Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 219. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 498  —  219. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Árna Páli Árnasyni um tillögur ríkisstjórnarinnar
til að lækka höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu stór hluti fyrirhugaðrar niðurfærslu lendir hjá framteljendum þar sem skuldahlutfall (hlutfall húsnæðisskulda af fasteignamati íbúðarhúsnæðis) miðað við framtal er undir 100%? Hversu stór hluti lendir hjá framteljendum með undir 80% sem er algengt lánshlutfall nú? Hversu stór hluti niðurfærslunnar lendir hjá þeim þar sem skuldahlutfall er undir 50%? Óskað er sundurliðunar á upphæð niðurfellingar og fjölda heimila sem fá niðurfellingu eftir tíundahlutum skuldahlutfalls (0–10%, 10–20%, o.s.frv.).
     2.      Hversu stór hluti niðurfærslunnar lendir hjá framteljendum þar sem greiðslubyrði er undir 20% af tekjum sem er algengt viðmið nú við veitingu húsnæðislána?
     3.      Hversu stór hluti niðurfærslunnar lendir hjá þeim framteljendum sem hafa tekjur yfir meðallagi? Hversu stór hluti lendir hjá þeim sem hafa tekjur í efsta fimmtungi tekjuskattsstofns? Óskað er sundurliðunar á upphæð niðurfellingar og fjölda heimila sem fá niðurfellingu eftir tíundum tekjubila (0–10%, 10–20%, o.s.frv.).
     4.      Hversu margir af þeim þar sem skuldahlutfall er yfir 100% komast undir 100% með niðurfærslunni? Hvert er meðaltalsskuldahlutfall þeirra sem eru yfir 100% fyrir og eftir aðgerð?
     5.      Hversu margir af þeim sem eru með greiðslubyrði yfir 20% af ráðstöfunartekjum komast undir 20% með niðurfærslunni? Hver er meðaltalsgreiðslubyrði þeirra sem eru með 20% eða hærri greiðslubyrði fyrir og eftir aðgerð?
     6.      Hversu margir af þeim sem eru með greiðslubyrði yfir 30% af ráðstöfunartekjum komast undir 30% með niðurfærslunni?
     7.      Hversu margir eru í alvarlegum skuldavanda, þ.e. með skuldir umfram 100% virði íbúðarhúsnæðis? Hversu miklar eru skuldir þeirra umfram 100% í fjárhæðum? Hvað eru þeir með stóran hluta húsnæðisskuldanna? Hvernig dreifist þessi hópur á tekjuskalann? Hversu margir í þessum hópi eru með greiðslubyrði umfram 20% af tekjum?
     8.      Hvað eru margir í greiðsluvanda, t.d. með greiðslubyrði umfram 30% af tekjum? Hvernig er skuldsetning þeirra, meðalskuld, skuldir í hlutfalli við fasteignamat íbúðarhúsnæðis?
     9.      Er skuldavandinn mismunandi eftir fjölskylduformi, mælt miðað við skuldahlutfall og greiðslubyrði? Hverju breyta boðaðar aðgerðir þar um?


    Spurt er í níu liðum um tillögur ríkisstjórnarinnar til að lækka höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána. Einkum er spurt um áhrif leiðréttingar á hópa með tekjur, skuldir og greiðslubyrði á ákveðnu bili. Forsætisráðuneytið býr ekki yfir upplýsingum til að svara þessari fyrirspurn. Enginn fyrirliggjandi gagnagrunnur getur metið áhrif leiðréttingarinnar á einstaka tekju-, skulda- og greiðslubyrðishópa með nægjanlega nákvæmum hætti, ekki hvað síst vegna samspils við fyrri aðgerðir sem dragast frá leiðréttingunni. Í því efni er rétt að nefna að tölfræðilegar upplýsingar um skuldir heimila og fyrirtækja, sem Hagstofu Íslands er heimilt að kalla eftir samkvæmt lögum nr. 104/2013, lágu ekki fyrir við vinnslu tillagna sérfræðihópsins um höfuðstólslækkun húsnæðislána og munu að líkindum ekki liggja fyrir fyrr en á síðari hluta næsta árs. Því hefur verið notast við framtalsupplýsingar frá ríkisskattstjóra við mat á umfangi aðgerðanna og mat á því hvernig höfuðstóll lækkar eftir skuldum framteljanda. Forsætisráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið munu hins vegar á næstunni safna frekari upplýsingum um dreifingu leiðréttingar, m.a. með upplýsingum úr skattframtölum að því marki sem það er unnt, með það að markmiði að þær nýtist við þinglega meðferð mála sem tengjast leiðréttingunni. Rétt er þó að ítreka það að aðgerðir ríkisstjórnarinnar um höfuðstólslækkun húsnæðislána, sem kynntar voru 30. nóvember sl., eru almennar og nýtast öllum þeim sem voru með skráðar verðtryggðar húsnæðisskuldir á tilteknum tíma, óháð tekjum, skuldum og fjárhagsstöðu að öðru leyti. Aðgerðirnar eru ekki félagslegt úrræði heldur er þeim ætlað að taka á þeim vanda heimila sem til er kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af gengislækkun íslensku krónunnar.