Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 241. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 519  —  241. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur
um íslenska starfsmenn sendiráða og tryggingagjald.


     1.      Hvernig hefur ráðherra brugðist við erindi sem barst ráðuneytinu 10. ágúst 2012 frá stéttarfélögunum VR og BHM um mismunun sem íslenskir starfsmenn erlendra sendiráða þurfa að þola vegna undanþágu vinnuveitenda þeirra frá greiðslu tryggingagjalds skv. 3. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga um tryggingagjald, nr. 113/1990?
    Ráðuneytið svaraði framangreindu erindi, dags. 10. ágúst 2012, með bréfi til VR og BHM, dags. 31. október 2012. Í svari ráðuneytisins kemur m.a. fram að tryggingagjald hafi verið skilgreint sem skattur sem leggst einungis á launagreiðendur. Í því felst að kröfur stjórnarskrárinnar um skattlagningarheimildir eiga við um gjaldskyldu tryggingagjalds. Með öðrum orðum, menn eiga ekki val um það hvort þeir eru skattskyldir aðilar heldur ræðst skattskyldan af ákvæðum laga nr. 113/1990, um tryggingagjald. Í því felst að jafnvel þótt tiltekin réttindi séu tengd greiðslu tryggingagjalds er gjaldið ekki lagt á aðra en þá sem falla undir gjaldskyldu viðkomandi skattlagningarheimildar.
    Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, er lögð skylda á launagreiðendur að inna af hendi tryggingagjald af greiddum launum. Í 2. mgr. 4. gr. sömu laga kemur fram að gjaldskyldan taki til allra launagreiðenda sem greiða laun eða þóknanir fyrir starf. Beina undanþágu fyrir erlend sendiráð er að finna í 3. tölul. 1. mgr. 5. gr. fyrrgreindra laga, en samkvæmt þeim tölulið eru sendiráð og sendiherrar erlendra ríkja, sendiræðismenn og erlendir starfsmenn við sendiráð undanþegnir gjaldskyldu. Erlend sendiráð sem greiða íslenskum aðilum laun eru því ekki tryggingagjaldsskyld af launum íslenskra starfsmanna sinna samkvæmt gildandi lögum.
    Þegar horft er til þess að um skatt á launagreiðendur er að ræða verður að telja heimildir íslenskra skattyfirvalda til álagningar tryggingagjalds á aðila sem ekki falla undir skattalögsögu Íslands skv. 1.–3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, hæpnar. Standi vilji stjórnvalda til að gera breytingar þar á, t.d. með niðurfellingu á 3. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, þarf að huga að því að sú breyting fari ekki í bága við ákvæði alþjóðasamninga um skattfrelsi erlendra ríkja en skv. 1. mgr. 23. gr. laga nr. 16/1971, um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband, skulu sendiríki og forstöðumaður sendiráðs undanþegin öllum sköttum og gjöldum til ríkis, sveitarfélaga og annarra umdæma að því er tekur til sendiráðssvæðisins.
    Forsenda þess að launamaður haldi réttindum sínum til fæðingarorlofs er að greitt sé tryggingagjald vegna hans. Vegna undanþágu sendiráða til greiðslu gjaldsins er það starfsmaðurinn sem yrði að standa skil á því vilji hann tryggja sér framangreind réttindi. Þessi túlkun skattyfirvalda kemur einnig fram í ákvarðandi bréfi ríkisskattstjóra, nr. 5/2001.

     2.      Er ráðherra reiðubúinn til að beita sér fyrir breytingu á lögum um tryggingagjald svo að umræddir starfsmenn erlendra sendiráða þurfi ekki sjálfir að greiða tryggingagjaldið af eigin launum og þola þannig 7–10% launaskerðingu vilji þeir á annað borð njóta þeirra réttinda sem tryggingagjaldið veitir, svo sem réttar til atvinnuleysisbóta, fæðingarorlofs o.fl.?
    Með vísan til 1. tölul. fyrirspurnarinnar telur ráðuneytið að þegar um er að ræða launagreiðanda sem telst ekki skattskyldur hér á landi, skv. I. kafla laga nr. 90/2003, sé ekki fyrir hendi skylda til greiðslu tryggingagjalds í skilningi laga nr. 113/1990, um tryggingagjald.
    Ef leggja á til breytingar á lögum um tryggingagjald verður að ganga úr skugga um að þær gangi ekki í berhögg við ákvæði Vínarsamningsins eða aðra alþjóðasamninga sem Ísland er skuldbundið af. Vínarsamningurinn og framangreind túlkun skattyfirvalda gerir það að verkum að sendiráð erlendra ríkja eru ekki greiðandi tryggingagjalds, en starfsmaðurinn getur engu síður gert ráðstafanir til að hann njóti réttinda samkvæmt gildandi lögum. Þótt lagaskylda til greiðslu tryggingagjalds sé ekki fyrir hendi hjá sendiráðum hefur ráðuneytið hug á, í samstarfi við utanríkisráðuneytið og eftir atvikum velferðarráðuneytið, að kanna hvaða leiðir gætu verið færar fyrir hinn íslenska sendiráðsstarfsmann sem óskar eftir að vinnuveitandi hans, þ.e. sendiráðið, greiði tryggingagjald af launum hans þannig að réttindi hans séu tryggð, líkt og sendiráð Íslands gera í mörgum ríkjum.