Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 272. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 602  —  272. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Vigdísi Hauksdóttur
um nýsköpunarfyrirtæki.


     1.      Hefur ráðherra kannað möguleika þess að breyta lögum um tekjuskatt til að heimila sérstakan frádrátt frá tekjuskatti vegna fjárfestinga í hlutabréfum í viðurkenndum nýsköpunarfyrirtækjum sem gangi beint til aukningar á eigin fé fyrirtækjanna?
    Ráðherra skipaði starfshóp í ágúst 2013 sem falið var það verkefni að meta efnahagslegar forsendur fyrir ríkisstyrkjakerfi sem veitir einstaklingum sem kaupa hlutabréf í litlum fyrirtækjum í vexti skattafslátt og grundvallast á leiðbeinandi reglum Eftirlitsstofnunar EFTA um málefnið. Starfshópnum var sérstaklega falið að kynna sér sambærileg skattívilnunarkerfi í helstu samkeppnisríkjum og leggja mat á það hvort tilefni væri til þess að leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um slíkt kerfi.
    Starfshópurinn skilaði greinargerð til ráðherra í desember 2013, þar sem gerð er tillaga að skattafsláttarkerfi sem hefur það að markmiði að stuðla að vexti lítilla nýsköpunarfyrirtækja. Samkvæmt tillögum starfshópsins mundi kerfið fela í sér skattafslátt til einstaklinga sem fjárfesta í litlum nýsköpunarfyrirtækjum sem ekki eru skráð á hlutabréfamarkað. Að mati starfshópsins mundi fyrirkomulagið falla að ríkisstyrkjareglum EES-samningsins. Nánari upplýsingar um niðurstöður starfshópsins er að finna í greinargerð hans sem birt er á vef ráðuneytisins á slóðinni: www.fjarmalaraduneyti.is/frettir/nr/17570.
    Frá því að starfshópurinn skilaði greinargerð sinni hefur átt sér stað ákveðin þróun á regluverki Evrópusambandsins að því er varðar heimila ríkisaðstoð á þessu sviði auk þess sem enn frekari breytingar á gildandi reglum eru fyrirhugaðar nú á vormánuðum. Hinn 15. janúar sl. samþykkti Evrópusambandið nýjar leiðbeiningar um ríkisaðstoð sem veitt er til að örva áhættufjárfestingar í litlum og meðalstórum fyrirtækjum og taka þær gildi innan Evrópusambandsins 1. júlí nk. Þá stendur yfir endurskoðun á gildandi reglugerð um almenna hópundanþágu á sviði ríkisstyrkja. Þessar nýju leiðbeiningar og reglur munu að öllum líkindum hafa þau áhrif að skilyrði fyrir því að heimilt verði að veita einstaklingum sérstakan skattafslátt vegna áhættufjárfestinga verði rýmkuð. Ísland hefur innleitt ríkisstyrkjareglur Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn og koma nýjar leiðbeiningar og reglur á þessu sviði til með að verða hluti af EES-rétti eftir að þær hafa tekið gildi innan sambandsins.
    Rétt er að geta þess að upphaflega fólu lög nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, einnig í sér ákvæði um skattafslátt til þeirra aðila sem fjárfest höfðu í viðurkenndum nýsköpunarfyrirtækjum. Sá hluti laganna komst þó aldrei til framkvæmda því hann var felldur brott í heild sinni með lögum nr. 165/2010 vegna athugasemda við lögin sem bárust frá Eftirlitsstofnun EFTA.

     2.      Hefur ráðherra kannað möguleika á að bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja og efla rannsóknir og þróunarstarf með því að:
                  a.      veita nýsköpunarfyrirtækjum rétt til skattafrádráttar vegna kostnaðar við nýsköpunarverkefni,
                  b.      hvetja einstaklinga og lögaðila til að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum sem uppfylla tiltekin skilyrði, svo sem að hugmynd að virðisaukandi vöru/þjónustu sé vel skilgreind, sem og viðskiptaáætlun og verkferlar?

    Frá árinu 2010 hefur verið til staðar styrkjakerfi sem veitir nýsköpunarfyrirtækjum sem stunda rannsóknir og þróun skattfrádrátt. Um þetta kerfi gilda lög nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Frádrátturinn nemur 20% af álögðum tekjuskatti enda sé um frádráttarbæran rekstrarkostnað í skilningi tekjuskattslaga að ræða. Sé álagður tekjuskattur lægri en ákvarðaður frádráttur, skal mismunurinn greiddur út. Sama gildir ef ekki er ákvarðaður tekjuskattur, þá skal frádrátturinn greiddur út í heild sinni. Þessi skattfrádráttur hefur verið ákvarðaður þrisvar sinnum við álagningu opinberra gjalda, þ.e. árin 2011, 2012 og 2013. Sem dæmi var skattfrádráttur alls við álagningu opinberra gjalda árið 2013 samtals 1.025 millj. kr.
    Stuðningskerfið sem felst í lögum nr. 152/2009 flokkast sem ríkisstyrkur í formi beins stuðnings við fyrirtæki. Kerfið er tilkynningarskylt til Eftirlitsstofnunar EFTA. Kerfið gildir í fimm ár og verður því, að óbreyttum lögum, síðast beitt við álagningu opinberra gjalda árið 2015.
    Varðandi hvatningu til einstaklinga er vísað til svars við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Hvað hvatningu til lögaðila um að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum varðar þá hefur ráðuneytið kynnt sér þær reglur sem taka þarf tillit til út frá sjónarhóli EES-samningsins. Ráðuneytið hefur hins vegar ekki lagt sérstakt mat á þörfina fyrir slíka hvatningu til lögaðila.