Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 2. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 394  —  2. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um tekjuaðgerðir frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014 (tekjuskattur einstaklinga, virðisaukaskattur, launatengd gjöld og skattar á fjármálafyrirtæki).

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


Inngangur.
    Í inngangskafla frumvarpsins er vitnað til áforma núverandi ríkisstjórnar í skattamálum og vitnað til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar þar sem gefin eru ýmis fyrirheit, boðuð úttekt á skattkerfinu og breytingum undanfarinna ára, einföldun skattkerfisins, breikkun skattstofna o.s.frv. Ekki er hægt að segja að þetta frumvarp boði eftir sem áður mikil tímamót og í grunninn er byggt á skattakerfi og skattaframkvæmd síðustu ára. Þannig er ekki hróflað við þrepaskiptingu tekjuskatts einstaklinga og er það vel. Þá er í sama inngangskafla fjallað um að horfur í fjármálum ríkisins séu umtalsvert lakari en fram kom í fjárlögum fyrir árið 2013 og takmarki það mjög svigrúm til lækkunar skatta.
    Nú hefur komið í ljós að forustumenn ríkisstjórnarinnar ýktu þetta frávik mjög á vordögum og hefur tekjuáætlun ársins í ár aftur verið endurskoðuð og nú til hækkunar frá því sem gert var ráð fyrir í vor og haust þegar frumvarp til fjárlaga var lagt fram. Einnig er ljóst að hluti þess vanda sem við er að glíma eru ákvarðanir stjórnarflokkanna sjálfra um að afsala ríkissjóði umtalsverðum tekjum þegar á þessu fjárlagaári og enn meiri á næsta ári og þeim sem á eftir fylgja. Þannig verða tekjur af sérstöku veiðigjaldi rúmlega 3,2 milljörðum kr. lægri í ár en stefnt var að og milli 5–600 milljónum kr. lægri vegna þess að horfið var frá áformum um að færa virðisaukaskatt af gistingu úr 7% í 14% eins og lögfest hafði verið og átti að koma til framkvæmda 1. september sl. Á næsta ári nemur tekjutap vegna þessara breytinga nálægt 8 milljörðum kr. og við bætast 5 milljarðar kr. í lægri tekjuskatti einstaklinga vegna áformaðrar lækkunar tekjuskatts í miðþrepi. Enn fremur boðar ríkisstjórnin að engin áform séu um að viðhalda auðlegðarskatti sem er ávísun á tekjutap fyrir ríkissjóð upp á u.þ.b. 9 milljarða kr. árið 2015. Samtals er því ríkisstjórnin að veikja tekjugrunn ríkisins um vel yfir 20 milljarða kr. frá og með þessu ári til ársins 2015.
    Þessar áherslur telur 2. minni hluti mjög misráðnar. Framreikningur fjármála- og efnahagsráðuneytis á afkomuhorfum ríkissjóðs til meðallangs tíma sýnir að afkoman verður í járnum að óbreyttu næstu 3–4 árin og hefur fjármála- og efnahagsráðherra sjálfur viðurkennt að það séu óásættanlegar horfur fyrir ríkisbúskapinn. Þessar misráðnu ráðstafanir, þ.e. að veikja umtalsvert tekjugrunn ríkisins, hafa komið stjórnarmeirihlutanum í þá stöðu að til þess að hægt sé að leggja nokkru meiri fjármuni í t.d. heilbrigðismál, í stað þess niðurskurðar sem boðaður var með fjárlagafrumvarpinu, er brugðið á það ráð að skerða framlög til vaxtabóta, þróunarsamvinnu og þjarma enn frekar að ríkisútvarpinu í breytingartillögum meiri hlutans.
    Eins og breytingartillögur þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sýna þá er í boði önnur leið. Sem sagt sú að viðhalda tekjustofnum ríkisins og verja þeim afkomubata sem það skilar, borið saman við tillögur stjórnarmeirihlutans, til að stórefla heilbrigðiskerfið, menntakerfið, verja mun meira fé til eflingar rannsóknar- og þróunarstarfsemi, nýsköpunar, byggðatengdra aðgerða o.s.frv. Vísast um þetta nánar í nefndarálit 2. minni hluta fjárlaganefndar og tengdar breytingartillögur þingflokks VG sem mynda eina heild.
    Það sem mestar áhyggjur vekur til framtíðar litið er að með áherslum nýs meiri hluta er horfið af leið blandaðra aðgerða þar sem tekist er á við vanda ríkisfjármálanna með aðgerðum bæði á tekjuhlið og útgjaldahlið fjárlaga. Engin áhersla er á að viðhalda tekjum jafnvel þó í hlut eigi þeir sem flestir ættu að vera sammála um að séu aflögufærir, svo sem tekjuhærri einstaklingar, stóreignafólk og útflutnings- og samkeppnisgreinar sem njóta óvenjuhagstæðra skilyrða, m.a. sökum lágs gengis krónunnar. Afkoma sjávarútvegsins er með afbrigðum góð nú ár eftir ár og var síðast staðfest í vikunni sem leið þegar Hagstofan birti yfirlit sitt yfir afkomu veiða og vinnslu á árinu 2012. Lækkun sérstakra veiðigjalda uppá 3,2 milljarða kr. rúmlega í ár og yfir 6 milljarða kr. á næsta ári er illskiljanleg ráðstöfun í þessu ljósi. Svipað má segja um ferðaþjónustuna sem er í gríðarlegum vexti og vel fær um að leggja lítillega meira af mörkum.

Tekjuskattsbreytingar.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til lækkun tekjuskatts í miðþrepi um 0,8%. 2. minni hluti telur þessa lækkun ótímabæra í ljósi stöðu ríkisfjármála bæði varðandi næsta ár og mikilvægi þess að standa við löngu sett markmið um heildarjöfnuð á árinu 2014, en einnig þegar horft er til ríkisfjármálaáætlunar til meðallangs tíma. Reyndar er mikill galli að núverandi ríkisstjórn hefur enga slíka áætlun unnið eða birt í sérstöku riti eins og fyrri ríkisstjórn gerði, vorið 2009, haustið 2011 (Herðubreið) og haustið 2012 (Keilir). Ekki er hægt að kalla einfaldan framreikning í greinargerð með fjárlagafrumvarpi haustsins eiginlega ríkisfjármálaáætlun til meðallangs tíma.
    Annar minni hluti leggur því til í sínum breytingartillögum að horfið verði frá þessari lækkun tekjuskatts í miðþrepi og fjármunum þess í stað varið til að efla heilbrigðis- og menntakerfið og til þeirra verkefna annarra sem fluttar eru breytingartillögur um. Nánar verður gerð grein fyrir breytingartillögum við frumvarpið síðar í nefndaráliti þessu. Það er einnig afstaða minni hlutans að eigi að gera breytingar sem tengjast þrepaskiptingu tekjuskattskerfisins þá sé óverjandi að útfæra þær þannig að hinir tekjulægstu beri ekkert úr býtum. Nær væri þá að lækka skattprósentuna á neðsta þrepi og hækka fjárhæðarmörkin milli lágtekjuþreps og miðþreps. Slíkar breytingar er einfalt að útfæra þannig að þær skili sömu tekjuútkomu fyrir ríkissjóð, sambærilegt tekjutap upp á 5 milljarða kr., en mun réttlátari dreifingu skattbyrði sem kæmi lágtekjufólki og lægra millitekjufólki einkum til góða. Slíkar breytingar mundu einnig vera gagnlegt innlegg í viðræður aðila vinnumarkaðarins sem m.a. hafa strandað á kröfum verkalýðshreyfingarinnar um að tekjulægsta fólkið á vinnumarkaði fái einhverja úrlausn.

Virðisaukaskattur.
    Annar minni hluti gerir ekki athugasemdir við þær breytingar sem lagðar eru til varðandi virðisaukaskatt. Jákvætt er að gerð er tillaga um að framlengja um enn eitt ár heimild til að endurgreiða að fullu virðisaukaskatt af vinnu við viðhald og endurbætur á íbúðarhúsnæði og húsnæði í eigu sveitarfélaga sem gripið var til þegar á árinu 2010. Tillaga stjórnarmeirihluta um framlengingu þessa ákvæðis er viðurkenning á að það hefur verið vel heppnað, sbr. einnig samstarf við aðila vinnumarkaðarins um kynningu á þessu fyrirkomulagi undir nafninu „allir vinna“. Sama má segja um að viðhalda skattalegum hvötum til að greiða götu endurnýjunar bílaflotans í umhverfisvæna átt.

Tryggingagjald.
    Þó III. kafli frumvarpsins, 9.–13. gr., sem fjallar um breytingar á meðferð tryggingagjalds láti ekki mikið yfir sér eru þar veruleg tíðindi á ferð. Ber þar fyrst að nefna að tekjustofn Fæðingarorlofssjóðs, sem er sjálfstæður sjóður í vörslu Vinnumálastofnunar, er því sem næst helmingaður. Lagt er til að hlutdeild Fæðingarorlofssjóðs í tryggingagjaldi lækki úr 1,28% í 0,65%. Í öðrum bandormi (3. mál) leggur meiri hlutinn svo til að öll áform um uppbyggingu fæðingarorlofsins og lengingu í áföngum í eitt ár verði slegin af. Lítils háttar hækkun á þaki hámarksgreiðslna, úr 350 í 370 þúsund kr. er allt og sumt sem þessi ríkisstjórn hefur fram að færa í þeim efnum. Þegar betur er að gáð er þar ekki nema rétt rúmlega verðlagsuppfærsla á ferð. En útkoman er sú að ríkið tekur með þessu til sín í viðbót 0,63% af tryggingagjaldsstofni á næsta ári og skilur þannig við Fæðingarorlofssjóð að hann mun ganga verulega á eigið fé á næsta ári. Ekki er það björgulegt þegar horft er til framtíðar í þessum efnum. Er ekki hægt að kalla þetta annað en algert metnaðarleysi nýrrar ríkisstjórnar í fæðingarorlofsmálum. Þingflokkur VG hefur lagt fram breytingartillögur sem ganga út á að haldið verði í áform um lengingu fæðingarorlofs í áföngum og að við bætist einn mánuður á næsta ári. Áætlað er að það kosti 555 millj. kr. og eru þær útgjaldatillögur fjármagnaðar eins og aðrar tillögur þingflokks VG. Því er lagt til að hlutdeild Fæðingarorlofssjóðs í tryggingagjaldi verði 0,75% af tryggingagjaldsstofni á næsta ári og gerir það betur en að fjármagna bæði hækkun þaksins úr 350 í 370 þúsund kr. og lengingu um einn mánuð. Eftir sem áður mun Fæðingarorlofssjóður verða betur settur og ganga mun minna á eigið fé en tillögur meiri hlutans gera ráð fyrir.
    Að öðru leyti ganga tillögur meiri hlutans út á að ríkið hirði til sín stærstan hluta af minni kostnaði vegna minnkandi atvinnuleysis. Þannig verði almennur hluti tryggingagjalds 6,04% á næsta ári í stað 5,29% í ár, sjá b-lið 11. gr. frumvarpsins. Ávinningur vegna minna atvinnuleysis, minni útgjalda Ábyrgðasjóðs launa og betri stöðu Fæðingarorlofssjóðs er allur hirtur í ríkissjóð með þessum breytingum og einungis 0,1% lækkun tryggingagjalds í heild skilað til atvinnulífsins og launagreiðenda í landinu. Vissulega er vandi ríkisfjármálanna mikill og á því hefur 2. minni hluti ríkan skilning, en það vekur nokkra furðu hversu hljótt hefur verið um þessar áherslur nýrrar ríkisstjórnar séð í ljósi kröfu atvinnulífsins á undangengnum missirum um að minnkandi atvinnuleysi eigi strax að skila sér í lækkun tryggingagjalds.

Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki – bankaskattur.
    Í V. kafla frumvarpsins, 14.–16. gr., er að finna breytingar sem stjórnarmeirihlutinn leggur til á svonefndum bankaskatti. Er þar hvort tveggja á ferð að inn undir skattinn eru nú tekin fjármálafyrirtæki í slita- eða skiptameðferð og auk þess er skatturinn hækkaður verulega. Þegar bankaskattur var innleiddur á síðasta kjörtímabili með lögum nr. 155/2010 var það gert með hliðsjón af sambærilegri gjaldtöku á fjármálakerfið sem var að ryðja sér til rúms í nokkrum nálægum löndum eða var fyrirhuguð. Megintilgangur laganna var tvíþættur, þ.e. að afla ríkissjóði tekna upp í það mikla tjón sem fjármálakerfið hafði valdið ríkinu víða á byggðu bóli en þó hvergi sem hér, hins vegar að haga slíkri skatttöku þannig að hún drægi heldur úr eða hamlaði frekar en hitt áhættusækni í kerfinu. Slíkt er gert með því að hafa skuldahlið fjármálafyrirtækjanna sem skattaandlag. Hvor tveggja rökin eru enn í fullu gildi. Þá má einnig segja að það þurfi ekki að koma erlendum handhöfum krafna í fallin fjármálafyrirtæki á Íslandi á óvart að þeir geti þurft að sæta skattlagningu þegar til útgreiðslna kemur, sbr. það að í áætlun um afnám gjaldeyrishafta frá árinu 2011 var gert ráð fyrir að „útgönguskattur“ yrði lagður á útgreiðslur búanna í erlendri mynt eða til erlendra aðila þegar þar að kæmi. Fyrst og fremst voru það og eru hinar efnahagslegu aðstæður á Íslandi og umfangsmiklar krónueigur erlendra aðila hér í hagkerfinu bak fjármagnshöftum sem gera það ljóst að til einhverra slíkra ráða kunni að þurfa að grípa til þess að greiðslujöfnuður og greiðslugeta íslenska þjóðarbúsins ráði við áhrifin af því að þessi staða verði leyst upp.
    Eins og fram hefur komið var það nokkuð skoðað árið 2010 hvort fjármálafyrirtæki í slitameðferð ættu að falla undir bankaskattinn en fljótt varð ljóst að á þeim tímapunkti var slík skattlagning búanna óframkvæmanleg og að líkindum erfið í framkvæmd næstu missirin þar á eftir. Nú hefur hins vegar myndin skýrst og skuldahlið búanna í skilningnum samþykktar kröfur liggur orðið nokkuð ljós fyrir. Það er því áhugaverður kostur að fella hin föllnu fjármálafyrirtæki undir bankaskattinn og hafa af þeim tekjur svo lengi sem skattstofninn er við líði að fullu eða einhverju leyti. Þegar fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar birtist á borðum þingmanna 1. október sl. varð ljóst að stórhækkun bankaskattsins og skattskylda fallinna fjármálafyrirtækja var ein af stærstu einstöku tekjuöflunaraðgerðum ríkisstjórnarinnar til að loka fjárlögum fyrir árið 2014 án halla. Er þar gert ráð fyrir að bú fjármálafyrirtækja í slitum greiði slíkan skatt upp á 11,3 milljarða kr. og hækkun skattsins auki tekjur ríkissjóðs í heild um 14,3 milljarða kr. árið 2014 og 14,5 milljarða kr. árið 2015. Í greinargerð frumvarpsins er ekki gert ráð fyrir tekjum frá föllnu fjármálafyrirtækjunum eftir það eða eins og þar segir: „Hér er gengið út frá þeirri forsendu að í lok 2015 verði slitameðferð föllnu bankanna að fullu lokið.“ Síðan þetta var hafa verið kynnt til sögunnar áform ríkisstjórnarinnar um niðurfærslu höfuðstóls verðtryggðra íbúðarlána og á veruleg viðbótarhækkun bankaskattsins að fjármagna þá framkvæmd upp á 80 milljarða kr. samtals á fjórum árum. Má af því ráða að hækkaður bankaskattur eigi að gefa ríkissjóði um 35 milljarða kr. viðbótartekjur næstu tvö árin og u.þ.b. 23,5 milljarða kr. næstu tvö ár þar á eftir. Hvernig það rímar við það mat fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá haustinu um að í lok árs 2015 verði slitameðferð hinna föllnu banka að fullu lokið, og skattstofninn þar með horfinn, skal ekki fjölyrt um hér. En þessi uppstilling þýðir að ríkið leggur hér mikið undir og veðjar hér á tekjustofn upp á 115–120 milljarða kr. á næstu fjórum árum. Eins gott er að ekkert fari úrskeiðis í því. Ekki verður fram hjá því horft að tilkoma þessa stórhækkaða bankaskatts og skattskyldra búa hinna föllnu fjármálafyrirtækja hafa tengingu við hið risavaxna verkefni að vinda ofan af fjármagnshöftunum og leysa út úr hagkerfinu hinar miklu krónueignir erlendra aðila án þess að gjaldeyrisstöðugleika sé raskað og greiðslujöfnuði og greiðslugetu þjóðarbúsins ofboðið. Minni hlutinn á Alþingi hefur hins vegar litla aðkomu átt að þeim málum frá stjórnarskiptum og er því ekki í færum til að leggja mat á hvernig þau mál standa eða eru að þróast. Utan frá séð virðist lítið sem ekkert hafa gerst undanfarna átta mánuði eða svo.
    Efnahags- og viðskiptanefnd hefur í ágætis samvinnu lagt mikla vinnu í að útfæra og rökstyðja þessa skattheimtu þannig að hún standi sem traustustum fótum. Er það mat 2. minni hluta að þær breytingar sem til stendur að gera á frumvarpinu við 2. umræðu séu til verulegra bóta og þær ásamt öflugum lögformlegum rökstuðningi í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar treysti málið í sessi gagnvart þeim efasemdum sem uppi hafa verið um þessa skattheimtu. 2. minni hluti tekur almennt undir þann rökstuðning efnislega og mun styðja ofannefndar breytingartillögur.
    Við lok umfjöllunar efnahags- og viðskiptanefndar um málið fyrir aðra umræðu voru ekki enn fram komnar tillögur frá ráðuneyti eða meiri hluta um endanlegt álagningarhlutfall bankaskattsins og boðað að það mundi bíða umfjöllunar milli 1. og 2. umræðu. Er það vissulega miður. Einnig má nefna að endanlegt álagningarhlutfall fjársýsluskatts hefur verið á floti þar til nýlega að upplýst var að lækkun hans verði úr 6,75% í 5,5% en ekki í 4,5% eins og lagt er til í frumvarpinu.

Breytingartillögur 2. minni hluta.
    Annar minni hluti flytur breytingartillögur við frumvarpið á sérstöku þingskjali og eru þær í samræmi við áherslur í ríkisfjármálum sem forusta Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur kynnt og þingflokkurinn unnið. Um nánari rökstuðning og útlistanir vísast í nefndarálit 2. minni hluta fjárlaganefndar fyrir 2. umræðu fjárlaga.
    Breytingartillögur 2. minni hluta við frumvarpið eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að fallið verði frá lækkun tekjuskattshlutfalls á miðþrepi og þeir 5 milljarðar kr. sem ríkið hefur þar með til ráðstöfunar gangi til eflingar heilbrigðis- og menntakerfisins og annarra brýnna forgangsmála eins og áður sagði. Því er lagt til að a- og b- liður 1. gr. frumvarpsins falli brott. 2. minni hluti vísar auk þess til þess sem áður sagði um það að eigi að breyta álagningarhlutföllum í hinu þrepaskipta tekjuskattskerfi þá eigi að útfæra þær breytingar þannig að það komi ekki síst hinum tekjulægstu til góða.
     2.      Í öðru lagi er lagt til að ákvæði til bráðabirgða XXXIII í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, verði framlengt lítillega breytt. Sú framlenging mun tryggja að auðlegðarskattur verði lagður á hreinar eignir efnaðasta fólksins í landinu á árinu 2014 og koma til greiðslu 2015 í stað þess að falla þá niður með öllu eins og núverandi ríkisstjórn stefnir að. Þær breytingar sem 2. minni hluti leggur til koma að nokkru til móts við þá gagnrýni sem sett hefur verið fram á núverandi útfærslu auðlegðarskattsins að hann leggist nokkuð þungt á þá sem eiga stærstan hluta sinnar hreinu eignar í formi íbúðarhúsnæðis og viðkomandi kunni þar af leiðandi að hafa litlar tekjur af þeim hluta eigna sinna. Því er lagt til að hrein eign í íbúðarhúsnæði til eigin nota myndi aðeins stofn til auðlegðarskatts fyrir ofangreind eignamörk, 30 milljónir kr. hjá einstaklingi og 40 milljónir kr. hjá hjónum. Í reynd er þannig tekið upp visst viðbótarfrítekjumark í auðlegðarskatti vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Engu síður ætti auðlegðarskattur svo breyttur að tryggja ríkssjóði milli 8 og 9 milljarða kr. tekjur á árinu 2015 og munar um minna.
     3.      Þá er lögð til sú breyting við 5. gr. frumvarpsins að við bætist stafliður sem færi virðisaukaskatt á hótel- og gistiherbergi og aðra gistiþjónustu úr 7% í 14% sem taki gildi 1. mars næstkomandi. Búið var að lögfesta slíka breytingu eins og kunnugt er með talsverðum aðdraganda eða aðlögun fyrir greinina og aðeins voru um tveir mánuðir eftir fram að áformaðri gildistöku 1. september sl. þegar nýr meiri hluti ákvað að slá breytinguna af. Það þýddi tekjutap fyrir ríkið upp á yfir 500 milljónir kr. á þessu ári og væntanlega nálægt 2 milljörðum kr. á hinu næsta.
     4.      Lögð er til sú breyting á 10. gr. að hlutdeild Fæðingarorlofssjóðs í tryggingagjaldi verði 0,75% á næsta ári í stað 0,65% eins og er í frumvarpinu. Vísast til þess sem áður sagði um meðferð tryggingagjalda fyrr í nefndaráliti þessu og algert metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar og meiri hluta hennar í fæðingarorlofsmálum.
     5.      Lögð er til sú breyting á hlutfallstölu b-liðar 11. gr. frumvarpsins að í stað 6,04% komi 5,94%.
     6.      Loks er lögð til breyting á 18. gr. frumvarpsins, gildistökugreininni, til að tryggja að hækkun virðisaukaskatts á gistingu komi til framkvæmda með nokkrum aðdraganda 1. mars næstkomandi en ekki strax um áramót.

Lokaorð.
    Annar minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar telur stjórnarmeirihlutann vera á verulegum villigötum þegar kemur að áherslum í ríkisfjármálum og lýsir þungum áhyggjum af því ábyrgðarleysi sem birtist í þessum fyrstu fjárlögum nýrrar ríkisstjórnar og tengdum frumvörpum. Ber þar fyrst að nefna að enginn skilningur virðist vera á mikilvægi þess að ríkið treysti eða a.m.k. viðhaldi tekjugrunni sínum. Horfið er frá hinni blönduðu leið tekjuöflunar og sparnaðar og í staðinn gripið til niðurskurðar, t.d. á framlögum til nýsköpunar- og þróunar, menntunar og rannsókna og fjárfestinga í innviðum ferðaþjónustu og samgangna. Enn dapurlegri er beinn niðurskurður á framlögum til þróunarsamvinnu og neyðaraðstoðar í stað aukningar sem átt hefði að vera samkvæmt samþykktri stefnu Alþingis.
    Horfur í ríkisfjármálum til meðallangs tíma eru samkvæmt greinargerð fjárlagafrumvarpsins og yfirlýsingum fjármála- og efnahagsráðherra sjálfs algerlega óásættanlegar, en engu að síður er gengið fram með þeim hætti sem að ofan greinir. Síðan það var sett á blað eða sagt hefur það gerst að aðstandendur fyrirhugaðra álverksframkvæmda í Helguvík hafa meira og minna slegið þau áform af og mun það leiða til verulega breyttra hagvaxtarhorfa næstu missiri til hins verra. Má því ætla að myndin sé ef eitthvað er enn dekkri en þetta. Áherslubreytingar nýrrar ríkisstjórnar í ríkisfjármálum, sem dregur úr stuðningi við vaxtargreinar atvinnulífsins og fjárfestingum í umhverfi þeirra, eru líklegar til að draga úr umsvifum og þrótti í hagkerfinu á næstu missirum. Horfið er til baka til afdankaðra nýfrjálshyggjubrauðmolakenninga sem bendir ekki til þess að núverandi stjórnarflokkar hafi nokkurn skapaðan hlut lært. Vantar þó ekki að námskeiðið sem þeir fóru á með íslenska þjóð árin fyrir hrun hafi verið nógu dýrt og dýrkeypt.
    2. minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem lagðar eru til í sérstöku skjali.

Alþingi, 16. desember 2013.Steingrímur J. Sigfússon.