Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 232. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 397  —  232. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991,
með síðari breytingum (frestun nauðungarsölu).


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá innanríkisráðuneyti, Þórólf Halldórsson frá Sýslumannafélagi Íslands, Gunnhildi Gunnarsdóttur frá Íbúðalánasjóði, Þóreyju Þórðardóttur frá Landssambandi lífeyrissjóða, Benedikt Bogason frá réttarfarsnefnd, Tryggva Þórhallsson og Gunnlaug Júlíusson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Yngva Örn Kristinsson og Karl Óttar Pétursson frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Vilhjálm Bjarnason og Guðmund Ásgeirsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna. Umsagnir bárust frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Íbúðalánasjóði, sýslumanninum í Kópavogi, Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Í frumvarpinu er lagt til að veitt verði heimild í lögum til að fresta nauðungarsölum á fasteignum fram yfir 1. júlí 2014 fari gerðarþoli fram á slíkt, ef um ræðir fasteign þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skráð lögheimili. Þá er lagt til að hafi þegar verið ákveðin ráðstöfun slíkrar fasteignar skuli sýslumaður verða við ósk gerðarþola um að fresta þeim aðgerðum fram yfir 1. júlí 2014.
    Fyrir nefndinni var þeim sjónarmiðum hreyft að sú dagsetning sem lögð er til í frumvarpinu geti verið óhentug, bæði vegna starfstíma Alþingis, sem óvíst er að verði starfandi á þessum tíma, og vegna þess að á þeim tíma er hefðbundið réttarhlé í dómstólum landsins. Nefndin leggur því til þá breytingu að miðað verði við 1. september 2013 í báðum tilfellum.
    Við meðferð frumvarpsins í nefndinni komu fram þau sjónarmið frá kröfuhöfum að nauðsynlegt væri að setja aukin skilyrði fyrir frestun nauðungarsölu, m.a. að heimild til sýslumanna til frestunar, án samþykkis kröfuhafa, yrði bundin við tilvik þar sem gjaldfallnar afborganir ásamt kostnaði og dráttarvöxtum færu ekki yfir ákveðna hámarksupphæð. Frá kröfuhöfum komu einnig fram ábendingar um að brýnt væri að lengja samþykkisfrest á þeim eignum þar sem framhaldsuppboð hefur þegar farið fram en samþykkisfresti ekki lokið. Samþykkisfrestur felur í sér að þeir sem gera boð í eign eru bundnir við boð sitt í þrjár vikur, en á þeim tíma hefur sýslumaður tóm til að meta og samþykkja boð í eign. Að þessum fresti liðnum er gengið frá sölu eignarinnar og nýr eigandi fær hana gegn greiðslu. Einnig komu fram athugasemdir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um áhrif frumvarpsins á fjárhag þeirra vegna fyrningar lögveðsréttar, en hann felur í sér forgangsreglu sem gildir um fasteignaskatt og fasteignagjöld. Jafnframt gerði sambandið athugasemd við að áhrif frumvarpsins á fjárhag sveitarfélaga væri ekki kostnaðarmetið eins og lög gera ráð fyrir.
    Nefndin fjallaði ítarlega um framangreind atriði. Nefndin tekur undir þau sjónarmið að mikilvægt sé að frumvörp séu kostnaðarmetin ef fyrirsjáanlegt er að þau muni hafa fjárhagsleg áhrif á fjárhag sveitarfélaga, sbr. 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Það er jafnframt álit nefndarinnar að nauðsynlegt sé að bregðast við þeim tilvikum þar sem framhaldsuppboð hefur farið fram en samþykkisfresti ekki lokið. Nefndin leggur því til þær breytingar að hið sama gildi um samþykkisfrest og um frestun nauðungarsölu, þ.e. að hafi uppboði verið lokið en boð ekki samþykkt þá sé sýslumanni heimilt að beiðni gerðarþola að fengnu samþykki gerðarbeiðenda að fresta fram yfir 1. september 2014 að tekin sé afstaða til málsins.
    Nefndin áréttar að frumvarpið er liður í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna en markmið frumvarpsins er að gefa skuldurum tíma til að leggja mat á aðgerðirnar og þau áhrif sem þær muni hafa á skuldastöðu viðkomandi. Nefndin bendir einnig á að um þessar stundir er unnið að lagalegum útfærslum á þessum aðgerðum og er það því álit hennar að ekki sé rétt að takmarka skilyrðin fyrir frestun nauðungarsölu. Að lokum bendir nefndin á að með lögum nr. 23/2009, er breyttu m.a. ákvæðum laga um nauðungarsölu, var ákveðið að fresta skyldi að ósk gerðarþola nauðungarsölum fasteigna fram yfir 31. október 2009. Þessi frestur var framlengdur með lögum nr. 108/2009 til 28. febrúar 2010. Frumvarpið sem hér um ræðir byggist á þeirri lagaframkvæmd. Nefndin telur einnig rétt að taka fram að sömu skilyrði gilda varðandi þessa frestun og fyrr, þ.e. að gerðarþoli eða gerðarþolar þurfa sjálfir að óska eftir framlengdum fresti og húsnæðið sem um ræðir þarf að vera íbúðarhúsnæði samkvæmt nánari skilgreiningu.
    Fyrirvari Jóns Þórs Ólafssonar lýtur að því að mikilvægt sé að einstaklingar sem orðið hafa gjaldþrota, lent í nauðungarsölu, fjárnámi eða öðrum skuldalúkningarúrræðum, fái sem fyrst heimildir í lögum til endurupptöku sinna mála, því að samkvæmt nýlegri dómaframkvæmd, sbr. hæstaréttardóm nr. 620/2013, virðast slíkir gjörningar vera óafturkræfir, án tillits til þess hvort grundvöllur þeirra sé lögmætur.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Við 1. gr.
     a.      Í stað dagsetningarinnar „1. júlí 2014“ tvívegis í 1. mgr. komi: 1. september 2014.
     b.      Á eftir 1. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Hafi uppboði verið lokið en boð ekki samþykkt fyrir gildistöku laga þessara er sýslumanni heimilt að beiðni gerðarþola að fengnu samþykki gerðarbeiðenda að fresta fram yfir 1. september 2014 að taka afstöðu til boðsins.

    Jóhanna María Sigmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Guðbjartur Hannesson ritar undir álit þetta með vísan til 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 17. desember 2013.



Unnur Brá Konráðsdóttir,


form., frsm.


Páll Valur Björnsson.


Sigurður Páll Jónsson.



Elsa Lára Arnardóttir.


Guðbjartur Hannesson.


Jón Þór Ólafsson,


með fyrirvara.



Svandís Svavarsdóttir.


Vilhjálmur Árnason.