Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 109. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 396  —  109. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum (mismunun á grundvelli kynvitundar og viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins um tölvubrot).


Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.    Minni hlutinn tekur undir markmið frumvarpsins sem er að draga úr hatursáróðri og hatri almennt. Minni hlutinn telur hins vegar að algjört bann við ákveðnum skoðunum og tjáningu þeirra sé í grundvallaratriðum röng aðferð. Ekki verður tekist á við hatur í heiminum með því að banna hatur eða tjáningu þess. Við tökumst á við hatur með upplýsingu, umræðu og rökræðu. Takmörkunum á tjáningarfrelsi á ekki að beita nema til verndar réttindum annarra, svo sem réttinum til friðhelgi einkalífs og borgaralegs öryggis. Jafnvel þótt hatursáróður geti verið til þess fallinn að ógna öryggi manna, þá eru nú þegar ákvæði í almennum hegningarlögum sem taka á slíku og um þau er enginn ágreiningur.
    Minni hlutinn telur það geta verið málinu til bóta að breyta refsingu ákvæðisins á þann veg að ekki yrði heimilt að dæma menn til fangelsisvistar fyrir að tjá skoðanir sínar, enda til efs að slíkar heimildir standist nýrri viðhorf til mannréttinda, og þá sérstaklega með hliðsjón af 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þrátt fyrir að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi ekki lýst því með skýrum hætti yfir að refsiákvæði sem takmarka tjáningarfrelsi séu andstæð sáttmálanum hefur dómstóllinn í auknum mæli gagnrýnt beitingu refsinga á þessu sviði, ekki síst fangelsisrefsinga. Þá hefur Evrópuráðið einnig ályktað um að rétt sé að ríki endurskoði refsiákvæði vegna ærumeiðinga.
    Minni hlutinn leggur því til þær breytingar á frumvarpinu að fangelsisrefsing verði felld brott úr 233. gr. a, sem og öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga sem setja tjáningarfrelsinu skorður.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:     1.      Á undan 1. gr. komi tvær nýjar greinar, svohljóðandi:
        a.     (1. gr.)
                    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 95. gr. laganna:
                a.    Orðin „eða fangelsi allt að 2 árum“ í 1. málsl. falla brott.
                b.    2. málsl. fellur brott.
        b.     (2. gr.)
                     Orðin „eða fangelsi allt að 3 mánuðum“ í 125. gr. laganna falla brott.
     2.      Orðin „eða fangelsi allt að 2 árum“ í 2. gr. falli brott.
     3.      Á eftir 2. gr. komi fimm nýjar greinar, svohljóðandi:
        a.     (5. gr.)
                     Í stað orðanna „fangelsi allt að tveimur árum“ í 233. gr. b laganna kemur: sektum.
        b.     (6. gr.)
                     Orðin „eða fangelsi allt að 1 ári“ í 234. gr. laganna falla brott.
        c.     (7. gr.)
                     Orðin „eða fangelsi allt að 1 ári“ í 235. gr. laganna falla brott.
        d.     (8. gr.)
                     Í stað orðanna „fangelsi allt að 2 árum“ í 1. mgr. 236. gr. laganna kemur: sektum; og orðin „eða fangelsi allt að 2 árum“ í 2. mgr. sömu greinar falla brott.
        e.     (9. gr.)
                     Orðin „eða fangelsi allt að 1 ári“ í 240. gr. laganna falla brott.
     4.      Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum (afnám fangelsisrefsinga fyrir tjáningu skoðana, mismunun á grundvelli kynvitundar og viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins um tölvubrot).

Alþingi, 17. desember 2013.

Helgi Hrafn Gunnarsson.