Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 239. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 371  —  239. mál.




Álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar



um skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2012.


    Nefndin hefur fjallað um skýrsluna á fundi 15. nóvember sl. sem var opinn, þ.e. sendur út á vef Alþingis og Ríkisútvarpsins og er upptaka af honum aðgengileg á heimasíðu nefndarinnar á vef Alþingis.
    Á fundinn komu Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, Hafsteinn Dan Kristjánsson, aðstoðarmaður umboðsmanns, og Berglind Bára Sigurjónsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu umboðsmanns Alþingis.
    Í skýrslunni er yfirlit yfir starfsemi stofnunarinnar og horfur til framtíðar, fjölda mála og kvartana sem berast umboðsmanni auk yfirlits yfir helstu málaflokka hjá embættinu. Í skýrslunni er gerð grein fyrir álitum umboðsmanns í einstökum málum sem hann telur rétt að vekja sérstaka athygli á en önnur eru einungis birt á vef embættisins. Þá er í skýrslunni einnig gerð grein fyrir tólf málum sem umboðsmaður vék sæti í og settur umboðsmaður, Róbert R. Spanó, lauk á árinu.

Fjárhagsstaða embættisins.
    Nefndin fjallaði sérstaklega um fjárhagsstöðu embættisins og horfur til framtíðar á fundi sínum með umboðsmanni. Framlag til embættisins hefur haldist nokkuð óbreytt að raungildi síðastliðin ár. Samhliða því hefur málafjöldinn aukist mjög síðustu ár eða um 40% milli áranna 2010 og 2011, þ.e. úr 377 í 528 mál. Árið 2012 var fjöldi nýrra mála svipaður og 2011 eða 534 og samkvæmt upplýsingum frá umboðsmanni stefnir í að mál á yfirstandandi ári verði rúmlega 500 talsins. Samhliða þessari þróun hefur óloknum málum í lok hvers árs einnig fjölgað, þ.e. í lok árs 2011 voru 157 mál til meðferðar og árið 2012 voru þau 191. Til að bregðast við þessari aukningu hefur embættið fengið aukafjárveitingu og hefur afgreiddum málum því einnig fjölgað. Á milli áranna 2009 og 2010 fara þau úr 319 í 398 afgreidd mál, árið 2011 í 479 og árið 2012 í 502 og hefur fjöldinn aldrei verið meiri. Gera áætlanir ráð fyrir svipuðum fjölda á yfirstandandi ári. Markmið umboðsmanns er að meðalafgreiðslutími mála fari ekki yfir sex mánuði og var hann almennt innan þeirra marka á árinu 2012.
    Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014 er gert ráð fyrir 34,6 millj. kr. lækkun að raungildi frá gildandi fjárlögum. Tvenn tímabundin framlög sem veitt voru í fjárlögum 2013, þ.e. 12 millj. kr. til gerðar fræðsluefnis fyrir starfsmenn ríkis og sveitarfélaga og 20 millj. kr. vegna málafjölda hjá embættinu, falla niður. Þá er lögð til 2,6 millj. kr. lækkun fjárheimildar í samræmi við aðhaldsmarkmið ríkisstjórnarinnar. Fyrir nefndinni kom fram að miðað við þessar tillögur þyrfti starfsmönnum umboðsmanns að fækka um rúma tvo en hjá embættinu starfa auk umboðsmanns 10 menn, þ.e. einn sem sér um allt skrifstofuhald, einn skrifstofustjóri og átta lögfræðingar, sbr. fylgiskjal með áliti þessu um þróun starfsmannafjölda og mála.
    Á fundinum kom fram að lagt væri til að 20 millj. kr. framlagið sem ætlað var til að vinna á málafjöldanum yrði varanlegt framlag til embættisins. Nefndin leggur áherslu á að í ljósi þróunar undangenginna ára og þess mikla fjölda mála sem enn er óafgreiddur sé nauðsynlegt að tryggja embættinu nægilegt fjárframlag til að það geti staðið undir lögbundnu hlutverki sínu.

Frumkvæðismál.
    Á fundinum var fjallað sérstaklega um frumkvæðismál en af 536 nýjum málum á árinu 2012 eru einungis 2 slík mál. Ástæða þess hversu fá frumkvæðismál voru tekin upp á árinu er að megináherslan hefur verið lögð á að stytta afgreiðslutíma mála hjá embættinu og ljúka eldri málum. Nefndin tekur fram að eftirlit umboðsmanns með stjórnvöldum er eftiráeftirlit þar sem borgararnir kvarta til umboðsmanns þegar kæruleið innan stjórnsýslunnar hefur verið tæmd. Með frumkvæðiseftirliti er umboðsmanni unnt að taka ákveðið mál til meðferðar, málsmeðferð til almennrar athugunar eða starfsemi stjórnvalds t.d. með eftirlitsferðum. Með því getur umboðsmaður stuðlað að almennum umbótum í stjórnsýslunni án þess að vera með tiltekið mál einstaklings eða lögaðila til meðferðar en fyrir nefndinni kom fram að nánast daglega koma upp mál sem gefa umboðsmanni tilefni til að velta fyrir sér m.a. hvort borgararnir fái notið þeirra réttinda sem þeim eru ákveðin með lögum.
    Í skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2011 benti hann á að með óbreyttum fjárveitingum yrði m.a. ekki kostur á að sinna frumkvæðismálum að ráði. Þá benti hann einnig á að í hópi starfsmanna hans þyrftu að vera einn eða fleiri starfsmenn sem gætu helgað sig þessum verkefnum eingöngu. Nefndin telur nauðsynlegt að umboðsmaður geti sinnt frumkvæðismálum hvort sem það eru einstök mál eða kerfislæg vandamál sem hann verður var við í starfi sínu. Með því nái hann að snerta á málum sem brenna á samfélaginu á hverjum tíma auk þess sem slíkt hefur ákveðið forvarnargildi.

Tafir hjá stjórnvaldi.
    Fyrir nefndinni kom fram að 105 af 536 skráðum málum, þ.e. tæplega 20%, falla undir þennan flokk en fækkar hlutfallslega nokkuð milli ára sem að sögn umboðsmanns geti bent til þess að sums staðar fari álag minnkandi í stjórnsýslunni. Samhliða því gera borgararnir auknar kröfur til skjótrar afgreiðslu með nýjum samskiptamátum og auknum hraða í stjórnsýslunni. Fram kom að umboðsmaður hefur m.a. vegna aukins málafjölda bent þeim sem kvarta vegna tafa hjá stjórnvöldum að ganga sjálfir eftir svörum hjá stjórnvöldum. Bendir umboðsmaður á að bættar leiðbeiningar og aukið upplýsingaflæði geti að nokkru leyti komið í veg fyrir óánægju vegna tafa. Nefndin tekur undir það sjónarmið og vekur athygli á að hún hefur að tillögu þingmanns fjallað um skýrslubeiðni til forsætisráðherra sem varðar kæruleiðir innan opinberrar stjórnsýslu sem geti verið einhvers konar leiðarvísir fyrir borgarana sem og fyrir starfsmenn sem hafa leiðbeiningar og frumkvæðisskyldu gagnvart borgurunum. Nefndin telur að það væri til mikilla bóta ef ráðuneytin gætu hvert og eitt og þær stofnanir sem undir þau heyra sett skýrar leiðbeiningar á heimasíður sínar um kæruleiðir í málum sem heyra undir þau sem og upplýsingar um tímamörk sem gilda í hverju tilfelli þannig að auðvelt væri fyrir borgarana að nálgast upplýsingar um þær. Nefndin beinir því til ráðuneytanna að skoða hvort unnt sé að verða við því.

Úrskurðarnefndir.
    Á fundinum var einnig fjallað um úrskurðarnefndir en umboðsmaður vakti athygli á því á ný að nægjanleg kunnátta nefndarmanna á reglum stjórnsýsluréttarins sé mikilvæg forsenda þess að vel takist til í starfsemi hlutaðeigandi nefndar. Í þessar nefndir veljast oft lögmenn sem sinna þeim samhliða öðrum störfum og hafi þeir iðulega meiri þekkingu á reglum einkamálaréttarins en stjórnsýsluréttarins. Bendir umboðsmaður einnig á að þeir sem sitja í slíkum nefndum, og ekki síður ráðherra eða ráðuneyti sem ber ábyrgð á viðkomandi málaflokki gagnvart þinginu, verði að gæta að því að aðrir þættir í starfsemi nefndarinnar séu í réttu horfi. Gögn nefndar séu til að mynda skýrlega aðskilin frá gögnum viðkomandi lögmannsstofu þannig að óviðkomandi aðilar, t.d. aðrir starfsmenn lögmannsstofunnar, hafi ekki aðgang að málsgögnum sem falla undir trúnaðar- og þagnarskyldureglur sem geta verið viðkvæmar. Þá bendir hann á að þrátt fyrir að ráðherra beri takmarkaða ábyrgð á störfum sjálfstæðra kæru- og úrskurðarnefnda er ekki til neitt sem kallast stjórnsýsla án ábyrgðar. Ráðherra hefur sem fyrr ákveðnar eftirlitsheimildir gagnvart slíkum nefndum og verður eftir atvikum að gera viðhlítandi ráðstafanir til að koma starfsemi þeirra í lögmætt horf, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 115/2011. Ráðuneyti mættu því að ósekju árétta þessi sjónarmið við þá lögmenn sem fengnir eru til verkefna í stjórnsýslunni og jafnvel taka til athugunar að setja saman staðlaðar leiðbeiningar til nefndarmanna þar sem viðhlítandi umgjörð um starfsemi þessara nefnda er lýst, svo sem um skráningu og vörslu gagna. Nefndin tekur undir þessar ábendingar umboðsmanns og telur mikilvægt að gætt sé að persónuvernd í meðferð gagna hjá úrskurðarnefndum og beinir því til ráðuneytanna að hafa eftirlit með starfsemi þeirra.

Málaflokkar.

    Á fundi nefndarinnar vakti umboðsmaður athygli á því að menntamál eru nú meðal stærstu málaflokka hjá embættinu eða 6,9%. Málum sem vörðuðu námslán og námsstyrki fjölgaði milli ára en á fundinum kom fram að ástæðan fyrir þessari miklu aukningu er sú að í upphafi árs 2012 bárust 12 nokkurn veginn samhljóða kvartanir grunnskólanema sem fóru fram á að ekki yrði fallið frá því fyrirkomulagi við innritun nýnema í framhaldsskóla, sem tekið var upp vorið 2010, að nemendum í tilteknum grunnskólum var veittur forgangur að 45% nýnemaplássa í vissum framhaldsskólum með hliðsjón af búsetu og samgöngum. Þeim var bent á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við mennta- og menningarmálaráðuneytið en að öðru leyti aðhafðist umboðsmaður ekkert.
    Stærstu málaflokkarnir eru að öðru leyti skattar og gjöld 7,6%, málefni opinberra starfsmanna 7,3%, almannatryggingar 4,3% og lögreglu- og sakamál 3,5%. Þá fjölgaði kvörtunum vegna húsnæðismála úr níu í fjórtán. Flest varðandi svokallaða „110%-leið“. Mál sem lutu að atvinnuleysistryggingum, atvinnumálum og félagslegum réttindum stóðu hlutfallslega nokkurn veginn í stað.

Málsmeðferðarreglur.
    Athuganir umboðsmanns beinast mest að því hvort og þá hvernig stjórnvöld hafa í einstökum málum fylgt þeim málsmeðferðarreglum sem gilda um viðkomandi mál. Þar koma til bæði ákvæði stjórnsýslulaga og hinar óskráðu grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins. Oftast reynir á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, rökstuðningsreglu 22. gr. laganna og málshraðareglu 9. gr. laganna og hefur ekki orðið teljandi breyting á því á árinu 2012.

Óskráðar grundvallarreglur.
    Umboðsmaður vakti athygli nefndarinnar á mikilvægi þess að stjórnvöld beiti einnig hinum óskráðu grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins og tók sem dæmi kærufrest, þ.e. ef kæra berst að liðnum fresti. Í því sambandi bendir hann á að nauðsynlegt sé að skoða hvort upphafleg tilkynning um ákvörðunina hafi verið í samræmi við lögboðinn birtingarhátt, hvort fresturinn sé réttilega afmarkaður og reiknaður og hvort engu síður sé ástæða til að taka málið til efnismeðferðar. Við slíka skoðun hefur mikilvægi réttindanna sem um ræðir þýðingu. Sem dæmi nefnir hann mál þar sem úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða vísa frá kæru manns um ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til hans þar sem hún var talin of seint fram komin. Óskaði umboðsmaður eftir afstöðu nefndarinnar til þess hvort rétt væri að líta á bréf sem maðurinn hafði sent Vinnumálastofnun í kjölfar ákvörðunarinnar sem beiðni um endurupptöku málsins og hvaða þýðingu þau samskipti hefðu við útreikning kærufrests í málinu. Málinu lyktaði með þeim hætti að ákveðið var að taka málið til nýrrar meðferðar. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og telur í þessu sambandi mikilvægt að umboðsmaður fái tækifæri til að vinna að leiðbeiningum og kennsluefni fyrir starfsmenn stjórnvalda þar sem slík dæmi eru nefnd.
    Í þessu sambandi má einnig nefna að í skýrslunni bendir hann á í tengslum við leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, að þó leiðbeiningar séu almennar þurfi að veita þeim sem eftir því leita einstaklingsbundnar leiðbeiningar og einnig að stjórnvaldi geti borið að eigin frumkvæði að leiðbeina aðila ef hann þarf augljóslega á því að halda. Það á ekki síst við þegar tekin hefur verið íþyngjandi ákvörðun en einstaklingur á kost á öðrum úrræðum sem kunna að gera stöðu hans betri en ella. Markmiðið ætti ávallt að vera að koma í veg fyrir að hagsmunir málsaðilans skerðist vegna vankunnáttu hans eða mistaka. Því ríkari sem hagsmunirnir eru, því meiri kröfur eru gerðar til stjórnvalda að þessu leyti, m.a. til þess hversu ítarlegar og nákvæmar leiðbeiningarnar þurfa að vera. Nefndin tekur undir mikilvægi þess að starfsfólk stjórnsýslunnar sé meðvitað um þessa frumkvæðisskyldu sína og telur að hér sé nauðsynlegt að fá gott kennsluefni.
    Í skýrslunni nefnir umboðsmaður dæmi um málsmeðferð við afturköllun stjórnvaldsákvörðunar en samkvæmt 25. gr. stjórnsýslulaga getur stjórnvald að eigin frumkvæði afturkallað ákvörðun sem hefur verið tilkynnt aðila máls. Það er hins vegar háð þeim skilyrðum að afturköllunin sé ekki til tjóns fyrir aðilann eða að ákvörðunin sé ógildanleg. Ef hvorugt þessara skilyrða er fyrir hendi getur komið til álita að afturkalla ákvörðun á ólögfestum grundvelli. Heimildir til afturköllunar stjórnvaldsákvörðunar á ólögfestum grundvelli ráðast einkum af hagsmunamati þar sem hagsmunir málsaðilans og tillit til réttmætra væntinga hans af því að ákvörðun standi óbreytt er metið gagnvart þeim hagsmunum sem mæla með því að ákvörðunin verði afturkölluð. Fjárhagslegir hagsmunir hins opinbera hafa almennt verið taldir til svokallaðra veikra afturköllunarástæðna. Nefndi umboðsmaður sem dæmi að sveitarfélag afturkallaði ákvörðun um fjárhagsaðstoð og gerði viðkomandi einstaklingi að endurgreiða styrk sem hafði verið greiddur á grundvelli ákvörðunarinnar. Afturköllunin byggði á ákvæði í reglum sveitarfélagsins þar sem fram kom að ef greidd væri hærri fjárhagsaðstoð en bæri mætti endurkrefja styrkþega. Bar hann málið undir úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála sem taldi sig ekki geta fjallað um málið þar sem það væri afgreitt á grundvelli almennra reglna kröfuréttarins. Eftir að umboðsmaður óskaði eftir afstöðu nefndarinnar til þess hvort og þá hvernig það samrýmdist úrskurðarskyldu nefndarinnar samkvæmt lögum að fjalla ekki efnislega um hvort röksemdir sveitarfélagsins væru í samræmi við lög um félagsþjónustu sveitarfélaga og reglur sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð var málið tekið upp á ný. Nefndin bendir á að hér er enn eitt dæmið sem nauðsynlegt er að fræða starfsmenn stjórnsýslunnar um og hefur væntingar til þess að umboðsmaður nái að vinna að ritun kennsluefnis og geti þar með nýtt það fjármagn sem veitt var til embættisins á yfirstandandi ári til þess.

Rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga.
    Stjórnvöldum er skylt að sjá til þess að nægilegar upplýsingar liggi fyrir áður en ákvörðun er tekin í máli. Umboðsmaður tók tvö dæmi, fyrra varðaði beiðni foreldris um undanþágu fyrir grunnskólanema frá skyldunámi í íþróttum vegna hættu á álagsmeiðslum sem byggðist á sérfræðilegu mati læknis. Skólastjórinn og síðar ráðuneytið höfnuðu beiðninni en öfluðu ekki annarra sérfræðilegra gagna til að hrekja þau gögn sem foreldrið hafði lagt fram. Síðara dæmið varðaði umönnunargreiðslur vegna barns sem voru lækkaðar af Tryggingastofnun og staðfesti úrskurðarnefnd almannatrygginga þá ákvörðun. Móðir barnsins óskaði ítrekað eftir að ákvörðunin yrði tekin til endurskoðunar með vísan til þess að staða þess hefði ekki batnað. Í málinu lágu ekki fyrir nein gögn um að breyting hefði orðið á ástandi barnsins en móðirin lagði fram læknisfræðileg gögn og álit fagaðila um að ástandið væri í besta falli óbreytt. Umboðsmaður gat ekki séð að áður en lækkunin var ákveðin hefði farið fram nein sjálfstæð gagnaöflun hjá stofnuninni eða nefndinni. Umboðsmaður taldi því niðurstöður beggja mála ekki í samræmi við lög.

Réttaröryggi og málsmeðferð á kærustigi.
    Stjórnsýslukæra er réttaröryggisúrræði sem að öllu jöfnu felur í sér að málsaðili getur borið stjórnvaldsákvörðun undir æðra stjórnvald til þess að fá hana fellda úr gildi eða fá henni breytt. Æðra stjórnvaldið sinnir þannig eftirlits- og réttaröryggishlutverki. Þegar því berst kæra á ákvörðun lægra setts stjórnvalds ber því að eigin frumkvæði að gæta að því hvort lægra setta stjórnvaldið hafi afgreitt mál í samræmi við lög að bæði formi og efni til. Ekki er byggt á því að málsforræði og sönnunarfærsla sé að öllu leyti í höndum málsaðila. Þá er almennt ekki gengið út frá því að það sé hlutverk stjórnvalds á kærustigi að skera úr um ágreining á milli lægra setts stjórnvalds og málsaðila með sama hætti og ef um tvo einkaréttarlega aðila væri að ræða. Nefndin tekur undir það og leggur áherslu á það þjónustuhlutverk sem stjórnvöldum er falið að sinna gagnvart borgaranum.

Endurskoðun á lögum um umboðsmann Alþingis.
    Á fundi nefndarinnar kom fram að vinnu nefndar, sem var skipuð í nóvember 2011 til að endurskoða lög um umboðsmann Alþingis, sé að verða lokið. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mun fá frumvarp til breytinga á lögum til umfjöllunar og mun í þeirri vinnu skoða þær ábendingar sem koma fram í skýrslu umboðsmanns m.a. varðandi það hvernig starfssviði umboðsmanns skuli háttað gagnvart stjórnsýslu dómstólanna og einnig þá spurningu sem hann veltir upp í skýrslu sinni hvort þörf er á að lögfesta sérstaka bótareglu í tilefni af lögbrotum við ráðningar í opinber störf. En einn af stærstu málaflokkunum hjá umboðsmanni varðar málefni opinberra starfsmanna og lýtur verulegur hluti þeirra mála að ráðningum í opinber störf.

Viðbrögð stjórnvalda við erindum umboðsmanns.
    Þrátt fyrir að stundum verði tafir á svörum hjá einstaka stjórnvöldum hafa þau almennt brugðist vel við fyrirspurnum og öðrum erindum umboðsmanns. Frá því eru þó undantekningar. Á árinu 2012 barst umboðsmanni bréf frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála þar sem fram kom að nefndin teldi vafa leika á um hvort rétt væri að svara tilteknum fyrirspurnum hans og láta í ljós viðhorf til efnis máls umfram það sem kæmi fram í úrskurði nefndarinnar í máli einstaklingsins sem lagði kvörtunina fram. Telur umboðsmaður að þessi afstaða samrýmist illa þeim sjónarmiðum sem búa að baki löggjöf um störf umboðsmanns Alþingis. Nefndin tekur undir það og tekur fram að umboðsmaður Alþingis er hluti af því eftirliti sem þingið hefur með framkvæmdarvaldinu. Umboðsmaður kemur fram sem sérstakur trúnaðarmaður þingsins gagnvart borgurunum og hefur það lögboðna hlutverk að gæta réttinda þeirra gagnvart stjórnvöldum landsins þannig að þeir fái þau réttindi sem Alþingi hefur ákveðið með lögum.

Ábendingar umboðsmanns.
    Umboðsmaður vakti athygli á því að hann hefur í auknum mæli sent stjórnvöldum ábendingar samhliða því að álitum fer fækkandi. Þau mál sem þarna er um að ræða eru þess efnis að þær ábendingar, sem umboðsmaður hefur, breyta ekki neinu um niðurstöðu málsins gagnvart borgaranum. Þarna geta verið ábendingar varðandi ágalla á löggjöf og nefndi umboðsmaður dæmi sem vörðuðu almannatryggingalöggjöf.
    Nefndin hefur einnig fjallað sérstaklega um ábendingu umboðsmanns til Alþingis sem forseti þingsins sendi nefndinni til umfjöllunar. Þar vekur umboðsmaður athygli á umfjöllun í tveimur álitum sínum er lúta að notkun á hugtakinu „tilmæli“ af hálfu stjórnvalda og kemur um leið þeirri ábendingu á framfæri við Alþingi að með hliðsjón af réttaröryggissjónarmiðum verði þess gætt að hugtakið sé í lögum aðeins notað yfir óskuldbindandi tilmæli stjórnvalda til borgaranna.
    Nefndin telur mikilvægt að þingið sinni því aðhaldshlutverki sem því er falið gagnvart framkvæmdarvaldinu og leggur því áherslu á mikilvægi þess að skýrslan verði rædd á þingfundi þannig að athygli þingmanna og annarra sé vakin á skýrslunni. Þá er einnig mikilvægt að þingmenn fylgist með þeim álitum sem umboðsmaður gefur út og eru aðgengileg á heimasíðu hans og nýti í sínum störfum.
    Brynjar Níelsson var fjarverandi við afgreiðslu álitsins.

Alþingi, 12. desember 2013.



Ögmundur Jónasson,


form., frsm.


Birgitta Jónsdóttir.


Helgi Hjörvar.



Haraldur Einarsson.


Pétur H. Blöndal.


Sigurður Páll Jónsson.



Valgerður Bjarnadóttir.


Willum Þór Þórsson.


Fylgiskjal I.


Umboðsmaður Alþingis.
Málafjöldi og fjárveitingar 2005–2013 .

Ár Innkomin mál Afgreidd mál Fjöldi lögfræðinga Innkomin mál á lögfræðing Afgreidd mál á lögfræðing Fjárveiting og uppbætur Rekstur
2005 314 325 6,6 47,6 49,2 82,7 82,4
2006 273 282 7 39 40,3 96 93,6
2007 308 265 6,7 46 39,6 109,3 101,4
2008 346 354 7,3 47,4 48,5 124,8 127,1
2009 338 319 7 48,3 45,6 123,6 121,7
2010 377 398 6,9 54,6 57,7 114,9 113,3
2011 528 479 6,4 82,5 74,8 115 115,4
2012 534 502 7,35 67,9 63,9 139 142,5
2013* 508 500 7,54 67,4 66,3 161,5 164,5

*Aðrar tölur en fjárveiting skv. fjárlögum eru áætlaðar.





Fylgiskjal II.


Viðbrögð stjórnvalda við sérstökum tilmælum umboðsmanns Alþingis.

Ár Farið að tilmælum Ekki farið að tilmælum Mál enn til meðferðar* Ekki leitað aftur til stjórnvalds
2001 26 2 6 9
2002 18 1 1 7
2003 17 0 0 4
2004 9 2 2 5
2005 13 1 2 4
2006 7 1 2 4
2007 7 0 0 2
2008 2 2 0 3
2009 6 1 0 9
2010 7 1 0 7
2011 11 1 0 6
2012 12 4 0 1
Samtals 135 16 21 61

*Þegar skýrsla umboðsmanns fyrir næstliðið ár var unnin.

Viðbrögð stjórnvalda við almennum tilmælum umboðsmanns Alþingis.

Ár Farið að tilmælum Ekki farið að tilmælum Mál enn til meðferðar*
2002 13 0 1
2003 19 0 0
2004 25 0 0
2005 21 0 2
2006 26 2 3
2007 12 2 3
2008 18 0 5
2009 23 1 6
2010 14 0 0
2011 27 0 0
2012 17 0 1
Samtals 215 5 21

*Þegar skýrsla umboðsmanns fyrir næstliðið ár var unnin.