Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 259. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 543  —  259. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur
um óskjalfest fjármagn frá Rússlandi.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur verið rannsakað hvort eitthvað er hæft í þrálátum orðrómi um að mikið af óskjalfestu fjármagni hafi borist frá Rússlandi til innlagnar í íslenska banka eftir einkavæðingu þeirra í byrjun aldarinnar?

    Ráðuneytinu er ekki kunnugt um að mál þetta hafi verið rannsakað. Auk þess er hvorki að finna upplýsingar hjá Fjármálaeftirlitinu né Seðlabanka um að málið hafi verið rannsakað eða skoðað sérstaklega.
    Gera má ráð fyrir að lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka ættu við um þetta, núgildandi lög nr. 64/2006, áður lög nr. 80/1993. Þar er gert ráð fyrir að þeir sem verða varir við háttsemi eða atvik, sem benda til brota á lögunum, skuli gera lögreglu viðvart. Það er hlutverk lögreglu að rannsaka mál af þessu tagi, ekki er um að ræða að Fjármálaeftirlitið rannsaki brot og kæri til lögreglu, eða að aðeins verði af lögreglurannsókn að undangenginni kæru frá Fjármálaeftirlitinu eins og á t.d. við um brot á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007. Hlutverk Fjármálaeftirlitsins samkvæmt fyrrgreindum lögum nr. 64/2006 er að fylgjast með því að fjármálafyrirtæki og aðrir eftirlitsskyldir aðilar fari eftir lögunum og fer eftirlitið fram á grundvelli laga nr. 87/1998.