Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 233. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 537  —  233. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar
fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur, Lísu Margréti Sigurðardóttur og Sigrúnu Jönu Finnbogadóttur frá velferðarráðuneytinu, Ástu Sigrúnu Helgadóttur og Ólöfu Marín Úlfarsdóttur frá umboðsmanni skuldara, Þórólf Halldórsson frá sýslumanninum í Keflavík, Jónu Björk Guðnadóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Gunnhildi Gunnarsdóttur og Önnu Guðmundu Ingvarsdóttur frá Íbúðalánasjóði. Þá hafa nefndinni borist umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Íbúðalánasjóði, Landssamtökum lífeyrissjóða, Lögmannafélagi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja, sýslumanninum í Keflavík og umboðsmanni skuldara.
    Með frumvarpinu eru lögð til ný heildarlög um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta. Samkvæmt frumvarpinu geta einstaklingar, sem eiga í verulegum greiðsluörðugleikum og hafa leitað annarra greiðsluvandaúrræða án árangurs eða ekki er talið að önnur greiðsluvandaúrræði séu til þess fallin að leysa greiðsluvandann, sótt um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir skiptakostnaði við gjaldþrotaskipti hjá umboðsmanni skuldara. Þannig er þeim einstaklingum sem eru í mestu greiðsluörðugleikum, sem ekki er fyrirsjáanlegt að hægt verði að vinna úr, veittur möguleiki á að krefjast gjaldþrotaskipta á búi sínu og fá þannig lausn á greiðsluvandanum án þess að þurfa að leggja út fyrir skiptakostnaði sem reynst getur mörgum einstaklingum í greiðsluvandræðum erfiður þröskuldur. Um nýtt úrræði á vegum stjórnvalda er að ræða sem á að ná til þeirra sem verst standa og bendir nefndin á að úrræðið á að geta verið sérstaklega skilvirkt, en almennur fyrningarfrestur krafna er tvö ár frá skiptalokum, sbr. 2. mgr. 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, en það ákvæði á að endurskoða á þessu ári. Frumvarpið er hluti af aðgerðum stjórnvalda til lausnar á skuldavanda heimilanna en á sumarþingi 2013 var samþykkt þingsályktunartillaga forsætisráðherra þess efnis. Eitt af verkefnum stjórnvalda samkvæmt ályktuninni var að kanna hvernig eignalausum einstaklingum verði gert kleift að greiða kostnað vegna gjaldþrotaskipta á búi sínu.
    Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að eðlilegt hafi þótt að setja sérlög um úrræðið og þá hafi það jafnframt verið kannað hvernig fyrirkomulagi um töku ákvarðana um fjárhagsaðstoð væri best háttað. Í ljósi þeirrar sérfræðiþekkingar í úrvinnslu greiðsluvanda einstaklinga sem er til orðin hjá umboðsmanni skuldara þætti rétt að embættinu yrði falið að taka ákvarðanir um veitingu fjárhagsaðstoðar enda væri þá ákvörðunarferlið styttra og einfaldara, auk þess sem ætla mætti að margir þeirra sem sækja um úrræðið hafi þegar verið með mál til meðferðar hjá embætti umboðsmanns skuldara. Þá leggur nefndin til að lögin verði endurskoðuð fyrir árslok 2014 og árangur úrræðisins þá metinn, m.a. til að hægt verði að leggja mat á það hvort um varanlegt úrræði verði að ræða eða ekki. Eðlilegt er því að fela starfandi embætti á þessu sviði framkvæmd laganna þar til slíkt mat hefur farið fram.

Skilyrði fjárhagsaðstoðar.
    Samkvæmt 4. gr. frumvarpsins skulu umsækjendur um fjárhagsaðstoð beina skriflegri umsókn til umboðsmanns skuldara þar sem fram skulu koma helstu upplýsingar sem umboðsmanni skuldara eru nauðsynlegar til töku ákvörðunar í máli. Skv. 5. gr. frumvarpsins tekur umboðsmaður skuldara stjórnvaldsákvörðun um hvort fjárhagsaðstoð skuli veitt en ef umsókn er synjað er heimilt að kæra þá synjun til ráðherra skv. 6. gr. frumvarpsins. Um form umsóknar, málsmeðferð hjá umboðsmanni skuldara og fleiri atriði mælir ráðherra nánar fyrir um í reglugerð á grundvelli 8. gr.
    Í 3. gr. frumvarpsins koma fram skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð. Í fyrsta lagi er skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð að viðkomandi sé ógreiðslufær og ógjaldfær en hvort tveggja eru almenn skilyrði fyrir gjaldþrotaskiptum skv. 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Í öðru lagi er skilyrði að umsækjandi geti ekki staðið skil á tryggingu fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta að teknu tilliti til eigna- og skuldastöðu, sem og ráðstöfunartekna hans og framfærslubyrði. Í þriðja lagi er það skilyrði að önnur greiðsluvandaúrræði hafi verið reynd eða að umboðsmaður skuldara meti það svo að önnur greiðsluvandaúrræði séu ekki til þess fallin að leysa greiðsluvanda umsækjanda. Síðastnefnda skilyrðið vísar til þess að fjárhagsaðstoð samkvæmt frumvarpi þessu er neyðarúrræði þegar öll önnur úrræði hafa verið reynd eða eru fyrirsjáanlega ekki til þess fallin að leysa greiðsluvanda umsækjanda. Getur það átt við t.d. þegar skuldari er með neikvæða greiðslugetu að teknu tilliti til framfærslu.
    Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir þess efnis að í frumvarpinu væru ekki gerðar sambærilegar kröfur um háttsemi skuldara og gert er í lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010. Í lokamálslið 3. gr. frumvarpsins kemur fram að fjárhagsaðstoð verði ekki veitt hafi greiðsluaðlögunarumleitanir verið felldar niður skv. 15. gr., sbr. 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Í þessu felst að fjárhagsaðstoð verði ekki veitt ef skuldari hefur ekki virt þær skyldur sem á honum hvíla á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Ákvæðið á þó aðeins við þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn skuldara um greiðsluaðlögun, sbr. 9. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010. Ekki er hins vegar vikið að því í frumvarpinu hvernig fara eigi með umsókn aðila um fjárhagsaðstoð sem hefur verið synjað um greiðsluaðlögun á grundvelli 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Í þeirri grein er að finna aðstæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Er þar að meginstefnu til vísað til háttsemi skuldara áður en umsókn um greiðsluaðlögun er lögð fram eða áður en tekin er ákvörðun um hvort umsókn um greiðsluaðlögun skuli samþykkt. Nefndin telur eðlilegt að við ákvörðun um hvort veitt skuli fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta verði heimilt að líta að mestu til sömu atriða enda ekki eðlilegt að skuldari geti fengið fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar vegna gjaldþrotaskipta ef hann hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og umsókn hans um greiðsluaðlögun verið synjað á grundvelli 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Sama á við ef viðkomandi hefur ekki sótt um greiðsluaðlögun heldur sækir beint um fjárhagsaðstoð en fellur undir ákvæði 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Nefndin leggur því til breytingu á 3. gr. frumvarpsins þannig að í 2. mgr. ákvæðisins verði tekin upp ákvæði 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, sem eðlilegt er að líta til varðandi háttsemi skuldara sem mundi ella verða til að umsókn um greiðsluaðlögun yrði synjað.

Aðrar breytingar.
    Í 4. gr. frumvarpsins er fjallað um umsókn umsækjanda og m.a. hvaða gögn skulu fylgja umsókninni. Að fenginni ábendingu umboðsmanns skuldara leggur nefndin til að umsókn skuli fylgja síðustu fjögur skattframtöl umsækjanda til að gefa glögga mynd af fjárhag hans. Þá er einnig lagt til að umboðsmanni skuldara verði heimilt að fengnu upplýstu samþykki umsækjanda að afla nauðsynlegra gagna til að hægt sé að leggja mat á umsókn umsækjanda. Nefndin leggur einnig til þá breytingu á 8. gr. frumvarpsins að ráðherra verði skylt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna þar sem m.a. verði ítarlegri reglur um form umsóknar og um málsmeðferð hjá embætti umboðsmanns skuldara.
    Í 5. gr. er fjallað um ákvörðun um veitingu fjárhagsaðstoðar. Nefndin leggur til breytingu á fyrirsögn greinarinnar þannig að skýrt verði að á grundvelli ákvæðisins verði tekin ákvörðun um veitingu eða synjun umsóknar um fjárhagsaðstoð. Þá áréttar nefndin að í 2. mgr. ákvæðisins er vikið að yfirlýsingu umboðsmanns skuldara um veitingu fjárhagsaðstoðar. Þar sem ákvörðun umboðsmanns skuldara er stjórnvaldsákvörðun sem beinist að umsækjanda sendir umboðsmaður skuldara ekki ákvörðunina sem slíka til héraðsdóms heldur yfirlýsingu um að ákvörðun hafi verið tekin í málinu um veitingu fjárhagsaðstoðar.
    Í umsögn skrifstofu opinberra fjármála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu kemur fram að fjárhagsaðstoð samkvæmt frumvarpinu er skattskyld samkvæmt lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003. Kemur þar einnig fram að ríkisskattstjóri hafi heimild samkvæmt sömu lögum til að veita ívilnanir til lækkunar á tekjuskattsstofni í ákveðnum tilvikum. Er hér vísað til 65. gr. laga um tekjuskatt en matsatriði er hvort fjárhagsaðstoð samkvæmt frumvarpinu falli þar skýrlega undir. Til að taka af öll tvímæli um að skuldari þurfi ekki að greiða tekjuskatt af fjárhagsaðstoðinni leggur nefndin til að við 3. tölul. 28. gr. laga um tekjuskatt bætist málsliður um að fjárhagsaðstoð samkvæmt frumvarpinu teljist ekki til tekna og myndi því ekki skattskyldar tekjur.
    Að lokum leggur nefndin til lagatæknilega breytingu á lögum um umboðsmann skuldara, sem og áðurnefnda breytingu um endurskoðun laganna fyrir árslok 2014 en ætla má að þá liggi fyrir upplýsingar um árangur úrræðisins.
    Fyrirvari Helga Hrafns Gunnarssonar lýtur að því að ráðherra setji reglugerð um framkvæmd laganna um málsmeðferð umboðsmanns skuldara og geti á þann hátt fyrirskipað hvernig ákvæði 6. og 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, skuli túlkuð, eins og þau koma fyrir í þessum lögum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem vikið hefur verið að hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Unnur Brá Konráðsdóttir, framsögumaður nefndarinnar, var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 21. janúar 2014.


Líneik Anna Sævarsdóttir.Oddgeir Ágúst Ottesen.


Guðlaug Elísabet Finnsdóttir.Elsa Lára Arnardóttir.


Guðbjartur Hannesson.


Helgi Hrafn Gunnarsson,


með fyrirvara.Haraldur Einarsson.


Svandís Svavarsdóttir.


Vilhjálmur Árnason.