Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 255. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 466  —  255. mál.
Fyrirspurntil fjármála- og efnahagsráðherra um rekstur Dróma hf. o.fl.

Frá Jóni Þór Ólafssyni.


     1.      Á hvaða grundvelli gerði Seðlabanki Íslands, ásamt dótturfélaginu Hildu ehf., 7. febrúar 2012 samning við Dróma hf. og veitti Dróma hf. fullt umboð til að sýsla með, og þar á meðal innheimta, veðskuldabréf í eigu Hildu ehf. en fyrir liggur að viðsemjandinn hafði hvorki þá né síðar tilskilin leyfi til slíkrar starfsemi? Hvaða lagaheimildir hefur Seðlabanki Íslands eða dótturfélög hans til þess háttar ráðstafana?
     2.      Á hvaða grundvelli var fyrir hönd Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. undirrituð í júní 2013 viljayfirlýsing um að hefja viðræður um kaup og sölu á eignum Dróma hf. til eignasafnsins og Arion banka hf. og kaup þess síðastnefnda á einstaklingslánum Hildu ehf.? Samræmist sú ráðstöfun 1. tölul. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 17. apríl 2009 um aðra breytingu á fyrri ákvörðun þess, dags. 21. mars 2009, um ráðstöfun eigna og skulda SPRON? Hefur Fjármálaeftirlitið veitt samþykki sitt fyrir slíkum gjörningi eins og þar er kveðið á um?
     3.      Hefur náðst niðurstaða um hvort af samkomulagi verður í samræmi við viljayfirlýsinguna og ef ekki, hvenær má búast við niðurstöðu?
     4.      Liggur fyrir hversu hár áfallinn rekstrarkostnaður er af starfsemi Dróma hf. og tengdra fyrirtækja fram til þessa dags, þ.m.t. þóknanir til slitastjórna, starfsmannahald, annar lögfræðikostnaður og kostnaður við viðhald og rekstur fasteigna í eigu samstæðunnar?
     5.      Hvenær er gert ráð fyrir að slitum SPRON hf. og dótturfélaga samstæðunnar ljúki?


Skriflegt svar óskast.