Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 273. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 522  —  273. mál.




Beiðni um skýrslu



frá forsætisráðherra um áætluð áhrif af framkvæmd tillagna ríkisstjórnarinnar
um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána.


Frá Árna Páli Árnasyni, Guðbjarti Hannessyni, Helga Hjörvar, Katrínu Júlíusdóttur, Kristjáni L. Möller, Oddnýju G. Harðardóttur, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur,
Valgerði Bjarnadóttur og Össuri Skarphéðinssyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að forsætisráðherra skili Alþingi skýrslu um áætluð áhrif af framkvæmd tillagna ríkisstjórnarinnar um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána sem voru kynntar í Hörpu 30. nóvember sl. Í skýrslunni verði meðal annars gerð grein fyrir eftirfarandi atriðum:
          Hversu stór hluti fyrirhugaðrar niðurfærslu lendir hjá framteljendum þar sem skuldahlutfall (hlutfall húsnæðisskulda af fasteignamati íbúðarhúsnæðis) miðað við framtal er undir 100%, hversu stór hluti lendir hjá framteljendum með undir 80%, sem er algengt lánshlutfall nú, og hversu stór hluti niðurfærslunnar lendir hjá þeim þar sem skuldahlutfall er undir 50%. Upplýsingar um upphæð niðurfellingar og fjölda heimila sem fá niðurfellingu verði sundurliðaðar eftir tíundahlutum skuldahlutfalls (0–10%, 10–20% o.s.frv.).
          Hversu stór hluti niðurfærslunnar lendir hjá framteljendum þar sem greiðslubyrði er undir 20% af tekjum, sem er algengt viðmið nú við veitingu húsnæðislána.
          Hversu stór hluti niðurfærslunnar lendir hjá þeim framteljendum sem hafa tekjur yfir meðallagi og hversu stór hluti lendir hjá þeim sem hafa tekjur í efsta fimmtungi tekjuskattsstofns. Upplýsingar um upphæð niðurfellingar og fjölda heimila sem fá niðurfellingu verði sundurliðaðar eftir tíundum tekjubila (0–10%, 10–20% o.s.frv.).
          Hversu margir af þeim þar sem skuldahlutfall er yfir 100% komast undir 100% með niðurfærslunni og hvert er meðaltalsskuldahlutfall þeirra sem eru yfir 100% fyrir og eftir aðgerð.
          Hversu margir af þeim sem eru með greiðslubyrði yfir 20% af ráðstöfunartekjum komast undir 20% með niðurfærslunni og hver er meðaltalsgreiðslubyrði þeirra sem eru með 20% eða hærri greiðslubyrði fyrir og eftir aðgerð.
          Hversu margir af þeim sem eru með greiðslubyrði yfir 30% af ráðstöfunartekjum komast undir 30% með niðurfærslunni.
          Hversu margir eru í alvarlegum skuldavanda, þ.e. með skuldir umfram 100% virði íbúðarhúsnæðis, hversu miklar eru skuldir þeirra umfram 100% í fjárhæðum, hvað eru þeir með stóran hluta húsnæðisskuldanna, hvernig dreifist þessi hópur á tekjuskalann og hversu margir í þessum hópi eru með greiðslubyrði umfram 20% af tekjum.
          Hvað eru margir í greiðsluvanda, t.d. með greiðslubyrði umfram 30% af tekjum, hvernig er skuldsetning þeirra, meðalskuld, skuldir í hlutfalli við fasteignamat íbúðarhúsnæðis.
          Er skuldavandinn mismunandi eftir fjölskylduformi, mælt miðað við skuldahlutfall og greiðslubyrði og hverju breyta boðaðar aðgerðir þar um.