt eftirspurn neytenda eftir nýstárlegri, öruggri og ódýrri greiðsluþjónustu. Til að útiloka ekki slíka þjónustu frá markaðnum gilda reglurnar um lokadagsetningar fyrir millifærslur fjármuna og beingreiðslur sem kveðið er á um í þessari reglugerð aðeins um millifærslu fjármuna eða beingreiðslu sem liggur til grundvallar þeim færslum.
8)          Í miklum meirihluta greiðslna innan Sambandsins er mögulegt að tilgreina einkvæman greiðslureikning með notkun alþjóðlegs bankareikningsnúmers eingöngu, án þess að tilgreina þar að auki auðkenniskóða banka. Til að endurspegla þennan veruleika hafa bankar í allmörgum aðildarríkjum nú þegar komið á fót skrá, gagnagrunni eða öðrum tæknilegum aðferðum til að greina þann auðkenniskóða banka sem samsvarar tilteknu alþjóðlegu bankareikningsnúmeri. Auðkenniskóða banka er aðeins krafist í mjög fáum tilvikum sem útaf standa. Það virðist ástæðulaust og óþarflega íþyngjandi að skylda alla greiðendur og viðtakendur greiðslna um gervallt Sambandið til að gefa ávallt upp auðkenniskóða banka til viðbótar við alþjóðlegt bankareikningsnúmer fyrir þau fáu tilvik þar sem þetta er nú nauðsynlegt. Mun einfaldara væri fyrir greiðsluþjónustuveitendur og aðra aðila að leysa úr og koma í veg fyrir tilvik þar sem ekki er unnt að sanngreina greiðslureikning með ótvíræðum hætti með því að gefa upp alþjóðlegt bankareikningsnúmer. Því er nauðsynlegt að þróa tæknilegar aðferðir sem gera öllum notendum kleift að sanngreina greiðslureikning fyrir tilstuðlan alþjóðlegs bankareikningsnúmers eingöngu.
9)          Eigi að vera unnt að framkvæma millifærslu fjármuna verður greiðslureikningur viðtakanda greiðslu að vera aðgengilegur. Til að hvetja til árangursríkrar upptöku á þjónustu á sviði millifærslu fjármuna og beingreiðslna á vettvangi Sambandsins skal því koma á aðgengisskyldu í gervöllu Sambandinu. Til að auka gagnsæi er auk þess viðeigandi að steypa saman, í eina gerð, þeirri skyldu og aðgengisskyldunni að því er varðar beingreiðslur sem þegar hefur verið komið á með reglugerð (EB) nr. 924/2009. Allir greiðslureikningar viðtakanda greiðslu sem eru aðgengilegir að því er varðar landsbundna millifærslu fjármuna skulu einnig vera aðgengilegir fyrir milligöngu fyrirkomulags fyrir millifærslu fjármuna í öllu Sambandinu. Allir greiðslureikningar greiðanda sem eru aðgengilegir að því er varðar landsbundna beingreiðslu skulu einnig vera aðgengilegir fyrir milligöngu beingreiðslukerfis í öllu Sambandinu. Þetta gildir hvort sem greiðsluþjónustuveitandi ákveður að taka þátt í tilteknu kerfi um millifærslu fjármuna eða beingreiðslukerfi, eða ekki.
10)          Tæknilegt rekstrarsamhæfi er forsenda samkeppni. Til að koma á fót samþættum markaði fyrir rafræn greiðslukerfi í evrum er nauðsynlegt að vinnsla á millifærslum fjármuna og beingreiðslum sé ekki hindruð með viðskiptareglum eða tæknilegum hindrunum, s.s. með skyldubundinni þátttöku í fleiri en einu kerfi til að gera upp greiðslur yfir landamæri. Millifærslur fjármuna og beingreiðslur skal framkvæma samkvæmt fyrirkomulagi þar sem greiðsluþjónustuveitendur, sem mynda meirihluta greiðsluþjónustuveitenda í meirihluta aðildarríkjanna og mynda meirihluta greiðsluþjónustuveitenda innan Evrópusambandsins, fylgja grundvallarreglum fyrirkomulagsins, sem eru þær sömu bæði að því er varðar millifærslur fjármuna og beingreiðslur hvort sem er yfir landamæri eða innan ríkis. Ef fleiri en eitt greiðslukerfi eru til staðar fyrir vinnslu slíkra greiðslna skulu viðkomandi greiðslukerfi vera rekstrarsamhæfð með notkun alþjóðlegra staðla sem gilda í öllu Sambandinu þannig að allir notendur greiðsluþjónustu og allir greiðsluþjónustuveitendur njóti ávinningsins af hnökralausum smásölugreiðslum í evrum, í öllu Sambandinu.
11)          Með tilliti til sérstakra eiginleika fyrirtækjamarkaðarins og þrátt fyrir að fyrirkomulag við millifærslu fjármuna eða beingreiðslukerfi, milli fyrirtækja, skuli hlíta öllum öðrum ákvæðum þessarar reglugerðar, þ.m.t. að hafa sömu reglur um viðskipti yfir landamæri og viðskipti innan ríkis, skulu kröfurnar um að þátttakendurnir myndi meirihluta greiðsluþjónustuveitenda í meirihluta aðildarríkjanna einungis gilda að því marki sem greiðsluþjónustuveitendur sem veita þjónustu vegna millifærslu fjármuna eða beingreiðslna milli fyrirtækja mynda meirihluta greiðsluþjónustuveitenda í meirihluta aðildarríkja þar sem slík þjónusta er aðgengileg og mynda meirihluta greiðsluþjónustuveitenda sem veita slíka þjónustu innan Evrópusambandsins.
12)          Mikilvægt er að tilgreina tæknilegar kröfur, sem ótvírætt ákvarða eiginleikana sem greiðslufyrirkomulag á vettvangi Sambandsins, sem þróa skal í samræmi við viðeigandi stjórnunarfyrirkomulag, verður að uppfylla til að tryggja rekstrarsamhæfi greiðslukerfa. Slíkar tæknilegar kröfur skulu ekki hamla sveigjanleika og nýsköpun heldur skulu þær vera opnar fyrir og hlutlausar gagnvart mögulegum nýjungum og úrbótum á greiðslumarkaðnum. Drög skulu gerð að tæknilegum kröfum með tilliti til sérstakra eiginleika millifærslna fjármuna og beingreiðslna, einkum að því er varðar gagnastök sem felast í skilaboðum um greiðslu.
13)          Mikilvægt er að gera ráðstafanir til að auka tiltrú notenda greiðsluþjónustu á notkun slíkrar þjónustu, einkum að því er varðar beingreiðslur. Slíkar ráðstafanir skulu gera greiðendum kleift að gefa greiðsluþjónustuveitendum sínum fyrirmæli um að takmarka beingreiðsluinnheimtu við tiltekna fjárhæð eða tiltekna tíðni og að koma á sértækum jákvæðum eða neikvæðum skrám yfir viðtakendur greiðslna. Í tengslum við að koma á fót beingreiðslukerfi á vettvangi Sambandsins þykir rétt að neytendur geti haft gagn af slíku eftirliti. Svo raunhæft sé að framkvæma eftirlit með viðtakendum greiðslna er þó mikilvægt að greiðsluþjónustuveitendum sé gert kleift að gera athugun á grundvelli alþjóðlegs bankareikningsnúmers og, á umbreytingartímabili en aðeins ef nauðsyn krefur, á grundvelli auðkenniskóða banka eða annars einkvæms skuldareigandaauðkennis tiltekinna viðtakenda greiðslna. Öðrum viðeigandi réttindum notenda hefur þegar verið komið á með tilskipun 2007/64/EB og skulu tryggð að fullu.
14)          Tæknileg stöðlun er hornsteinn samþættingar netkerfa, s.s. greiðslumarkaðar Evrópusambandsins. Notkun staðla sem þróaðir eru af alþjóðlegum eða evrópskum staðlastofnunum skal vera lögboðin frá og með uppgefinni dagsetningu að því er varðar öll viðeigandi viðskipti. Í tengslum við greiðslu eru slíkir bindandi staðlar alþjóðlegt bankareikningsnúmer, auðkenniskóði banka og skeytastaðallinn „ISO 20022 XML“ að því er varðar fjármálaþjónustu. Notkun allra greiðsluþjónustuveitenda á þessum stöðlum er því skilyrði fyrir fullu rekstrarsamhæfi um gervallt Evrópusambandið. Einkum skal stuðla að lögboðinni notkun alþjóðlegs bankareikningsnúmers og auðkenniskóða banka, ef nauðsyn krefur, með umfangsmikilli umfjöllun og ráðstöfunum, sem auðvelda þá notkun, í aðildarríkjum til að umskipti yfir í millifærslur fjármuna og beingreiðslur á vettvangi Sambandsins gangi auðveldlega og snurðulaust fyrir sig. Greiðsluþjónustuveitendur skulu geta samþykkt, tvíhliða eða marghliða, rýmkun á grunngerð latneska stafamengisins til að styðja við svæðisbundinn breytileika staðlaðra boða sameiginlega evrugreiðslusvæðisins.
15)          Miklu máli skiptir að allir þátttakendur, einkum borgarar Sambandsins, fái fullnægjandi upplýsingar á réttum tíma svo þeir séu fyllilega undirbúnir undir breytingarnar sem sameiginlegt evrugreiðslusvæði hefur í för með sér. Helstu hagsmunaaðilar s.s. greiðsluþjónustuveitendur, opinber stjórnsýsla og seðlabankar aðildarríkjanna auk annarra stórnotenda reglulegra greiðslna skulu því annast sértækar og umfangsmiklar upplýsingaherferðir, í samræmi við þörfina og sniðnar að áheyrendunum eins og þörf krefur, til að auka almenningsvitund og undirbúa ríkisborgara undir umskiptin yfir í sameiginlegt evrugreiðslusvæði. Einkum er þörf á að kynna fyrir ríkisborgurum umskiptin úr notkun grunnbankareikningsnúmers í notkun alþjóðlegs bankareikningsnúmers. Landsbundnar samræmingarnefndir sameiginlegs evrugreiðslusvæðis eru best til þess fallnar að samræma slíkar upplýsingaherferðir.
16)          Til að gera samstillt umbreytingarferli mögulegt, til glöggvunar og einföldunar fyrir neytendur, þykir rétt að allar millifærslur fjármuna og beingreiðslufærslur uppfylli þessar tæknilegu kröfur fyrir einn settan lokafrest fyrir umskiptin, en halda markaðinum opnum fyrir frekari þróun og nýsköpun.
17)          Aðildarríki skulu á umbreytingartímabili geta heimilað greiðsluþjónustuveitendum að leyfa neytendum að halda áfram að nota grunnbankareikningsnúmer fyrir landsbundnar greiðslur með því skilyrði að rekstrarsamhæfi sé tryggt með því að viðkomandi greiðsluþjónustuveitandi breyti grunnbankareikningsnúmeri með tæknilegum og öruggum hætti í einkvæmt auðkenni viðeigandi greiðslureiknings. Greiðsluþjónustuveitandinn skal ekki leggja á neinn beinan eða óbeinan kostnað eða önnur gjöld í tengslum við þá þjónustu.
18)          Þrátt fyrir að þróunarstig þjónustu á sviði millifærslu fjármuna og beingreiðslna sé mismunandi milli aðildarríkja myndu samræmd tímamörk í lok framkvæmdatímabils, sem nægir til að unnt sé að framkvæma nauðsynleg vinnsluferli, stuðla að samræmdum, samtengdum og samþættum umskiptum yfir í sameiginlegt evrugreiðslusvæði og auðvelda að komið sé í veg fyrir að sameiginlegt evrugreiðslusvæði hafi tvo hraða og valdi þar með enn frekari ruglingi meðal neytenda.
19)          Greiðsluþjónustuveitendur og notendur greiðsluþjónustu skulu fá nægan tíma til að aðlagast tæknilegu kröfunum. Þó skal aðlögunartíminn hvorki tefja ávinning neytenda að ástæðulausu né refsa framtakssömum rekstraraðilum sem hafa þegar hafið umskiptin yfir í sameiginlegt evrugreiðslusvæði. Að því er varðar landsbundnar greiðslur og greiðslur yfir landamæri skulu greiðsluþjónustuveitendur veita almennum viðskiptavinum sínum nauðsynlega tækniþjónustu til að tryggja snurðulausa og örugga umbreytingu yfir í tæknilegu kröfurnar sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð.
20)          Mikilvægt er að skapa réttarvissu fyrir greiðsluiðnaðinn um viðskiptalíkön fyrir beingreiðslur. Reglusetning um marghliða millibankagjöld (e. multilateral interchange fees) vegna beingreiðslna er nauðsynleg til að skapa jöfn samkeppnisskilyrði meðal greiðsluþjónustuveitenda og gera mögulegt að þróa innri markað fyrir beingreiðslur. Slík gjöld vegna viðskipta sem er hafnað, synjað, endursend eða bakfærð vegna þess að ekki er unnt að framkvæma þau á tilhlýðilegan hátt eða valda því að gera þurfi undantekningar við vinnslu (svokölluð „R-viðskipti“ þar sem „R“ getur merkt „höfnun“ (e. reject), „synjun“ (e. refusal), „endursending“ (e. return), „bakfærsla“ (e. reversal), „afturköllun“ (e. revocation) eða „ósk um ógildingu“ (e. request for cancellation)) gætu auðveldað skilvirka úthlutun kostnaðar á innri markaðnum. Það virðist því vera í þágu myndunar skilvirks evrópsks markaðar fyrir beingreiðslur að banna marghliða millibankagjald á hver viðskipti. Þó skulu gjöld vegna R-viðskipta leyfð, að því tilskildu að þau samræmist tilteknum skilyrðum. Greiðsluþjónustuveitendur skulu, í þágu gagnsæis og neytendaverndar, veita neytendum skýrar og skiljanlegar upplýsingar um gjöld vegna R-viðskipta. Reglurnar um R-viðskipti hafa þó ekki áhrif á beitingu 101. og 102. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins (e. TFEU). Auk þess ber að taka fram að almennt er munur á eiginleikum beingreiðslna og kortagreiðslna, einkum með tilliti til þess að viðtakendur greiðslna hafa meiri möguleika á að hvetja til þess, með samningi sem gerður er fyrirfram milli viðtakanda greiðslu og greiðanda, að greiðandi noti beingreiðslu, á meðan enginn slíkur samningur er fyrir hendi að því er varðar kortagreiðslur og slík greiðsla er gjarnan einstakur og óreglulegur atburður. Því hafa ákvæði um marghliða millibankagjöld vegna beingreiðslna ekki áhrif á greininguna samkvæmt samkeppnisreglum Evrópusambandsins á marghliða millibankagjöldum vegna greiðslukortaviðskipta. Valkvæð viðbótarþjónusta fellur ekki undir bannið samkvæmt þessari reglugerð ef hún er augljóslega og ótvírætt frábrugðin grunnbeingreiðsluþjónustunni og ef greiðsluþjónustuveitendum og notendum greiðsluþjónustu er algjörlega frjálst að bjóða upp á eða nota slíka þjónustu. Hún fellur þó áfram undir samkeppnisreglur Evrópusambandsins og landsbundnar samkeppnisreglur.
21)          Þess vegna skal takmarka í tíma möguleikann á að leggja marghliða millibankagjald á hver viðskipti, að því er varðar landsbundnar beingreiðslur og beingreiðslur yfir landamæri, og mæla fyrir um almenn skilyrði um álagningu millibankagjalda á R-viðskipti.
22)          Framkvæmdastjórnin skal hafa eftirlit með álagningu gjalda á R-viðskipti innan Sambandsins. Gjöld á R-viðskipti á innri markaðnum skulu verða samleitin með tímanum svo ekki sé svo mikill munur á þeim milli aðildarríkja að jöfnum samkeppnisskilyrðum sé ógnað.
23)          Í sumum aðildarríkjum er til staðar tiltekin hefðbundin greiðsluþjónusta sem er millifærsla fjármuna eða beingreiðslur en hefur mjög sértæka virkni, oft af sögulegum eða lagalegum ástæðum. Viðskiptavelta slíkrar þjónustu er yfirleitt óveruleg. Því mætti flokka slíka þjónustu sem sérvöru. Umbreytingartímabil fyrir slíkar sérvörur, sem er nægilega langt til að lágmarka áhrif umskipta á notendur greiðsluþjónustu, gæti hjálpað báðum hliðum markaðarins að einbeita sér fyrst að umskiptum meirihluta millifærslna fjármuna og beingreiðslna og gera þeim þar með kleift að njóta fyrr meirihluta hugsanlegs ávinnings af samþættum greiðslumarkaði innan Sambandsins. Í sumum aðildarríkjum eru til sértækar beingreiðsluaðferðir sem virðast vera svipaðar greiðslukortaviðskiptum að því leyti að greiðandi notar kort á greiðslustaðnum til að setja af stað greiðslu en undirliggjandi greiðsla er beingreiðsla. Við slíka greiðslu er kortið eingöngu notað til álesturs upplýsinga svo unnt sé að búa til rafrænt umboð, sem greiðandinn þarf að undirrita á greiðslustað. Þrátt fyrir að slíka greiðsluþjónustu megi ekki flokka sem sérvöru er þörf fyrir umbreytingartímabil í tengslum við slíka greiðsluþjónustu vegna þeirrar miklu viðskiptaveltu sem um er að ræða. Umbreytingartímabilið skal vera nægilega langt til að gera hagsmunaaðilunum kleift að framkvæma viðeigandi þjónustu í stað sameiginlegs evrugreiðslusvæðis.
24)          Til að innri greiðslumarkaðurinn geti starfað eðlilega er nauðsynlegt að tryggja að greiðendur s.s. neytendur, fyrirtæki eða opinber yfirvöld geti sent millifærslur fjármuna á greiðslureikninga sem viðtakendur greiðslna eiga hjá greiðsluþjónustuveitendum sem eru staðsettar í öðrum aðildarríkjum og aðgengilegar í samræmi við þessa reglugerð.
25)          Til að tryggja snurðulausa umbreytingu yfir í sameiginlegt evrugreiðslusvæði skal gilt leyfi viðtakanda greiðslu til að innheimta endurteknar beingreiðslur í hefðbundnu kerfi gilda áfram eftir umskiptafrestinn sem komið er á með þessari reglugerð. Slíkt leyfi telst vera samþykki þess efnis að greiðsluþjónustuveitandi greiðanda framkvæmi endurteknar beingreiðslur sem viðtakandi greiðslu innheimtir í samræmi við þessa reglugerð, ef ekki er um að ræða landslög sem tengjast áframhaldandi gildi umboðs eða neytendasamninga sem breyta beingreiðsluumboðum til að þau geti gilt áfram. Þó skal vernda réttindi neytenda og ef gildandi beingreiðsluumboði fylgir óskilyrtur réttur til endurgreiðslu skal viðhalda slíkum réttindum.
26)          Lögbærum yfirvöldum skal veitt heimild til að uppfylla eftirlitsskyldur sínar með skilvirkum hætti og gera allar viðeigandi ráðstafanir, þ.m.t. að taka kærur til umfjöllunar, til að tryggja að greiðsluþjónustuveitendur fari að þessari reglugerð. Einnig skulu aðildarríki tryggja að leggja megi fram kærur þess efnis að notendur greiðsluþjónustu fari ekki að þessari reglugerð og að framfylgja megi þessari reglugerð á árangursríkan og skilvirkan hátt með úrræðum á sviði stjórnsýslu eða dómstóla. Til að stuðla að því að farið sé að þessari reglugerð skulu lögbær yfirvöld mismunandi aðildarríkja vinna hvert með öðru og, eftir því sem við á, með Seðlabanka Evrópu og seðlabönkum aðildarríkjanna og öðrum viðeigandi lögbærum yfirvöldum, s.s. Evrópsku fjármálaeftirlitsstofnuninni (e. European Supervisory Authority) (Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni (e. European Banking Authority – EBA)) sem komið var á fót með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010 ( 8 ), sem tilnefnd eru samkvæmt löggjöf Evrópusambandsins eða landslöggjöf sem gildir um greiðsluþjónustuveitendur.
27)          Aðildarríki skulu mæla fyrir um reglur um viðurlög sem gilda um brot á þessari reglugerð og skulu tryggja að þessi viðurlög séu skilvirk, í réttu hlutfalli við brot og letjandi og að þeim sé beitt. Viðurlögin skulu ekki gilda um neytendur.
28)          Til að tryggja að úrlausn sé möguleg þegar þessari reglugerð hefur verið beitt með röngum hætti, eða ef ágreiningur rís á milli notenda greiðsluþjónustu og greiðsluþjónustuveitenda varðandi réttindi og skyldur samkvæmt þessari reglugerð, skulu aðildarríki koma á fullnægjandi og árangursríku úrræði kæru- og úrlausnarmeðferðar utan réttar. Aðildarríki skulu því geta ákveðið að slíkar málsmeðferðarreglur gildi aðeins um neytendur eða aðeins um neytendur og örfyrirtæki.
29)          Framkvæmdastjórnin skal leggja fyrir Evrópuþingið, ráðið, efnahags- og félagsmálanefnd Evrópusambandsins, Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina og Seðlabanka Evrópu skýrslu um framkvæmd þessarar reglugerðar. Ef þörf krefur skal tillaga að breytingu á reglugerðinni fylgja skýrslunni.
30)          Til að tryggja að tæknilegar kröfur um millifærslur fjármuna og beingreiðslur í evrum séu uppfærðar til dagsins í dag skal fela framkvæmdastjórninni valdið til að samþykkja gerðir að því er varðar þessar tæknilegu kröfur í samræmi við 290. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins. Í yfirlýsingu nr. 39 um 290. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins, sem fylgir með í viðauka við lokagerð ríkjaráðstefnunnar sem samþykkti Lissabon-sáttmálann, hafði ráðstefnan hliðsjón af þeirri fyrirætlan framkvæmdastjórnarinnar að halda áfram að hafa samráð við sérfræðinga sem tilnefndir eru af aðildarríkjunum við undirbúning að drögum að framseldum gerðum á sviði fjármálaþjónustu, í samræmi við viðteknar venjur. Einkum er mikilvægt að framkvæmdastjórnin hafi viðeigandi og gagnsætt samráð, m.a. við Seðlabanka Evrópu og alla viðkomandi hagsmunaaðila, á meðan á undirbúningsvinnu hennar stendur. Framkvæmdastjórnin skal við undirbúning og samningu framseldra gerða tryggja samhliða, tímanlega og viðeigandi sendingu viðkomandi skjala til Evrópuþingsins og ráðsins.
31)          Þar eð greiðsluþjónustuveitendur í aðildarríkjum sem hafa ekki evru sem gjaldmiðil þyrftu að inna af hendi sérstaka undirbúningsvinnu fyrir utan greiðslumarkaðinn vegna gjaldmiðils síns ríkis skal heimila slíkum greiðsluþjónustuveitendum að fresta beitingu tæknilegu krafnanna um tiltekinn tíma. Aðildarríki sem hafa ekki evru sem gjaldmiðil skulu þó fara að tæknilegu kröfunum til að koma á raunverulegu evrópsku greiðslusvæði, sem mun efla innri markaðinn.
32)          Til að tryggja víðtækan almennan stuðning við sameiginlegt evrugreiðslusvæði er nauðsynlegt að greiðendum sé tryggt hátt verndarstig, einkum í tengslum við beingreiðslufærslur. Núverandi og eina samevrópska beingreiðslukerfið fyrir neytendur, þróað af Evrópska greiðslumiðlunarráðinu, kveður á um sjálfsagðan og skilyrðislausan rétt til endurgreiðslu á heimiluðum greiðslum innan átta vikna tímabils frá þeim degi þegar fjármunirnir voru skuldfærðir, en viðkomandi endurgreiðsluréttindi falla undir ýmis skilyrði í 62. og 63. gr. tilskipunar 2007/64/EB. Í ljósi núverandi markaðsaðstæðna og þess að nauðsynlegt er að tryggja öfluga neytendavernd skal meta áhrifin af þessum ákvæðum í skýrslunni sem framkvæmdastjórnin skal, í samræmi við 87. gr. tilskipunar 2007/64/EB og eigi síðar en 1. nóvember 2012, leggja fyrir Evrópuþingið, ráðið, efnahags- og félagsmálanefnd Evrópusambandsins og Seðlabanka Evrópu ásamt, eftir því sem við á, tillögu að endurskoðun.
33)          Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/ EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga ( 9 ) gildir um vinnslu á persónuupplýsingum við beitingu þessarar reglugerðar. Umskiptin yfir í sameiginlegt evrugreiðslusvæði og innleiðing sameiginlegra staðla og reglna um greiðslur skal vera í samræmi við landslög og vernd viðkvæmra persónuupplýsinga í aðildarríkjum og ætti að vernda hagsmuni borgara Sambandsins.
34)          Fjármálaskilaboð í tengslum við greiðslur og millifærslur innan sameiginlega evrugreiðslusvæðisins eru utan gildissviðs samnings Evrópusambandsins og Bandaríkjanna frá 28. júní 2010 um vinnslu greiðslukerfisgagna og sendingu þeirra frá Evrópusambandinu til Bandaríkjanna vegna áætlunarinnar um að rekja slóð fjármögnunar hryðjuverka ( 10 ).
35)          Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiði þessarar reglugerðar, þ.e. að koma á tæknilegum og viðskiptalegum kröfum um millifærslur fjármuna og beingreiðslur í evrum, og því verður betur náð á vettvangi Sambandsins vegna umfangs og áhrifa aðgerðanna er Sambandinu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við nálægðarregluna eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans um Evrópusambandið. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og kveðið er á um í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari reglugerð til að ná megi því markmiði.
36)          Samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 924/2009 skulu aðildarríki afnema kvaðir sem lagðar eru á greiðsluþjónustuveitendur um skýrslugjöf á grundvelli uppgjörs vegna hagskýrslna um greiðslujöfnuð í tengslum við greiðslur viðskiptavina þeirra sem nema allt að 50 000 evrum. Söfnun gagna um greiðslujöfnuð á grundvelli uppgjörs hófst eftir að eftirliti með gjaldeyrisviðskiptum lauk og er mikilvæg gagnalind ásamt öðru, s.s. beinum könnunum, og eykur gæði tölfræðilegra upplýsinga. Frá upphafi tíunda áratugarins hafa sum aðildarríki kosið að treysta í auknum mæli á upplýsingar sem koma beint frá fyrirtækjum og heimilum frekar en á gögn sem bankar birta fyrir hönd viðskiptavina sinna. Þótt skýrslugjöf á grundvelli uppgjörs sé lausn sem dregur úr kostnaði við samantekt upplýsinga um greiðslujöfnuð á sama tíma og hún tryggir gæði tölfræðilegra upplýsinga, að því er varðar samfélagið í heild sinni, gæti hún, að því er varðar greiðslur yfir landamæri, dregið úr skilvirkni og haft aukinn kostnað í för með sér. Þar eð eitt af markmiðum sameiginlegs evrugreiðslusvæðis er að draga úr kostnaði við greiðslur yfir landamæri skal afnema að fullu skýrslugjöf um greiðslujöfnuð á grundvelli uppgjörs.
37)          Til að auka réttarvissu þykir rétt að samræma frestina fyrir millibankagjöld sem settir eru fram í 7. gr. reglugerðar (EB) nr. 924/2009 ákvæðunum sem sett eru fram í þessari reglugerð.
38)          Því ber að breyta reglugerð (EB) nr. 924/ 2009 til samræmis við það.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:

1. gr.
Efni og gildissvið

1.     Í þessari reglugerð er mælt fyrir um reglur um millifærslur og beingreiðslufærslur fjármuna tilgreindum í evrum innan Sambandsins þegar bæði greiðsluþjónustuveitandi greiðanda og greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu eru innan Sambandsins eða þegar eini greiðsluþjónustuveitandinn sem tekur þátt í greiðslunni er staðsettur innan Sambandsins.
2.     Þessi reglugerð gildir ekki um eftirfarandi:
a)    greiðslur sem fara fram á milli og innan greiðsluþjónustuveitenda, þ.m.t. umboðsaðila þeirra eða útibúa, fyrir þeirra eigin reikning,
b)    greiðslur sem eru unnar og gerðar upp í greiðslukerfi fyrir háar fjárhæðir, að undanskildum beingreiðslufærslum sem greiðandinn hefur ekki óskað sérstaklega eftir að verði sendar fyrir milligöngu greiðslukerfis fyrir háar fjárhæðir,
c)    greiðslur með greiðslukorti eða sambærilegu tæki, þ.m.t. úttekt reiðufjár, nema greiðslukortið eða sambærilegur útbúnaður sé aðeins notaður í þeim tilgangi að afla þeirra upplýsinga sem krafist er til að geta framkvæmt millifærslu fjármuna eða beingreiðslu með beinum hætti á eða af greiðslureikningi sem auðkenndur er með grunnbankareikningsnúmeri eða alþjóðlegu bankareikningsnúmeri,
d)    greiðslur fyrir milligöngu hvers konar fjarskiptabúnaðar, stafræns búnaðar eða upplýsingatæknibúnaðar, ef slík greiðsla leiðir ekki til millifærslu fjármuna eða beingreiðslu á og af greiðslureikningi sem auðkenndur er með grunnbankareikningsnúmeri eða alþjóðlegu bankareikningsnúmeri,
e)    peningasendingar eins og þær eru skilgreindar í 13. lið 4. gr. tilskipunar 2007/64/EB,
f)    greiðslur sem millifæra rafeyri, eins og hann er skilgreindur í 2. lið 2. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/110/EB frá 16. september 2009 um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og varfærniseftirlit með þeim ( 11 ), nema slík viðskipti leiði til millifærslu fjármuna eða beingreiðslu á eða af greiðslureikningi sem auðkenndur er með grunnbankareikningsnúmeri eða alþjóðlegu bankareikningsnúmeri.
3.     Byggi greiðslufyrirkomulag á greiðslum með millifærslu fjármuna eða beingreiðslum, en hafi það valkvæða viðbótareiginleika eða -þjónustu, gildir þessi reglugerð aðeins um undirliggjandi millifærslur fjármuna eða beingreiðslur.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1)    „millifærsla fjármuna“: greiðsluþjónusta, innan ríkis eða yfir landamæri, við tekjufærslu á reikning viðtakanda greiðslu, með greiðslu eða röð greiðslna af greiðslureikningi greiðanda, framkvæmd af greiðsluþjónustuveitandanum sem geymir reikning greiðanda, á grundvelli fyrirmæla hans,
2)    „beingreiðsla“: greiðsluþjónusta, innan ríkis eða yfir landamæri, við skuldfærslu á greiðslureikning greiðanda ef viðtakandi greiðslu á frumkvæði að greiðslu á grundvelli samþykkis greiðanda,
3)    „greiðandi“: einstaklingur eða lögaðili sem á greiðslureikning og heimilar greiðslufyrirmæli af þeim greiðslureikningi eða, ef ekki er um greiðslureikning greiðanda að ræða, einstaklingur eða lögaðili sem gefur fyrirmæli um greiðslu á greiðslureikning viðtakanda greiðslu,
4)    „viðtakandi greiðslu“: einstaklingur eða lögaðili sem á greiðslureikning og er fyrirhugaður viðtakandi fjármuna sem hafa verið viðfang greiðslu,
5)    „greiðslureikningur“: reikningur á nafni eins eða fleiri notenda greiðsluþjónustu sem er notaður við framkvæmd greiðslu,
6)    „greiðslukerfi“: kerfi til að yfirfæra fjármuni með formlegu og stöðluðu fyrirkomulagi og sameiginlegum reglum um meðferð, greiðslujöfnun eða uppgjör greiðslna,
7)    „greiðslufyrirkomulag“: sameiginlegar reglur, aðferðir, staðlar og/eða viðmiðunarreglur um framkvæmd sem greiðsluþjónustuveitendur hafa náð samkomulagi um varðandi framkvæmd greiðslna á vettvangi Sambandsins og innan aðildarríkja, sem er aðgreint frá grunnvirki eða greiðslukerfi sem er grundvöllur starfsemi þess,
8)    „greiðsluþjónustuveitandi“: greiðsluþjónustuveitandi sem fellur undir einhvern þeirra flokka sem um getur í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 2007/ 64/EB og lögaðilar og einstaklingar, sem um getur í 26. gr. tilskipunar 2007/64/EB, að undanskildum þeim stofnunum sem taldar eru upp í 2. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/ 48/EB frá 14. júní 2006 um stofnun og rekstur lánastofnana ( 12 ) og hafa fengið undanþágu í krafti 3. mgr. 2. gr. tilskipunar 2007/64/EB,
9)    „notandi greiðsluþjónustu“: einstaklingur eða lögaðili sem nýtir sér greiðsluþjónustu sem greiðandi eða viðtakandi greiðslu,
10)    „greiðsla“: aðgerð, sem greiðandi eða viðtakandi greiðslu á frumkvæði að, til að millifæra fjármuni milli greiðslureikninga innan Sambandsins, án tillits til hugsanlegra undirliggjandi skuldbindinga milli greiðanda og viðtakanda greiðslu,
11)    „greiðslufyrirmæli“: hvers kyns fyrirmæli greiðanda eða viðtakanda greiðslu til greiðsluþjónustuveitanda síns um framkvæmd greiðslu,
12)    „millibankagjald“: gjald, sem greitt er milli greiðsluþjónustuveitanda greiðanda og greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu, fyrir beingreiðslufærslur,
13)    „marghliða millibankagjald“: marghliða millibankagjald sem fellur undir samning fleiri en tveggja greiðsluþjónustuveitenda,
14)    „Grunnbankareikningsnúmer“: númer, til að auðkenna greiðslureikning, sem ótvírætt auðkennir einstakan greiðslureikning hjá greiðsluþjónustuveitanda í aðildarríki og sem einungis má nota vegna landsbundinna greiðslna, en sami greiðslureikningur er auðkenndur með alþjóðlegu bankareikningsnúmeri að því er varðar greiðslur yfir landamæri.
15)    „Alþjóðlegt bankareikningsnúmer“: alþjóðlegt númer til að auðkenna greiðslureikninga, sem ótvírætt auðkennir einstakan greiðslureikning í aðildarríki og eru þættir greiðslureikningsins ákvarðaðir af Alþjóðlegu staðlasamtökunum,
16)    „Auðkenniskóði banka“: auðkenniskóði fyrirtækis sem ótvírætt auðkennir greiðsluþjónustuveitanda og eru þættir greiðsluþjónustuveitandans ákvarðaðir af Alþjóðlegu staðlasamtökunum,
17)    „ISO 20022 XML-staðall“: staðall um þróun rafrænna boða um fjármál í skilningi Alþjóðlegu staðlasamtakanna, sem nær yfir sýnilega framsetningu greiðslna með XML-málskipan, í samræmi við viðskiptareglur og viðmiðunarreglur um framkvæmd greiðslukerfa á vettvangi Sambandsins, sem falla undir gildissvið þessarar reglugerðar,
18)    „greiðslukerfi fyrir háar fjárhæðir“: greiðslukerfi sem hefur þann megintilgang að vinna, greiðslujafna eða gera upp stakar greiðslur sem njóta forgangs og eru áríðandi, einkum ef um háa fjárhæð er að ræða,
19)    „uppgjörsdagur“: sá dagur þegar greiðsluþjónustuveitandi greiðanda og greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu uppfyllir skuldbindingar að því er tekur til yfirfærslu fjármuna,
20)    „innheimta“: sá hluti beingreiðslufærslu sem hefst þegar viðtakandi greiðslu hefur frumkvæði að henni þar til henni er lokið með venjulegri skuldfærslu af greiðslureikningi greiðanda,
21)    „umboð“: yfirlýsing greiðanda um samþykki og leyfi handa viðtakanda greiðslu og (beint eða óbeint fyrir milligöngu viðtakanda greiðslu) handa greiðsluþjónustuveitanda greiðanda til að heimila viðtakanda greiðslu að hefja innheimtu með skuldfærslu af tilteknum greiðslureikningi greiðanda og heimila greiðsluþjónustuveitanda greiðanda að fara að slíkum fyrirmælum,
22)    „smásölugreiðslukerfi“: greiðslukerfi, sem hefur þann megintilgang að vinna, greiðslujafna eða gera upp millifærslur fjármuna eða beingreiðslur, sem venjulega er safnað saman í pakka til sendingar, mynda aðallega lágar fjárhæðir og njóta lítils forgangs, og er ekki greiðslukerfi fyrir háar fjárhæðir,
23)    „örfyrirtæki“: fyrirtæki sem við gerð greiðsluþjónustusamnings er fyrirtæki eins og það sem skilgreint er í 1. gr. og 1. og 3. mgr. 2. gr. viðauka við tilmæli framkvæmdastjórnarinnar 2003/361/EB ( 13 ),
24)    „neytandi“: einstaklingur sem á aðild að samningi um greiðsluþjónustu í öðrum tilgangi en vegna atvinnugreinar sinnar, viðskipta eða starfsgreinar,
25)    „R-viðskipti“: greiðsla sem greiðsluþjónustuveitandi getur ekki framkvæmt á tilhlýðilegan hátt eða sem veldur því að gera þarf undanþágu við vinnslu, m.a. vegna fjármagnsskorts, afturköllunar, rangrar fjárhæðar eða dagsetningar, umboðsskorts eða lokaðs reiknings,
26)    „greiðsla yfir landamæri“: greiðsla, sem greiðandi eða viðtakandi greiðslu stofnar til, ef greiðsluþjónustuveitandi greiðanda og greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu eru ekki í sama aðildarríki,
27)    „landsbundin greiðsla“: greiðsla, sem greiðandi eða viðtakandi greiðslu stofna til, ef greiðsluþjónustuveitandi greiðanda og greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu eru í sama aðildarríki,
28)    „tilvísunaraðili“: einstaklingur eða lögaðili sem greiðandi greiðir fyrir eða viðtakandi greiðslu tekur við greiðslu fyrir.

3. gr.
Aðgengi

1.     Greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu sem aðgengi er að vegna landsbundinnar millifærslu fjármuna samkvæmt greiðslufyrirkomulagi skal vera aðgengilegur, í samræmi við reglur greiðslufyrirkomulags á vettvangi Sambandsins, vegna millifærslna fjármuna sem greiðandi stofnar til fyrir milligöngu greiðsluþjónustuveitanda sem staðsettur er í hvaða aðildarríki sem er.
2.     Greiðsluþjónustuveitandi greiðanda sem aðgengi er að vegna landsbundinnar beingreiðslu samkvæmt greiðslufyrirkomulagi skal vera aðgengilegur, í samræmi við reglur greiðslufyrirkomulags á vettvangi Sambandsins, vegna beingreiðslna sem viðtakandi greiðslu stofnar til fyrir milligöngu greiðsluþjónustuveitanda sem staðsettur er í hvaða aðildarríki sem er.
3.     Ákvæði 2. mgr. gilda aðeins um beingreiðslur sem eru aðgengilegar neytendum samkvæmt greiðslufyrirkomulaginu.

4. gr.
Rekstrarsamhæfi

1.     Greiðslufyrirkomulag sem greiðsluþjónustuveitendum er ætlað að nota í þeim tilgangi að framkvæma millifærslur fjármuna og beingreiðslur skal uppfylla eftirfarandi skilyrði:
a)    sömu reglur gilda um landsbundnar millifærslur fjármuna og millifærslur fjármuna yfir landamæri innan Evrópusambandsins og á sama hátt um landsbundnar beingreiðslufærslur og beingreiðslufærslur yfir landamæri innan Sambandsins, og
b)    þátttakendurnir í greiðslufyrirkomulaginu mynda meirihluta greiðsluþjónustuveitenda í meirihluta aðildarríkjanna og mynda meirihluta greiðsluþjónustuveitenda innan Sambandsins, eingöngu að teknu tilliti til greiðsluþjónustuveitenda sem veita millifærslur fjármuna eða beingreiðslur, eftir því sem við á.
Ef hvorki greiðandinn né viðtakandi greiðslu er neytandi skal, að því er varðar b-lið fyrstu undirgreinar, aðeins taka tillit til aðildarríkja þar sem greiðsluþjónustuveitendur bjóða slíka þjónustu og til greiðsluþjónustuveitenda sem bjóða slíka þjónustu.
2.     Rekstraraðilinn, eða þátttakendur í smásölugreiðslukerfi innan Evrópusambandsins, ef ekki er um formlegan rekstraraðila að ræða, skal tryggja, með notkun staðla sem þróaðir eru af alþjóðlegum eða evrópskum staðlastofnunum, að greiðslukerfi þeirra sé tæknilega rekstrarsamhæft öðrum greiðslukerfum innan Sambandsins. Auk þess skal hann ekki samþykkja viðskiptareglur sem takmarka rekstrarsamhæfi við önnur smásölugreiðslukerfi innan Sambandsins. Greiðslukerfi sem tilgreind eru í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/26/EB frá 19. maí 1998 um endanlegt uppgjör í greiðsluuppgjörskerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf ( 14 ) skulu aðeins skyldug að tryggja tæknilegt rekstrarsamhæfi við önnur greiðslukerfi sem tiltekin eru í sömu tilskipun.
3.     Tæknilegar hindranir mega ekki koma í veg fyrir vinnslu á millifærslum fjármuna og beingreiðslum.
4.     Eigandi greiðslufyrirkomulags, eða helsti þátttakandinn í nýju smásölugreiðslufyrirkomulagi þar sem þátttakendur eru frá minnst átta aðildarríkjum ef ekki er um neinn formlegan eiganda greiðslufyrirkomulags að ræða, getur beðið lögbær yfirvöld í aðildarríkinu þar sem eigandi greiðslufyrirkomulags eða helsti þátttakandinn er staðsettur um tímabundna undanþágu frá kröfunum sem settar eru fram í b-lið fyrstu undirgreinar 1. málsgreinar. Viðkomandi lögbær yfirvöld geta, að höfðu samráði við lögbær yfirvöld í hinum aðildarríkjunum þaðan sem þátttakandi í nýju greiðslufyrirkomulagi kemur, veitt framkvæmdastjórninni og Seðlabanka Evrópu slíka undanþágu í að hámarki þrjú ár. Þessi lögbæru yfirvöld skulu taka ákvörðun á grundvelli möguleika nýja greiðslufyrirkomulagsins til að þróast og verða fullbært samevrópskt greiðslufyrirkomulag og framlagi þess til að auka samkeppni eða hvetja til nýsköpunar.
5.     Að undanskilinni greiðsluþjónustu sem hefur ávinning af undanþágu samkvæmt 4. mgr. 16. gr. tekur þessi grein gildi 1. febrúar 2014.

5. gr.
Kröfur varðandi millifærslu fjármuna og beingreiðslufærslur

1.     Greiðsluþjónustuveitendur skulu framkvæma millifærslur fjármuna og beingreiðslufærslur í samræmi við eftirfarandi kröfur:
a)    þeir skulu nota auðkenni greiðslureiknings sem tilgreint er í a-lið 1. liðar viðaukans til auðkenningar á greiðslureikningum án tillits til staðsetningar viðkomandi greiðsluþjónustuveitanda,
b)    þeir skulu nota skilaboðasniðið sem tilgreint er í b-lið 1. liðar viðaukans þegar greiðslur eru sendar til annars greiðsluþjónustuveitanda eða fyrir milligöngu smásölugreiðslukerfis,
c)    þeir skulu tryggja að notendur greiðsluþjónustu noti auðkenni greiðslureiknings sem tilgreint er í a-lið 1. mgr. viðaukans til að auðkenna greiðslureikninga, hvort sem greiðsluþjónustuveitandi greiðanda og greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu eða eini greiðsluþjónustuveitandinn sem tekur þátt í greiðslunni er í sama aðildarríkinu eða ekki,
d)    þær skulu tryggja að skilaboðasniðið sem tilgreint er í b-lið 1. liðar viðaukans sé notað ef notandi greiðsluþjónustu, sem ekki er neytandi eða örfyrirtæki, stofnar til eða tekur við stökum millifærslum fjármuna eða stökum beingreiðslum sem ekki eru sendar einar sér heldur safnað saman í pakka til sendingar.
Án þess að hafa áhrif á b-lið fyrstu undirgreinar skulu greiðsluþjónustuveitendur, fari notandi greiðsluþjónustu sérstaklega fram á það, nota skilaboðasniðið sem tilgreint er í b-lið 1. liðar viðaukans í tengslum við þann notanda greiðsluþjónustu.
2.     Greiðsluþjónustuveitendur skulu framkvæma millifærslur fjármuna í samræmi við eftirfarandi kröfur, með fyrirvara um skuldbindingar sem mælt er fyrir um í landslögum um framkvæmd tilskipunar 95/46/EB:
a)    greiðsluþjónustuveitandi greiðanda skal sjá til þess að greiðandinn láti í té þau gagnastök sem tilgreind eru í a-lið 2. liðar í viðaukanum,
b)    greiðsluþjónustuveitandi greiðanda skal láta greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu í té gagnastökin sem tilgreind eru í b-lið 2. liðar í viðaukanum,
c)    greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu skal láta viðtakanda greiðslu í té eða gera honum aðgengileg þau gagnastök sem tilgreind eru í d- lið 2. liðar í viðaukanum.
3.     Greiðsluþjónustuveitendur skulu framkvæma beingreiðslur í samræmi við eftirfarandi kröfur, með fyrirvara um skuldbindingar sem mælt er fyrir um í landslögum um framkvæmd tilskipunar 95/46/EB:
a)    greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu skal sjá til þess:
    i.    að viðtakandi greiðslu láti í té gagnastökin sem tilgreind eru í a-lið 3. liðar í viðaukanum með fyrstu beingreiðslunni og stökum beingreiðslum og með hverri greiðslu þaðan í frá,
    ii.    að greiðandinn veiti bæði viðtakanda greiðslu og greiðsluþjónustuveitanda sínum (beint eða óbeint fyrir milligöngu viðtakanda greiðslu) samþykki þess efnis að viðtakandi greiðslu eða þriðji aðili, fyrir hönd viðtakanda greiðslu, geymi umboðin, ásamt síðari breytingum eða ógildingu, og að greiðsluþjónustuveitandi skuli upplýsa viðtakanda greiðslu um þessa skuldbindingu í samræmi við 41. og 42. gr. tilskipunar 2007/64/EB,
b)    greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu skal láta greiðsluþjónustuveitanda greiðanda í té þau gagnastök sem tilgreind eru í b-lið 3. liðar í viðaukanum,
c)    greiðsluþjónustuveitandi greiðanda skal láta greiðanda í té eða gera honum aðgengileg þau gagnastök sem tilgreind eru í c-lið 3. liðar í viðaukanum,
d)    greiðandinn skal hafa heimild til að gefa greiðsluþjónustuveitanda sínum fyrirmæli:
    i.    um að takmarka beingreiðsluinnheimtu við ákveðna fjárhæð, tíðni eða hvort tveggja,
    ii.    um að sannprófa hverja beingreiðslufærslu, ef umboð samkvæmt greiðslufyrirkomulagi kveður ekki á um rétt til endurgreiðslu, og að athuga hvort fjárhæð og tíðni framlagðrar beingreiðslufærslu jafngildi þeirri fjárhæð og tíðni sem samþykkt var í umboðinu, áður en greiðslureikningur þeirra er skuldfærður á grundvelli upplýsinga í tengslum við umboðið,
    iii.    um að stöðva beingreiðslu af greiðslureikningi greiðanda eða stöðva beingreiðslur sem einn eða fleiri tilgreindir viðtakendur greiðslu hafa haft frumkvæði að eða heimila einungis beingreiðslur sem einn eða fleiri tilgreindir viðtakendur greiðslu hafa frumkvæði að.
Ef hvorki greiðandinn né viðtakandi greiðslu er neytandi skal þess ekki krafist að greiðsluþjónustuveitendur fari að i-, ii- eða iii-lið d-liðar.
Greiðsluþjónustuveitandi greiðanda skal upplýsa greiðandann um réttindin sem um getur í d-lið í samræmi við 41. og 42. gr. tilskipunar 2007/64/EB.
Í tengslum við fyrstu beingreiðslufærsluna eða staka beingreiðslufærslu og í tengslum við hverja beingreiðslufærslu þaðan í frá skal viðtakandi greiðslu senda upplýsingarnar í tengslum við umboð til greiðsluþjónustuveitanda sínum og greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu skal senda þær upplýsingar til greiðsluþjónustuveitanda greiðanda með hverri beingreiðslufærslu.
4.     Til viðbótar við kröfurnar sem um getur í 1. mgr. skal viðtakandi greiðslu, sem samþykkir millifærslur fjármuna, senda greiðendum sínum auðkenni greiðslureiknings síns, sem tilgreindur er í a-lið 1. liðar viðaukans, og auðkenniskóða banka greiðsluþjónustuveitanda síns, til 1. febrúar 2014 að því er varðar landsbundnar greiðslur og 1. febrúar 2016 að því er varðar greiðslur yfir landamæri, en aðeins ef nauðsyn krefur, þegar farið er fram á millifærslu fjármuna.
5.     Áður en fyrsta beingreiðslufærsla fer fram skal greiðandi tilkynna um auðkenni greiðslureiknings síns sem tilgreindur er í a-lið 1. liðar í viðaukanum. Greiðandi skal tilkynna auðkenniskóða banka greiðsluþjónustuveitanda síns til 1. febrúar 2014 að því er varðar landsbundnar greiðslur og til 1. febrúar 2016 að því er varðar greiðslur yfir landamæri, en aðeins ef nauðsyn krefur.
6.     Ef ekki er kveðið á um rétt á endurgreiðslu í rammasamningnum á milli greiðanda og greiðsluþjónustuveitanda hans skal greiðsluþjónustuveitandi greiðanda, með fyrirvara um ii-lið a-liðar 3. liðar, sannprófa hverja beingreiðslufærslu til að athuga hvort fjárhæð framlagðrar beingreiðslufærslu jafngildi þeirri fjárhæð og tíðni sem samþykkt var í umboðinu áður en greiðslureikningur greiðanda er skuldfærður, á grundvelli upplýsinganna í tengslum við umboðið.
7.     Frá 1. febrúar 2014, að því er varðar landsbundnar greiðslur og frá 1. febrúar 2016 að því er varðar greiðslur yfir landamæri, skulu greiðsluþjónustuveitendur ekki krefjast þess að notendur greiðsluþjónustu gefi upp auðkenniskóða banka greiðsluþjónustuveitanda greiðanda eða greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu.
8.     Greiðsluþjónustuveitandi greiðanda og greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu skulu ekki leggja neinn viðbótarkostnað eða önnur gjöld á, vegna þess álestursferlis þegar umboð er búið til með sjálfvirkum hætti vegna þessara greiðslna sem stofnað er til með greiðslukorti á greiðslustað, sem leiða til beingreiðslu.

6. gr.
Lokadagsetningar

1.     Eigi síðar en 1. febrúar 2014 skulu millifærslur fjármuna framkvæmdar í samræmi við tæknilegu kröfurnar sem settar eru fram í 1., 2. og 4. mgr. 5. gr. og 1. og 2. lið viðaukans.
2.     Eigi síðar en 1. febrúar 2014 skulu beingreiðslur framkvæmdar í samræmi við 2. og 3. mgr. 8. gr. og tæknilegu kröfurnar sem settar eru fram í 1., 3., 5., 6. og 8. mgr. 5. gr. og 1. og 3. lið viðaukans.
3.     Með fyrirvara um 3. gr. skal framkvæma beingreiðslur í samræmi við kröfurnar sem settar eru fram í 1. mgr. 8. gr. eigi síðar en 1. febrúar 2017 að því er varðar landsbundnar greiðslur og eigi síðar en 1. nóvember 2012 að því er varðar greiðslur yfir landamæri.
4.     Að því er varðar landsbundnar greiðslur getur aðildarríki, eða greiðsluþjónustuveitandi aðildarríkis með samþykki hlutaðeigandi aðildarríkis, ákveðið fyrri dagsetningar en þær sem um getur í 1. og 2. mgr., eftir að hafa tekið tillit til og metið hve undirbúnir og fúsir ríkisborgarar þeirra eru.

7. gr.
Gildistími umboða og réttur til endurgreiðslu

1.     Gilt leyfi viðtakanda greiðslu til að innheimta endurteknar beingreiðslur í hefðbundnu kerfi fyrir 1. febrúar 2014 skal gilda áfram eftir þá dagsetningu og teljast sem samþykki veitt greiðsluþjónustuveitanda greiðanda um að framkvæma endurteknar beingreiðslur sem viðkomandi viðtakandi greiðslu innheimtir í samræmi við þessa reglugerð, ef ekki er um að ræða landslög eða neytendasamninga um áframhaldandi gildi umboða til beingreiðslu.
2.     Umboð eins og um getur í 1. mgr. skulu veita skilyrðislausa endurgreiðslu og afturvirkar endurgreiðslur til dagsetningar endurgreiddu greiðslunnar, ef kveðið hefur verið á um slíkar endurgreiðslur innan ramma gildandi umboðs.

8. gr.
Millibankagjöld fyrir beingreiðslufærslur

1.     Með fyrirvara um 2. mgr. má ekki leggja marghliða millibankagjöld á hverja beingreiðslufærslu, eða annað umsamið endurgjald í sama tilgangi eða sem hefur sömu áhrif, að því er varðar beingreiðslufærslur.
2.     Að því er varðar R-viðskipti má leggja á marghliða millibankagjöld að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
a)    fyrirkomulagið miðar að skilvirkri úthlutun kostnaðar til greiðsluþjónustuveitanda eða notanda hennar, eins og við á, sem olli R-viðskiptunum, að teknu tilliti til tilvistar viðskiptakostnaðar og tryggir að greiðandinn sé ekki látinn greiða sjálfkrafa og að greiðsluþjónustuveitandanum sé bannað að krefja notanda greiðsluþjónustu um greiðslu tiltekinnar tegundar R- viðskiptagjalda sem nemur meiru en þeim kostnaði sem greiðsluþjónustuveitandinn ber vegna slíkra viðskipta,
b)    gjöldin eru alfarið á kostnaðargrunni,
c)    fjárhæð gjaldanna er ekki umfram raunverulegan kostnað við R-viðskipti, afgreiddum af kostnaðarhagkvæmusta sambærilegs greiðsluþjónustuveitanda, sem er dæmigerður þátttakandi í fyrirkomulaginu að því er varðar umfang viðskipta og tegund þjónustu,
d)    álagning gjaldanna í samræmi við a-, b- og c-lið kemur í veg fyrir að greiðsluþjónustuveitandinn leggi viðbótargjöld á viðkomandi notendur greiðsluþjónustu í tengslum við kostnaðinn sem fellur undir þessi millibankagjöld,
e)    ekki er fyrir hendi hagnýtur eða fjárhagslega hagkvæmur valkostur við fyrirkomulagið sem myndi leiða til jafn skilvirkrar eða skilvirkari meðhöndlunar á R-viðskiptum og kostar það sama eða minna fyrir neytanda.
Að því er varðar fyrstu undirgrein skal við útreikning á gjöldum vegna R-viðskipta aðeins taka til greina kostnaðarflokka sem beint og ótvírætt tengjast meðhöndlun R-viðskipta. Ákvarða skal þennan kostnað af nákvæmni. Sundurliðun kostnaðar, þ.m.t. aðgreind auðkenning á hverjum kostnaðarþætti, skal vera hluti af fyrirkomulaginu til að auðvelda sannprófun og eftirlit.
3.     Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda að breyttu breytanda um einhliða fyrirkomulag af hálfu greiðsluþjónustuveitanda og um tvíhliða fyrirkomulag milli greiðsluþjónustuveitenda sem hafa sama tilgang eða áhrif og marghliða fyrirkomulag.

9. gr.
Aðgengi að greiðslum

1.     Greiðandi sem millifærir fjármuni til viðtakanda greiðslu sem á greiðslureikning í Sambandinu má ekki tilgreina í hvaða aðildarríki sá greiðslureikningur skal vera, að því tilskildu að greiðslureikningurinn sé aðgengilegur í samræmi við 3. gr.
2.     Viðtakandi greiðslu sem tekur við millifærðum fjármunum eða beitir beingreiðslu til að innheimta fjármuni frá greiðanda sem á greiðslureikning í Sambandinu má ekki tilgreina í hvaða aðildarríki sá greiðslureikningur skal vera, að því tilskildu að greiðslureikningurinn sé aðgengilegur í samræmi við 3. gr.

10. gr.
Lögbær yfirvöld

1.     Aðildarríki skulu tilnefna opinber yfirvöld, aðila sem eru viðurkenndir samkvæmt landslögum eða opinber yfirvöld sem til þess hafa sérstakar heimildir í landslögum, þ.m.t. seðlabanka aðildarríkjanna, sem þau lögbæru yfirvöld sem bera ábyrgð á því að tryggja að farið sé að þessari reglugerð. Aðildarríkjum er heimilt að tilnefna starfandi stofnanir til að gegna hlutverki lögbærra yfirvalda.
2.     Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um þau lögbæru yfirvöld sem tilnefnd eru skv. 1. mgr. eigi síðar en 1. febrúar 2013. Þau skulu tilkynna framkvæmdastjórninni og evrópsku eftirlitsstofnuninni (Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni) (e. EBA) án tafar um allar síðari breytingar varðandi viðkomandi yfirvöld.
3.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að lögbær yfirvöld, sem um getur í 1. mgr., hafi allar þær heimildir sem nauðsynlegar eru til að sinna skyldum sínum. Ef um er að ræða fleiri en eitt lögbært yfirvald á yfirráðasvæði aðildarríkja að því er varðar mál, sem fjallað er um í þessari reglugerð, skulu aðildarríkin sjá til þess að þau yfirvöld starfi náið saman svo að þau geti leyst skyldur sínar af hendi með skilvirkum hætti.
4.     Lögbæru yfirvöldin skulu hafa skilvirkt eftirlit með því að greiðsluþjónustuveitendur fari að þessari reglugerð og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja slíka reglufylgni. Þeir skulu starfa saman í samræmi við 24. gr. tilskipunar 2007/64/EB og 31. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1093/2010.

11. gr.
Viðurlög

1.     Aðildarríkin skulu, eigi síðar en 1. febrúar 2013, setja reglur um viðurlög við brotum á ákvæðum reglugerðar þessarar og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þeim sé beitt. Slík viðurlög skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brot og letjandi. Aðildarríki skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um umræddar reglur og ráðstafanir eigi síðar en 1. ágúst 2013 og skulu tilkynna henni án tafar um síðari breytingar á þeim.
2.     Viðurlögunum er um getur í 1. mgr. skal ekki beita á neytendur.

12. gr.
Kæru- og úrlausnarmeðferð utan réttar

1.     Aðildarríkin skulu koma á fullnægjandi og skilvirkri kæru- og úrlausnarmeðferð utan réttar til að leysa ágreiningsmál milli notenda greiðsluþjónustu og greiðsluþjónustuveitenda þeirra varðandi réttindi og skyldur sem stafa af þessari reglugerð. Í þeim tilgangi skulu aðildarríki tilnefna starfandi stofnanir eða koma á fót nýjum stofnunum, eftir því sem við á.
2.     Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um þær stofnanir sem um getur í 1. mgr. eigi síðar en 1. febrúar 2013. Þau skulu tilkynna framkvæmdastjórninni án tafar um allar síðari breytingar varðandi þessar stofnanir.
3.     Aðildarríki mega kveða á um að þessi grein gildi aðeins um notendur greiðsluþjónustu sem eru neytendur eða aðeins um þá sem eru neytendur og örfyrirtæki. Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um öll slík ákvæði eigi síðar en 1. ágúst 2013.

13. gr.
Framsal valds

Framkvæmdastjórnin skal hafa umboð til að samþykkja framseldar gerðir í samræmi við 14. gr. viðaukans til að taka til greina tækniframfarir og markaðsþróun.

14. gr.
Beiting framseldra gerða

1.     Framkvæmdastjórnin skal hafa vald til að samþykkja framseldar gerðir með fyrirvara um skilyrðin sem mælt er fyrir um í þessari grein.
2.     Framkvæmdastjórninni skal falið vald til að samþykkja framseldar gerðir, sem um getur í 13. gr., í fimm ár á tímabili sem hefst 31. mars 2012. Framkvæmdastjórnin skal taka saman skýrslu, að því er varðar framsal valds, eigi síðar en níu mánuðum fyrir lok fimm ára tímabilsins. Framsal valds skal framlengt með þegjandi samkomulagi um jafnlangan tíma, nema Evrópuþingið eða ráðið andmæli þeirri framlengingu eigi síðar en þremur mánuðum fyrir lok hvers tímabils.
3.     Evrópuþinginu eða ráðinu er hvenær sem er heimilt að afturkalla framsal valds sem um getur í 13. gr. Með ákvörðun um afturköllun skal bundinn endir á framsal þess valds sem tilgreint er í þeirri ákvörðun. Hún öðlast gildi daginn eftir birtingu hennar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins, eða síðar, eftir því sem tilgreint er í ákvörðuninni. Hún skal ekki hafa áhrif á gildi framseldra gerða sem þegar eru í gildi.
4.     Um leið og framkvæmdastjórnin hefur samþykkt framselda gerð skal hún tilkynna Evrópuþinginu og ráðinu um það samtímis.
5.     Framseld gerð, sem er samþykkt skv. 13. gr., skal því aðeins öðlast gildi að Evrópuþingið eða ráðið hafi ekki haft uppi nein andmæli innan þriggja mánaða frá tilkynningu um gerðina til Evrópuþingsins og ráðsins eða ef bæði Evrópuþingið og ráðið hafa upplýst framkvæmdastjórnina, áður en fresturinn er liðinn, um þá fyrirætlan sína að hreyfa ekki andmælum. Þetta tímabil skal framlengt um þrjá mánuði að frumkvæði Evrópuþingsins eða ráðsins.

15. gr.
Endurskoðun

Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 1. febrúar 2017, leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið, efnahags- og félagsmálanefnd Evrópubandalaganna, Evrópska seðlabankann og Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina um beitingu þessarar reglugerðar ásamt tillögu, ef við á.

16. gr.
Umbreytingarákvæði

1.     Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. 6. gr. geta aðildarríki, til 1. febrúar 2016, heimilað greiðsluþjónustuveitendum að veita notendum greiðsluþjónustu breytingaþjónustu vegna landsbundinna greiðslna sem gerir notendum greiðsluþjónustu, sem eru neytendur, kleift að halda áfram að nota grunnbankareikningsnúmer í stað auðkennis greiðslureiknings sem tilgreint er í a-lið 1. liðar í viðaukanum með því skilyrði að rekstrarsamhæfi sé tryggt með því að breyta grunnbankareikningsnúmerum greiðanda og viðtakanda greiðslu tæknilega og á öruggan hátt í viðeigandi auðkenni greiðslureiknings sem tilgreint er í a-lið 1. liðar í viðaukanum. Það auðkenni greiðslureiknings skal afhenda notanda greiðsluþjónustu sem stofnar til greiðslunnar, eftir því sem við á, áður en greiðslan er framkvæmd. Í slíkum tilvikum skulu greiðsluþjónustuveitendur ekki leggja neinn kostnað eða önnur gjöld á notendur greiðsluþjónustu sem tengjast þessari breytingaþjónustu beint eða óbeint.
2.     Greiðsluþjónustuveitendur sem veita greiðsluþjónustu í evrum og eru staðsettir í aðildarríki sem ekki hefur evru sem gjaldmiðil skulu uppfylla 3. gr. þegar þær bjóða greiðsluþjónustu í evrum eigi síðar en 31. október 2016. Ef evra er þrátt fyrir það innleidd sem gjaldmiðill þess háttar aðildarríkis fyrir 31. október 2015 skal greiðsluþjónustuveitandi í því aðildarríki uppfylla 3. gr. innan eins árs frá þeim degi þegar hlutaðeigandi aðildarríki sameinaðist evrusvæðinu.
3.     Aðildarríki mega heimila lögbærum yfirvöldum sínum að fella niður allar eða einhverjar þeirra krafna sem um getur í 1. og 2. mgr. 6. gr. að því er varðar þær millifærslur fjármuna eða beingreiðslufærslur með uppsafnaða markaðshlutdeild, samkvæmt opinberum hagtölum um greiðslur sem Seðlabanki Evrópu birtir árlega, sem er minni en 10% af heildarfjölda millifærslna fjármuna eða beingreiðslufærslna, eftir því sem við á, í því aðildarríki til 1. febrúar 2016.
4.     Aðildarríki mega heimila lögbærum yfirvöldum sínum að fella niður allar eða einhverjar þeirra krafna sem um getur í 1. og 2. mgr. 6. gr. að því er varðar þær greiðslur sem komið er af stað með greiðslukorti á greiðslustað sem leiða til beingreiðslu á og af greiðslureikningi sem tilgreindur er með grunnbankareikningsnúmeri eða alþjóðlegu bankareikningsnúmeri til 1. febrúar 2016.
5.     Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. 6. gr. mega aðildarríki heimila lögbærum yfirvöldum sínum, til 1. febrúar 2016, að fella niður sértæku kröfuna um að nota skilaboðasniðin sem tilgreind eru í b-lið 1. liðar viðaukans, sem sett eru fram í d-lið 1. liðar 5. gr. að því er varðar notendur greiðsluþjónustu sem stofna til eða taka við stökum millifærslum fjármuna eða beingreiðslum sem safnað er saman í pakka til sendingar. Þrátt fyrir mögulega niðurfellingu skulu greiðsluþjónustuveitendur uppfylla þær kröfur sem settar eru fram í d-lið 1. mgr. 5. gr. ef notandi greiðsluþjónustu óskar eftir slíkri þjónustu.
6.     Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. 6. gr. mega aðildarríki fresta kröfunum um að gefa upp auðkenniskóða banka vegna landsbundinna greiðslna, sem gerðar eru í 4., 5. og 7. mgr. 5. gr., til 1. febrúar 2016.
7.     Ef aðildarríki hyggst beita undanþágu eins og kveðið er á um í 1., 3., 4., 5. eða 6. mgr. skal viðkomandi aðildarríki tilkynna framkvæmdastjórninni um það eigi síðar en 1. febrúar 2013 og síðan heimila lögbærum yfirvöldum sínum að fella niður, eftir því sem við á, sumar eða allar kröfurnar sem settar eru fram í 5. gr., 1. eða 2. mgr. 6. gr. og viðaukanum, að því er varðar viðeigandi greiðslur eins og um getur í þeim málsgreinum eða undirgreinum sem við eiga og á tímabili sem er ekki umfram tímabil undanþágunnar. Aðildarríki skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um greiðslurnar sem falla undir undanþáguna og allar síðari breytingar.
8.     Greiðsluþjónustuveitendur í aðildarríki og notendur greiðsluþjónustu sem nýta sér greiðsluþjónustu í aðildarríki, sem ekki hefur evru sem gjaldmiðil, skulu uppfylla kröfurnar sem settar eru fram í 4. og 5. gr. eigi síðar en 31. október 2016. Rekstraraðilar smásölugreiðslukerfa í aðildarríki sem ekki hefur evru sem gjaldmiðil skulu uppfylla kröfurnar sem settar eru fram í 2. mgr. 4. gr. eigi síðar en 31. október 2016.
Ef evra er þrátt fyrir það innleidd sem gjaldmiðill þess háttar aðildarríkis fyrir 31. október 2015 skulu greiðsluþjónustuveitendur eða, þar sem við á, rekstraraðilar smásölugreiðslukerfa í því aðildarríki og notendur greiðsluþjónustu sem nýta sér greiðsluþjónustu í því aðildarríki uppfylla viðkomandi ákvæði innan eins árs frá þeim degi þegar hlutaðeigandi aðildarríki sameinaðist evrusvæðinu, en þó ekki fyrr en á þeim dögum sem tilgreindir eru fyrir þau aðildarríki sem hafa evru sem sinn gjaldmiðil þann 31. mars 2012.

17. gr.
Breytingar á reglugerð (EB) nr. 924/2009

Reglugerð (EB) nr. 924/2009 er hér með breytt sem hér segir:
1)    Í stað 10. liðar 2. gr. komi eftirfarandi:
    „10.    „fjármunir“: peningaseðlar og mynt, inneign á reikningum og rafeyrir eins og skilgreint er í 2. mgr. 2. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/110/EB frá 16. september 2009 um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og varfærniseftirlit með þeim (*).“
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(*) Stjtíð. ESB L 267, 10.10.2009, bls. 7.
2)    Í stað 1. mgr. 3. gr. komi eftirfarandi:
    „1.    Gjöld sem greiðsluþjónustuveitandi leggur á notanda greiðsluþjónustu fyrir greiðslur yfir landamæri skulu vera þau sömu og gjöld sem sá greiðsluþjónustuveitandi leggur á notendur greiðsluþjónustu vegna samsvarandi landsbundinna greiðslna að sömu fjárhæð og í sama gjaldmiðli.“
3)    Ákvæðum 4. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    Ákvæði 2. mgr. falli brott.
    b)    Í stað 3. mgr. komi eftirfarandi:
        „3.    Greiðsluþjónustuveitandi getur lagt á önnur gjöld til viðbótar við þau sem lögð eru á notanda greiðsluþjónustu í samræmi við 1. mgr. 3. gr. ef notandi óskar eftir því að greiðsluþjónustuveitandi framkvæmi greiðslu yfir landamæri án þess að gefa upp alþjóðlegt bankareikningsnúmer og, eftir því sem við á og í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 260/2012 um að koma á tæknilegum og viðskiptalegum kröfum varðandi millifærslu fjármuna og beingreiðslur í evrum og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 924/2009 (*), tengdan auðkenniskóða banka fyrir greiðslureikninginn í hinu aðildarríkinu. Þessi gjöld skulu vera viðeigandi og í samræmi við kostnað. Þau skulu samþykkt af greiðsluþjónustuveitanda og notanda greiðsluþjónustu. Greiðsluþjónustuveitandi skal upplýsa notanda greiðsluþjónustu um fjárhæð viðbótargjalda með góðum fyrirvara áður en notandi greiðsluþjónustu er skuldbundinn af samkomulaginu.“
        

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(*) Stjtíð. ESB L 94, 30.3.2012, bls. 22.
4)    Í stað 1. mgr. 5. gr. komi eftirfarandi:
    „1.    Frá og með 1. febrúar 2016 skulu aðildarríki afnema kvaðir sem lagðar eru á greiðsluþjónustuveitendur um skýrslugjöf á grundvelli uppgjörs vegna hagskýrslna um greiðslujöfnuð í tengslum við greiðslur viðskiptavina þeirra.“
5)    Ákvæðum 7. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    Í 1. mgr. komi dagsetningin „1. febrúar 2017“ í stað „1. nóvember 2012“.
    b)    Í 2. mgr. komi dagsetningin „1. febrúar 2017“ í stað „1. nóvember 2012“.
    c)    Í 3. mgr. komi dagsetningin „1. febrúar 2017“ í stað „1. nóvember 2012“.
6)    Ákvæði 8. gr. falli brott.

18. gr.
Gildistaka

Reglugerð þessi öðlast gildi daginn eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Strassborg 14. mars 2012.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
forseti. forseti.
M. SCHULZ      N. WAMMEN

VIÐAUKI
TÆKNILEGAR KRÖFUR (5. GR.)

1)    Til viðbótar við grunnkröfurnar sem settar eru fram í 5. gr. gilda eftirfarandi tæknilegar kröfur um millifærslur fjármuna og beingreiðslufærslur:
    a)    Auðkenni greiðslureiknings sem um getur í a- og c-lið 1. mgr. 5. gr. skal vera alþjóðlegt bankareikningsnúmer.
    b)    Staðallinn fyrir skilaboðasnið sem um getur í b- og d-lið 1. mgr. 5. gr. skal vera ISO 20022 XML- staðallinn.
    c)    Í upplýsingareitnum fyrir peningasendingar skal vera pláss fyrir 140 rittákn. Greiðslufyrirkomulag má gera ráð fyrir fleiri rittáknum, en ef búnaðurinn sem notaður er til að senda upplýsingar hefur tæknilegar takmarkanir að því er varðar fjölda rittákna þá gildir tæknilegt hámarkið búnaðarins.
    d)    Upplýsingar varðandi peningasendingar og öll önnur gagnastök sem lögð eru fram í samræmi við 2. og 3. lið þessa viðauka skulu sendar í heild sinni og óbreytt milli greiðsluþjónustuveitenda í greiðslukeðjunni.
    e)    Þegar gögnin sem krafist er eru aðgengileg á rafrænu formi skulu greiðslufærslur gera alsjálfvirka, rafræna vinnslu mögulega á öllum vinnslustigum í greiðslukeðjunni (samfelld vinnsla frá upphafi til enda), þannig að unnt sé að stýra öllu greiðsluferlinu rafrænt án þess að þörf sé á að endurskrá gögn eða grípa handvirkt inn í. Þetta gildir einnig um sérstaka meðhöndlun á millifærslum fjármuna og beingreiðslufærslum, hvenær sem mögulegt er.
    f)    Í greiðslufyrirkomulagi skal ekki kveða á um lágmarksfjárhæð greiðslu að því er varðar millifærslur fjármuna eða beingreiðslur, en þó ber ekki skylda til að hefja greiðsluferli ef fjárhæð greiðslunnar er núll.
    g)    Ekki er skylt að framkvæma í greiðslufyrirkomulagi greiðslur og beingreiðslur sem nema hærri fjárhæð en 999 999 999,99 evrum.
2)    Auk krafnanna sem um getur í 1. lið gilda eftirfarandi kröfur um millifærslur fjármuna:
    a)    Gagnastökin sem um getur í a-lið 2. mgr. 5. gr. eru eftirfarandi:
        i.    nafn greiðanda og/eða alþjóðlegt bankareikningsnúmer á greiðslureikningi greiðanda,
        ii.    fjárhæð millifærslu fjármuna,
        iii.    alþjóðlegt bankareikningsnúmer greiðslureiknings viðtakanda greiðslu,
        iv.    nafn viðtakanda greiðslu, ef það er fáanlegt,
        v.    allar upplýsingar um peningasendingu.
    b)    Gagnastökin sem um getur í b-lið 2. mgr. 5. gr. eru eftirfarandi:
        i.    nafn greiðanda,
        ii.    alþjóðlegt bankareikningsnúmer greiðslureiknings greiðanda,
        iii.    fjárhæð millifærslu fjármuna,
        iv.    alþjóðlegt bankareikningsnúmer greiðslureiknings viðtakanda greiðslu,
        v.    allar upplýsingar um peningasendingu,
        vi.    hvers konar auðkenniskóði viðtakanda greiðslu,
        vii.    nafn allra tilvísunaraðila viðtakanda greiðslu,
        viii.    tilgangur með millifærslu fjármuna,
        ix.    flokkur tilgangs með millifærslu fjármuna.
    c)    Auk þess er greiðsluþjónustuveitanda greiðanda skylt að leggja fram eftirfarandi gagnastök til greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu:
        i.    auðkenniskóða banka greiðsluþjónustuveitanda greiðanda (ef ekki er um annað samið á milli greiðsluþjónustuveitendanna sem taka þátt í greiðslunni),
        ii.    auðkenniskóða banka greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu (ef ekki er um annað samið á milli greiðsluþjónustuveitendanna sem taka þátt í greiðslunni),
        iii.    auðkenniskóða greiðslufyrirkomulagsins,
        iv.    uppgjörsdag millifærslu fjármuna,
        v.    tilvísunarnúmer skilaboða greiðsluþjónustuveitanda greiðanda um millifærslu fjármuna.
    d)    Gagnastökin sem um getur í c-lið 2. mgr. 5. gr. eru eftirfarandi:
        i.    nafn greiðanda,
        ii.    fjárhæð millifærslu fjármuna,
        iii.    allar upplýsingar um peningasendingu.
3)    Auk krafnanna sem um getur í 1. lið gilda eftirfarandi kröfur um beingreiðslufærslur:
    a)    Gagnastökin sem um getur í i-lið a-liðar 3. mgr. 5. gr. eru eftirfarandi:
        i.    tegund beingreiðslu (endurtekin, stök, fyrsta, síðasta eða bakfærsla),
        ii.    nafn viðtakanda greiðslu,
        iii.    alþjóðlegt bankareikningsnúmer á greiðslureikningi viðtakanda greiðslu sem tekjufæra skal innheimtuna á,
        iv.    nafn greiðanda, ef það er fáanlegt,
        v.    alþjóðlegt bankareikningsnúmer á greiðslureikningi greiðanda sem á að skuldfæra vegna innheimtunnar,
        vi.    einkvæm umboðstilvísun,
        vii.    dagsetning undirritunar umboðs greiðanda, ef það er gefið út eftir 31. mars 2012,
        viii.    fjárhæð innheimtu,
        ix.    einkvæm umboðstilvísun frá upphaflegum viðtakanda greiðslu sem gaf umboðið út, ef annar viðtakandi greiðslu en sá sem gaf umboðið út hefur tekið við því,
        x.    auðkenni viðtakanda greiðslu,
        xi.    auðkenni upphaflegs viðtakanda greiðslu sem gaf umboðið út, ef annar viðtakandi greiðslu en sá sem gaf umboðið út hefur tekið við því,
        xii.    allar upplýsingar um peningasendingar frá viðtakanda greiðslu til greiðanda,
        xiii.    tilgangur með innheimtu,
        xiv.    flokkur tilgangs með innheimtu.
    b)    Gagnastökin sem um getur í b-lið 3. mgr. 5. gr. eru eftirfarandi:
        i.    auðkenniskóði banka greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu (ef ekki er um annað samið á milli greiðsluþjónustuveitendanna sem taka þátt í greiðslunni),
        ii.    auðkenniskóði banka greiðsluþjónustuveitanda greiðanda (ef ekki er um annað samið á milli greiðsluþjónustuveitendanna sem taka þátt í greiðslunni),
        iii.    nafn tilvísunaraðila greiðanda (ef það er til staðar í rafræna umboðinu),
        iv.    auðkenniskóði tilvísunaraðila greiðanda (ef það er til staðar í rafræna umboðinu),
        v.    nafn tilvísunaraðila viðtakanda greiðslu (ef það er til staðar í rafræna umboðinu),
        vi.    auðkenniskóði tilvísunaraðila viðtakanda greiðslu (ef það er til staðar í rafræna umboðinu),
        vii.    auðkenniskóði greiðslufyrirkomulagsins,
        viii.    uppgjörsdagur innheimtu,
        ix.    tilvísun greiðsluþjónustuveitenda viðtakanda greiðslu vegna innheimtunnar,
        x.    tegund umboðs,
        xi.    tegund beingreiðslu (endurtekin, stök, fyrsta, síðasta eða bakfærsla),
        xii.    nafn viðtakanda greiðslu,
        xiii.    alþjóðlegt bankareikningsnúmer á greiðslureikningi viðtakanda greiðslu sem tekjufæra skal innheimtuna á,
        xiv.    nafn greiðanda, ef það er fáanlegt,
        xv.    alþjóðlegt bankareikningsnúmer greiðslureiknings greiðanda sem á að skuldfæra vegna innheimtunnar,
        xvi.    einkvæm umboðstilvísun,
        xvii.    dagsetning undirritunar umboðsins ef greiðandi veitti umboðið eftir 31. mars 2012,
        xviii.    fjárhæð innheimtu,
        xix.    einkvæm umboðstilvísun frá upphaflegum viðtakanda greiðslu sem gaf umboðið út (ef annar viðtakandi greiðslu en sá sem gaf umboðið út hefur tekið við því),
        xx.    auðkenni viðtakanda greiðslu,
        xxi.    auðkenni upphaflegs viðtakanda greiðslu sem gaf umboðið út (ef annar viðtakandi greiðslu en sá sem gaf umboðið út hefur tekið við því),
        xxii.    allar upplýsingar um peningasendingar frá viðtakanda greiðslu til greiðanda.
    c)    Gagnastökin sem um getur í c-lið 3. mgr. 5. gr. eru eftirfarandi:
        i.    einkvæm umboðstilvísun,
        ii.    auðkenni viðtakanda greiðslu,
        iii.    nafn viðtakanda greiðslu,
        iv.    fjárhæð innheimtu,
        v.    allar upplýsingar um peningasendingu,
        vi.    auðkenniskóði greiðslufyrirkomulagsins.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I.     Inngangur.
    Með frumvarpi þessu, sem samið var í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, er lagt til að innleidd verði í íslenskan rétt ákvæði tveggja reglugerða sem fjalla um greiðslur yfir landamæri í evrum, annars vegar ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 924/2009 um greiðslur yfir landamæri í Bandalaginu og um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 2560/2001 og hins vegar ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 260/2012 um að koma á tæknilegum og viðskiptalegum kröfum fyrir millifærslur fjármuna og beingreiðslur í evrum og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 924/2009. Reglugerðirnar voru teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (hér eftir EES-samninginn) með ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 86/2013, frá 3. maí 2013, sem birt var 31. október 2013 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 61/2013.
    Einnig eru í frumvarpi þessu lagðar til smávægilegar breytingar á lögum nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Meginmarkmið frumvarps þessa er að leiða í íslenskan rétt ákvæði tveggja reglugerða ESB um greiðslur yfir landamæri í evrum. Þar sem ekki var til staðar fullnægjandi lagastoð til innleiðingar á reglugerðunum í íslenskan rétt komu aðrar leiðir til innleiðingar en með lagasetningu ekki til sérstakrar skoðunar.
    Samning og samþykkt reglugerðanna var hluti af heildarendurskoðun Evrópusambandsins á reglum sínum á sviði rafrænnar greiðslumiðlunar. Grunnstoð þeirrar endurskoðunar var tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/64/EB um greiðsluþjónustu á innri markaðnum (e. Payment Services Directive, hér eftir PSD). Með henni var komið á nauðsynlegum grundvelli fyrir myndun innri greiðslumarkaðar á Evrópska efnahagssvæðinu (EES). PSD var innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu. Annar stór þáttur í endurskoðuninni var ný tilskipun Evrópuþingins og ráðsins 2009/110/EB um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og varfærniseftirlit með þeim (þ.e. svokölluð E-Money Directive II eða EMDII) sem innleidd var í íslenskan rétt með lögum nr. 17/2013, um útgáfu og meðferð rafeyris.
    Markmið reglugerðanna er að veita borgurum og fyrirtækjum samræmda, örugga, notendavæna og áreiðanlega greiðsluþjónustu í evrum á samkeppnishæfu verði innan EES, jafnframt því að tryggja að gjöld vegna greiðslna í evrum yfir landamæri ríkja innan EES séu hliðstæð því sem gerist vegna greiðslna í evrum innanlands.
    Fjármálaeftirlitið fer með eftirlit með lögum um greiðsluþjónustu og eru þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu á ákvæðum laganna byggðar á ábendingum frá eftirlitinu. Breytingarnar eru taldar nauðsynlegar til að tryggja fullnægjandi innleiðingu PSD í íslenskan rétt.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarp þetta felur fyrst og fremst í sér innleiðingu á tveimur reglugerðum ESB um greiðslur yfir landamæri í evrum. Rétt þykir að fara hér yfir helstu efnisákvæði þeirra.
    Reglugerð (ESB) nr. 260/2012 breytir nokkrum ákvæðum reglugerðar (EB) nr. 924/2009. Umfjöllun um reglugerð (EB) nr. 924/2009 miðast við ákvæði hennar eins og þau standa eftir þær breytingar og er vikið sérstaklega að breytingunum undir hverjum lið þegar við á. Vert er að nefna að aðildarríkjum er heimilt að útvíkka gildissvið reglugerðar (EB) nr. 924/2009 svo hún taki einnig til innlends gjaldmiðils. Þann 26. nóvember 2013 höfðu aðeins tvö aðildarríki tilkynnt að þau hyggðust nýta sér þessa heimild, þ.e. Svíþjóð og Rúmenía. Ákvæði reglugerðanna eiga því einnig við um greiðslur yfir landamæri sem framkvæmdar eru í Svíþjóð í sænskum krónum og í Rúmeníu í rúmenskum lei. Í frumvarpinu er ekki lagt til að gildissvið reglugerðar (EB) nr. 924/2009 verði útvíkkað svo að hún taki einnig til greiðslna sem framkvæmdar eru á Íslandi í íslenskum krónum. Sú ákvörðun var tekin að viðhöfðu samráði við Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitið og Samtök fjármálafyrirtækja. Umsagnir fyrrgreindra aðila voru allar á þann veg að ekki væri ástæða til að útvíkka gildissviðið, m.a. sökum þess að hætta sé á því að slíkt hefði neikvæð kostnaðaráhrif á notendur greiðsluþjónustu innanlands. Vert er að nefna í þessu samhengi að Norðmenn hyggjast ekki útvíkka gildissvið reglugerðarinnar svo að hún taki til greiðslna í Noregi í norskum krónum á grundvelli sömu sjónarmiða.
    Helstu efnisákvæði reglugerðar (EB) nr. 924/2009 eru eftirfarandi:
     1. Meginreglan um jöfn gjöld.
    
Gjöld sem greiðsluþjónustuveitandi leggur á notanda greiðsluþjónustu fyrir greiðslur í evrum yfir landamæri skulu vera þau sömu og gjöld sem hann leggur á notendur greiðsluþjónustu vegna samsvarandi landsbundinna greiðslna að sömu fjárhæð í evrum. Meginregla þessi sem kemur fram í 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 924/2009 átti aðeins við um greiðslur að lægri fjárhæð en 50.000 evrur, en með 2. mgr. 17. gr. reglugerðar (ESB) nr. 260/2012 var fjárhæðarþakið afnumið.
     2. Skylda greiðsluþjónustuveitanda til að tilkynna notanda um IBAN og BIC.
    Til að auðvelda sjálfvirkni greiðslna skal greiðsluþjónustuveitandi tilkynna notanda um alþjóðlegt bankareikningsnúmer notandans (IBAN) og auðkenniskóða banka greiðsluþjónustuveitandans (BIC). Sams konar kröfur gilda um upplýsingagjöf notanda greiðsluþjónustu til greiðsluþjónustuveitanda eftir því sem við á, með tilliti til eðlis viðkomandi greiðslu. Aðili sem býður vörur eða þjónustu til sölu innan EES og tekur við greiðslum sem falla undir reglugerð (EB) nr. 924/2009 skal upplýsa viðskiptavini um IBAN-númer bankareiknings síns og BIC-númer banka greiðsluþjónustuveitanda.
     3. Aðeins heimilt að leggja á viðbótargjöld ef vikið er frá hefðbundinni framkvæmd að beiðni notanda.
    Greiðsluþjónustuveitanda er heimilt að leggja á viðbótargjöld ef notandi greiðsluþjónustu óskar eftir því að greiðsla sé framkvæmd án þess að notast við IBAN-númer bankareiknings síns og BIC-númer banka greiðsluþjónustuveitanda, að því gefnu að gjöldin séu kynnt notanda með góðum fyrirvara og þau séu samþykkt sérstaklega bæði af notanda greiðsluþjónustu og greiðsluþjónustuveitanda. Gjöldin skulu vera viðeigandi og í samræmi við kostnað greiðsluþjónustuveitanda.
     4. Afnám skýrslugjafar á grundvelli uppgjörs vegna hagskýrslugerðar.
    Afnema skal skyldur sem lagðar eru á greiðsluþjónustuveitendur, um skýrslugjöf á grundvelli uppgjörs vegna hagskýrslna um greiðslujöfnuð, í tengslum við greiðslur viðskiptavina þeirra. Þetta á þó ekki við sé um að ræða samantekin gögn eða aðrar fyrirliggjandi upplýsingar sem máli skipta, að því tilskildu að söfnunin hafi ekki áhrif á samfellda vinnslu (STP) greiðslna og að greiðsluþjónustuveitandi geti framkvæmt hana algerlega sjálfvirkt. Ákvæði 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 924/2009 var upphaflega einungis ætlað að afnema skýrslugjöf í tengslum við greiðslur að lægri fjárhæð en 50.000 evrur, en með 4. mgr. 17. gr. reglugerðar (ESB) nr. 260/2012 var fjárhæðarþakið afnumið.
    Í dag eru í gildi sambærilegar takmarkanir skv. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (EB) nr. 2560/ 2001 um greiðslur yfir landamæri í evrum sem innleidd var í íslenskan rétt með lögum nr. 146/2004, um greiðslur yfir landamæri í evrum. Samkvæmt ákvæðinu skyldu aðildarríki frá 1. júlí 2002 afnema allar skyldur greiðsluþjónustuveitenda varðandi innlenda skýrslugjöf, vegna hagskýrslna um greiðslujöfnuð, hvað varðar greiðslur yfir landamæri að lægri fjárhæð en 12.500 evrur.
    Í VI. kafla um mat á áhrifum er fjallað um áhrif þeirra takmarkana sem fram koma í 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 924/2009, eins og henni var breytt með 4. mgr. 17. gr. reglugerðar (ESB) nr. 260/2012, á innlendar opinberar stofnanir sem sinna hagskýrslugerð.
     5. Verulegar takmarkanir á innheimtu marghliða millibankagjalds.
    Heimild greiðsluþjónustuveitenda til að innheimta svokallað marghliða millibankagjald (e. multilateral interchange fee, MIF) vegna beingreiðslna er takmörkuð. Almennt er óheimilt samkvæmt reglugerðinni að innheimta slíkt gjald, þ.e. nema um sé að ræða greiðslur sem af einhverjum ástæðum er illmögulegt að framkvæma (svokölluð R-viðskipti).
    Helstu efnisákvæði reglugerðar (ESB) nr. 260/2012 eru eftirfarandi:
     1. Krafa um aðgengileika greiðslureikninga.
    Gerð er krafa um að greiðsluþjónustuveitandi sem aðgengilegur er vegna innlendra greiðslu, þ.m.t. beingreiðslu, skuli vera aðgengilegur vegna greiðslna yfir landamæri. Hérlendir greiðsluþjónustuveitendur geta ekki að öllu leyti uppfyllt þessa kröfu sökum gildandi gjaldeyrishafta. Nánar er fjallað um þessar takmarkanir í athugasemdum við ákvæði til bráðabirgða. Einnig er vert að nefna að kröfu um aðgengileika vegna beingreiðslufærslna var áður að finna í 8. gr. reglugerðar nr. 924/2009, en hún var felld út skv. 6. mgr. 17. gr. reglugerðar (ESB) nr. 260/2012.
     2. Krafa um rekstrarsamhæfni greiðslukerfa.
    Gerð er krafa um rekstrarsamhæfni (e. interoperability) greiðslukerfa sem felur fyrst og fremst í sér að sömu reglur skulu gilda um greiðslukerfi sem greiðsluþjónustuveitendur nota til að framkvæma beingreiðslur eða millifærslur í evrum óháð því hvort um greiðslu innanlands er að ræða eða greiðslu yfir landamæri.
     3. Nota skal IBAN til að auðkenna greiðslureikninga og skeyti skulu uppfylla kröfur ISO 20022 XML.
    Við framkvæmd millifærslu fjármuna og beingreiðslufærslu skal nota IBAN-númer til að auðkenna greiðslureikninga. Við sendingu skeyta á milli greiðsluþjónustuveitenda skal form þeirra uppfylla kröfur ISO 20022 XML.
     4. Óheimilt að tilgreina í hvaða aðildarríki mótaðili er.
    Bæði viðtakanda greiðslu og greiðanda er óheimilt að tilgreina í hvaða aðildarríki greiðslureikningur mótaðila skal vera, að því tilskildu að greiðslureikningurinn sé aðgengilegur í skilningi 3. gr. reglugerðar (ESB) nr. 260/2012.
     5. Takmarkanir og sannprófanir beingreiðslufærslna
    Greiðandi skal hafa heimild til að gefa greiðsluþjónustuveitanda sínum fyrirmæli um að takmarka beingreiðsluinnheimtu við ákveðna fjárhæð, tíðni eða hvort tveggja. Greiðandi getur einnig gefið fyrirmæli um að sannprófa skuli hverja beingreiðslufærslu áður en greiðslureikningur er skuldfærður. Auk þess getur hann gefið fyrirmæli um að stöðva beingreiðslur, takmarka þær eða heimila aðeins að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum.
    Báðar reglugerðirnar hafa að geyma nokkur ákvæði sem ætlað er að tryggja eftirfylgni með ákvæðum þeirra þannig að notendur greiðsluþjónustu hafi tæk úrræði til að bregðast við sé ákvæðum reglugerðanna ekki fylgt:
     1. Krafa um einkaréttarleg úrræði utan dómstóla.
    Gerð er krafa um að til staðar séu einkaréttarleg úrræði utan dómstóla til að leysa ágreiningsmál milli notenda greiðsluþjónustu og greiðsluþjónustuveitenda hvað varðar réttindi og skyldur aðila samkvæmt ákvæðum reglugerðanna. Slík úrlausnarleið er þegar til staðar, enda er þeim aðilum sem fengið geta starfsleyfi hér á landi til veitingar greiðsluþjónustu skylt að eiga aðild að úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki, sbr. 2. mgr. 76. gr. laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu, 2. mgr. 42. gr. laga nr. 17/2013, um útgáfu og meðferð rafeyris, og 2. mgr. 19. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
     2. Krafa um viðurlög við brotum á ákvæðum reglugerðanna.
    Gerð er krafa um viðurlög við brotum gegn ákvæðum reglugerðanna og að gerðar séu nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þeim sé beitt. Lagt er til að þessari kröfu verði mætt með heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir. Nánari umfjöllun um heimildir Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir er að finna í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tveimur reglugerðum ESB. Ekki var talin þörf á að skoða sérstaklega samræmi við stjórnarskrá þar sem þær lúta fyrst og fremst að samræmingu krafna sem gerðar eru til greiðsluþjónustuveitenda innan EES um verklag og tæknilegar kröfur vegna framkvæmdar greiðslna.

V. Samráð.
    Á vinnslustigi frumvarps þessa var aflað umsagna frá Fjármálaeftirlitinu, Samtökum fjármálafyrirtækja og Seðlabanka Íslands. Auk þess var fundað með Seðlabankanum og Hagstofu Íslands til að ræða þær takmarkanir sem reglugerð (EB) nr. 924/2009 kveður á um hvað varðar heimildir aðildarríkja til að krefja greiðsluþjónustuveitanda um upplýsingar um greiðslur yfir landamæri í evrum sem nota á við gerð hagskýrslna um greiðslujöfnuð.

VI. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarpið að lögum fylgja því auknar skyldur og eftirlitsverkefni sem falin eru Fjármálaeftirlitinu. Ekki er gert ráð fyrir því að frumvarpið muni hafa aðrar stjórnsýslulegar afleiðingar hér á landi en sem leiðir af auknum eftirlitsskyldum Fjármálaeftirlitsins samkvæmt frumvarpinu. Mat á kostnaði fyrir ríkissjóð greinir í kostnaðarumsögn sem er fylgiskjal með frumvarpi þessu.
    Ekki er gert ráð fyrir því að frumvarpið muni hafa umtalsverðan kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð eða aðrar stjórnsýslulegar afleiðingar hér á landi en sem leiðir af auknum eftirlitsskyldum Fjármálaeftirlitsins samkvæmt frumvarpinu.
    Við mat á áhrifum fyrir íslenska greiðsluþjónustuveitendur var sérstaklega óskað eftir áliti Samtaka fjármálafyrirtækja. Megininntak þeirrar umsagnar er að samtökin telja að innleiðing umræddra reglugerða ESB í íslenskan rétt sé jákvæð enda afar mikilvægt að íslenskir greiðsluþjónustuveitendur starfi eftir sömu reglum og aðrir greiðsluþjónustuveitendur innan EES þegar kemur að greiðslumiðlun með evrur. Jafnframt kemur fram að íslensk fjármálafyrirtæki hafa um nokkurt skeið unnið að undirbúningi fyrir þær breytingar sem reglugerðirnar hafa í för með sé, en þær kalla m.a. á ný tölvukerfi. Að mati samtakanna hafa greiðsluþjónustuveitendur innan EES, þ.m.t. íslenskir greiðsluþjónustuveitendur, ríflegan frest til að laga sig að nýjum reglum og eru íslenskir greiðsluþjónustuveitendur vel undir það búnir að mæta þeim breytingum sem innleiðing reglugerðanna hefur í för með sér.
    Við mat á hugsanlegum áhrifum þeirra takmarkana sem fram koma í 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 924/2009, eins og henni var breytt með 4. mgr. 17. gr. reglugerðar (ESB) nr. 260/ 2012, hvað varðar upplýsingasöfnun frá greiðsluþjónustuveitendum um greiðslur yfir landamæri í evrum vegna hagskýrslugerðar um greiðslujöfnuð, var haft samráð við Seðlabanka Íslands og Hagstofu Íslands. Niðurstaða þess samráðs er sú að upplýsingaöflun Seðlabankans í gegnum svonefnt GV-kerfi, sem einnig er nýtt af Hagstofu Íslands við hagskýrslugerð, samræmist þeim skilyrðum sem sett eru fram í 2. mgr. 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 924/2009, enda er um er að ræða söfnun á samanteknum gögnum eða öðrum fyrirliggjandi upplýsingum sem máli skipta, söfnunin hefur ekki áhrif á samfellda vinnslu (STP) greiðslna og greiðsluþjónustuveitendur framkvæma hana algerlega sjálfvirkt. Upplýsingaöflunin er nauðsynlegur þáttur í vinnslu hagskýrslna, sér í lagi á sviði efnahagstölfræði, og forsenda þess að stofnanirnar geti uppfyllt þær skyldur sem þeim ber, svo sem skyldur Seðlabankans til eftirlits með lögum um gjaldeyrismál, sbr. einkum 14. gr. laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, og 29. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, og almennar skyldur Hagstofu Íslands til hagskýrslugerðar samkvæmt lögum nr. 163/2007, um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð. Að lokum er vert að nefna að upplýsingaöflun og hagskýrslugerð stofnananna er byggð á Evrópugerðum, svo sem reglugerð (EB) nr. 184/2005 um hagskýrslur Bandalagsins að því er varðar greiðslujöfnuð, þjónustuviðskipti við útlönd og beina, erlenda fjárfestingu, með síðari breytingum, og verður að túlka ákvæði 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 924/2009 til samræmis við aðra Evrópulöggjöf á sviði hagskýrslugerðar. Þær takmarkanir sem fram koma í 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 924/2009 eiga því ekki að hafa áhrif á núverandi heimildir stofnananna til öflunar upplýsinga frá greiðsluþjónustuveitendum um greiðslur yfir landamæri í evrum, enda eru skilyrði 2. mgr. sömu greinar um slíka upplýsingaöflun uppfyllt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að reglugerð (EB) nr. 924/2009 verði innleidd í íslenskan rétt.

Um 2. gr.

    Lagt er til að reglugerð (ESB) nr. 260/2012 verði innleidd í íslenskan rétt.

Um 3. gr.

    Lagt er til að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með að farið sé eftir ákvæðum frumvarpsins hvað varðar eftirlitsskylda aðila samkvæmt lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Um 4. gr.

    Lagt er til að Fjármálaeftirlitið hafi sambærilegar heimildir til álagningar stjórnvaldssekta vegna brota gegn ákvæðum frumvarps þessa og samkvæmt lögum nr. 17/2013, um útgáfu og meðferð rafeyris, og lögum nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu. Ljóst er að heimildirnar beinast eingöngu að greiðsluþjónustuveitendum, ekki notendum greiðsluþjónustu, í samræmi við 2. mgr. 11. gr. reglugerðar (ESB) nr. 260/2012. Að öllum líkindum verður stjórnvaldssektaákvæðum frumvarpsins ekki beint gegn einstökum starfsmönnum greiðsluþjónustuveitenda. Ákvæðum um sektarheimildir gegn einstaklingum er þó haldið inni svo gætt sé samræmis við önnur lög á þessu sviði og til að taka á hugsanlegum undantekningartilvikum, svo sem ef um einbeittan brotavilja og ítrekuð brot starfsmanns greiðsluþjónustuveitanda væri að ræða.

Um 5. gr.

    Í lögum nr. 146/2004, um greiðslur yfir landamæri í evrum, er ráðherra veitt heimild til setningar reglugerðar sem ekki hefur verið nýtt. Þar sem frekari útfærsla á ákvæðum frumvarps þessa yrði tæknilegs eðlis þykir rétt að Fjármálaeftirlitið sem lögbær eftirlitsaðili með starfsemi greiðsluþjónustuveitenda, þ.e. greiðslustofnana, rafeyrisfyrirtækja og fjármálafyrirtækja, hafi heimild til slíkrar reglusetningar, ef þurfa þykir. Sérstaklega er vísað til þess að Fjármálaeftirlitið getur sett reglur um það hvað teljist samsvarandi greiðslur í skilningi 1.–2. mgr. 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 924/2009.

Um 6. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi og við gildistöku falli úr gildi lög nr. 146/2004, um greiðslur yfir landamæri í evrum.

Um 7. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu, m.a. til að tryggja fullnægjandi innleiðingu PSD í íslenskan rétt. Tillögurnar eru byggðar á ábendingum frá Fjármálaeftirlitinu sem fer með eftirlit með framkvæmd laganna.
    Í a-lið er lagt til að skerpt sé á orðalagi 1. mgr. 12. gr. laganna til að tryggja að skýrt sé að greiðslustofnanir skuli ávallt reikna eigið fé sitt í samræmi við þær aðferðir sem lýst er í 2.–4. mgr. 12. gr. laganna. Með skýrara orðalagi ákvæðisins er ætlunin að sporna við þeirri hættu að flakkað sé á milli aðferða innan sama reikningsárs eða á milli reikningsára. Að mati Fjármálaeftirlitsins er ekki skýrt af orðalagi núgildandi ákvæðis að greiðslustofnunum sé skylt að halda sömu aðferð við útreikning eigin fjár innan sama reikningsárs.
    Í b-lið er lagt til að notað sé hugtakið greiðslumagn í stað greiðslufjöldi í 3. mgr. 12. gr. Hugtakið greiðslufjöldi vísar til fjölda greiðslna, þ.e. hve margar greiðslur fara í gegnum greiðslustofnanir hverju sinni. Greiðslufjöldinn sýnir hins vegar ekki greiðslumagn, þ.e. greiðsluveltu greiðslustofnunar, þann mælikvarða sem útreikningsaðferðinni (aðferð B) í málsgreininni er ætlað að sýna. Þessu til frekari rökstuðnings vísast til orðalags 1. mgr. 8. gr. PSD sem ákvæði 3. mgr. 12. gr. laga um greiðsluþjónustu er ætlað að innleiða, en þar er hugtakið „payment volume (PV)“ notað.
    Í c-lið er lagt til nýtt orðalag fyrir 4. mgr. 12. gr. laganna, sem fjallar um svokallaða aðferð C við útreikning eigin fjár greiðslustofnunar, til að tryggja samræmi við orðalag PSD og koma í veg fyrir óskýrleika í túlkun. Fjármálaeftirlitið hefur sett fram túlkun á umræddu ákvæði 4. mgr. 12. gr. laganna, þar sem ákvæðið er skýrt til samræmis við orðalag PSD, sem eftirlitið byggir á við skýrsluskil vegna eigin fjár greiðslustofnana. Hægt er að komast hjá fyrirsjáanlegum vandkvæðum vegna túlkunar á umræddu ákvæði með því að skerpa á orðalagi þess með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu. Eins og ákvæðið stendur nú má skilja það á fleiri en einn veg og getur mismunandi túlkun haft umtalsverð áhrif á niðurstöðu útreiknings eigin fjár greiðslustofnunar.
    Í d-lið er lagt til að í stað þess að kveðið sé á um það í 2. mgr. 14. gr. laganna að Fjármálaeftirlitið skuli setja reglur um þær upplýsingar sem greina þarf í umsókn greiðslustofnunar um starfsleyfi til að umsókn teljist fullnægjandi þá sé kveðið á um skyldu eftirlitsins til að setja viðmið um sama efni. Þessi tillagða breyting grundvallast á því að hjá Fjármálaeftirlitinu hefur mótast sú framkvæmd við afgreiðslu umsókna um starfsleyfi fjármálafyrirtækja, sbr. 5. gr. laga nr 161/2002, um fjármálafyrirtæki, að þær upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið óskar eftir eru birtar á gátlistum sem svo eru gerðir aðgengilegir á heimasíðu eftirlitsins. Fjármálaeftirlitið hefur þegar útbúið sambærilegan gátlista vegna greiðslustofnana með þeim atriðum sem það óskar upplýsinga um, skv. 1. og 2. mgr. 15. gr. laga um greiðsluþjónustu. Vandséð er hverju reglurnar bæti við þá framkvæmd að birta gátlista með upplýsingakröfum á heimasíðu, enda tryggir gátlistinn gagnsæi í störfum Fjármálaeftirlitsins auk þess sem kröfur eftirlitsins koma fram á honum með skýrum hætti. Vert er að nefna að ekki er gerð sérstök krafa um að lögbær yfirvöld innan EES setji reglur um þær upplýsingar sem greina þarf í umsókn greiðslustofnunar um starfsleyfi til að umsókn teljist fullnægjandi samkvæmt ákvæðum PSD.
    Í e-lið er lagt til að gildissvið þeirra krafna sem settar eru fram í 1. mgr. 18. gr. laganna um varðveislu fjármuna sé þrengt svo það nái eingöngu til greiðslustofnana en ekki allra greiðsluþjónustuveitenda. Hin tillagða breyting er í samræmi við orðalag frumvarps til laga um greiðsluþjónustu eins og það var lagt fram á 139. löggjafarþingi og ákvæði 9. gr. PSD sem 18. gr. laganna er ætlað að innleiða. Gildissvið ákvæðisins var útvíkkað er frumvarpið var í meðförum þingsins á grundvelli breytingartillögu frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar við 2. umræðu þess. Í nefndaráliti er breytingartillagan ekki öðrum rökum studd en að meiri hlutinn taldi tilefni til að breyta greininni svo hún yrði ítarlegri og næði einnig til greiðsluþjónustuveitenda. Fjármálaeftirlitið hefur gert sérstakar athugasemdir við þessa breytingu sem rétt þykir að taka undir. Í þessu samhengi má benda á að þeir aðilar sem geta haft starfsleyfi sem heimilar þeim greiðsluþjónustu hér á landi eru greiðslustofnanir, rafeyrisfyrirtæki samkvæmt lögum nr. 17/2013, um útgáfu og meðferð rafeyris, og fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Hvað varðar rafeyrisfyrirtæki þá er þegar að finna sambærilegt ákvæði í 2. mgr. 25. gr. laga um útgáfu og meðferð rafeyris. Það er engin þörf á að kveða tvívegis á um skyldu rafeyrisfyrirtækja til að halda fjármunum vegna veitingar greiðsluþjónustu aðskildum. Á fjármálafyrirtækjum hvílir almennt ekki sama skylda að halda fjármunum viðskiptavina sinna sérstaklega aðskildum, en í stað þess hvíla á þeim ríkar eiginfjárkröfur sem m.a. er ætlað að tryggja að eignir þeirra séu ætíð meiri en skuldir. Æskilegt er að evrópskt regluverk á þessu sviði sé samræmt og engin sérstök rök standa til þess að hafa hér á landi sérreglu sem skyldar fjármálafyrirtæki til að halda sérstaklega aðgreindum fjármunum vegna greiðsluþjónustu en ekki öðrum fjármunum, t.d. endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi. Auk þess má benda á að staðsetning ákvæðisins er til þess fallin að valda óskýrleika, enda fjalla önnur ákvæði II. kafla aðeins um greiðslustofnanir og peninga- og verðmætasendingaþjónustu en ekki greiðsluþjónustuveitendur almennt.

Um ákvæði til bráðabirgða

    Taka verður tillit til gildandi gjaldeyrishafta við innleiðingu reglugerðar (ESB) nr. 260/ 2012 í íslenskan rétt og eiga ákvæði 3. gr. hennar sem kveður á um skyldu greiðsluþjónustuveitanda til að tryggja aðgengileika greiðslureikninga ekki við ef sú skylda stangast á við þær takmarkanir sem eru í gildi hér á landi hvað varðar millifærslur fjármuna yfir landamæri. Íslensk stjórnvöld líta svo á að eins lengi og gjaldeyrishöftin eru í gildi þá eigi við undanþága sú sem Ísland nýtur skv. 4. mgr. 43. gr. EES-samningsins og gangi hún framar öðrum ákvæðum samningsins.Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um greiðslur yfir landamæri í evrum.

    Með frumvarpinu er lagt til að innleidd verði í íslenskan rétt ákvæði tveggja reglugerða sem fjalla um greiðslur yfir landamæri í evrum. Reglugerðirnar eru hluti af heildarendurskoðun Evrópusambandsins á reglum sínum á sviði rafrænnar greiðslumiðlunar. Grunnstoð þeirrar endurskoðunar var tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/64/EB um greiðsluþjónustu á innri markaðnum eða Payment Services Directive sem kom á nauðsynlegum grundvelli fyrir myndun innri greiðslumarkaðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Sú tilskipun var innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu. Annar stór þáttur í endurskoðuninni var ný tilskipun Evrópuþingins og ráðsins 2009/110/EB um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og varfærniseftirlit með þeim (þ.e. svokölluð E-Money Directive II eða EMDII) sem innleidd var í íslenskan rétt með lögum nr. 17/2013, um útgáfu og meðferð rafeyris.
    Í frumvarpinu er annars vegar um að ræða ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 924/2009 um greiðslur yfir landamæri í Bandalaginu. Hins vegar er um að ræða ákvæði reglugerðar ESB nr. 260/2012 um að koma á tæknilegum og viðskiptalegum kröfum fyrir millifærslur fjármuna og beingreiðslur í evrum og um breytingu á reglugerð nr. 924/2009. Reglugerðirnar voru teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2013 hinn 3. maí 2013.
    Í frumvarpinu er meginmarkmiðið að veita borgurum og fyrirtækjum örugga, notendavæna og áreiðanlega greiðsluþjónustu í evrum á samkeppnishæfu verði með því að stuðla að samræmdri veitingu greiðsluþjónustu á EES-svæðinu og tryggja að gjöld vegna greiðslna í evrum yfir landamæri ríkja innan svæðisins séu hliðstæð því sem gerist vegna greiðslna í evrum innanlands. Til að tryggja samræmi eru skilgreindar meginreglur þær sem koma fram í reglugerðunum og nánar er fjallað um í frumvarpinu.
    Frumvarp þetta hefur í för með sér minni háttar stjórnsýslulegar breytingar hér á landi. Ekki verður því séð að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, hafi í för með sér teljandi áhrif á fjárhag ríkissjóðs.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Álit frá 24. mars 2009 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB).
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB C 21, 28.1.2009, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 24. apríl 2009 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 27. júlí 2009.
Neðanmálsgrein: 4
(4)    Stjtíð. EB L 344, 28.12.2001, bls. 13.
Neðanmálsgrein: 5
(5)    Stjtíð. ESB L 319, 5.12.2007, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 6
(6)    Stjtíð. ESB L 177, 30.6.2006, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 7
(7)    Stjtíð. EB L 275, 27.10.2000, bls. 39.
Neðanmálsgrein: 8
(8)    Stjtíð. ESB L 124, 20.5.2003, bls. 36.
Neðanmálsgrein: 9
(1)    Stjtíð. ESB C 155, 25.5.2011, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 10
(2)    Stjtíð. ESB C 218, 23.7.2011, bls. 74.
Neðanmálsgrein: 11
(3)    Afstaða Evrópuþingsins frá 14. febrúar 2012 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindunum) og ákvörðun ráðsins frá 28. febrúar 2012.
Neðanmálsgrein: 12
(4)    Stjtíð. ESB C 87 E, 1.4.2010, bls. 166.
Neðanmálsgrein: 13
(5)    Stjtíð. ESB C 349 E, 22.12.2010, bls. 43.
Neðanmálsgrein: 14
(6)    Stjtíð. ESB L 319, 5.12.2007, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 15
(7)    Stjtíð. ESB L 266, 9.10.2009, bls. 11.
Neðanmálsgrein: 16
(8)    Stjtíð. ESB L 331, 15.12.2010, bls. 12.
Neðanmálsgrein: 17
(9)    Stjtíð. EB L 281, 23.11.1995, bls. 31.
Neðanmálsgrein: 18
(10)    Stjtíð. ESB L 195, 27.7.2010, bls. 5.
Neðanmálsgrein: 19
(11)    Stjtíð. ESB L 267, 10.10.2009, bls. 7.
Neðanmálsgrein: 20
(12)    Stjtíð. ESB L 177, 30.6.2006, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 21
(13)    Stjtíð. ESB L 124, 20.5.2003, bls. 36.
Neðanmálsgrein: 22
(14)    Stjtíð. EB L 166, 11.63. 1998, bls. 45.