Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 253. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 546  —  253. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni
um stofnun Dróma hf. og ráðstöfun eigna og réttinda SPRON.


     1.      Á hvaða lagaheimild byggðist:
                  a.      sá hluti 4. tölul. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 21. mars 2009 um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. (SPRON) sem kvað á um stofnun nýs dótturfélags SPRON, sem síðar varð Drómi hf., og yfirfærslu allra eigna og réttinda SPRON til hins nýja félags,
                  b.      5. og 6. tölul. sömu ákvörðunar þar sem skilanefnd SPRON og fleirum var falið að framkvæma og skrá yfirfærsluna?
    Um lagagrundvöll ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis (SPRON), dags. 21. mars 2009 (hér eftir ákvörðun Fjármálaeftirlitsins), er ítarlega fjallað í fyrstu málsgrein og forsendukafla ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins. Þar kemur fram að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins sé tekin samkvæmt heimild í þágildandi 100. gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.

     2.      Á hvaða grundvelli byggðist sú ákvörðun að skilanefnd SPRON stofnaði dótturfélagið Dróma hf. sem eignarhaldsfélag fremur en sem fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/2002 og á hvaða heimild byggðist ráðstöfun eigna slitabúsins til slíks eignarhaldsfélags?
    Um lagagrundvöll ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins er vísað til svars við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins var skilanefnd SPRON m.a. falið að stofna sérstakt hlutafélag í eigu SPRON (Dróma hf.) sem átti að taka við öllum eignum félagsins og tryggingaréttindum. Þegar umrædd ákvörðun Fjármálaeftirlitsins var tekin lá fyrir að fjármálaráðherra mundi ekki nýta heimild skv. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 125/2008 til að reiða fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki eða þrotabú þess í heild eða að hluta.

     3.      Á hvaða lagaheimild byggðist, og gegn hvaða endurgjaldi, sú ráðstöfun skilanefndar SPRON að veita félaginu Mýrarhlíð ehf. 0,25% eignarhlut í Dróma hf. og þar með sambærilega hlutdeild í eignum úr slitabúi SPRON samkvæmt samningi 26. maí 2009?
    Um lagagrundvöll ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins er vísað til svars við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Skv. 4. og 6. tölul. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins var skilanefnd SPRON m.a. falið að stofna hlutafélag til að taka við öllum eignum SPRON. Samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög, nr. 2/1995, skulu stofnendur hlutafélags vera tveir hið fæsta. Tilgangur eignarhlutar Mýrahlíðar ehf. í Dróma hf. var að uppfylla það formskilyrði hlutafélagalaga. Mýrahlíð ehf. er í eigu SPRON-samstæðunnar.

     4.      Á hvaða lagaheimild byggðist undirritun þáverandi ráðherra á samningi við skilanefnd Kaupþings banka í júlí 2009 þar sem því var heitið í 6. tölul. samningsskilmála að stjórnvöld mundu halda Kaupþingi banka og Arion banka skaðlausum vegna kröfu þess síðarnefnda á hendur Dróma og hverju nemur fjárhæð þeirrar ríkisábyrgðar sem af þessu leiðir?
    Þegar fjármálaráðuneytið gaf út skaðleysisyfirlýsingu í tengslum við flutning innstæðuskuldbindinga frá SPRON til Arion var byggt á yfirlýsingum um tryggingu á innstæðum og ákvæðum laga nr. 125/2008 um forgangsrétt innstæðna. Enn fremur áttu allar eignir hins nýja dótturfélags SPRON að vera veðsettar til tryggingar fyrir skuldabréfinu sem og hlutabréf í dótturfélaginu. Arion fékk ekki beinar eignir á móti eins og hinir bankarnir og því var talið nauðsynlegt að ríkið ábyrgðist skaðleysi þess fyrirtækis í tengslum við ráðstafanirnar. Þeir samningar sem voru gerðir voru síðar í raun staðfestir með lögum nr. 138/2009, um heimild til að staðfesta breytingar á eignarhlut í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf.
    Fjárhæð þeirrar ábyrgðar sem um ræðir gat hæst numið mismun á verðgildi eignasafns SPRON/Frjálsa og þeirra innstæðna sem yfirteknar voru. Innstæðurnar námu um 89,5 milljörðum kr. en eignasafnið var talið nema nokkru hærri fjárhæð. Samkvæmt mati hefur eignavirðið sveiflast frá því að vera talið 110–140% innstæðna. Jafnframt hefur Drómi greitt inn á bréfið eftir því sem eignir hafa breyst í lausafé. Áhætta vegna skaðleysisyfirlýsingarinnar hefur því ekki verið talin veruleg.

     5.      Hefur ríkisábyrgð Arion banka hf. vegna yfirtöku innstæðna SPRON verið felld úr gildi til samræmis við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum eins og þær voru skýrðar nánar með dómi EFTA-dómstólsins 28. janúar 2013 í máli nr. E-16/11?
    Eftirlitsstofnun EFTA fjallaði um aðgerðir íslenska ríkisins vegna bankahrunsins í heild sinni á grundvelli reglna um ríkisaðstoð, þ.m.t. þá fyrirgreiðslu sem veitt var í tengslum við yfirtöku Arion á innstæðunum. Í ákvörðunarorðum ESA segir að eftirlitsstofnunin telji aðgerðirnar í samræmi við EES-samninginn að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem sett voru ríkinu og Arion banka.

     6.      Á hvaða grundvelli byggðist sá hluti 1. tölul. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 21. mars 2009 sem kvað á um ráðstöfun skuldbindinga SPRON vegna innstæðna til Nýja Kaupþings banka hf. (nú Arion banka hf.) án þess að samsvarandi eignir fylgdu með, sbr. 4. tölul. sömu ákvörðunar?
    Um lagagrundvöll ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins er vísað til svars við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Tilgangur aðgerða Fjármálaeftirlitsins var m.a. að tryggja fjármálastöðugleika, aðgang einstaklinga og fyrirtækja að innstæðum sínum og að hindra að tjón hlytist af á fjármálamarkaði. Voru því tilteknar skuldbindingar SPRON, m.a. vegna innstæðna viðskiptamanna SPRON, fluttar yfir til Nýja Kaupþings banka hf. Eins og fram kemur í 4. tölul. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins átti hið nýja dótturfélag SPRON að gefa út skuldabréf til Nýja Kaupþings banka hf. sem endurgjald fyrir hinar yfirteknu innlánsskuldbindingar. Enn fremur áttu allar eignir hins nýja dótturfélags SPRON að vera veðsettar til tryggingar fyrir skuldabréfinu, sem og hlutabréf í dótturfélaginu.