Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 193. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 412  —  193. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur
um Dýrafjarðargöng og samgönguáætlun.


     1.      Hver er afstaða ríkisstjórnarinnar til mikilvægis Dýrafjarðarganga milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar?
    Ráðherra er þeirrar skoðunar að Dýrafjarðargöng séu mikilvæg samgöngubót.

     2.      Hefjast framkvæmdir við Dýrafjarðargöng árið 2016 að loknum Norðfjarðargöngum eins og fyrri ríkisstjórn samþykkti og lýkur þeim árið 2018 eins og fyrirhugað er í samgönguáætlun?
    Miðað við áætlanir mun framkvæmdum við Norðfjarðargöng ljúka árið 2017. Eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar við afgreiðslu 12 ára samgönguáætlunar í júní 2012 var lagt til að framkvæmdum við Dýrafjarðargöng yrði flýtt þannig að þau færðust yfir á framkvæmdatímabilið 2015–2018 og verði þá lokið. Þetta var ein framkvæmd af mörgum sem ætlunin var að flýta með þeirri ákvörðun fyrri ríkisstjórnar að beina viðbótarfé til samgöngumála á því árabili sem samgönguáætlun tekur til.
    Fjárþörf til verkefna á næstu samgönguáætlun, til fjögurra eða tólf ára, kemur í ljós þegar vinnu við þær lýkur, en vænta má niðurstöðu þeirrar vinnu á næstu vikum.

     3.      Hvaða verkefni í núgildandi samgönguáætlun hafa ekki verið boðin út?
    Gengið er út frá að átt sé við samgönguáætlun 2011–2014. Á sviði Vegagerðarinnar á þetta við um Brú á Jökulsá á Fjöllum, Dettifossveg og Arnarnesveg auk smærri verkefna við tengivegi o.fl.
    Öll útboðsskyld verk á sviði flugvalla og flugleiðsöguþjónustu í núgildandi samgönguáætlun sem farið hefur verið í hafa þegar verið boðin út. Í tilfelli sérhæfðra verka hefur verið gerð verðkönnun meðal allra verktaka sem til greina hafa komið. Á sviði flugmála árið 2012 á þetta við um aðflugsljós við braut 13 á Reykjavíkurflugvelli.
    Töluverður samdráttur varð á fé til flugmála árið 2013 auk þess sem hluta af fjármagni sem ætlað var í framangreind verkefni var varið í efnisvinnslu vegna klæðningar á flugbraut á Gjögri, en það verkefni var ekki á samgönguáætlun. Verkefni ársins 2013 sem ekki var farið í eru ljósa- og flugleiðsögubúnaður á Reykjavíkurflugvelli, Akureyrarflugvelli og Egilsstaðaflugvelli auk ljósabúnaðar á Vopnafjarðarflugvelli.
    Framkvæmdir við hafnir og sjóvarnir eru almennt á áætlun, annaðhvort lokið eða standa yfir. Einstök verk hafa dregist vegna skipulags- og umhverfismála. Loks hafa nokkur verkefni reynst kostnaðarsamari en ráð var fyrir gert en almennt hafa verkefnin staðist áætlun.