Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 184. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 414  —  184. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur um millilandaflug.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu oft hafa farþegaflugvélar í millilandaflugi þurft að hætta við lendingu á Keflavíkurflugvelli á síðustu 10 árum?
     2.      Hvar lentu þessar flugvélar í þeim tilfellum sem lending í Keflavík var ekki möguleg?

    Tilvik þau sem hér er spurt um eru fátíð og er áætlað að þau séu frá einu tilviki til þriggja tilvika á ári.
    Farþegaflugi, þ.m.t. flug milli Íslands og annarra landa, er háttað þannig að öryggi er aldrei ógnað. Sé öryggi ekki fullkomlega tryggt er beðið með flug þar til hægt er að tryggja fullnægjandi öryggi.
    Þannig eru varaflugvellir fyrir alla millilandaflugvelli á Íslandi. Sé ekki hægt að lenda á einum þeirra er tryggt að hægt sé að komast til annars flugvallar. Í því sambandi er hugsað til mismunandi veðuraðstæðna, að ætíð sé nægjanlegt eldsneyti til að komast alla leið o.s.frv.
    Varaflugvellir fyrir millilandaflug á Íslandi eru eftir atvikum Reykjavíkurflugvöllur og flugvellirnir á Egilsstöðum og á Akureyri, einnig flugvellirnir í Glasgow og Prestwick í Skotlandi.