Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 315. máls.

Þingskjal 605  —  315. mál.Frumvarp til laga

um gjaldskrárlækkanir o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)
I. KAFLI
Breyting á lögum um olíugjald og kílómetragjald, nr. 87/2004,
með síðari breytingum.

1. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „56,55 kr.“ í 4. mgr. 1. gr. laganna kemur: 56 kr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      4. mgr. orðast svo:
             Kílómetragjald af gjaldskyldum bifreiðum skv. 1. tölul. 1. mgr., sbr. 3. tölul., skal vera sem hér segir:
Leyfð heildarþyngd ökutækis, kg Kílómetra- gjald, kr. Leyfð heildarþyngd ökutækis, kg Kílómetra- gjald, kr.
10.000–11.000 0,28 21.001–22.000 6,91
11.001–12.000 0,89 22.001–23.000 7,52
12.001–13.000 1,49 23.001–24.000 8,12
13.001–14.000 2,10 24.001–25.000 8,71
14.001–15.000 2,70 25.001–26.000 9,31
15.001–16.000 3,31 26.001–27.000 9,92
16.001–17.000 3,90 27.001–28.000 10,53
17.001–18.000 4,50 28.001–29.000 11,13
18.001–19.000 5,10 29.001–30.000 11,73
19.001–20.000 5,70 30.001–31.000 12,33
20.001–21.000 6,32 31.001 og yfir 12,93
     b.      6. mgr. orðast svo:
             Sérstakt kílómetragjald af gjaldskyldum ökutækjum skv. 2. mgr. skal vera sem hér segir:
Leyfð heildarþyngd ökutækis, kg Kílómetra- gjald, kr. Leyfð heildarþyngd ökutækis, kg Kílómetra- gjald, kr.
5.000–6.000 8,48 18.001–19.000 22,38
6.001–7.000 9,17 19.001–20.000 23,39
7.001–8.000 9,87 20.001–21.000 24,42
8.001–9.000 10,58 21.001–22.000 25,43
9.001–10.000 11,26 22.001–23.000 26,44
10.001–11.000 12,26 23.001–24.000 27,45
11.001–12.000 13,58 24.001–25.000 28,47
12.001–13.000 14,87 25.001–26.000 29,48
13.001–14.000 16,17 26.001–27.000 30,49
14.001–15.000 17,47 27.001–28.000 31,51
15.001–16.000 18,77 28.001–29.000 32,53
16.001–17.000 20,06 29.001–30.000 33,54
17.001–18.000 21,38 30.001–31.000 34,54
31.001 og yfir 35,57

3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ef ekki er komið með ökutæki til álestrar á öðru álestrartímabili ársins 2013, sem stendur frá 1. til 15. desember 2013, sbr. 1. mgr. 14. gr., skal reikna út meðaltal ekinna kílómetra á dag á tímabilinu milli álestra. Þá skal hið nýja gjald innheimt eftir meðaltalsakstri eftir 1. mars 2014.
    Við ákvörðun kílómetragjalds og sérstaks kílómetragjalds skv. 13. gr. á álestrartímabilinu 1. júní til 15. júní 2014 skal ríkisskattstjóri deila eknum kílómetrum frá fyrri álestri með dagafjölda sama tímabils og reikna kílómetragjald af hverjum eknum kílómetra miðað við fjölda gjaldskyldra daga fyrir 1. mars 2014 og fjölda gjaldskyldra daga eftir 1. mars 2014.

II. KAFLI
Breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993,
með síðari breytingum.

4. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „25,20 kr.“ í 14. gr. laganna kemur: 24,96 kr.

5. gr.

    Í stað fjárhæðanna „40,70 kr.“ og „43,15 kr.“ í 2. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: 40,30 kr.; og: 42,73 kr.

III. KAFLI
Breyting á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009,
með síðari breytingum.

6. gr.

    Í stað fjárhæðanna „5,90 kr.“, „5,15 kr.“, „7,30 kr.“ og „6,50 kr.“ í 2. mgr. 1. gr. laganna kemur: 5,84 kr.; 5,10 kr.; 7,23 kr.; og: 6,44 kr.

7. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „0,130 kr.“ í 2. mgr. 5. gr. laganna kemur: 0,129 kr.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995,
með síðari breytingum.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 3. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „94,05 kr.“ í 1. tölul. kemur: 93,14 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „84,60 kr.“ í 2. tölul. kemur: 83,78 kr.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „115,20 kr.“ í 3. tölul. kemur: 114,08 kr.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 9. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „453,00 kr.“ í 1. tölul. kemur: 448,60 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „14,85 kr.“ í 2. tölul. kemur: 14,71 kr.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „16,20 kr.“ í 3. tölul. kemur: 16,04 kr.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 10. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „569,05 kr.“ í 1. tölul. kemur: 563,53 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „28,45 kr.“ í 2. tölul. kemur: 28,17 kr.

V. KAFLI
Breyting á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013.
11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „gjalddaga“ í 1. og 2. mgr. kemur: eindaga.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Beri eindaga upp á helgidag eða almennan frídag færist eindagi á næsta virkan dag á eftir.

12. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. mars 2014.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og inniheldur breytingar á ýmsum lögum sem leiða til gjaldskrárlækkana, auk lagfæringar á nýsamþykktum lögum um stimpilgjald.
    Ein af forsendum fjárlaga fyrir árið 2014 var sú að gjaldskrár eldsneytisgjalda og áfengis- og tóbaksgjalda mundu hækka um 3% í upphafi árs í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Þau áform voru samþykkt á Alþingi með lögum nr. 140/2013, um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 21. desember 2013, sem kynnt var SA og ASÍ í tengslum við gerð kjarasamninga, segir m.a.:
    „Ríkisstjórn lýsir því yfir að hún muni við samþykkt kjarasamninga endurskoða til lækkunar vissar breytingar á gjöldum sem samþykktar hafa verið í tengslum við afgreiðslu fjárlaga 2014 til að stuðla að því að verðlagsáhrif, sem af þeim leiði, verði minni en ella og innan verðbólgumarkmiða Seðlabanka Íslands (2,5%).“
    Þó svo að samþykkt kjarasamninga hafi ekki gengið eftir eins og vonir stóðu til hefur ríkisstjórnin ákveðið að beita sér fyrir lækkun á gjaldskrám eldsneytisgjalda og áfengis- og tóbaksgjalda í samræmi við fyrri yfirlýsingu og raunar umfram almennt verðbólgumarkmið upp á 2,5%, með lækkun þessara gjalda úr 3% í 2% með þessu frumvarpi.

2. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er að finna tillögur um almenna lækkun á hinum svokölluðu krónutölusköttum og gjaldskrám, eða eins og fyrr segir úr 3% í 2%, með það að markmiði að verðlagsáhrif, sem af þeim leiði, verði minni en ella.

Bensíngjald, olíugjald, kílómetragjald og gjald af áfengi og tóbaki.
    Í frumvarpinu er lagt til að almennt og sérstakt vörugjald á bensín, svo og olíugjald og kílómetragjald lækki um eitt prósent. Jafnframt er lagt til að gjald af áfengi og tóbaki lækki til samræmis um eitt prósent.

Umhverfis- og auðlindaskattar.
    Í frumvarpinu eru lagðar til þær breytingar á lögum nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta, að raforkuskattur og kolefnisgjald af eldsneyti lækki í takt við framangreindar breytingar um eitt prósent.

Stimpilgjald.
    Í frumvarpinu er einnig lögð til lagfæring á nýsamþykktum lögum um stimpilgjald í þá veru að reikna skuli álag frá eindaga en ekki gjalddaga líkt og núgildandi ákvæði laganna gerir ráð fyrir.

3. Áhrif tillagna frumvarpsins á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt.
    Krónutölugjöld og nefskattar eru mikilvægur hluti af tekjuáætlun fjárlaga ár hvert. Þessir skattar hækka ekki sjálfvirkt í takt við verðlag heldur þarf að breyta lögum eigi þeir að fá verðlagsuppfærslu.
    Sú aðgerð að lækka eldsneytisgjöld og áfengis- og tóbaksgjöld um eitt prósent leiðir til þess að tekjur ríkissjóðs munu lækka um 460 millj. kr. á ársgrundvelli. Þar af nemur lækkun eldsneytisgjalda nálægt 270 millj. kr. og áfengis- og tóbaksgjalda 190 millj. kr. Þeirri lækkun er mætt með áformum um breytt fyrirkomulag við álagningu tóbaksgjalds og auknum arðgreiðslum frá ÁTVR þannig að afkoma ríkissjóðs haldist óbreytt frá áætlun fjárlaga. Lauslega metið gæti vísitala neysluverðs lækkað um 0,08% verði frumvarpið að lögum svo fremi áhrifunum verði að öllu leyti velt út í verðlag með samsvarandi aukningu í kaupmætti ráðstöfunartekna.

4. Samráð.
    Við vinnslu þessa frumvarps var m.a. stuðst við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 21. desember 2013, í tengslum við gerð kjarasamninga, sem kynnt var SA og ASÍ. Einnig var haft samráð við Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. og 2. gr.

    Með greininni er gerð tillaga um lækkun á olíugjaldi um eitt prósent, úr 56,55 kr. á hvern lítra í 56 kr., og sama gildir um fjárhæðir almenns kílómetragjalds og sérstaks kílómetragjalds. Um frekari skýringar er vísað til almennra athugasemda.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um það hvernig kílómetragjald og sérstakt kílómetragjald skuli reiknað við áætlun og ákvörðun samkvæmt álestri ef ekki er komið með ökutæki til álestrar innan álestrartímabila.

Um 4. og 5. gr.

    Lagt er til að almennt vörugjald af bensíni lækki um 0,24 kr. á hvern lítra, úr 25,20 kr. í 24,96 kr., og að sérstakt vörugjald af blýlausu bensíni lækki um 0,4 kr. á hvern lítra, úr 40,70 kr. í 40,30 kr. Einnig er lagt til að sérstakt vörugjald á hvern lítra af öðru bensíni lækki um 0,42 kr. á hvern lítra, úr 43,15 kr. í 42,73 kr. Um frekari skýringar er vísað til almennra athugasemda.

Um 6. og 7. gr.

    Lagt er til að fjárhæð kolefnisgjalds af eldsneyti lækki um eitt prósent og skattur af raforku sömuleiðis, eða úr 0,130 kr. í 0,129 kr. á hverja kílóvattstund af seldri raforku. Um frekari skýringar er vísað til almennra athugasemda.

Um 8.–10. gr.

    Með greinunum er lagt til að fjárhæðir áfengisgjalda og tóbaksgjalda verði lækkaðar um eitt prósent. Um frekari skýringar er vísað til almennra athugasemda.

Um 11. gr.

    Ákvæði 7. gr. frumvarps til laga um stimpilgjald, nr. 138/2013, tók breytingum í meðförum þingsins á málinu. Ákvæðið fjallar m.a. um gjalddaga og eftir breytinguna skal gjalddagi stimpilgjalds vera sama dag og gjaldskylda stofnast en eindagi tveimur mánuðum síðar. Við þessar breytingar láðist að breyta 8. gr. frumvarpsins, sem fjallar um álag, til samræmis. Skv. 8. gr. laganna skal beita álagi ef stimpilgjald er ekki greitt á gjalddaga en þar hefði átt að miða við eindaga. Þá er lagt til að nýr málsliður bætist við 1. mgr. sem kveður á um að ef eindaga beri upp á helgidag eða almennan frídag þá færist hann á næsta virkan dag á eftir.

Um 12. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um gjaldskrárlækkanir o.fl.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem leiða til gjaldskrárlækkana. Um er að ræða 1% lækkun á bensíngjaldi, olíugjaldi, kílómetragjaldi, gjaldi af áfengi og tóbaki, kolefnisgjaldi og raforkuskatti. Í frumvarpinu er einnig að finna lagfæringar á nýsamþykktum lögum um stimpilgjald.
    Ein af forsendum fjárlaga fyrir árið 2014 var sú að gjaldskrár eldsneytisgjalda og áfengis- og tóbaksgjalda mundu hækka um 3% í upphafi árs í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Þau áform voru samþykkt á Alþingi með lögum nr. 140/2013, um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 21. desember 2013, sem kynnt var SA og ASÍ í tengslum við gerð kjarasamninga, segir m.a.: „Ríkisstjórn lýsir því yfir að hún muni við samþykkt kjarasamninga endurskoða til lækkunar vissar breytingar á gjöldum sem samþykktar hafa verið í tengslum við afgreiðslu fjárlaga 2014 til að stuðla að því að verðlagsáhrif, sem af þeim leiði, verði minni en ella og innan verðbólgumarkmiða Seðlabanka Íslands (2,5%).“ Lækkun ofangreindra gjalda úr 3% í 2%, eða um 1%, eins lagt er til í þessu frumvarpi tekur mið af þessari yfirlýsingu.
    Sú aðgerð að lækka eldsneytisgjöld og áfengis- og tóbaksgjöld um eitt prósent leiðir til þess að tekjur ríkissjóðs af umræddum gjaldstofnum munu lækka um 460 m.kr. á ársgrundvelli. Þar af nemur lækkun eldsneytisgjalda nálægt 270 m.kr. og áfengis- og tóbaksgjalda 190 m.kr. Þeirri lækkun verður mætt með áformum um breytt fyrirkomulag við álagningu tóbaksgjalds og auknum arðgreiðslum frá ÁTVR þannig að afkoma ríkissjóðs haldist óbreytt frá áætlun fjárlaga. Lagfæring á lögum um stimpilgjald er ekki talin hafa í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð verði frumvarpið að lögum.