Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 127. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 413  —  127. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Vigdísi Hauksdóttur um flugrekstrarleyfi.

    
    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu hárri fjárhæð í íslenskum krónum, á að giska, nemur dulin ríkisábyrgð fyrir flugrekstrarleyfum WOW air og Icelandair komi til þess að félögin fari í þrot?
    
    Flugrekstrarleyfi og tilheyrandi flugrekendaskírteini eru gefin út á grundvelli IX. kafla laga um loftferðir, nr. 60/1998, og samkvæmt reglugerð nr. 48/2012 um sameiginlegar reglur um rekstur flugþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins, reglugerð um flutningaflug nr. 1263/2008 og ákvörðun Flugmálastjórnar nr. 2/2008 um innleiðingu krafna um flutningaflug þyrlna. Skilyrði fyrir veitingu flugrekstrarleyfis koma fram í reglugerð nr. 48/2012 en þau felast m.a. í að fyrirtæki uppfylli tiltekin fjárhagsskilyrði.
    Samgöngustofa framkvæmir reglubundnar úttektir á öllum þáttum rekstrar á tilteknu tímabili. Hér er um að ræða úttektir á stjórnkerfum í höfuðstöðvum fyrirtækja og á starfsemi erlendis eftir því sem við á sem og beint eftirlit með afmörkuðum þáttum starfseminnar.
    Fjárhagsleg skilyrði um flugrekstrarleyfi koma fram í 5. gr. reglugerðar EB nr. 1008/2008 sem er innleidd á Íslandi með reglugerð nr. 48/2012. Samkvæmt þessu ber Samgöngustofu að meta hvort fyrirtæki uppfylli fjárhagsskilyrðin. Það er gert m.a. með þeim hætti að leyfishafar afhenda Samgöngustofu rekstraráætlanir og áritaða ársreikninga til yfirferðar. Standist fyrirtæki ákvæði framangreindrar reglugerðar sem og aðrar viðeigandi flugöryggislegar kröfur eru flugrekstrarleyfi gefin út að nýju eða ný flugrekstrarleyfi gefin út þegar um fyrstu umsókn er að ræða.
    Falli flugrekstrarleyfi úr gildi þurfa fyrirtæki að sækja um flugrekstrarleyfi að nýju. Umsækjandi þarf þá að sýna fram á að nýju að viðeigandi kröfur séu uppfylltar. Umfang vinnu við að sækja um flugrekstrarleyfi að nýju mótast af stöðu viðkomandi fyrirtækja, þ.m.t. þeim tíma sem liðinn er frá því að leyfið féll úr gildi.
    Umfram það sem að framan greinir er ekki um fjárhagslegar kvaðir að ræða. Engar fjárhagslegar skuldbindingar hvíla á ríkinu vegna skulda flugfélaga frekar en á fjárhagslegum skuldbindingum annarra fyrirtækja á einkamarkaði.
    Bent er á að fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með ríkisábyrgðarmál. Hugsanlega er um að ræða einhverja ábyrgð ríkisins vegna heimflutnings á farþegum sem verða strandaglópar við gjaldþrot flugfélaga, en þau mál heyra undir Samgöngustofu.