Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 95. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 381  —  95. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti
og mengunarvarnir (færanleg starfsemi og EB-gerðir:
umhverfismerki, loftgæði og efri losunarmörk).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin fékk á sinn fund Sigurbjörgu Sæmundsdóttur og Írisi Bjargmundsdóttur frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti til að kynna frumvarpið. Nefndinni bárust umsagnir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og sameiginleg umsögn frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fiskvinnslustöðva og Landssambandi íslenskra útvegsmanna.
    Frumvarpið tekur til þriggja óskyldra efnisþátta, þ.e. umhverfismerkja, færanlegrar starfsemi og innleiðingar EB-tilskipana um loftgæði. Megintilgangur frumvarpsins samkvæmt athugasemdum við það er að innleiða þrjár EB-gerðir og að styrkja framkvæmd norræna umhverfismerkisins hér á landi. Þær gerðir sem lagt er til að verði innleiddar eru reglugerð (EB) nr. 66/2010 um umhverfismerki Evrópusambandsins, tilskipun 2008/50/EB um gæði andrúmslofts og hreinna loft í Evrópu og tilskipun 2001/81/EB um landsbundin efri mörk losunar fyrir tiltekin loftmengunarefni. Frumvarp um þetta efni var lagt fram á 140. og 141. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið var sent ýmsum aðilum til kynningar á fyrri stigum og jafnframt sett á heimasíðu umhverfisráðuneytis, nú umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Unnið var úr umsögn sem barst frá Samtökum heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi og aðilum úr atvinnulífinu og tók frumvarpið nokkrum breytingum í framhaldi af því.
    Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða og nokkur heilbrigðieftirlitssumdæmi skiluðu umsögnum um málið á 140. þingi og gerðu þá nokkrar athugasemdir við frumvarpið. Þeim athugasemdum hefur að mestu verið mætt í því frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi.
    Umsagnaraðilar úr atvinnulífinu gagnrýna að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Umhverfisstofnun annist umsjón löggjafarinnar og daglegan rekstur umhverfismerkisins Svansins. Þeir telja að nauðsynlegt sé að Svanurinn verði sjálfstæð rekstrareining og fjárhag merkisins ekki blandað saman við annan rekstur Umhverfisstofnunar. Í umfjöllun um málið kom fram að norræna umhverfismerkið Svanurinn hefur verið í notkun á Norðurlöndunum í rúma tvo áratugi. Svaninum er stjórnað af sameiginlegri nefnd, norrænu umhverfismerkisnefndinni (NMN, Nordisk Miljömärkningsnämd). Nefndin mótar sameiginlega stefnu Svansins og ákveður fyrir hvaða vöruflokka og þjónustu skuli útbúa vottunarskilyrði. Í hverju landi er svo umhverfismerkisráð sem sér um stefnumótun í samræmi við norræna stefnu og þá stofnun sem hefur umsjón með daglegum rekstri Svansins. Umhverfisstofnun hefur umsjón með Svaninum á Íslandi. Í því felst m.a. þátttaka í norrænu samstarfi, ráðgjöf og aðstoð við íslensk fyrirtæki sem sækja um Svaninn, vottun og leyfisveitingu og kynningu á Svaninum, ásamt skrásetningu á erlendum Svansmerktum vörum. Nefndin bendir á að aldrei hafi verið markmið á norrænum vettvangi að Svanurinn mundi standa undir sér fjárhagslega og er hann styrktur á ýmsan hátt af Norrænu ráðherranefndinni og viðkomandi stjórnvöldum. Nefndin telur hins vegar mikilvægt að rekstur Svansins sé fjárhagslega aðgreindur frá öðrum verkefnum Umhverfisstofnunar með sérstökum rekstrarreikningi.
    Aðilar úr atvinnulífinu setja fram áhyggjur af ákvæði frumvarpsins sem fjallar um færanlega starfsemi. Þeir leggja til að ákvæðið verði fellt úr frumvarpinu og málinu vísað til umfjöllunar í starfshóp ráðuneytisins þar sem fjallað er um tilhögun og framkvæmd eftirlits og leyfisveitingar og hvernig þeim verður best fyrirkomið til frambúðar. Nefnd eru þau rök að heilbrigðiseftirlitin séu sjálfstæð og geti lagt mismunandi mat á þær kröfur sem gerðar séu og þannig geti komið upp tilvik þar sem eitt heilbrigðiseftirlitssvæði meti tilteknar kröfur í starfsleyfi öðruvísi en ætlunin hafi verið að gert yrði af því umdæmi sem gefur leyfið út. Í umsögnunum kemur fram sú skoðun að hægt sé að taka undir að á ferðinni sé ákveðinn vandi en að unnt sé að leysa hann á annan hátt en með því að fjölga þeim eftirlitsaðilum sem fjalli um tiltekna starfsemi, sem eðli síns vegna getur færst á milli umdæma. Nefndin telur mikilvægt að koma þessu fyrirkomulagi á þannig að tryggt sé að færanleg starfsemi sé háð eftirliti hvar sem hún fer fram og að hægt sé að beita þeim þvingunarúrræðum sem lögin gera ráð fyrir sé þess þörf.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Jón Þór Ólafsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. desember 2013.



Höskuldur Þórhallsson,


form., frsm.


Katrín Júlíusdóttir.


Haraldur Einarsson.



Birgir Ármannsson.


Brynjar Níelsson.


Katrín Jakobsdóttir.



Róbert Marshall.


Vilhjálmur Árnason.