Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 204. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 417  —  204. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum (afleiðuviðskipti, vatnsveitur og fráveitur, arðsúthlutun til eigenda félaga, millilandasamruni, milliverðlagning, sérstakur fjársýsluskattur, eindagi).


Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund hennar komu Ingibjörg Helga Helgadóttir, Maríanna Jónasdóttir og Valdemar Ásbjörnsson frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Ragnar Tjörvi Baldursson og Símon Þór Jónsson frá Deloitte ehf., Jón Pétursson, Már Jóhannsson og Sigurjón Bjarnason frá Félagi bókhaldsstofa og Friðgeir Sigurðsson frá PriceWaterhouseCoopers ehf., Bergþóra Halldórsdóttir frá Samtökum atvinnulífsins, Jóna Björk Guðnadóttir frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Ingibjörg Árnadóttir frá Íslandsbanka og Gísli Hauksson og Guðmundur Björnsson frá Gamma. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Orkuveitu Reykjavíkur, Samorku – samtökum orku- og veitufyrirtækja, Félagi bókhaldsstofa, Kauphöll Íslands, PricewaterhouseCoopers ehf., ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja og Viðskiptaráði Íslands.
    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um tekjuskatt. Í almennum athugasemdum þess segir að breytingarnar séu liður í stefnu þar sem lögð er áhersla á endurbætt skattumhverfi og einföldun á skattkerfinu.
    Tillögur frumvarpsins voru í mörgum tilvikum taldar til verulegra bóta. Þá var stefnumörkun varðandi endurbætur og einföldun skattkerfisins oftlega fagnað.

Skattlagning tekna af afleiðusamningum.
Tekjur af afleiðusamningum.
    Fyrir nefndinni kom sú skoðun fram að orðalagið „tekjur af afleiðusamningum“ í 1. gr. frumvarpsins væri ekki nægilega skýrt. Var í framhaldinu vísað til tiltekinna ákvæða laga um tekjuskatt þar sem vísað hefði verið til tekna af íslenskum hlutabréfum eða vaxtatekna hér á landi. Kom í framhaldinu fram að túlkun þessara ákvæða hefði verið mismunandi.
    Meiri hlutinn telur rétt að bregðast við þessum athugasemdum og leggur til að skýrt verði tekið fram í frumvarpsgreininni að allir aðilar sem hafa tekjur af afleiðusamningum hér á landi skuli greiða tekjuskatt af þeim tekjum. Með því telur meiri hlutinn skýrt orðið að ákvæðinu er ætlað að taka til tekna innlendra aðila af afleiðusamningum sem gerðir eru við innlenda eða erlenda aðila en einnig taki ákvæðið til tekna erlendra aðila af afleiðusamningum sem gerðir eru við innlenda aðila. Það taki hins vegar ekki til tekna erlendra aðila af afleiðusamningum sem erlendir aðilar gera sín á milli þó að undirliggjandi eign sé íslensk, t.d. hlutabréf íslenskra fyrirtækja.
    Afleiður eru í eðli sínu mjög margbreytilegar og þurfa ekki að takmarka sig við breytingar á verði verðbréfa eða gengi gjaldmiðla. Afleiður felast almennt í því að einn aðili tekur á sig að takmarka áhættu annars vegna ýmiss konar ófyrirséðrar þróunar, t.d. í verði á afurðum, kjöti, fiski og gengi kvikmyndar, svo að dæmi séu nefnd. Þannig er áhætta tekin af atvinnulífinu í einstakri grein og henni dreift og jafnað með öðrum greinum.

Vaxtaskiptasamningar.
    Í 1., 3., 5. og 6. gr. frumvarpsins koma fram sérreglur um vaxtaskiptasamninga. Er þannig gert ráð fyrir að áfram falli tekjur af vaxtaskiptasamningum undir 8. gr. tekjuskattslaga en hún fjallar í meginatriðum um skattskylda vexti, afföll og gengishagnað. Þannig er ekki gert ráð fyrir að gerð verði breyting á skattalegri meðferð tekna af vaxtaskiptasamningum.
    Fyrir nefndinni var þetta gagnrýnt. Fram kom að vaxtaskiptasamningar væru ekki síður mikilvægir viðskiptalífinu og áhættusamir en t.d. gjaldmiðlaskiptasamningar þegar kæmi að því að draga úr og miðla áhættu í viðskiptum. Kom jafnframt fram að hægt væri að ná fram sama greiðsluflæði og liggur að baki slíkum samningum með annars konar afleiðusamningum.
    Meiri hlutinn leggur til þá breytingu að farið verði með vaxtaskiptasamninga eins og aðra afleiðusamninga. Þannig verði þeir ekki undanþegnir í 1. gr., eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Því til samræmis eru lagðar til breytingar á 3., 5. og 6. gr. frumvarpsins.

Meðferð söluhagnaðar af afleiðusamningum.
    Fyrir nefndinni var bent á að afleiðusamningar hafi ekki aðeins hlutabréf sem undirliggjandi eign, heldur einnig m.a. gjaldmiðla og skuldabréf, svo að fátt eitt sé nefnt.
    Að mati meiri hlutans komu ekki fram nægileg rök fyrir því að láta ákvæði um söluhagnað aðeins ná til hlutabréfaafleiða. Meiri hlutinn leggur því til þá breytingu á 7. og 8. gr. frumvarpsins að ákvæði 1. og 2. mgr. 18. gr., um söluhagnað af eignarhlutum í félögum, verði látin taka til allra afleiðusamninga í stað þess að þau taki aðeins til afleiðusamninga þar sem undirliggjandi eignir eru eingöngu hlutabréf.
    Bent var á það fyrir nefndinni að á Íslandi væri ekki starfræktur skipulegur verðbréfamarkaður þar sem hægt væri að selja afleiðusamninga. Kom það sjónarmið fram að lögtaka frumvarpsins mundi því litlu breyta um skattalega meðferð tekna af afleiðuviðskiptum sem hér tíðkuðust og væru eðlilegur þáttur í íslensku viðskiptalífi. Meiri hlutinn fellst á að framangreind gagnrýni eigi rétt á sér. Til þess að tryggja að markmið frumvarpsins nái fram að ganga leggur meiri hlutinn til að áskilnaður um sölu á skipulegum verðbréfamarkaði verði felldur brott úr 7. og 8. gr. frumvarpsins.
    Að lokum bendir meiri hlutinn á að íslensk stjórnvöld undirbúa um þessar mundir innleiðingu reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 648/2013, sem felur m.a. í sér ákvæði þess efnis að afleiðusamningar verði skráðir.

Millilandasamrunar.
Raunveruleg atvinnustarfsemi.
    Hugtakið raunveruleg atvinnustarfsemi kemur fram í 1. mgr. 9. gr. en gagnrýnt var að ekki lægi fyrir hver merking þess væri.
    Meiri hlutinn bendir á að hugtakið raunveruleg atvinnustarfsemi er skýrt í reglugerð nr. 1102/2013, um skattlagningu vegna eignarhalds í lögaðilum á lágskattasvæðum. Til lágskattaríkja teljast ríki þar sem álagður tekjuskattur af hagnaði félags, sjóðs eða stofnunar er í raun lægri en tveir þriðju hlutar af þeim tekjuskatti sem hefði verið lagður á hagnað lögaðilans hefði hann borið ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi. Þannig þarf við ákvörðun á hagnaði að leiða fram skattstofn rekstrarins samkvæmt gildandi íslenskum skattalögum um skattskyldu tekna og frádráttarbærni rekstrarkostnaðar og eftir atvikum að teknu tilliti til sannanlegs rekstrartaps í þeim rekstri. Þessi skilgreining gerir það að verkum að hækkun á innlendum sköttum getur gert erlend ríki að lágskattaríkjum í skilningi 57. gr. a.

Útreikningar staðfestir af löggiltum endurskoðendum.
    Fyrir nefndinni var vakið máls á því að misskilnings virtist gæta í 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins þar sem gert virtist ráð fyrir að endurskoðendur einir skyldu vinna útreikninga á gangverði eigna vegna samruna yfir landamæri.
    Í 2. málsl. framangreindrar málsgreinar segir að leggja skuli fram útreikninga á gangverði eigna með samrunaáætlun vegna samruna yfir landamæri, þeir skuli byggjast á mati sérfræðinga og staðfestir af löggiltum endurskoðendum félagsins, sbr. XIV. kafla laga um hlutafélög og laga um einkahlutafélög.
    Nefndinni barst sú ábending að ýmsir aðilar gæfu sig út fyrir að verðmeta fyrirtæki, þeirra á meðal fjármálafyrirtæki, lögfræðingar og skoðunarmenn auk löggiltra endurskoðenda. Skilningur meiri hlutans er að ekki sé lagt til að því verði breytt. Aftur á móti er í frumvarpsgreininni gerð krafa um að útreikningarnir verði staðfestir af löggiltum endurskoðanda félagsins. Þannig er gert ráð fyrir að útreikningarnir verði unnir af sömu aðilum og hingað til hafa unnið skýrslu um samrunaáætlanir samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög.

Yfirfærsla taps íslensks félags við samruna.
    Samkvæmt 10. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að gildandi ákvæði um flutning rekstrartaps á milli samrunafélaga gildi um yfirtökufélag við samruna yfir landamæri þegar það er heimilisfast á Íslandi, sýnt hafi verið fram á raunverulega atvinnustarfsemi þess og fyrir liggi á sannanlegan hátt að tapið hafi verið ónýtanlegt eða ekki nýtt áður.
    Fyrir nefndinni kom fram að heppilegra væri að taka af allan vafa um að undir ákvæðið féllu einungis félög sem væru tilgreind 1. mgr. 9. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn fellst á þetta og leggur til að skýrt verði kveðið á um það í 1. málsl. 10. gr. frumvarpsins að undir greinina falli aðeins yfirtökufélög, sbr. 2. mgr. 51. gr. laga um tekjuskatt.
    Þá var athygli nefndarinnar vakin á því að orðalag 2. málsl. 10. gr. væri óljóst að því leyti að ekki væri skýrt hvað þyrfti til að sanna með fullnægjandi hætti að tap væri ekki nýtt áður.
    Nefndinni barst sú ábending að í framangreindu fælist að félög sem tækju þátt í millilandasamruna nýttu það tap sem þau ættu, eftir því sem hægt væri, í heimilisfestarríkinu fyrir samrunann. Félög sem hingað kæmu í tengslum við slíkan samruna yrðu að gera grein fyrir eftirstöðvum ónýtts taps með skilmerkilegum hætti, t.d. með yfirlýsingu frá skattyfirvöldum, áður en til þess kæmi að þau gætu nýtt það hér á landi. Þá var bent á að í 2. málsl. 8. mgr. 9. gr. frumvarpsins væri ráðherra gert að setja reglugerð þar sem kveðið skyldi nánar á um framkvæmd samruna yfir landamæri, m.a. um bankatryggingu, skýrslur o.fl. Var talið ljóst að ýmislegt þyrfti að útfæra nánar í reglugerðinni er sneri að millilandasamruna og þar mætti m.a. skýra nánar hvað þyrfti til að sanna með fullnægjandi hætti að tap hafi ekki verið nýtt annars staðar.
    Skilningur meiri hlutans er að nánari skilgreining muni koma fram í reglugerð ráðherra varðandi það hvaða gögn verði að liggja til grundvallar til þess að sannað teljist með fullnægjandi hætti að tap hafi verið ónýtanlegt eða ekki nýtt áður í skilningi 10. gr. frumvarpsins.

Skjölunarskylda vegna viðskipta við tengda aðila.
    Í 11. gr. frumvarpsins er fjallað um verðlagningu í viðskiptum tengdra lögaðila. Ákvæði greinarinnar heimila að verð og skilmálar í viðskiptum milli tengdra aðila verði metnir og leiðréttir séu viðskiptin ekki sambærileg viðskiptum milli ótengdra aðila.
    Í 3. mgr. 11. gr. er gert ráð fyrir því að lögaðilar sem hafa á einu ári rekstrartekjur yfir 1 milljarði kr. og lögaðilar sem eiga heildareignir yfir 1 milljarði kr. í upphafi eða við lok reikningsárs verði skjölunarskyldir vegna viðskipta við tengda aðila.
    Fyrir nefndinni kom sú skoðun fram að skjölunarskyldan væri íþyngjandi og hún felldi umfangsmiklar skyldur á hendur fyrirtækjum sem ættu viðskipti við tengda aðila. Var gagnrýnt að skjölunarskyldunni væri ætlað að taka þegar gildi en koma til framkvæmda 1. janúar 2014. Var lýst áhyggjum af því að með því væri fyrirtækjum ekki gefinn nægur tími til að aðlagast auknum kröfum.
    Sú tillaga kom fram fyrir nefndinni að skjölunarskyldum aðilum yrði veittur frestur til þess að bregðast við beiðnum skattyfirvalda um framlagningu skjölunarskyldra gagna. Meiri hlutinn telur þessa tillögu til bóta og gerir hana að sinni. Þannig leggur meiri hlutinn til að nýr málsliður bætist við 3. mgr. þar sem skýrt komi fram að skjölunarskyldur lögaðili skuli bregðast við beiðni skattyfirvalda um aðgang að skjölunarskyldum gögnum innan 45 daga frá því að beiðnin kom fram.
    Það sjónarmið kom fram á fundum nefndarinnar að skjölunarskyldan gæti orðið sérstaklega íþyngjandi í kjölfar þess að frumvarpið fengi lagagildi enda væri hætta á að lögaðilar yrðu í einhverjum tilvikum skjölunarskyldir vegna viðskipta sem þegar hefðu átt sér stað á árinu 2013 og þeir hefðu á tíma viðskiptanna ekki verið grandvísir um skylduna.
    Skilningur meiri hlutans er að sú almenna regla gildi að íþyngjandi skyldur verði ekki lagðar á borgarana með afturvirkum hætti. Í ljósi þeirrar reglu verður skjölunarskyldan ekki virk fyrr en eftir að fyrirtæki hafa uppfyllt skilyrði skjölunarskyldunnar við áramót.

Reiknað endurgjald – 20/50.
    Í 12. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvæði 4. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt verði felld brott. Er tillagan lögð fram með það að leiðarljósi að fella svokallaða 20/50 reglu brott úr lögum um tekjuskatt.
    Sú ábending kom fram að regla 4. mgr. 58. gr. tæki samkvæmt efni sínu jafnt til þeirra sem féllu undir svokallaða 20/50 reglu og annarra sem ber að reikna sér endurgjald. Þá kom það sjónarmið fram að mikilvægt væri að lagaumhverfi reiknaðs endurgjalds væri skýrt og því væri rétt að endurvekja ákvæði um það hverjum beri að ákvarða sér endurgjald vegna starfa í þágu lögaðila, þar sem þeir hafa ráðandi eignaraðild.
    Meiri hlutinn fellst á að ábendingin eigi rétt á sér. Því er lagt til að 12. gr. frumvarpsins verði breytt á þann veg að í stað þess að í henni verði ekki einfaldlega kveðið á um brottfall 4. mgr. 58. gr. verði þar kveðið á um umorðun 2. og 3. málsl. hennar. Þar komi fram að maður teljist hafa ráðandi stöðu í samhengi greinarinnar ef hann einn eða ásamt maka, börnum, foreldrum, systkinum eða öðrum nákomnum ættingjum eða starfandi hluthöfum á samtals 50% hlut eða meira í lögaðila enda eigi hver um sig a.m.k. 5% hlut í þeim lögaðila.

Endurgreidd óheimil lán.
    Fyrir nefndinni kom sú tillaga fram að gerð yrði breyting á 3. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt. Þar yrði kveðið á um að sá hluti óheimilla lána til starfsmanna, hluthafa og stjórnarmanna í hlutafélögum eða einkahlutafélögum sem hefði verið endurgreiddur skyldi ekki skattlagður sem skattskyld gjöf.
    Meiri hlutinn telur að ákveðið tilefni hafi skapast til að taka skattlagningu slíkra lána til skoðunar. Tilefni þess er dómur Hæstaréttar Íslands frá 6. desember 2012. Ljóst er að slíkri skoðun verður þó ekki lokið með fullnægjandi hætti fyrir áramót.

Sérstakur fjársýsluskattur.
    Gerðar voru athugasemdir við 15. gr. frumvarpsins. Var andstöðu lýst við rökstuðning sem kemur fram í sérstökum athugasemdum við frumvarpsgreinina þar sem efnislega segir að ekki eigi að taka tillit til samsköttunar og yfirfæranlegs taps við álagningu sérstaks fjársýsluskatts vegna sérstöðu hans. Kom sú skoðun fram að breytingin væri afar íþyngjandi og skatturinn hefði enga sérstöðu umfram almennan tekjuskatt sem lagður væri á sama skattstofn. Voru líkur taldar á að breytingin mundi leiða til þess að ekki yrði horft til raunverulegrar afkomu fyrirtækja sem skattinn greiða.
    Gagnstæð sjónarmið komu þó fram fyrir nefndinni. Voru tengsl sérstaks fjársýsluskatts og almenns fjársýsluskatts talin mjög náin. Þannig var m.a. bent á að í athugasemdum frumvarps til laga um fjársýsluskatt kæmi fram að það væri liður í sérstökum tekjuöflunaraðgerðum fjárlagafrumvarpsins 2012. Miðað hefði verið við að skatthlutfall fjársýsluskatts yrði 10,5% en frumvarpið hafi tekið nokkrum breytingum í meðförum Alþingis. Niðurstaðan hafi orðið sú að lækka skatthlutfall fjársýsluskatts í 5,45% en lögfesta nýjan skatt samhliða, sérstakan fjársýsluskatt sem lagður yrði á hagnað umfram 1 milljarð kr. Var tekið fram að með þessari breytingu hefði verið komið til móts við athugasemdir hagsmunaaðila.
    Að mati meiri hlutans er tillaga 15. gr. eðlileg.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 18. desember 2013.



Frosti Sigurjónsson,


form.


Pétur H. Blöndal,


frsm.


Willum Þór Þórsson.



Guðmundur Steingrímsson, með fyrirvara.


Líneik Anna Sævarsdóttir.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.



Vilhjálmur Bjarnason.