Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 199. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 388  —  199. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2013.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur haft frumvarpið til umfjöllunar eftir 2. umræðu og fengið ríkisendurskoðanda á fund sinn til þess að ræða millifærslur fjárheimilda sem gerðar voru við 2. umræðu.
    Meiri hlutinn gerir breytingartillögu við tekjugrein frumvarpsins þar sem nú er gert ráð fyrir að framlag Happdrættis HÍ til Háskóla Íslands hækki um 150 m.kr. til samræmis við breytingu á fjármögnun sem gerð var á gjaldahlið frumvarpsins við 2. umræðu. Breytingartillögur við sundurliðun 2 leiða til 230 m.kr. hækkunar gjalda. Á rekstrargrunni er því áætlað að heildartekjur ársins nemi 559.692,6 m.kr. og heildargjöldin verði 579.431,2 m.kr. Tekjujöfnuður verður því neikvæður um 19.738,6 m.kr.
    Í breytingartillögunni eru tvær gjaldabreytingar til hækkunar. Þá eru fjórar gjaldabreytingar þar sem hluti af millifærslum hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem gerðar voru við 2. umræðu eru dregnar til baka. Millifærslurnar eru ekki í samræmi við anda fjárreiðulaga og verklag rammafjárlagagerðar. Eðlilegra er að væntanlegur afgangur á nokkrum verkefnum í árslok 2013 falli niður og þess í stað óski ráðuneytið eftir fjárveitingum í tengslum við verkefni um framkvæmd nýrrar skólastefnu þegar kemur að því að hrinda henni í framkvæmd.
    Þá leggur meiri hlutinn til breytingu á 4. gr. frumvarpsins (6. gr. fjárlaga). Þar er lagt til að fallið sé frá tölulið 6.20 þar sem óskað var eftir heimild til að leigja húsnæði í Perlunni af Reykjavíkurborg fyrir Náttúruminjasafn Íslands. Leigusamningurinn var undirritaður 13. mars síðastliðinn, óuppsegjanlegur til 15 ára og var þá miðað við að greiðslur hæfust ári síðar. Ekki var leitað tilboða við gerð leigusamingsins og því brotin jafnræðisregla sem sett er í lögum um opinber innkaup. Ekki var heldur leitað eftir sérfræðiaðstoð frá Ríkiskaupum eða öðrum ríkisstofnunum sem starfa á þessu sviði. Árlegar verðtryggðar leigugreiðslur hefðu numið a.m.k. 83 m.kr. á heilu ári, eða meira en 1,2 milljörðum kr. á leigutímanum. Áætlað var að uppsetning safnsins kostaði 500 m.kr. og árlegur rekstrarkostnaður var áætlaður um 130 m.kr. Í fjárlögum yfirstandandi árs voru áætlaðar 400 m.kr. vegna þessa, en önnur fjármögnun var ekki til staðar og ekki er áætlað fyrir leigugjöldum eða öðrum rekstrarkostnaði á næsta ári.
    Meiri hlutinn vekur sérstaka athygli á því að auknar ríkistekjur vegna útboðs á tíðniréttindum færast til Fjarskiptasjóðs eins og lögboðið er og fram kom í breytingartillögu við 2. umræðu. Nú er lagt til að þær nýtist til nýrra útgjalda við ýmis verkefni vegna fjarskiptakerfa sem talið er að einkafyrirtæki muni ekki ráðast í vegna markaðsforsendna. Eins og kunnugt er stóð sjóðurinn fyrir mjög mikilli uppbyggingu á þessu sviði á landsbyggðinni fyrir nokkrum árum, svo sem með uppbyggingu á háhraðaneti og GSM-samböndum, eða sem svaraði til um 2.500 m.kr., en þeim fjármunum var ráðstafað af söluandvirði Landsímans á sínum tíma.
    Áður var gert ráð fyrir að nýta tekjur sjóðsins til þess að fjármagna hluta af samningi hans við fjarskiptafyrirtækið Farice. Fjarskiptasjóði ber að greiða tæpar 420 m.kr. á þessu ári og tæpar 400 m.kr. árið 2014 vegna samningsins til að tryggja almannahagsmuni af starfrækslu félagsins á tveimur sæstrengjum milli Íslands og Evrópu. Samningsfjárhæðirnar byggjast á viðskiptaáætlun félagsins en ekkert hámark er á árlegu framlagi ríkissjóðs þannig að samningnum er í reynd ætlað að fjármagna rekstrarhalla félagsins. Samtals er áætlað að greiðslur Fjarskiptasjóðs til félagsins á þremur árum 2012–2014 nemi um 1.170 m.kr. Ef viðskiptaáætlanir sem miðast m.a. við sölu til gagnavera ganga ekki eftir leiðir það til enn hærri greiðslna úr ríkissjóði á næstu árum. Þar að auki hvílir ríkisábyrgð á 7 milljarða kr. lántökum Farice. Allt verkefnið felur því í sér mikla áhættu fyrir ríkissjóð.
    Þrátt fyrir þessa stöðu er gerð tillaga um að nýta markaðar tekjur sem Fjarskiptasjóður hefur af uppboðum á tíðnisviðum til að fjármagna ný verkefni. Það breytir því ekki að sjóðurinn þarf að fjármagna framangreindar skuldbindingar vegna samningsins við Farice. Tillagan felur því í sér 195 m.kr. útgjaldaaukningu ríkissjóðs.
    Loks leggur meiri hlutinn til breytingar á fjármögnun í sjóðstreymi og lækkun á heimild til erlendrar lántöku ríkissjóðs úr 128 milljörðum kr. í 108 milljarða kr. Endurmat á lánahreyfingum miðast nú við að staða útistandandi ríkisvíxla lækki um 3 milljarða kr. frá frumvarpinu og að dregið verði úr langtímalántökum um 20 milljarða kr. Þá lækka afborganir af teknum langtímalánum um 1 milljarð kr. Útgáfa ríkisbréfa hefur verið minni en áætlað var á síðustu mánuðum. Gert er ráð fyrir að sjóðstreymi ríkissjóðs verði að öðru leyti breytt í samræmi við áhrif af þessum breytingum og að handbært fé ríkissjóðs lækki verulega vegna þeirra.

SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILÖGUR

02 Mennta- og menningarmálaráðuneyti

    Engin breyting verður á heildarfjárheimild ráðuneytisins.
319 Framhaldsskólar, almennt.
     1.17 Námsskrárgerð. Gerð er tillaga um að 120 m.kr. millifærsla við 2. umræðu af þessum lið á 02-319-1.41 Framkvæmd nýrrar skólastefnu verði dregin til baka þar sem um er að ræða verkefni sem ekki kemur til framkvæmda fyrr en á næsta ári.
319 Framhaldsskólar, almennt.
     1.41 Framkvæmd nýrrar skólastefnu. Gerð er tillaga um að samtals 242,2 m.kr. millifærsla við 2. umræðu á þennan lið af 02-319-1.17, 02-451-1.11 og 02-720-1.31 verði dregin til baka þar sem um er að ræða verkefni sem ekki kemur til framkvæmda fyrr en á næsta ári.
451 Framhaldsfræðsla.
     1.11 Framhaldsfræðsla almennt. Gerð er tillaga um að 32,2 m.kr. millifærsla við 2. umræðu af þessum lið á 02-319-1.41 Framkvæmd nýrrar skólastefnu verði dregin til baka þar sem um er að ræða verkefni sem ekki kemur til framkvæmda fyrr en á næsta ári.
720 Grunnskólar, almennt.
     1.31 Sérstök fræðsluverkefni. Gerð er tillaga um að 90 m.kr. millifærsla við 2. umræðu af þessum lið á 02-319-1.41 Framkvæmd nýrrar skólastefnu verði dregin til baka þar sem um er að ræða verkefni sem ekki kemur til framkvæmda fyrr en á næsta ári.

06 Innanríkisráðuneyti

    Lagt er til að fjárheimild innanríkisráðuneytisins verði aukin um 230 m.kr.
689 Fjarskiptasjóður.
     6.41 Fjarskiptasjóður. Gerð er tillaga um 195 m.kr. framlag til Fjarskiptasjóðs vegna uppboðs Póst- og fjarskiptastofnunar á tíðniréttindum í 4G-kerfið. Tekjurnar sem koma inn fyrir tíðniheimildirnar skulu renna til Fjarskiptasjóðs, sbr. lög nr. 132/2005, og lagt er til að þeim sé að þessu sinni ráðstafað til viðbótarverkefna sjóðsins þrátt fyrir að samningur hans við fjarskiptafyrirtækið Farice sé þar með alfarið fjármagnaður úr ríkissjóði. Brýnt er að endurskoða samning sjóðsins við Farice sem allra fyrst í því skyni að gæta betur að hagsmunum ríkissjóðs.
841 Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
     1.11 Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, sérstök viðbótarframlög. Gerð er tillaga um 35 m.kr. sérstakt einskiptisframlag í því skyni að leiða til lykta samkomulag sem Bolungarvíkurkaupstaður og eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga gerðu um fjárhagslega endurskipulagningu sveitarfélagsins í ársbyrjun 2009. Um er að ræða einstakt tilfelli sem er ekki fordæmisgefandi varðandi önnur fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 16. desember 2013.Vigdís Hauksdóttir,


form., frsm.


Guðlaugur Þór Þórðarson.


Willum Þór Þórsson.Haraldur Benediktsson.


Karl Garðarsson.


Valgerður Gunnarsdóttir.