Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 290. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 580  —  290. mál.
Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur
um ferðalög forseta Íslands og maka hans.


    Ítarlegar upplýsingar um embættisferðir forseta Íslands, ráðstefnur, málþing, fundi, viðræður og aðra atburði sem forseti tekur þátt í erlendis er að finna á heimasíðu forsetaembættisins og í fréttatilkynningum. Þá eru í Stjórnartíðindum árið 2013 upplýsingar um allar utanferðir forseta eins og tíðkast hefur.

     1.      Hversu marga daga var forseti Íslands erlendis árið 2013?
    Forseti var alls 94 heila daga erlendis á árinu 2013, þar með taldir frídagar erlendis.

     2.      Hverjar utanferða forsetans árið 2013 voru opinberar og hverjar í einkaerindum? Heimsóknarland óskast tilgreint.
     3.      Hvað kostuðu fyrrgreindar ferðir, sundurliðað eftir ferðatilefnum og ferðalögum, og hverjir báru kostnaðinn, sundurliðað sem hér segir:
               a.      embætti forseta Íslands,
               b.      forsetinn sjálfur,
               c.      ríkin sem hann heimsótti,
               d.      einkaaðilar og þá hverjir og af hverju?

    Embættisferðir forseta á árinu 2013:
       a.      Opinber heimsókn til Frakklands: 523.693 kr. Gisting var í boði franskra stjórnvalda.
       b.      Opinber heimsókn til Þýskalands: 353.986 kr. Gisting var í boði þýskra stjórnvalda.
       c.      Afhendingarathöfn Zayed-orkuverðlaunanna og Heimsþing hreinnar orku í Abu Dhabi, en forseti er formaður dómnefndar verðlaunanna: 270.130 kr. Fargjald og gisting var í boði stofnunar verðlaunanna og þarlendra stjórnvalda.
       d.      Ráðstefnur um norðurslóðir í Washington, fundir með þingmönnum í öldungadeild Bandaríkjaþings, aðrir fundir í Washington og þátttaka í ráðgjafanefnd Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðabankans um hreina orku; heimsókn í Rannsóknarstöð hreinnar orku í Colorado: 1.329.602 kr.
       e.      Þátttaka í fundum og málstofum á Alþjóða efnahagsþinginu, World Economic Forum, í Davos í Sviss og á upplýsingatækni- og margmiðlunarþinginu DLD í München: 819.108 kr.
       f.          Alþjóðleg ráðstefna um jöklarannsóknir á Indlandi, fundir með indverskum stjórnvöldum, forsætisráðherra, utanríkisráðherra, fleiri ráðherrum og þingmönnum um samvinnu við Ísland, nýtingu hreinnar orku, þjálfun jöklafræðinga og norðurslóðir: 806.374 kr. Flug innanlands og gisting var í boði indverskra stjórnvalda.
       g.      Þátttaka í heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Berlín: 309.883 kr. Gisting var í boði gestgjafa.
       h.      Þátttaka í þremur ráðstefnum í London um norðurslóðir, hreina orku og endurreisn íslensks efnahagslífs: 376.665 kr.
       i.          Þátttaka í ráðstefnunni Arctic Business Round Table um viðskipti á norðurslóðum í Ósló: 214.016 kr. Gisting var í boði gestgjafa.
       j.          Fundur í dómnefnd Zayed-orkuverðlaunanna, þar sem forseti gegnir formennsku, í Abu Dhabi: 152.848 kr. Fargjald og gisting var í boði stofnunar verðlaunanna.
       k.      Krýningarafmæli Karls XVI Svíakonungs í Stokkhólmi: 298.564 kr.
       l.          Landsleikur Íslands og Króatíu í Zagreb: 60.146 kr.
       m.      Fundir með framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna Ban Ki-moon og öðrum embættismönnum Sameinuðu þjóðanna í New York sem og fundir og viðtöl við fjölmiðla um norðurslóðir: 773.357 kr.
       n.      Þátttaka í viðskiptaþingi Maine-ríkis í Bandaríkjunum, fundur með ríkisstjóranum og atburðir vegna upphafs siglinga Eimskips til Portland og tenginga við norðurslóðir: 351.494 kr. Gisting var í boði gestgjafa.
       o.      Þátttaka í norðurslóðaráðstefnu í Rússlandi í boði Rússneska landfræðifélagsins og rússneskra stjórnvalda, opnun Kjarvalssýningar í Pétursborg og atburðir í tilefni af 70 ára stjórnmálasambandi Íslands og Rússlands: 376.633 kr. Gisting og ferðir innan Rússlands á vegum þarlendra stjórnvalda.
       p.      Heiðursgestur við afhendingu Alþjóðlegu fæðuverðlaunanna, World Food Prize, þátttaka í ráðstefnu um hreina orku og matvælaöryggi og opnunarfyrirlestur Harkin- stofnunarinnar við Iowa-háskóla: 489.214 kr. Gisting var í boði stofnunar verðlaunanna og ráðstefnuhaldara.
       q.      Þátttaka á leiðtogaþingi viðskiptaháskóla Lundúnaborgar, London Business School: 392.857 kr.
    Forseti greiddi sjálfur allan kostnað við einkaferðir sínar.

     4.      Hvaða kostnaður féll á forsetaembættið árið 2013 vegna ferðalaga maka forsetans erlendis og til og frá landinu?
    Embætti forseta greiddi fargjöld maka forseta í sjö ferðum sem allar voru í tengslum við embættisferðir forseta: opinberar heimsóknir til Frakklands og Þýskalands, heimsmót íslenska hestsins í Berlín, þátttaka í málþingum og ráðstefnum í München og Davos, ráðstefnur og fundir í Washington, krýningarafmæli Karls XVI Svíakonungs og landsleikur í Zagreb; alls 914.677 kr. Enginn annar kostnaður var greiddur vegna ferða maka forseta.