Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 229. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 531  —  229. mál.




Svar


iðnaðar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur
um nýfjárfestingar á Íslandi.


     1.      Hvað hafa stjórnvöld gert marga samninga um nýfjárfestingar á Íslandi byggða á lögum nr. 99/2010?
    Stjórnvöld hafa gert sex slíka samninga.

     2.      Eru einhverjir samningar um nýfjárfestingar fyrirhugaðir?
    Eitt af meginhlutverkum ráðuneytisins er að auka nýfjárfestingar í íslensku atvinnulífi. Ráðuneytið hefur nokkrar umsóknir um fjárfestingarsamninga til meðferðar og ekki er ólíklegt að gerðir verði samningar um nýfjárfestingar á næstu missirum.

     3.      Hyggst ráðherra leggja til að gildistími áðurnefndra laga verði framlengdur? Ef ekki, hvaða fyrirkomulag verður á ívilnandi samningum um nýfjárfestingar á Íslandi?
    Lögin voru ekki framlengd og runnu út um áramótin. Ráðuneytið vinnur að gerð frumvarps til nýrra rammalaga um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi og mun ráðherra leggja slíkt frumvarp fyrir Alþingi á vorþingi. Þar til slík rammalöggjöf hefur verið tekin upp er hægt að afla heimildar fyrir ráðherra til að gera fjárfestingarsamninga með sérstökum lögum um hvert og eitt fjárfestingarverkefni, ásamt tilkynningu til Eftirlitsstofnunar EFTA.

     4.      Hafa stjórnvöld gert ívilnandi fjárfestingarsamninga við fyrirtæki vegna nýfjárfestinga á Íslandi sem ekki hafa fallið undir umrædd lög eftir að þau tóku gildi? Ef svo er, hvers vegna var ekki stuðst við lögin?
    Einn slíkur samningur hefur verið gerður. Hann var undirritaður 27. september 2013 og var við þýska fyrirtækið PCC vegna byggingar kísilvers í landi Bakka fyrir utan Húsavík. Samningurinn var gerður á grundvelli laga nr. 52/2013, en með þeim lögum veitti Alþingi ráðherra heimild til að gera þann fjárfestingarsamning. Hvað varðar þetta tiltekna verkefni var það mat stjórnvalda á þeim tíma að ganga þyrfti lengra en lög nr. 99/2010 heimiluðu. Í frumvarpinu sem varð að lögum nr. 52/2013 er gerð grein fyrir þeim ástæðum er lágu þar að baki.