Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 2. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 406  —  2. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um tekjuaðgerðir frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014 (tekjuskattur einstaklinga, virðisaukaskattur, launatengd gjöld og skattar á fjármálafyrirtæki).


Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


Lækkun tekjuskatts.
    Að mati 1. minni hluta mun sú tillaga sem felst í a- og b-lið 1. gr. frumvarpsins ekki leiða til þeirrar niðurstöðu sem æskilegust væri. Fyrirhuguð 0,8% lækkun á tekjuskatti í miðþrepi er ávísun á 5 milljarða kr. tekjutap fyrir ríkissjóð. Þessir fjármunir munu ekki rata til lág- og millitekjufólks og því nýtast þeim hæstlaunuðu best.
    Það er álit 1. minna hluta að réttara sé að verja þessum fjármunum til þess að hækka neðri mörk miðþreps tekjuskatts úr um 250.000 kr. í 350.000 kr. Slík aðgerð er í samræmi við tillögur sem nefndinni bárust frá Alþýðusambandi Íslands og kosta ríkissjóð álíka fjárhæð og tillögur um lækkun skatthlutfalls í miðþrepi. Slík aðgerð mun skila launþegum með tekjur á bilinu 250–600 þús. kr. meiri ávinningi en tillögur frumvarpsins. Þá mun slík aðgerð skila hlutfallslega meiri ávinningi eftir því sem tekjur manna eru lægri. Aðeins 25% tekjuhæstu munu fá minna með þessari leið en með þeirri leið sem ríkisstjórnin leggur til.

Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.
    Meiri hlutinn leggur til smávægilega hækkun sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki í ljósi hugmynda um svokallað frímark heildarskulda undir 50 milljörðum kr. Að mati 1. minni hluta eru tillögur um frímarkið af hinu góða og að það sé nauðsynlegt til að mæta þörfum minni fjármálafyrirtækja.
    Fyrsti minni hluti telur breytingartillögur meiri hlutans jákvæðar og til þess fallnar að bregðast við athugasemdum sem komið hafa fram um álagningu skattsins. 1. minni hluti leggur fram tillögu sem hefur í för með sér að tekjur af sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki verða 6 milljörðum kr. hærri en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Sé bankaskattur jafn örugg tekjulind og meiri hlutinn leggur upp með eru engin sérstök rök fyrir því að hann verði ekki nýttur til þess að afla tekna og fjármagna önnur opinber verkefni en niðurfellingu verðtryggðra fasteignalána. Sjálfsagt er að nota skattinn til að fjármagna atvinnuþróunarverkefni. Fjármögnun slíkra verkefna fer vel saman við sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki að því leyti að þau eru tímabundin í eðli sínu líkt og skatttekjur af fjármálafyrirtækjum í slitameðferð.

Útboð aflaheimilda í makríl.
    Fyrsti minni hluti leggur til að 3,5 milljarða kr. verði aflað með útboði aflaheimilda í makríl. Eðlilegt er að leggja sérstakt gjald á úthlutun veiðiheimilda í nýjum tegundum, enda ekki þá fyrir hendi löng veiðireynsla eða mikil skuldsetning útgerðarfyrirtækja vegna fjárfestingar í veiðiheimildum. Samkomulag hefur náðst milli stjórnar og stjórnarandstöðu um þverpólitískt samstarf við að útfæra slíka gjaldtöku, með það að markmiði að hægt verði að leggja slík gjöld á á árinu 2014.

Sérstakt veiðigjald.
    Að mati 1. minni hluta voru gerð stór mistök þegar Alþingi ákvað að lækka sérstakt veiðigjald umtalsvert á 142. löggjafarþingi. Nauðsynlegt er að afturkalla þá lækkun og tryggja að lög um veiðigjöld nái tilætluðum árangri. Því leggur 1. minni hluti fram tillögu sem er í samræmi við tillögu sem lögð var fram á 142. löggjafarþingi (þskj. 60 í 15. máli). Samkvæmt áætlun 1. minni hluta ættu tekjur vegna þessarar lagfæringar að nema um 2,1 milljarði kr. á árinu 2014. Glænýjar tölur frá Hagstofu Íslands um afkomu í sjávarútvegi sýna skýrt að ekkert er því til fyrirstöðu að ráðast í hækkun sérstaks veiðigjalds. Þær tekjur sem 1. minni hluti áætlar að hækkunin hafi í för með sér fyrir ríkissjóð verða þó aðeins þriðjungur af því sem þær væru ef tillögur minni hluta atvinnuveganefndar frá 142. löggjafarþingi hefðu notið stuðnings stjórnarflokkanna.

Hækkun virðisaukaskatts á útleigu hótel- og gistiherbergja og annarri gistiþjónustu.
    Að mati 1. minni hluta er rétt að ráðast í þá hækkun virðisaukaskatts á útleigu hótel- og gistiherbergja og annarri gistiþjónustu sem samþykkt var á 141. löggjafarþingi. Af þeim sökum leggur 1. minni hluti fram tillögu í þá átt sem skila ætti 1,8 milljörðum kr. til ríkissjóðs.

Átak til að herða skatteftirlit.
    Að mati 1. minni hluta er tilefni orðið til þess að herða skatteftirlit. Daglega berast sögur af skattsvikum í sjálfstæðri atvinnustarfsemi og embætti ríkisskattstjóra hefur bent á að hert skatteftirlit gæti skilað miklum árangri við núverandi aðstæður. 1. minni hluti fjárlaganefndar lagði til að 100 millj. kr. yrði ráðstafað af fjárlögum til ríkisskattstjóra til að efla skatteftirlit. Mat 1. minni hluta er að efling eftirlitsins muni reynast ríkissjóði ábatasöm og gerir hann ráð fyrir því að um 3 milljarðar kr. ættu að heimtast í ríkissjóð með slíkum hætti.

Samantekt.
    Breytingartillögur 1. minni hluta sem gerð er grein fyrir í áliti þessu og lagðar eru til í sérstöku þingskjali gera ráð fyrir aukinni tekjuöflun fyrir ríkissjóð sem nemur 13,4 milljörðum kr. auk þess sem hert skatteftirlit ætti að skila ríkissjóði um 3 milljörðum kr. Verði breytingartillögur 1. minni hluta samþykktar ætti heildartekjuaukning ríkissjóðs því að nema um 16,4 milljörðum kr.

Alþingi, 17. desember 2013.

Árni Páll Árnason.