Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 2. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 405  —  2. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um tekjuaðgerðir frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014 (tekjuskattur einstaklinga, virðisaukaskattur, launatengd gjöld og skattar á fjármálafyrirtæki).

Frá 3. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Þriðji minni hluti telur það mikilvægt verkefni að lækka skatta og launatengd gjöld. Skattalækkanir verða hins vegar að vera vel útfærðar og helst að skila tvíþættum árangri: Að lækka tilfinnanlega álögur á launafólk og að virka hvetjandi á hagkerfið. Auk þess er fáum greiði gerður ef skattalækkanir verða til þess að rekstur ríkissjóðs endar í járnum og að skuldir hans aukast. Skuldir í dag eru skattar á morgun.
    Á það ber einnig að líta að fjárþörf ríkisins er allveruleg um þessar mundir. Sá niðurskurður sem grípa þurfti til af augljósum ástæðum í kjölfar efnahagsþrenginga hefur bitnað illa á mikilvægum innviðum samfélagsins, svo sem velferðar- og menntakerfinu. Nauðsynleg uppbyggingarverkefni hafa setið á hakanum. Einhvern tímann kemur að skuldadögum í þeim efnum. Einnig er öllum ljóst að ríkissjóður er skuldum hlaðinn og vaxtagreiðslur eru himinháar. Peningum sem varið er til niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs kemur öllum til góða í lægri vaxtagreiðslum.
    Í þessari stöðu er mikilvægt að halda vel utan um tekjuhlið ríkisrekstrarins. 3. minni hluti gagnrýnir stefnu stjórnarmeirihlutans hvað það varðar. Hann hefur farið of geyst í að draga úr tekjum ríkissjóðs. Tekjur vegna hækkunar virðisaukaskatts á útleigu hótel- og gistiherbergja og annarri gistiþjónustu upp í 14% mundu koma sér vel. Sama gildir um áður áætlaðar tekjur af sérstöku veiðigjaldi. Þá mun lækkun skatthlutfalls í miðþrepi tekjuskatts sem boðuð er í fyrirliggjandi frumvarpi skerða tekjur ríkissjóðs um 5 milljarða kr. Áhrif á launaumslag hvers launamanns verða hins vegar lítil og sama gildir um áhrif á hagkerfið, ef að líkum lætur. 3. minni hluti telur, að teknu tilliti til erfiðrar stöðu ríkissjóðs, að tekjuskattslækkun sem boðuð er í frumvarpinu sé misráðin.
    Að mati 3. minni hluta væri auðveldara að styðja skattalækkun eins og þá sem lögð er til í frumvarpinu ef fyrir lægju áætlanir um að auka tekjur ríkissjóðs að öðru leyti. Því er hins vegar ekki að heilsa. Stjórnarmeirihlutinn hefur ákveðið að hverfa að mestu frá áður samþykktri fjárfestingaráætlun, sem laut að því að hrinda í framkvæmd tekjuskapandi aðgerðum í atvinnulífinu. Litlar áætlanir virðast fyrirliggjandi að mati 3. minni hluta um annars konar sókn til tekjuöflunar í framtíðinni í stað þeirrar sem samþykkt var.
    Ný útfærsla á skattstofni og skattskyldu sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki mun í raun fjármagna lækkun tekjuskattsins, en gert er ráð fyrir að skatturinn verði einnig lagður á fjármálafyrirtæki í slitameðferð. 3. minni hluti telur sig vel geta stutt slíka skattlagningu og hefur dregið verulega úr efasemdum 3. minni hluta um lögmæti skattsins eftir málsmeðferð nefndarinnar. Skatturinn getur skilað ríkissjóði umtalsverðum tekjum. Hins vegar er ljóst að hann mun ekki skila þeim tekjum í mörg ár, því einhvern tímann í náinni framtíð kemur til uppgjörs búanna. Það er ekki góð stefna að mati 3. minni hluta að fjármagna lækkun á varanlegum tekjustofni, sem er tekjuskatturinn, með hækkun á tímabundnum skatti. Líklegt er að það geti leitt til fjárhagslegra vandkvæða þegar fram líða stundir.
    Þriðji minni hluti hvetur til þess að tekjur af sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki, sem er tímabundinn, verði notaðar til fjárfestinga, greiðslu skulda hins opinbera og í nauðsynleg uppbyggingar- og viðhaldsverkefni. Þannig getur tímabundinn skattur orðið til þess að skapa varanlegan sparnað og arð.
    Þriðji minni hluti gagnrýnir að endanleg tillaga um skatthlutfall sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki hafi ekki enn verið rædd í nefndinni og hafi enn ekki komið fram í formi breytingartillögu.
    Þá gagnrýnir 3. minni hluti mjög áform frumvarpsins um breytingar á tryggingagjaldi þar sem hlutur Fæðingarorlofssjóðs er minnkaður til muna.

Alþingi, 18. desember 2013.



Guðmundur Steingrímsson.