Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 319. máls.

Þingskjal 609  —  319. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi
(flutningur verkefna, stofnun sjóðs o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)
I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 71/2008, um fiskeldi, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við 3. gr. laganna bætast tvær nýjar skilgreiningar, í viðeigandi stafrófsröð, svohljóðandi:
     1.      Burðarþolsmat: Mat á þoli fjarða eða afmarkaðra hafsvæða til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið og þannig að viðkomandi vatnshlot uppfylli umhverfismarkmið sem sett eru fyrir það samkvæmt lögum nr. 36/2011, um stjórn vatnamála. Hluti burðarþolsmats er að meta óæskileg staðbundin áhrif af eldisstarfsemi.
     2.      Sjókvíaeldissvæði: Fjörður eða afmarkað hafsvæði fyrir sjókvíaeldi. Afmörkun sjókvíaeldissvæða tekur á hverjum tíma mið af niðurstöðum rannsókna af dreifingu sjúkdómsvalda.

2. gr.

    Í stað orðsins „Fiskistofu“ í 1. og 2. mgr. 4. gr., 1. mgr. 12. gr., 1. mgr., 1. og 2. málsl. 3. mgr. og 5. mgr. 13. gr., 1. og 4. málsl. 2. mgr. og 1. og 2. málsl. 3. mgr. 14. gr., 17. gr. og 2. mgr. 21. gr. laganna; og í stað orðsins „Fiskistofa“ í 2. mgr. 4. gr., 1. mgr. 7. gr., 1. mgr. 10. gr., 1. mgr. 11. gr., 4. mgr. 13. gr., 1. og 2. mgr. 14. gr., 2. mgr. 15. gr., 1. og 2. mgr. 16. gr. og 1. mgr. 19. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Matvælastofnun.

3. gr.

    Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, 4. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Móttaka og afgreiðsla umsókna.

    Til starfrækslu fiskeldisstöðva þarf starfsleyfi Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi Matvælastofnunar.
    Afhenda skal Matvælastofnun umsóknir um leyfi skv. 1. mgr. og skulu þær afgreiddar samhliða.
    Matvælastofnun skal framsenda umsókn um starfsleyfi fyrir eldi ferskvatns- og sjávarlífvera til Umhverfisstofnunar til meðferðar samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Umsóknir um starfsleyfi og rekstrarleyfi skal afgreiða innan sex mánaða frá því að þær berast. Verði tafir á málsmeðferð vegna ófullnægjandi gagna umsækjanda framlengist frestur til afgreiðslu sem því nemur. Þegar Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi skal það sent Matvælastofnun. Ef umsóknir eru samþykktar skulu starfsleyfi og rekstrarleyfi afhent umsækjanda samtímis.

4. gr.

    2. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
    Áður en leyfi skv. 1. mgr. er veitt skal Matvælastofnun afla umsagnar Fiskistofu, Veiðimálastofnunar, Hafrannsóknastofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar eftir því sem við á um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldisstöðvar eða fyrirhugaðar eldistegundir, eldisstofnar eða eldisaðferðir gefi tilefni til neikvæðra vistfræði- eða erfðafræðiáhrifa sem leitt getur af leyfisskyldri starfsemi. Þá skal Matvælastofnun meta hvort umsækjandi uppfylli kröfur sem gerðar eru í reglugerð um heilbrigðiskröfur vegna lagareldisdýra og afurða þeirra og um forvarnir og varnir gegn tilteknum sjúkdómum í lagardýrum.

5. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Umsókn um rekstrarleyfi til fiskeldis skal vera skrifleg. Í henni skulu m.a. koma fram upplýsingar um eignaraðild að fiskeldisstöð, að umsækjandi hafi fullnægjandi fagþekkingu á viðkomandi sviði, að gæðakerfi stöðvarinnar og eldisbúnaður standist kröfur, sem nánar er kveðið á um í reglugerð um fiskeldi, um stærð og framleiðslugetu stöðvar, eldistegundir, eldisstofna og eldisaðferðir. Umsókn um rekstrarleyfi sjókvíaeldisstöðvar skulu fylgja upplýsingar um að eldisbúnaður umsækjanda standist ströngustu staðla sem gerðir eru fyrir fiskeldismannvirki í sjó en nánar er kveðið á um þær kröfur sem þarf að uppfylla samkvæmt þessum stöðlum í reglugerð um fiskeldi. Þá skal fylgja umsókn burðarþolsmat fyrir viðkomandi sjókvíaeldissvæði sem framkvæmt hefur verið af Hafrannsóknastofnun eða öðrum aðila sem ráðuneytið samþykkir að fenginni bindandi umsögn Hafrannsóknastofnunar. Einnig skal fylgja umsókn afrit af ákvörðun eða áliti Skipulagsstofnunar um framkvæmdina samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.
    Umsókn skv. 1. mgr. skulu fylgja skilríki um heimild til afnota af landi, vatni og sjó. Umsókn skal einnig fylgja áætlun um fjármögnun mannvirkja og annars búnaðar, ásamt staðfestingu um a.m.k. 30% eigin fjármögnun eldisins, rekstraráætlun sem sýnir m.a. uppbyggingarferil eldis, öflun hrogna og seiða og leyfi til mannvirkjagerðar, svo og önnur gögn sem Matvælastofnun eru nauðsynleg til að meta hvort skilyrði til útgáfu rekstrarleyfis séu fyrir hendi.

6. gr.

    9. gr. laganna orðast svo:
    Umsóknir um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á sama sjókvíaeldissvæði skulu afgreiddar í þeirri röð sem þær berast Matvælastofnun, enda fullnægi umsókn skilyrðum laga þessara.
    Við meðferð umsóknar um rekstrarleyfi til fiskeldis skal Matvælastofnun leggja mat á sjúkdómstengda og vistfræðilega þætti sem kunna að fylgja starfsemi fiskeldisstöðvar.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í rekstrarleyfi skal kveðið á um skyldu til erfðamerkinga þannig að hægt sé að rekja uppruna eldisfiska til ákveðinna eldisstöðva.
     b.      2. málsl. 3. mgr. fellur brott.
     c.      Við bætast fimm nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Matvælastofnun skal hafna útgáfu rekstrarleyfis til sjókvíaeldis sem felur í sér meiri framleiðslu en viðkomandi sjókvíaeldissvæði þolir samkvæmt burðarþolsmati. Burðarþolsmat skal framkvæmt af Hafrannsóknastofnun eða aðila sem ráðuneytið samþykkir að fenginni bindandi umsögn Hafrannsóknastofnunar.
                  Gefi Matvælastofnun út rekstrarleyfi til sjókvíaeldis sem gerir ráð fyrir minni nýtingu en 40% af burðarþoli viðkomandi sjókvíaeldissvæðis skulu þau einungis veitt til tiltekins tíma, allt að fjórum árum. Heimilt er að endurnýja slíkt leyfi í fjögur ár í senn en liggi fyrir, við lok leyfistíma, fleiri en ein umsókn um rekstrarleyfi á umræddu svæði og þær uppfylla skilyrði laga þessara skal Matvælastofnun gefa út rekstrarleyfi til þess umsækjanda sem nær hagkvæmastri nýtingu á svæðinu með tilliti til burðarþols. Þó er heimilt að endurnýja fyrra leyfi sem ekki er með hagkvæmasta nýtingu ef munur á nýtingu er óverulegur.
                  Matvælastofnun skal hafna umsókn um rekstrarleyfi ef umsækjandi uppfyllir ekki kröfur skv. 2. málsl. 2. mgr. 7. gr.
                  Matvælastofnun skal hafna umsókn ef umsækjandi leggur ekki fram þau gögn sem kveðið er á um í 8. gr., enda hafi umsækjanda verið gefinn hæfilegur frestur til að leggja fram þau gögn sem vantar.
                  Matvælastofnun skal hafna umsókn ef mat skv. 2. mgr. 9. gr. bendir til þess að fyrirhugað eldi feli í sér umtalsverða hættu á útbreiðslu sjúkdóma eða umtalsverð óæskileg áhrif á vistkerfi.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „hins vegar“ í lokamálslið 1. mgr. kemur: einnig.
     b.      4. mgr. orðast svo:
                  Fyrir eftirlit Matvælastofnunar eða faggiltra eftirlitsaðila á hennar vegum skulu fiskeldisstöðvar greiða eftirlitsgjald samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra staðfestir. Eftirlitsgjald skal greitt samkvæmt framlögðum reikningi Matvælastofnunar. Ef eftirlitsgjald er ekki greitt á eindaga reiknast hæstu lögleyfðir dráttarvextir af fjárhæð þess frá gjalddaga til greiðsludags. Eftirlitsgjald má innheimta með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar. Eftirlitsgjaldið skal ekki verið hærra en raunkostnaður sem hlýst af eftirlitinu og er ætlað að standa straum af eftirtöldum kostnaðarþáttum:
                  a.      launum starfsfólks sem sinnir störfum vegna eftirlits,
                  b.      öðrum kostnaði vegna starfsfólks, þ.m.t. vegna aðstöðu, áhalda, búnaðar, þjálfunar, ferðalaga og tengds kostnaðar,
                  c.      kostnaði við greiningu á rannsóknastofu og sýnatöku.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Matvælastofnun sér um afmarkaða þætti eftirlits með fiskeldi sem Umhverfisstofnun er falið samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, á grundvelli þjónustusamnings við Umhverfisstofnun. Nánar skal kveðið á um umfang og tilhögun eftirlits og gerð og efni þjónustusamnings í reglugerð sem ráðherra setur.
    

9. gr.

    Á eftir IV. kafla laganna kemur nýr kafli, IV. kafli A, Gjaldtaka og trygging, með tveimur nýjum greinum, ásamt fyrirsögnum, 14. gr. a og 14. gr. b, svohljóðandi:

    a. (14. gr. a.)

Gjaldtaka.

    Við móttöku Matvælastofnunar á umsókn um rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum skulu umsækjendur greiða Matvælastofnun þjónustugjald vegna þess kostnaðar sem til fellur við afgreiðslu umsóknar. Ráðherra staðfestir, að fengnum tillögum Matvælastofnunar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu sem stofnuninni er falið að annast í tengslum við afgreiðslu á umsóknum um rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum. Umsóknir um rekstrarleyfi skulu ekki teknar til afgreiðslu fyrr en þjónustugjald hefur verið greitt.

    b. (14. gr. b.)

Trygging.

    Fyrir útgáfu rekstrarleyfis til sjókvíaeldis skal umsækjandi leggja fram sönnun þess að hann hafi keypt ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi fyrir því tjóni sem af starfseminni getur hlotist. Til tjóns getur m.a. talist kostnaður sem kann að falla til við að fjarlægja búnað og hreinsa eldissvæði eftir að starfsemi er hætt eða vegna annarra ráðstafana skv. 21. gr. b. Ábyrgðartrygging skal gilda á gildistíma rekstrarleyfis og í tvö ár eftir að gildistíminn rennur út.

10. gr.

    1. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
    Ef fiskeldisstöð hefur ekki innan þriggja ára frá útgáfu rekstrarleyfis hafið starfsemi í samræmi við rekstraráætlun sem fylgdi umsókn samkvæmt ákvæðum 8. gr. skal Matvælastofnun fella rekstrarleyfið úr gildi. Rekstrarleyfi skal fellt úr gildi ef starfsemi fiskeldisstöðvar stöðvast í tvö ár. Matvælastofnun er heimilt, fimm árum frá útgáfu rekstrarleyfis til sjókvíaeldis, að minnka leyfilegt framleiðslumagn samkvæmt rekstrarleyfi sé nýting þess minni en 50% af burðarþoli sjókvíaeldissvæðis.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Matvælastofnunar“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: Fiskistofu.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                  Matvælastofnun getur veitt rekstrarleyfishafa undanþágu til flutnings á eldistegundum, sem ekki eru tilgreindar í rekstrarleyfi, milli fiskeldisstöðva ef ástæður mæla ekki gegn slíku. Matvælastofnun skal í þeim tilvikum leita umsagnar Fiskistofu og Hafrannsóknastofnunar eða Veiðimálastofnunar um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldisstöðvar eða strandsvæði gefa tilefni til neikvæðra vistfræðilegra áhrifa.

12. gr.

    Á eftir VI. kafla laganna kemur nýr kafli, VI. kafli A, Umhverfissjóður sjókvíaeldis, með sjö nýjum greinum, 20. gr. a – 20. gr. g, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (20. gr. a.)

Umhverfissjóður sjókvíaeldis.

    Umhverfissjóður sjókvíaeldis er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og á forræði ráðherra sem hefur það að markmiði að lágmarka umhverfisáhrif sjókvíaeldis. Með sjóðnum skal greiða kostnað við rannsóknir vegna burðarþolsmats, vöktunar og annarra verkefna sem stjórn sjóðsins ákveður.

    b. (20. gr. b.)

Stjórn Umhverfissjóðs sjókvíaeldis.

    Umhverfissjóður sjókvíaeldis lýtur þriggja manna stjórn sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Einn stjórnarmaður skal skipaður samkvæmt tilnefningu Landssambands fiskeldisstöðva og einn samkvæmt tilnefningu frá ráðherra sem fer með umhverfismál. Ráðherra skal skipa formann sjóðsins án tilnefningar og skal atkvæði hans ráða úrslitum ef atkvæði falla jafnt. Varamenn skal skipa með sama hætti.

    c. (20. gr. c.)

Verkefni stjórnar.

    Stjórn Umhverfissjóðs sjókvíaeldis hefur yfirumsjón með starfsemi hans í samræmi við lög þessi og reglugerð setta samkvæmt þeim. Verkefni stjórnar eru að:
     a.      skila ársreikningum og reglulegu yfirliti um starfsemi sjóðsins til ráðherra,
     b.      taka ákvarðanir um forgangsröðun verkefna og greiðslur úr sjóðnum,
     c.      taka ákvarðanir um ávöxtun eigin fjár,
     d.      tryggja að upplýsingar og gögn sem unnin eru á vegum sjóðsins séu aðgengileg.

    d. (20. gr. d.)

Ráðstöfunarfé Umhverfissjóðs sjókvíaeldis.

    Ráðstöfunarfé Umhverfissjóðs sjókvíaeldis er:
     a.      innheimt árgjald af rekstrarleyfishöfum sjókvíaeldis,
     b.      arður af eigin fé.

    e. (20. gr. e.)

Árgjald Umhverfissjóðs sjókvíaeldis.

    Rekstrarleyfishafi sjókvíaeldis skal greiða árlegt gjald að upphæð 6 SDR fyrir hvert tonn sem heimilt er að framleiða samkvæmt rekstrarleyfi og rennur það óskipt til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis.
    Árgjald skal endurskoðað á fimm ára fresti.

    f. (20. gr. f.)

Álagning og innheimta árgjalds.

    Matvælastofnun annast álagningu og innheimtu árgjalds skv. 20. gr. e. Ráðherra er þó heimilt að fela innheimtumönnum ríkissjóðs eða öðrum aðilum innheimtu þess.
    Eigi síðar en 30. ágúst ár hvert skal Matvælastofnun hafa lokið álagningu á gjaldendur skv. 20 gr. e og skal gjaldendum tilkynnt bréflega um hana.
    Gjöld skv. 20. gr. e vegna yfirstandandi almanaksárs falla í gjalddaga 1. október ár hvert. Ef gjöld eru ekki greidd innan 30 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af þeim skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu. Álagning gjalds eða úrskurður um gjaldtöku eru aðfararhæfar ákvarðanir. Matvælastofnun getur krafist fullnustu með aðfarargerð þegar liðnir eru 30 dagar frá gjalddaga.

    g. (20. gr. g.)

Reglugerðarheimild. Kostnaður af rekstri.

    Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um starfsemi Umhverfissjóðs sjókvíaeldis, þ.m.t. um málsmeðferð og reglur um greiðslur úr sjóðnum.
    Allur kostnaður af starfsemi Umhverfissjóðs sjókvíaeldis greiðist af sjóðnum.

13. gr.

    Á eftir 21. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, 21. gr. a – 21. gr. c, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (21. gr. a.)

Dagsektir.

    Fari rekstrarleyfishafi ekki að fyrirmælum Matvælastofnunar samkvæmt lögum þessum, reglugerðum settum samkvæmt þeim eða skilyrðum í rekstrarleyfi innan tiltekins frests getur stofnunin ákveðið að leyfishafi greiði dagsektir þar til úr verður bætt. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt leyfishafa.
    Dagsektir mega nema allt að 500.000 kr. á sólarhring. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta skal m.a. taka tillit til þess hve aðkallandi úrbæturnar eru og hversu stór og umsvifamikill viðkomandi atvinnurekstur er.
    Dagsektir skulu renna í ríkissjóð.
    Aðila er heimilt að kæra ákvörðun Matvælastofnunar um beitingu dagsekta til ráðuneytisins innan fjórtán daga frá því að honum er tilkynnt ákvörðunin. Ráðuneytið skal kveða upp úrskurð eins fljótt og unnt er og að jafnaði innan mánaðar frá því að kæra berst.
    Ákvarðanir Matvælastofnunar um dagsektir eru aðfararhæfar. Málskot til ráðuneytisins frestar aðför.

    b. (21. gr. b.)

Úrbætur á kostnað rekstrarleyfishafa.

    Matvælastofnun er heimilt á kostnað rekstrarleyfishafa að láta fjarlægja búnað fiskeldisstöðvar sem hætt hefur starfsemi, hreinsa eldissvæði eða gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir vegna slysasleppinga eða sjúkdómahættu fari hann ekki að fyrirmælum Matvælastofnunar samkvæmt lögum þessum, reglugerðum settum samkvæmt þeim eða skilyrðum í rekstrarleyfi. Skal kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af Matvælastofnun en innheimtast síðar hjá rekstrarleyfishafa eða úr ábyrgðartryggingu hans. Kostnað má innheimta með fjárnámi.

    c. (21. gr. c.)

Starfsemi án rekstrarleyfis.

    Ef fiskeldisstöð er rekin án þess að rekstrarleyfi sé í gildi skal Matvælastofnun stöðva starfsemina. Eftir þörfum ber lögreglu að veita Matvælastofnun liðsinni í því skyni. Matvælastofnun er heimilt að slátra eða farga eldisdýrum, fjarlægja búnað sem notaður hefur verið til starfseminnar og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir skv. 21. gr. b á kostnað þess aðila sem rekið hefur fiskeldisstarfsemi án leyfis. Eldisdýr sem hæf eru til manneldis skulu seld og andvirðið að frádregnum kostnaði Matvælastofnunar vegna sölunnar skal renna í ríkissjóð.

II. KAFLI

Breyting á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir,

með síðari breytingum.

14. gr.

    Við 24. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Umhverfisstofnun skal gera þjónustusamning við Matvælastofnun um að Matvælastofnun sinni afmörkuðum þáttum eftirlits Umhverfisstofnunar með fiskeldi. Nánar skal kveðið á um umfang og tilhögun eftirlits og gerð og efni þjónustusamnings í reglugerð sem ráðherra sem fer með málefni fiskeldis setur.

15. gr.

    11. tölul. fylgiskjals I með lögunum orðast svo: Eldi sjávar- og ferskvatnslífvera.

III. KAFLI

Breyting á lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum,

með síðari breytingum.

16. gr.

    Á eftir 2. mgr. 6. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Skipulagsstofnun er ekki skylt að taka til efnislegrar meðferðar tilkynningu framkvæmdaraðila til ákvörðunar um matsskyldu í þeim tilvikum sem hin tilkynnta framkvæmd er fyrirhuguð á sama framkvæmdastað og önnur framkvæmd sem þegar er til efnislegrar málsmeðferðar á grundvelli þessarar greinar og þar sem fullnægjandi gögn liggja fyrir að mati Skipulagsstofnunar, eða fyrir liggur ákvörðun samkvæmt þessari grein eða álit skv. 11. gr. um framkvæmd á sama framkvæmdastað. Ef hin tilkynnta framkvæmd er þauleldi á fiski í sjó á sama við ef hún er í tiltekinni fjarlægð frá útmörkum eldissvæðis framkvæmdar, sbr. reglugerð um fiskeldi. Ákvæði þetta á ekki við ef ekki hefur verið gefið út leyfi fyrir þeirri framkvæmd sem var til efnislegrar meðferðar hjá Skipulagsstofnun innan þriggja ára frá því að framkvæmd var tilkynnt samkvæmt þessari grein.

17. gr.

    Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Skipulagsstofnun er ekki skylt að taka til efnislegrar meðferðar tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun í þeim tilvikum þegar framkvæmd er fyrirhuguð á sama framkvæmdastað og önnur framkvæmd sem þegar er til efnislegrar meðferðar samkvæmt lögum þessum eða ef fyrir liggur ákvörðun skv. 6. gr. eða álit skv. 11. gr. um framkvæmd á sama framkvæmdastað. Ákvæði þetta á ekki við ef ekki hefur verið gefið út leyfi til framkvæmda fyrir þeirri framkvæmd sem var til efnislegrar meðferðar hjá Skipulagsstofnun innan þriggja ára frá því að tillagan barst Skipulagsstofnun.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 80/2005, um Matvælastofnun, með síðari breytingum.
18. gr.

    Við 2. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: að annast framkvæmd stjórnsýslu og eftirlit með ákvæðum laga um fiskeldi, nr. 71/2008.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 36/1992, um Fiskistofu, með síðari breytingum.
19. gr.

    Orðið „fiskeldis“ í 1. og 2. gr. laganna fellur brott.

20. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó öðlast 2. gr., 4. gr., 2. mgr. 6. gr., 3. og 5. mgr. c-liðar 7. gr., a-liður 9. gr. (14. gr. a), 10. gr., 13. gr. (21. gr. a – 21. gr. c), 18. gr. og 19. gr. gildi 1. janúar 2015.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Ákvæði laga þessara gilda um umsóknir um rekstrarleyfi til sjókvíaeldis sem eru til meðferðar hjá Fiskistofu við gildistöku laga þessara. Skal Matvælastofnun í slíkum tilvikum kalla eftir þeim upplýsingum, umsögnum og gögnum sem þörf er á og skal málsmeðferð umsókna að öðru leyti vera í samræmi við lög þessi.

II.

    Ákvæði laga þessara gilda ekki um umsóknir um starfsleyfi fyrir eldi ferskvatns- og sjávarlífvera samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem eru til meðferðar hjá Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd sveitarfélaga við gildistöku laga þessara.

III.

    Fiskistofa skal gæta að ákvæðum 3. gr., 5. gr., 1. mgr. 6. gr., a- og b-liðar og 1., 2. og 4. mgr. c-liðar 7. gr., b-liðar 9. gr. (14. gr. b) og 11. gr. við málsmeðferð sína fram til 1. janúar 2015.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Hinn 2. september sl. skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nefnd sem m.a. var ætlað að gera tillögur um breytingar á löggjöf um fiskeldi. Nefndinni var ætlað að leggja mat á það hvort hægt væri að einfalda núgildandi fyrirkomulag stjórnsýslu og eftirlits með fiskeldi og hraða og einfalda veitingu starfs- og rekstrarleyfa í fiskeldi með það að markmiði að gera starfsemi vegna fiskeldis sem skilvirkasta. Óskað var eftir því að nefndin kæmi með tillögu um það hvort starfs- og rekstrarleyfi megi afgreiða innan tiltekins hámarkstíma, þ.e. hvort hægt sé að líta til ferilsins á milli stofnana og þeirra leyfa sem ber að afla sem heildstæðs ferils sem klárist innan tímamarka. Þá var einnig óskað eftir að metið yrði hvort núverandi eftirlitskerfi í íslensku fiskeldi séu skilvirk og þjóni tilgangi sínum. Formaður nefndarinnar er Valdimar Ingi Gunnarsson sjávarútvegsfræðingur en auk hans skipa nefndina Guðbergur Rúnarsson, verkfræðingur og framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva, tilnefndur af Landssambandi fiskeldisstöðva, og Sigríður Auður Arnardóttir, skrifstofustjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Starfsmaður nefndarinnar er Ásta Einarsdóttir lögfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Frumvarp þetta er afrakstur vinnu nefndarinnar.
    Meginefni frumvarpsins lýtur að einföldun á umsóknarferli starfs- og rekstrarleyfa, nýmælum sem stuðla að auknu öryggi í fiskeldi og draga úr umhverfisáhrifum þess, aukinni skilvirkni og hagkvæmni í eftirliti með fiskeldi, gjaldtöku og tryggingarskyldu, stofnun umhverfissjóðs sjókvíaeldis, dagsektum, úrbótum á kostnað leyfishafa og starfsemi án rekstrarleyfis. Þá eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og á lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum.

II.     Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar frá 22. maí sl. kemur fram að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir endurskoðun regluverks atvinnulífsins með einföldun og aukna skilvirkni þess að leiðarljósi. Frumvarp þetta byggist í meginatriðum á framangreindum sjónarmiðum og er markmið lagasetningarinnar m.a. einföldun og aukin skilvirkni í leyfisveitingum vegna fiskeldis. Þá er einnig markmið frumvarpsins að ná fram aukinni skilvirkni og hagkvæmni í eftirliti með fiskeldi. Þessi lagasetning hefur því verið talin nauðsynleg og aðrir valkostir ekki taldir færir til að ná fram fyrrgreindum markmiðum.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Meginatriði lagafrumvarpsins eru eftirfarandi:
     1. Einföldun á umsóknarferli starfs- og rekstrarleyfa. Með frumvarpinu er lagt til að stjórnsýsla vegna útgáfu rekstrarleyfa og eftirlit með fiskeldi verði flutt til Matvælastofnunar en þessi stjórnsýsluverkefni eru nú samkvæmt gildandi lögum hjá Fiskistofu, að undanskildu eftirliti með heilbrigði fiska og heilnæmi eldisafurða sem Matvælastofnun annast, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 71/2008, um fiskeldi. Með ákvæði 3. gr. frumvarpsins er leitast við að einfalda umsóknarferlið á þann hátt að umsækjandi þurfi einungis að eiga í samskiptum við eina stofnun, Matvælastofnun, sem verður móttökustofnun fyrir umsóknir um starfs- og rekstrarleyfi í fiskeldi. Samkvæmt núgildandi löggjöf þarf að sækja um leyfi á tveimur stöðum, þ.e. um rekstrarleyfi hjá Fiskistofu og starfsleyfi hjá Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefndum sveitarfélaga. Í 3. gr. kemur fram að Matvælastofnun muni taka við umsóknum og senda umsókn um starfsleyfi til Umhverfisstofnunar sem muni að afgreiðslu lokinni senda Matvælastofnun starfsleyfi sem stofnunin afhendi umsækjanda samhliða rekstrarleyfi. Þá er lagt til að settir verði á tímafrestir í tengslum við afgreiðslu leyfa en skv. 3. gr. skulu umsóknir til starfs- og rekstrarleyfa afgreiddar innan sex mánaða frá því að umsókn barst. Jafnframt er kveðið á um það í 3. gr. að starfs- og rekstrarleyfi skuli afgreidd samhliða en samkvæmt núgildandi löggjöf er útgefið starfsleyfi forsenda þess að umsókn um rekstrarleyfi sé tekin til meðferðar. Með þessu er leitast við að stytta afgreiðslutíma leyfa í fiskeldi. Í viðmiðum Umhverfisstofnunar er gert ráð fyrir að afgreiðsla starfsleyfis taki 180 daga. Með þessari breytingu er því stefnt að því að stytta afgreiðslutíma vegna leyfisumsókna í fiskeldi töluvert.
     2. Nýmæli sem stuðla að auknu öryggi í fiskeldi og draga úr umhverfisáhrifum fiskeldis. Sem dæmi um slík nýmæli má nefna að í 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um að í umsókn um rekstrarleyfi skuli koma fram upplýsingar um að gæðakerfi fiskeldisstöðvar og að eldisbúnaður standist þær kröfur sem gerðar eru til hans í reglugerð um fiskeldi. Þá skal einnig fylgja umsókn burðarþolsmat viðkomandi sjókvíaeldissvæðis. Burðarþolsmat skal framkvæmt af Hafrannsóknastofnun eða aðila sem ráðuneytið samþykkir að fenginni bindandi umsögn Hafrannsóknastofnunar. Með þessum nýmælum er stuðlað að auknu öryggi og ásættanlegri stöðu umhverfisáhrifa frá fiskeldi, þ.m.t. slysasleppingum. Krafan um að burðarþolsmat viðkomandi sjókvíaeldissvæðis fylgi umsókn er einnig mikilvæg þar sem slíkt mat tryggir hagkvæma nýtingu á svæðinu og að eldið hafi sem minnst áhrif á lífríkið. Með burðarþolsmati eru gerðar meiri kröfur til rekstrarleyfishafa um upplýsingar varðandi þau áhrif sem eldið hefur á lífríkið. Í þessu sambandi er rétt að benda á nýmæli sem kemur fram í 7. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að Matvælastofnun skuli hafna útgáfu rekstrarleyfis til sjókvíaeldis sem feli í sér meiri framleiðslu en viðkomandi sjókvíaeldissvæði þoli samkvæmt burðarþolsmati.
     3. Aukin skilvirkni og hagkvæmni í eftirliti með fiskeldi. Í c-lið 8. gr. og 14. gr. frumvarpsins er kveðið á um að Matvælastofnun skuli sjá um afmarkaða þætti eftirlits með fiskeldi sem Umhverfisstofnun er falið samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, á grundvelli þjónustusamnings við Umhverfisstofnun. Markmið með gerð þjónustusamnings er að auka skilvirkni í eftirliti og minnka heildarkostnað við eftirlit með fiskeldi. Jafnframt hefur eftirlit með fiskeldi verið einfaldað á þann veg að samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að eftirlit sem nú er framkvæmt af Fiskistofu og Matvælastofnun verði allt framkvæmt af Matvælastofnun, en ekki einungis eftirlit sem lýtur að heilbrigði fiska og heilnæmi eldisafurða. Gert er ráð fyrir að ákvæði frumvarpsins um þetta efni taki gildi 1. janúar 2015.
     4. Gjaldtaka og trygging. Í a-lið 9. gr. frumvarpsins (14. gr. a) er kveðið á um að við móttöku Matvælastofnunar á umsókn skuli umsækjendur um rekstrarleyfi greiða þjónustugjald vegna þess kostnaðar sem til fellur vegna vinnu starfsmanna stofnunarinnar í tengslum við afgreiðslu umsóknar. Þá er einnig kveðið á um þá skyldu í b-lið 9. gr. (14. gr. b) að umsækjandi rekstrarleyfis skuli, fyrir útgáfu rekstrarleyfis til sjókvíaeldis, leggja fram sönnun þess að hann hafi keypt ábyrgðartryggingu fyrir því tjóni sem af starfseminni getur hlotist.
     5. Umhverfissjóður sjókvíaeldis. Í 12. gr. frumvarpsins er lagt til að stofnaður verði sérstakur sjóður, Umhverfissjóður sjókvíaeldis, sem hefur það að markmiði að lágmarka umhverfisáhrif sjókvíaeldis. Með sjóðnum skal greiða kostnað vegna burðarþolsrannsókna, vöktunar og annarra verkefna sem stjórn sjóðsins ákveður. Fjármögnun sjóðsins byggist á árgjaldi sem rekstrarleyfishafar í sjókvíaeldi greiða og er miðað við að upphæð gjaldsins sé 6 SDR fyrir hvert tonn leyfis. Árgjald skal endurskoða á fimm ára fresti
     6. Dagsektir, úrbætur á kostnað leyfishafa, starfsemi án rekstrarleyfis. Í a- og b-lið 13. gr. frumvarpsins (21. gr. a og 21. gr. b) er lagt til að Matvælastofnun verði veitt sambærileg þvingunarúrræði og Umhverfisstofnun getur beitt og eru til staðar skv. VI. kafla laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Hér er um að ræða heimild til handa Matvælastofnun til að beita dagsektum og jafnframt að heimila úrbætur á kostnað rekstrarleyfishafa fari hann ekki að fyrirmælum Matvælastofnunar. Í skýrslunni „Leyfisveitingar og eftirlit með fiskeldi í sjókvíum“ sem samin var af Gerði Guðmundsdóttur fyrir Landssamband fiskeldisstöðva kemur fram að þvingunarúrræði Umhverfisstofnunar séu skilvirkari en núgildandi þvingunarúrræði þar sem Fiskistofa geti aðeins afturkallað rekstrarleyfi. Þá er á það bent að æskilegt væri að setja vægari úrræði sem Fiskistofa gæti beitt, t.d. sektum, og einnig væri æskilegt að setja ákvæði um úrræði sem hægt væri að beita gegn þeim fiskeldisstöðvum sem starfa án rekstrarleyfa. Í c-lið 13. gr. (21. gr. c) er kveðið er á um hvaða úrræði séu Matvælastofnun tæk í þeim tilvikum sem fiskeldisstöðvar starfa án rekstrarleyfa, en Matvælastofnun er nú ætlað að taka yfir allt eftirlit og stjórnsýslu sem Fiskistofa hefur farið með.
     7. Breyting á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Lagt er til í 15. gr. frumvarpsins að allt eldi sjávar- og ferskvatnslífvera sé háð starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Samkvæmt núgildandi lögum veitir Umhverfisstofnun leyfi til eldis þar sem ársframleiðsla er meiri en 200 tonn og fráveita er til sjávar eða þar sem ársframleiðsla er meiri en 20 tonn og fráveita í ferskvatn. Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga hafa gefið út starfsleyfi vegna eldis sem er undir framangreindum stærðarmörkum, sbr. reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi, með síðari breytingum. Með ákvæðinu er því lagt til að Umhverfisstofnun taki við hlutverki heilbrigðisnefnda sveitarfélaga varðandi útgáfu starfsleyfa fyrir eldi sjávar- og ferskvatnslífvera. Með því er öll starfsleyfisskyld starfsemi varðandi fiskeldi færð á eina hönd sem ætlað er að einfalda stjórnsýslu þessara mála og gera hana skilvirkari.
     8. Breyting á lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Í 16. og 17. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Með greinunum er Skipulagsstofnun veitt heimild til að taka ekki til efnislegrar meðferðar tilkynningu framkvæmdaraðila til ákvörðunar um matsskyldu eða tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun í þeim tilvikum sem erindi varðar sama framkvæmdastað og önnur framkvæmd sem þegar er til efnislegrar málsmeðferðar hjá Skipulagsstofnun á grundvelli tilkynningar skv. 6. gr. laganna eða á grundvelli sendrar matsáætlunar, sbr. 8. gr., eða ef fyrir liggur ákvörðun skv. 6. gr. eða álit skv. 11. gr. laganna um aðra framkvæmd á sama framkvæmdastað. Fjallað er sérstaklega um hvað telst framkvæmdastaður varðandi þauleldi í sjó en þar er miðað við útmörk eldissvæðis og fjarlægðarmörk á milli sjókvíaeldisstöðva í samræmi við reglugerð um fiskeldi.

IV.     Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Í 5. gr. frumvarpsins eru gerðar auknar kröfur um upplýsingar og gögn sem þurfa að fylgja umsókn um rekstrarleyfi. Hér er m.a. um að ræða þá kröfu að burðarþolsmat viðkomandi sjókvíaeldissvæðis, sem framkvæmt er af Hafrannsóknastofnun eða öðrum aðila samþykktum af ráðuneytinu að fenginni bindandi umsögn Hafrannsóknastofnunar, fylgi umsókn. Með þessum auknu kröfum er verið að tryggja hagkvæma nýtingu á íslensku hafsvæði og sjálfbært eldi. Jafnframt er verið að stuðla að ásættanlegri stöðu umhverfisáhrifa frá fiskeldi, þ.m.t. vegna slysasleppinga. Þær auknu kröfur sem fram koma í 5. gr. byggjast á almennum og hlutlægum sjónarmiðum og bitna þær því ekki á aðeins einum eða fámennum hópi. Þannig beinist ákvæðið að öllum umsækjendum um rekstrarleyfi til sjókvíaeldis sem eru til meðferðar hjá Fiskistofu við gildistöku laganna og öllum umsækjendum sem sækja um leyfi eftir þann tíma. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að frumvarpið brjóti í bága við atvinnufrelsisákvæði 75. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944.

V.     Samráð.
    Nefndin sem sá um samningu þessa frumvarps er skipuð fulltrúum frá Landssambandi fiskeldisstöðva, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Þannig hefur verið haft náið samráð við helsta hagsmunaaðila, þ.e. Landssamband fiskeldisstöðva. Einnig var haft samráð við stofnanir þær sem hafa lögbundið hlutverk á sviði fiskeldis. Nefndin kallaði helstu stofnanir sem tengjast fiskeldismálum á sinn fund og bar undir þær einstök atriði við gerð frumvarpsins. Þessar stofnanir eru Fiskistofa, Hafrannsóknastofnun, Matvælastofnun, Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun. Landssambandi veiðifélaga var jafnframt kynnt frumvarpið. Þá voru fulltrúar frá heilbrigðisnefndum sveitarfélaga boðaðir á fund nefndarinnar.

VI.     Mat á áhrifum.
    Frumvarpið felur í sér einföldun á framkvæmd leyfisveitinga og eftirlits með fiskeldi. Með breytingunum er ætlunin að stuðla að aukinni skilvirkni innan stjórnsýslunnar á því sviði. Frumvarpið hefur í för með sér íþyngjandi áhrif fyrir helstu hagsmunaaðila í sjókvíaeldi þar sem gerðar eru auknar kröfur til leyfisveitinga. Einnig er lagt á rekstrarleyfishafa í sjókvíaeldi tiltekið árgjald sem renna skal í sérstakan sjóð, Umhverfissjóð sjókvíaeldis, samkvæmt nýjum VI. kafla A. Með þessum auknu kröfum er stuðlað að sjálfbæru sjókvíaeldi, hagkvæmari nýtingu íslenskra hafsvæða og ásættanlegum umhverfisáhrifum frá fiskeldi. Þessar íþyngjandi kröfur geta einnig aukið líkur á áhuga fjárfesta á að koma að uppbyggingu greinarinnar. Betra skipulag og auknar rannsóknir á umhverfisþáttum eru forsenda þess að íslenskar fiskeldisafurðir haldi stöðu sinni á markaði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. tölul. 1. gr. frumvarpsins er að finna skilgreiningu á hugtakinu burðarþolsmat. Þar segir að burðarþolsmat sé mat á þoli fjarða eða afmarkaðra hafsvæða til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið og þannig að viðkomandi vatnshlot uppfylli umhverfismarkmið sem sett eru fyrir viðkomandi vatnshlot samkvæmt lögum nr. 36/2011, um stjórn vatnamála. Skilgreiningu á hugtakinu vatnshlot er að finna í þeim lögum.
    Þeir þættir sem ákvarða burðarþol fjarða og afmarkaðra hafsvæða eru einkum straumar, dýpi, lögun sjávarbotns (þröskuldsfirðir) og viðmið sem stjórnvöld setja um ásættanleg áhrif á lífríkið. Gerður er greinarmunur á staðbundnum rannsóknum á burðarþoli undir og við sjókvíar og burðarþoli fjarða eða afmarkaðra hafsvæða. Rekstraraðilar þurfa að framkvæma staðbundnar rannsóknir til að kortleggja grunnástand undir og í næsta nágrenni við fyrirhugaðar sjókvíar og síðan með reglulegri vöktun eins og lýst er í staðlinum ISO 12878 sem er alþjóðlegur staðall um reglulega vöktun á lífrænu umhverfisálagi sjókvíaeldis. Unnið verður að innleiðingu staðalsins með setningu reglugerðar.
    Við mat á burðarþoli fjarða og afmarkaðra hafsvæða er stuðst við líkön og rannsóknir. Við val á aðferðafræði og viðmiðum er mikilvægt að horft verði til landa sem eru fremst á þessu sviði. Talið er að einn helsti óvissuþátturinn við mat á burðarþoli sé skortur á vitneskju um strauma. Við mat á óæskilegum áhrifum á lífríkið í burðarþolsmati eru notuð umhverfismörk sem byggjast á náttúrulegum aðstæðum á hverjum stað og eru í því sambandi skoðaðir margir þættir, svo sem súrefnisstyrkur, lífríki á botni og ákoma lífræns efnis og næringarefna. Sá umhverfisþáttur sem lakast kemur út skal ráða burðarþolsmatinu. Enn fremur verði höfð hliðsjón af þeim umhverfismarkmiðum sem skilgreind verða fyrir viðkomandi vatnshlot vegna ákvæða laga nr. 36/2011, um stjórn vatnamála, og sett verða í fyrsta sinn fram í vatnaáætlun fyrir landið fyrir lok árs 2018. Í upphafi verði viðmiðanir varfærnar og burðarþol aukið eftir að eldið er hafið ef niðurstöður rannsókna gefa tilefni til þess. Viðmiðanir sem hafðar eru til hliðsjónar við burðarþolsmatið geta breyst með aukinni þekkingu á áhrifum eldisins á lífríkið vegna rannsókna sem gerðar eru hér á landi eða erlendis. Sömuleiðis kunna viðmiðanir vegna mats á ástandi vatnshlota að breytast við endurskoðun vatnaáætlana á sex ára fresti sem og þau umhverfismarkmið sem sett verða.
    Við mat á áhrifum af eldisstarfsemi skal miða við staðalinn ISO 12878 og skulu viðmiðanir fyrir lífrænt álag gefnar út af Umhverfisstofnun. Í framangreindum staðli er gert ráð fyrir að stjórnvald geti sett viðmiðunarmörk þar sem skilgreind eru óæskileg áhrif á lífríkið. Hér verði byggt á reynslu annarra landa og haft til hliðsjónar verklag sem hefur verið í þróun á síðustu árum og áratugum.
    Í 2. tölul. 1. gr. frumvarpsins er að finna skilgreiningu á hugtakinu sjókvíaeldissvæði. Þar segir að sjókvíaeldissvæði sé fjörður eða afmarkað hafsvæði fyrir sjókvíaeldi. Afmörkun sjókvíaeldissvæða tekur á hverjum tíma mið af niðurstöðum rannsókna á dreifingu sjúkdómsvalda. Innan hvers sjókvíaeldissvæðis geta verið eitt eða fleiri eldissvæði. Í 3. gr. reglugerðar nr. 401/2012, um fiskeldi, er miðað við að lágmarksfjarlægð milli sjókvíaeldisstöðva samkvæmt meginviðmiði skuli vera 5 km miðað við útmörk hvers eldissvæðis sem rekstrarleyfishafa hefur verið úthlutað. Gert er ráð fyrir því í ákvæðinu að þessi fjarlægðarviðmið verði ákvörðuð þegar niðurstöður rannsókna liggja fyrir, svo sem niðurstöður á dreifingu sjúkdómsvalda með straumlíkönum. Á hverju sjókvíaeldissvæði er aðeins gert ráð fyrir einum árgangi hverju sinni.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að í stað orðsins Fiskistofa í lögunum komi orðið Matvælastofnun. Hér er lagt til að Matvælastofnun taki við hlutverki Fiskistofu og fari með framkvæmd stjórnsýslu samkvæmt lögum þessum og hafi eftirlit með því að ákvæðum þeirra sé framfylgt. Með þessu er verið að fækka stofnunum sem koma að fiskeldismálum en það mun stuðla að einföldun á umsóknarferli vegna rekstrarleyfa og jafnframt að aukinni hagkvæmni í eftirliti. Talið er að Matvælastofnun sé vel til þess fallin að taka við þessum verkefnum en þess má geta að Matvælastofnun sér nú þegar um útgáfu leyfa til skeldýraeldis og annarrar starfsemi. Leyfisveitingarferli er því þegar til staðar hjá stofnuninni. Þá sér Matvælastofnun jafnframt um að framfylgja reglugerð (EB) nr. 1254/2008, en með henni er innleidd tilskipun 2006/88/ EB um heilbrigðiskröfur vegna lagareldisdýra og afurða þeirra og um forvarnir og varnir gegn tilteknum sjúkdómum í lagardýrum. Samkvæmt tilskipuninni þarf að tryggja að fullnægt sé tilteknum kröfum áður en leyfi eru gefin út. Hvað þetta atriði varðar er heppilegt að leyfisveitingarvaldið sé hjá því stjórnvaldi sem metur hvort viðkomandi skilyrði séu uppfyllt.

Um 3. gr.

    Hér er um að ræða nýtt ákvæði þar sem komið er til móts við ósk atvinnugreinarinnar um einföldun á umsóknarferli í fiskeldi. Þannig er nú gert ráð fyrir að umsækjandi þurfi aðeins að sækja um leyfi hjá einni stofnun í stað tveggja áður. Umsóknir um starfs- og rekstrarleyfi skulu afhentar Matvælastofnun, sbr. 2. mgr., sem áframsendir starfsleyfisumsóknir til Umhverfisstofnunar, sbr. 3. mgr. Umhverfisstofnun tekur umsókn til meðferðar samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þegar Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi er það sent til Matvælastofnunar. Ef umsókn er samþykkt skal Matvælastofnun afhenda umsækjanda starfsleyfi og rekstrarleyfi samtímis, sbr. lokamálslið 3. mgr.
    Í greininni er jafnframt að finna það nýmæli að starfsleyfis- og rekstrarleyfisumsóknir skuli afgreiddar samhliða, sbr. 2. mgr., en samkvæmt núgildandi löggjöf er útgefið starfsleyfi forsenda þess að umsókn um rekstrarleyfi sé tekin til meðferðar. Þá er kveðið á um það nýmæli í 3. mgr. að umsóknir séu afgreiddar innan sex mánaða frá því að þær berast. Hér er einnig verið að koma til móts við atvinnugreinina með því að stytta umsóknarferlið. Þá segir að tafir sem má rekja beint til ófullnægjandi gagna umsækjenda geti framlengt afgreiðslutíma.

Um 4. gr.

    Í 1. málsl. greinarinnar er kveðið á um skyldu Matvælastofnunar áður en leyfi er veitt skv. 1. mgr. til að afla umsagnar Fiskistofu, Veiðimálastofnunar, Hafrannsóknastofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar, eftir því sem við á, um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldisstöðvar eða fyrirhugaðar eldistegundir, eldisstofnar eða eldisaðferðir gefi tilefni til neikvæðra vistfræði- eða erfðafræðiáhrifa sem leitt geti af leyfisskyldri starfsemi.
    Í 2. málsl. greinarinnar er lagt til að kveðið verði sérstaklega á um að Matvælastofnun meti hvort umsækjandi uppfylli kröfur sem gerðar eru í reglugerð um heilbrigðiskröfur vegna lagareldisdýra og afurða þeirra og um forvarnir og varnir gegn tilteknum sjúkdómum í lagardýrum. Rekstrarleyfi skulu ekki gefin út ef viðkomandi kröfum er ekki fullnægt. Núgildandi reglugerð um þetta efni er nr. 1254/2008 og með henni er innleidd tilskipun 2006/88/EB um sama efni. Skv. 5. gr. tilskipunarinnar ber að ganga úr skugga um að umsækjendur uppfylli tilteknar kröfur varðandi gæðakerfi, hreinlæti og öryggismál áður en leyfi til eldisstarfsemi er veitt.

Um 5. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um það nýmæli að í umsókn um rekstrarleyfi skuli koma fram upplýsingar um að umsækjandi hafi fullnægjandi fagþekkingu á viðkomandi sviði. Matvælastofnun mun gefa út leiðbeiningar og nánari útlistun á því hvað felist í fullnægjandi fagþekkingu. Þá er nú óskað eftir að upplýsingar um eldisstofn fylgi umsókn. Meðal annarra nýmæla í 1. mgr. er að í umsókn um rekstrarleyfi komi fram upplýsingar um að gæðakerfi og eldisbúnaður standist kröfur sem nánar er kveðið á um í reglugerð um fiskeldi. Hvað varðar sjókvíaeldisstöðvar skulu fylgja umsókn upplýsingar um að eldisbúnaður umsækjanda standist ströngustu staðla sem gerðir eru fyrir fiskeldismannvirki í sjó en nánar er kveðið á um þær kröfur sem þarf að uppfylla samkvæmt þessum stöðlum í reglugerð um fiskeldi. Í þessu sambandi skal sérstaklega hafður til viðmiðunar norski staðalinn NS 9415. Með þessum nýmælum er verið að stuðla að auknu öryggi og draga úr umhverfisáhrifum fiskeldis, þ.m.t. slysasleppingum. Þá skal fylgja umsókn burðarþolsmat fyrir viðkomandi sjókvíaeldissvæði. Krafan um burðarþolsmat er sett til að tryggja bestu nýtingu á svæðinu og að eldið hafi sem minnst áhrif á lífríkið. Slíkt burðarþolsmat skal framkvæmt af Hafrannsóknastofnun eða öðrum aðila samþykktum af ráðuneytinu að fenginni bindandi umsögn Hafrannsóknastofnunar. Meginkostnaður við gerð burðarþolsmats skal fjármagnaður úr umhverfissjóði sjókvíaeldis en Hafrannsóknastofnun skal annast nauðsynlega umsýslu vegna matsins.
    Í 2. mgr. er að finna þau nýmæli að með umsókn skuli fylgja staðfesting á a.m.k. 30% eigin fjármögnun og rekstraráætlun sem sýni m.a. uppbyggingarferil eldis og öflun hrogna og seiða. Hér er verið að stuðla að því að leyfi séu ekki gefin út til aðila sem sýna ekki fram á nægilegt eigið fé og getu til að byggja upp eldið.
    Þá er það skilyrði gildandi laga fellt brott að umsókn skuli fylgja starfsleyfi þar sem slíkt leyfi er ekki lengur forsenda þess að mögulegt sé að sækja um rekstrarleyfi, sbr. gildandi 2. mgr. 8. gr. laganna.

Um 6. gr.

    Í 1. mgr. er að finna það nýmæli að ef tvær eða fleiri umsóknir um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á sama sjókvíaeldissvæði hafa borist Matvælastofnun skuli þær afgreiddar í þeirri tímaröð sem þær berast, enda fullnægi umsókn skilyrðum laga þessara. Það að afgreiða umsóknir með þessum hætti er talið fela í sér eðlilega og réttláta málsmeðferð.
    Þá er lagt til að 2. og 3. mgr. 9. gr. núgildandi laga verði felld niður þar sem Skipulagsstofnun óskar m.a. eftir umsögnum frá Matvælastofnun við málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Matvælastofnun skal í þeirri umsögn benda á, ef hún telur þörf á, framkvæmd þeirra rannsókna, söfnunar upplýsinga og vöktunar sem kveðið er á um í 2. og 3. mgr. 9. gr. laganna. Af þeim sökum er talið rétt að fella 2. og 3. mgr. 9. gr. niður þar sem óþarft er að leggja ítrekað slíka rannsóknarskyldu á aðila.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að Matvælastofnun skuli við meðferð umsóknar um rekstrarleyfi til fiskeldis leggja mat á sjúkdómstengda og vistfræðilega þætti sem kunni að fylgja starfsemi fiskeldisstöðvar. Matvælastofnun nýtir niðurstöðu úr framangreindu mati til ákvörðunar á því hvort rekstrarleyfi skuli veitt til starfsemi fiskeldisstöðvar.

Um 7. gr.

    Í a-lið greinarinnar er lagt til að í rekstrarleyfi skuli kveðið á um skyldu til erfðamerkinga þannig að hægt sé að rekja uppruna eldisfiska til ákveðinna eldisstöðva.
    Í b-lið greinarinnar er lagt til að felldar verði út skyldur leyfishafa til að standa að rannsóknum sambærilegum þeim sem greinir í 2. og 3. mgr. 9. gr. núgildandi laga. Jafnframt er lagt til að skylda til vöktunar á nærliggjandi veiðivötnum samkvæmt núgildandi lögum verði felld niður. Talið er ósanngjarnt að íþyngja einstökum fyrirtækjum með þessum hætti og þess í stað lagt til að slík vöktun verði fjármögnuð af Umhverfissjóði sjókvíaeldis og framkvæmd af opinberum aðila. Þá er lagt til að felld verði niður sú heimild ráðherra skv. 3. mgr. 10 gr. núgildandi laga til að mæla fyrir um vöktun á kynþroska og heilbrigði fiska í eldi o.fl. Í eldi er miðað við að fiski sé slátrað fyrir kynþroska til að koma í veg fyrir gæðarýrnun og hækkun á framleiðslukostnaði og er því slík vöktun á kynþroska óþörf. Hvað varðar vöktun á heilbrigði fiska er tekið á því í lögum nr. 60/2006, um varnir gegn fisksjúkdómum.
    Í c-lið greinarinnar er lagt er til að fimm nýjar málsgreinar bætist við 10. gr. laganna.
    Í 1. mgr. c-liðar greinarinnar endurspeglast mikilvægi þess að íslensk hafsvæði séu nýtt á sjálfbæran hátt og til að þess sé gætt skal Matvælastofnun, við útgáfu rekstrarleyfis til sjókvíaeldis, gæta þess að nýting samkvæmt leyfinu fari ekki yfir burðarþol viðkomandi sjókvíaeldissvæðis samkvæmt burðarþolsmati framkvæmdu af Hafrannsóknastofnun eða öðrum aðila samþykktum af ráðuneytinu að fenginni bindandi umsögn Hafrannsóknastofnunar. Matvælastofnun skal því hafna útgáfu leyfis til sjókvíaeldis sem felur í sér að farið yrði yfir burðarþol viðkomandi sjókvíaeldissvæðis.
    Í 2. mgr. c-liðar greinarinnar er stuðlað að betri nýtingu sjókvíaeldissvæða. Af þeim sökum skulu leyfi fyrir sjókvíaeldi sem gera ráð fyrir minni nýtingu en 40% af burðarþoli viðkomandi sjókvíaeldissvæðis einungis veitt til tiltekins tíma, allt að fjórum árum. Þannig er hugsunin sú að aðilar sem hyggjast nýta svæðið á hagkvæmari hátt hafi möguleika á að sækja um leyfi til sjókvíaeldis á viðkomandi sjókvíaeldissvæði innan fjögurra ára. Hins vegar þótti rétt að girða ekki fyrir minni nýtingu sjókvíaeldissvæða á meðan stærri aðilar hefðu ekki hug á að nýta sér svæðin. Ef fleiri en einn aðili sækjast eftir rekstrarleyfi á svæðinu að fjórum árum liðnum skal að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum úthluta þeim umsækjanda leyfi sem ætlar að nýta svæðið á sem hagkvæmastan hátt. Þó verður heimilt að endurnýja fyrra leyfið ef aðrir umsækjendur gera ráð fyrir óverulegri aukningu á nýtingu. Með hagkvæmustu nýtingu sjókvíaeldissvæðis er átt við mesta framleiðslumagn samkvæmt burðarþolsmati. Við mat á nýtingu sjókvíaeldissvæða er heimilt að miða við það ár sem mest er framleitt en að jafnaði tekur eldisferli um þrjú ár að teknu tilliti til hvíldar á svæðinu. Með 40% viðmiðuninni er reynt að koma á skynsamlegri nýtingu á sjókvíaeldissvæðinu og aðilum sem hug hafa á að fara í umfangslítið eldi er beint að svæðum með minna burðarþol.
    Í 3.–5. mgr. c-liðar er fjallað um tilvik sem leiða eiga til höfnunar á umsókn. Ekki er um tæmandi talningu á höfnunarástæðum að ræða, enda er hægt að hafna umsókn, á grundvelli núgildandi 1. mgr. 10. gr. laganna, ef hún fullnægir ekki skilyrðum laganna að öðru leyti. Í 3. mgr. c-liðar greinarinnar segir að Matvælastofnun skuli hafna umsókn um rekstrarleyfi ef umsækjandi uppfyllir ekki kröfur skv. 2. málsl. 2. mgr. 7. gr. Í 4. mgr. c-liðar er kveðið á um að umsókn skuli hafna ef ekki liggja fyrir öll þau gögn sem áskilið er að fylgi umsókn og skv. 5. mgr. c-liðar skal Matvælastofnun hafna umsókn ef umtalsverð hætta er á útbreiðslu sjúkdóma eða öðrum óæskilegum áhrifum á vistkerfi, en Fiskistofu ber skylda til að leggja mat á slíka þætti samkvæmt núgildandi lögum og er áfram gert ráð fyrir því mati í 3. gr. frumvarps þessa.

Um 8. gr.

    A-liður greinarinnar þarfnast ekki skýringar.
    Í b-lið greinarinnar eru lagðar til breytingar á 4. mgr. 14. gr. laganna sem fjallar um eftirlitsgjald. Ákvæðið er í samræmi við meginreglur um gjaldtökuheimildir hérlendis og byggist á því að eftirlitsgjöld miðist við raunkostnað. Í a–c-lið málsgreinarinnar eru taldir upp þeir kostnaðarþættir sem eftirlitsgjaldið skal standa straum af.
    Í c-lið er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við 14. gr. þess efnis að Matvælastofnun sinni afmörkuðum þáttum eftirlits með fiskeldi sem Umhverfisstofnun er falið samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, á grundvelli þjónustusamnings við Umhverfisstofnun. Nánar skal kveðið á um umfang eftirlits og hvernig því skuli háttað í reglugerð sem ráðherra setur. Vísað er að öðru leyti til 14. gr. frumvarpsins varðandi hlutverk Matvælastofnunar varðandi þetta eftirlit og hvað í því felst.

Um 9. gr.

    Í a-lið greinarinnar (14. gr. a) segir að við móttöku Matvælastofnunar á umsókn um rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum skuli umsækjendur greiða Matvælastofnun þjónustugjald vegna þess kostnaðar sem til fellur vegna vinnu starfsmanna Matvælastofnunar í tengslum við afgreiðslu umsóknar. Ráðherra staðfestir, að fengnum tillögum Matvælastofnunar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu sem stofnuninni er falið að annast í tengslum við afgreiðslu á umsóknum um rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum. Upphæð gjalds skal taka mið af kostnaði sem stofnunin verður fyrir við að veita þessa þjónustu og má gjaldið ekki vera hærra en sá kostnaður. Þá skulu umsóknir um rekstrarleyfi ekki teknar til afgreiðslu fyrr en þjónustugjald hefur verið greitt.
    Í b-lið greinarinnar (14. gr. b) er kveðið á um það nýmæli að umsækjandi rekstrarleyfis til sjókvíaeldis skuli fyrir útgáfu leyfis leggja fram sönnun þess að hann hafi keypt ábyrgðartryggingu fyrir því tjóni sem af starfseminni getur hlotist. Tryggingin á að ná til alls bótaskylds tjóns og er það ekki takmarkað á neinn hátt í ákvæðinu. Sérstaklega er tekið fram að til tjóns teljist kostnaður sem kann að falla til vegna fjarlægingar búnaðar og hreinsunar sjókvíaeldissvæðis eftir að starfsemi er hætt eða vegna annarra ráðstafana samkvæmt nýrri 21. gr. b laganna, sbr. b-lið 13. gr. frumvarpsins. Þá skal ábyrgðartrygging gilda á gildistíma leyfis og í tvö ár eftir að gildistími rennur út.

Um 10. gr.

    Í greininni segir að fella skuli rekstrarleyfi fiskeldisstöðvar úr gildi innan þriggja ára ef starfsemi nær ekki þeim markmiðum sem gert var ráð fyrir í rekstraráætlun. Þá skal fella rekstrarleyfi úr gildi ef starfsemi fiskeldisstöðvar stöðvast í tvö ár. Þá felur ákvæðið í sér það nýmæli að Matvælastofnun er heimilt fimm árum frá útgáfu rekstrarleyfis til sjókvíaeldis að minnka leyfilegt framleiðslumagn samkvæmt rekstrarleyfi sé nýting þess minni en 50% af burðarþoli sjókvíaeldissvæðis. Hér er um að ræða heimild til handa Matvælastofnun sem getur m.a. komið til greina í þeim tilvikum þegar fyrir liggur umsókn annars aðila um rekstrarleyfi á sjókvíaeldissvæðinu sem felur í sér hagkvæmari nýtingu. Ástæðan að baki þessu ákvæði er sú að mikilvægt er að sjókvíaeldissvæði séu nýtt á sem hagkvæmastan hátt.

Um 11. gr.

    Í greininni er kveðið á um að Matvælastofnun geti veitt rekstrarleyfishafa undanþágu til flutnings á eldistegundum, sem ekki eru tilgreindar í rekstrarleyfi, milli fiskeldisstöðva ef ástæður mæla ekki gegn slíku. Matvælastofnun skal í þeim tilvikum leita umsagnar Fiskistofu og Hafrannsóknastofnunar eða Veiðimálastofnunar um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldisstöðvar eða strandsvæði gefa tilefni til neikvæðra vistfræðilegra áhrifa. Þannig skal Matvælastofnun ætíð leita umsagnar Fiskistofu en leita umsagnar hjá Hafrannsóknastofnun ef undanþága varðar sjávarfiska og umsagnar Veiðimálastofnunar ef undanþága varðar ferskvatnsfiska.

Um 12. gr.

    Í a-lið greinarinnar (20. gr. a) er stöðu sjóðsins lýst og vikið að meginhlutverki hans. Þannig er meginhlutverk sjóðsins að greiða kostnað við rannsóknir vegna burðarþolsmats. Þá er gert ráð fyrir að sjóðurinn fjármagni að hluta eða að fullu rannsóknir sem fela í sér vöktun á hlutfalli eldislaxa í laxveiðiám sem eru í nágrenni við sjókvíaeldisstöðvar. Þá er jafnframt mögulegt að greiða kostnað við önnur verkefni sem stjórn sjóðsins ákveður.
    Í b-lið greinarinnar (20. gr. b) er mælt fyrir um skipan stjórnarmanna í Umhverfissjóð sjókvíaeldis. Stjórn sjóðsins er skipuð þremur mönnum og ræður atkvæði formanns úrslitum ef atkvæði fjalla jöfn.
    C- og d-liður greinarinnar (20. gr. c og 20. gr. d) þarfnast ekki skýringa.
    Í e-lið greinarinnar (20. gr. e) er kveðið á um skyldu rekstrarleyfishafa til greiðslu árgjalds að upphæð 6 SDR fyrir hvert tonn samkvæmt útgefnu rekstrarleyfi. Jafnframt er kveðið á um að árgjald skuli endurskoðað á fimm ára fresti.
    F-liður greinarinnar (20. gr. f) á sér nokkra fyrirmynd í lögum um Fiskræktarsjóð, nr. 72/2008. Að öðru leyti skýrir greinin sig sjálf.
    G-liður greinarinnar (20. gr. g) þarfnast ekki skýringa.

Um 13. gr.

     Um a-lið (21. gr. a).
    Í greininni er að finna nýmæli um dagsektir og í 1. mgr. er kveðið á um heimild Matvælastofnunar til að leggja á dagsektir ef rekstrarleyfishafi fer ekki að fyrirmælum hennar samkvæmt lögum þessum, reglugerðum eða skilyrðum í rekstrarleyfi.
    Í 2.–5. mgr. er að finna nánari ákvæði um dagsektirnar. Meðal annars er gert ráð fyrir að þær renni í ríkissjóð. Þá er kveðið á um kæruheimild til ráðuneytis, fjárhæð og aðfararhæfi dagsektanna. Þá er lagt til að ekki verði sérstaklega kveðið á um lágmarksfjárhæð dagsekta þar sem Matvælastofnun er ætlað að meta sérstaklega í hverju tilviki hver hæfileg fjárhæð dagsekta skuli vera þar sem höfð skal hliðsjón af ákveðnum atriðum. Skal markmiðið ætíð vera að dagsektir hafi tilætluð varnaðaráhrif að teknu tilliti til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.
     Um b-lið (21. gr. b).
    Í greininni er að finna nýmæli þar sem Matvælastofnun er heimilt að láta vinna tiltekin verk á kostnað rekstrarleyfishafa fari hann ekki að fyrirmælum stofnunarinnar samkvæmt lögum þessum, reglugerðum settum samkvæmt þeim eða skilyrðum í rekstrarleyfi. Hér er hugsunin að hægt sé að bregðast við aðkallandi hættu, t.d. ef fiskur er að sleppa úr kvíum. Þá er einnig gert ráð fyrir að hægt sé að fjarlægja búnað fiskeldisstöðvar sem hætt hefur starfsemi, hreinsa eldissvæði eða gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir vegna slysasleppinga og sjúkdómahættu. Með nauðsynlegum ráðstöfunum vegna slysasleppinga er átt við að Matvælastofnun geti látið framkvæma viðgerð á eldisbúnaði, lokað ám til að hindra uppgöngu eldisfiska og fjarlægt eldisfiska úr ám. Fyrirmynd þessa ákvæðis er að nokkru leyti að finna í 27. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þá er kveðið á um að kostnaður skuli greiddur til bráðabirgða af Matvælastofnun en innheimtur síðar hjá rekstrarleyfishafa eða úr ábyrgðartryggingu hans. Þá segir að kostnað megi innheimta með fjárnámi.
     Um c-lið (21. gr. c).
    Hér er um að ræða nýmæli þar sem kveðið er á um skyldu Matvælastofnunar til að stöðva fiskeldisstarfsemi án rekstrarleyfis og heimild hennar til slátrunar og förgunar eldisdýra. Jafnframt er Matvælastofnun í ákvæðinu heimilt að fjarlægja búnað sem notaður hefur verið til starfseminnar og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir skv. 21. gr. b á kostnað þess aðila sem rekið hefur fiskeldisstarfsemi án leyfis. Í þeim tilvikum sem eldisdýr eru hæf til manneldis skulu þau seld og andvirði þeirra að frádregnum kostnaði Matvælastofnunar vegna sölunnar skal renna í ríkissjóð. Hér er um að ræða nauðsynlegt ákvæði til stöðvunar fiskeldisstarfsemi án leyfis.

Um 14. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við 24. gr. laga nr. 7/1998 þess efnis að Umhverfisstofnun skuli gera þjónustusamning við Matvælastofnun um að Matvælastofnun sinni afmörkuðum þáttum eftirlits með fiskeldi sem Umhverfisstofnun er falið samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Nánar skal kveðið á um umfang og tilhögun eftirlits í reglugerð sem ráðherra er fer með fiskeldi setur.
    Markmið með slíkum þjónustusamningi er að auka skilvirkni og draga úr kostnaði við eftirlit í fiskeldi en Matvælastofnun fer í reglulegar eftirlitsferðir í fiskeldisstöðvar. Tíðni eftirlits verður ákveðin sameiginlega af Matvælastofnun og Umhverfisstofnun með það að markmiði að uppfylla kröfur sem þessar stofnanir gera til viðkomandi starfsemi. Við þetta verður eftirlitið hagkvæmara. Í eftirlitsskýrslum sem gerðar eru af eftirlitsaðila koma fram athugasemdir og frávik ef einhver eru. Rekstraraðili fær ákveðið svigrúm til athugasemda og úrbóta áður en skýrslur eru gerðar opinberar. Ef um alvarleg frávik er að ræða sem ekki eru gerðar úrbætur á innan ákveðins tímaramma getur Umhverfisstofnun farið á staðinn og gripið til viðeigandi ráðstafana eða þvingunarúrræða.
    Hluti af eftirliti Umhverfisstofnunar vegna sjókvíaeldis hefur falist í mælingum og rannsóknum sem framkvæmdar hafa verið af óháðum aðila, auk þess að fara í eftirlitsferðir. Sá aðili hefur sent niðurstöður sínar til Umhverfisstofnunar og er með ákvæði þessu ekki verið að breyta þeirri framkvæmd. Í frárennsli landeldisstöðva er tekið sýni af óháðum aðila eða starfsmönnum viðkomandi fyrirtækis og sent til viðurkenndra rannsóknastofa til greiningar.
Hluti þess eftirlits sem Umhverfisstofnun er ábyrg fyrir er framkvæmt af óháðum aðila sem stofnunin hefur samþykkt. Hlutverk Matvælastofnunar samkvæmt þjónustusamningi vegna eftirlits fiskeldisstöðva verður að taka út gæðakerfi viðkomandi fiskeldisstöðvar með tilliti til krafna Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar og senda niðurstöður sínar til Umhverfisstofnunar. Jafnframt munu starfsmenn Matvælastofnunar hafa eftirlit á vettvangi með ákveðnum eftirlitsatriðum, svo sem meðhöndlun efna og hvort fiskeldisstarfsemi sé á staðnum, og taka sýni úr frárennsli landeldisstöðva til greiningar.
    Með ákvæðinu er því lagt til að einungis einn eftirlitsaðili fari í reglubundnar eftirlitsferðir vegna fiskeldis í stað þriggja aðila eins og nú gildir. Áður en þjónustusamningur er gerður verður skipaður starfshópur með fulltrúum þessara tveggja stofnana ásamt fulltrúum ráðuneyta. Starfshópnum er ætlað að undirbúa eftirtalin verkefni:
          Að tekinn verði upp staðallinn ISO 12878 og viðmiðanir skilgreindar fyrir heimilað lífrænt álag undir og við eldiskvíar og jafnframt viðbrögð við frávikum og að þar verði haft til hliðsjónar verklag í Noregi og/eða Færeyjum.
          Að gerður verði gátlisti og leiðbeiningar verði útbúnar fyrir eftirlitsmenn Matvælastofnunar.
    Miðað er við að þessum verkefnum verið lokið fyrir árslok 2014 og að gerð þjónustusamninga milli framangreindra stofnana verði lokið í ársbyrjun 2015.

Um 15. gr.

    Lagt er til í 15. gr. frumvarpsins að allt eldi sjávar- og ferskvatnslífvera sé háð starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Samkvæmt gildandi lögum veitir Umhverfisstofnun leyfi til eldis þar sem ársframleiðsla er meiri en 200 tonn og fráveita til sjávar eða þar sem ársframleiðsla er meiri en 20 tonn og fráveita í ferskvatn. Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga hafa gefið út starfsleyfi vegna eldis sem er undir framangreindum stærðarmörkum, sbr. sjá nánar reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi, með síðari breytingum. Með ákvæðinu er því lagt til að Umhverfisstofnun taki við hlutverki heilbrigðisnefnda sveitarfélaga varðandi útgáfu starfsleyfa fyrir eldi sjávar- og ferskvatnslífvera. Með því er öll starfsleyfisskyld starfsemi varðandi fiskeldi færð á eina hendi sem ætlað er að einfalda stjórnsýslu þessara mála og gera hana skilvirkari.

Um 16. gr.

    Greinin fjallar um þau tilvik þegar tilkynntar hafa verið til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu á grundvelli 6. gr. laganna tvær eða fleiri framkvæmdir sem eru staðsettar á sama framkvæmdastað. Eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að veita leyfi fyrir framkvæmd sem er staðsett á sama framkvæmdastað og því eru almennt ekki forsendur til þess að taka til meðferðar tilkynningu til ákvörðunar um matsskyldu skv. 6. gr. laganna ef önnur framkvæmd er á sama framkvæmdastað. Þá er í greininni fjallað um þau tilvik er fyrir liggur ákvörðun skv. 6. gr. eða álit skv. 11. gr. laganna um aðra framkvæmd á sama framkvæmdastað. Ákvæðið á við um allar framkvæmdir sem eru tilkynningarskyldar til ákvörðunar um matsskyldu skv. 6. gr. laganna. Ef um er að ræða þauleldi á fiski í sjó, sbr. g-lið 1. tölul. 2. viðauka laganna, er með sama framkvæmdastað átt við ef hin tilkynnta framkvæmd er í ákveðinni fjarlægð frá útmörkum eldissvæðis framkvæmdar sem er til meðferðar hjá Skipulagsstofnun, en þau fjarlægðarmörk er að finna í 3. gr. reglugerðar um fiskeldi, nr. 401/2012. Þar segir að fjarlægðarmörk á milli sjókvíaeldisstöðva samkvæmt meginviðmiði skuli vera 5 km miðað við útmörk hvers eldissvæðis sem rekstrarleyfishafa hefur verið úthlutað. Þau fjarlægðarmörk geta breyst með breytingum á reglugerð um fiskeldi.
    Sá aðili sem er með framkvæmd sína til meðferðar samkvæmt lögum þessum og hefur lagt fram fullnægjandi gögn að mati Skipulagsstofnunar hefur e.t.v. ekki, af einhverjum ástæðum, aflað sér tilskilinna leyfa fyrir framkvæmdinni. Það getur t.d. stafað af því að hann hafi hætt við fyrirhuguð framkvæmdaáform sín, hafi ekki fengið útgefið leyfi fyrir framkvæmdinni eða framkvæmdir hans tafist. Við slíkar aðstæður þykir rétt að sá aðili sem síðar tilkynnir framkvæmd til Skipulagsstofnunar á sama framkvæmdastað skv. 6. gr. eigi rétt á að fá mál sitt tekið til meðferðar. Því er lagt til að ef ekki hafa verið gefin út leyfi til framkvæmda, eins og framkvæmdaleyfi, rekstrarleyfi eða starfsleyfi, innan þriggja ára frá því að framkvæmdin var tilkynnt til ákvörðunar um matsskyldu, eða tillaga að matsáætlun lögð fram til afgreiðslu Skipulagsstofnunar, eigi forgangur þess aðila að viðkomandi framkvæmdastað ekki lengur við. Þannig beri Skipulagsstofnun þá að taka til meðferðar framkvæmd sem tilkynnt hefur verið til ákvörðunar um matsskyldu.
    

Um 17. gr.

    Lagt er til að bætt verði við ákvæðið nýrri málsgrein sem fjallar um þau tilvik þegar fyrirhuguð matsskyld framkvæmd er á sama framkvæmdastað og önnur framkvæmd sem þegar er til efnislegrar meðferðar hjá Skipulagsstofnun.
    Hér er um að ræða framkvæmdir sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum og falla undir IV. kafla laganna. Skipulagsstofnun er ekki skylt að taka til efnislegrar meðferðar tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun í þeim tilvikum sem sú framkvæmd er fyrirhuguð á sama framkvæmdastað og önnur framkvæmd sem þegar er til efnislegrar meðferðar hjá Skipulagsstofnun samkvæmt lögunum eða fyrir liggur ákvörðun skv. 6. gr. eða álit skv. 11. gr. um framkvæmd á sama framkvæmdastað. Ákvæði þetta á ekki við ef ekki hefur verið gefið út leyfi til framkvæmda fyrir þeirri framkvæmd sem var til efnislegrar meðferðar hjá Skipulagsstofnun innan þriggja ára frá því tillagan barst stofnuninni.

Um 18. gr.

    Hér er lagt til að Matvælastofnun taki við hlutverki Fiskistofu samkvæmt lögum um fiskeldi, nr. 71/2008, og verði falið að annast framkvæmd stjórnsýslu og eftirlit með því að ákvæðum laganna sé framfylgt. Með þessu er verið að fækka stofnunum sem koma að fiskeldismálum en það mun stuðla að einföldun á umsóknarferli vegna rekstrarleyfa og jafnframt að aukinni hagkvæmni í eftirliti. Talið er að Matvælastofnun sé vel til þess fallin að taka við þessum verkefnum en þess má geta að Matvælastofnun sér nú þegar um útgáfu leyfa til skeldýraeldis og annarrar starfsemi. Leyfisveitingarferli er því þegar til staðar hjá stofnuninni. Þá sér Matvælastofnun jafnframt um að framfylgja reglugerð (EB) nr. 1254/2008, en með henni er innleidd tilskipun 2006/88/EB um heilbrigðiskröfur að því er varðar lagareldisdýr og afurðir þeirra og um forvarnir og varnir gegn tilteknum sjúkdómum í lagardýrum. Samkvæmt tilskipuninni þarf að tryggja að fullnægt sé tilteknum kröfum áður en leyfi eru gefin út. Hvað þetta atriði varðar er heppilegt að leyfisveitingarvaldið sé hjá því stjórnvaldi sem metur hvort viðkomandi skilyrði séu uppfyllt.

Um 19. gr.

    Lagt er til að Matvælastofnun taki við hlutverki Fiskistofu samkvæmt lögum um fiskeldi, nr. 71/2008, og því er nauðsynlegt að fella brott orðið „fiskeldi“ í lögum um Fiskistofu, nr. 36/1992. Að öðru leyti vísast til athugasemdar við 18. gr.

Um 20. gr.

    Lagt er til að gildistöku laganna verði hagað með þeim hætti að gildistaka ákvæða sem lúta að yfirfærslu verkefna frá Fiskistofu til Matvælastofnunar og öðrum verkefnum sem þarfnast verulegs undirbúnings verði 1. janúar 2015. Með þeim hætti er gert ráð fyrir að nokkrir mánuðir gefist til undirbúnings.
    Lagt er til að önnur ákvæði taki þegar gildi, svo sem um einföldun og styttingu umsóknarferlis, burðarþolsmat og umhverfissjóð sjókvíaeldis. Þau ákvæði sem lagt er til að taki þegar gildi eru 1. gr., 3. gr., 5. gr., 1. mgr. 6. gr., a- og b-liður 7. gr., 1., 2. og 4. mgr. c-liðar 7. gr., b-liður 9. gr. (14. gr. b), 11. gr., 12. gr. og 14.–17. gr.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Í ákvæðinu er kveðið á um það hvernig fara eigi með þær umsóknir um rekstrarleyfi sem eru til meðferðar hjá Fiskistofu við gildistöku laganna. Í ákvæðinu er kveðið skýrt á um að ákvæði breytingalaganna gildi um slíkar umsóknir og að Matvælastofnun skuli í slíkum tilvikum óska eftir þeim upplýsingum, umsögnum og gögnum sem hún telur þörf á og skal málsmeðferð umsókna að öðru leyti vera í samræmi við lögin. Með þessu eru tekin af öll tvímæli um að umsækjandi þurfi ekki að leggja umsókn fram að nýju heldur meti Matvælastofnun hvaða upplýsingum, umsögnum og gögnum þurfi að kalla eftir þannig að stofnunin geti tekið umsóknina til meðferðar samkvæmt lögunum.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Í ákvæðinu er kveðið á um það að ákvæði laganna gildi ekki um umsóknir um starfsleyfi fyrir eldi ferskvatns- og sjávarlífvera samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem eru til meðferðar hjá Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd sveitarfélaga við gildistöku laganna. Þau mál þar sem sótt hefur verið um starfsleyfi, fyrir gildistöku laganna, verði frumvarpið samþykkt, annaðhvort hjá Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd, hljóta málsmeðferð í samræmi við gildandi lög. Starfsleyfi verða því gefin út og afgreidd af framangreindum aðilum. Ákvæði 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins á ekki við í þessum tilvikum, þ.e. ekki þarf að afhenda Matvælastofnun umsókn um starfsleyfi þar sem umsóknin liggur þegar fyrir. Ef viðkomandi rekstraraðili fær svo starfsleyfi á grundvelli þessa ákvæðis eftir að lögin taka gildi þarf hann að sækja um rekstrarleyfi hjá Matvælastofnun og þá gilda ákvæði þessa frumvarps um það leyfi.

Um ákvæði til bráðabirgða III.

    Í ákvæðinu er kveðið á um það að Fiskistofa skuli gæta að ákvæðum 3. gr., 5. gr., 1. mgr. 6. gr., a- og b-liðar og 1., 2. og 4. mgr. c-liðar 7. gr., b-liðar 9. gr. (14. gr. b) og 11. gr. við málsmeðferð sína fram til 1. janúar 2015.
    Nú fer Fiskistofa með útgáfu rekstrarleyfa til fiskeldis og eftirlit með fiskeldi að því leyti sem það fellur ekki undir valdsvið Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar. Eins og fjallað er um hér að framan gerir frumvarp þetta ráð fyrir að umrædd verkefni færist frá Fiskistofu til Matvælastofnunar. Töluverðan undirbúning þarf hjá stofnununum áður en af þessari yfirfærslu getur orðið og þá sér í lagi hjá Matvælastofnun sem mun taka við nýjum verkefnum. Áður en Matvælastofnun getur tekið við verkefnunum þarf m.a. að skipuleggja verkferla, ganga frá starfsmannamálum og starfsaðstöðu, breyta reglugerð um fiskeldi og ákveða gjaldtöku fyrir hið sameinaða eftirlit. Af þessum ástæðum er nauðsynlegt að Fiskistofa fari með útgáfu leyfa og hluta eftirlits í nokkra mánuði til viðbótar á meðan unnið er að því að innleiða nauðsynlegar breytingar hjá Matvælastofnun.Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi (flutningur verkefna, stofnun sjóðs o.fl.).

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til ýmsar breytingar á núgildandi löggjöf um fiskeldi með það að markmiði að einfalda og auka skilvirkni leyfisveitinga og eftirlits vegna fiskeldis.
    Helstu efnisatriði frumvarpsins eru í fyrsta lagi þau að lagt er til að stjórnsýsla vegna útgáfu rekstrarleyfa til fiskeldis verði flutt til Matvælastofnunar en samkvæmt gildandi lögum eru þessi verkefni hjá Fiskistofu. Með þessari breytingu er stefnt að því að einfalda umsóknarferlið á þann hátt að umsækjandi þurfi einungis að eiga í samskiptum við eina stofnun, Matvælastofnun, sem verði móttökustofnun fyrir umsóknir til bæði starfs- og rekstrarleyfa í fiskeldi. Samkvæmt núgildandi lögum þarf umsóknaraðili að sækja um leyfi á tveimur stöðum, þ.e. um rekstrarleyfi hjá Fiskistofu og starfsleyfi hjá Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefndum sveitarfélaga. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að umsóknir um starfs- og rekstrarleyfi skuli afhentar Matvælastofnun sem áframsendi starfsleyfisumsókn til Umhverfisstofnunar til meðferðar samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ef umsóknir eru samþykktar skal Matvælastofnun síðan afhenda umsækjendum starfsleyfi og rekstrarleyfi samhliða. Gert er ráð fyrir að umsækjendur um rekstrarleyfi til starfrækslu fiskeldisstöðva skuli við móttöku Matvælastofnunar á umsókn greiða þjónustugjald vegna þess kostnaðar sem falli til hjá stofnuninni í tengslum við afgreiðslu umsóknarinnar. Reiknað er með að hálft stöðugildi þurfi til að sinna þessum verkefnum. Gert er ráð fyrir að þjónustugjaldið teljist til ríkistekna í reikningshaldi ríkisins en að þær verði markaðar og renni til stofnunarinnar. Áætlað er að tekjur af gjaldinu verði um 5,5 m.kr. á ári en ekki hefur verið rukkað sérstaklega fyrir þessa afgreiðslu hjá Fiskistofu. Fjöldi rekstrarleyfa getur verið mjög breytilegur en gera má ráð fyrir að fjöldinn verði að jafnaði 8–10 á ári vegna útgáfu nýrra leyfa eða endurnýjunar á eldri leyfum.
    Í öðru lagi er í frumvarpinu gert ráð fyrir að eftirlit með fiskeldisstöðvum, sem Fiskistofa hefur sinnt samkvæmt lögum nr. 71/2008, um fiskeldi, verði flutt til Matvælastofnunar en hingað til hefur stofnunin eingöngu sinnt eftirliti sem lýtur að heilbrigði fiska og heilnæmi eldisafurða. Samkvæmt núgildandi lögum innheimtir Fiskistofa árlegt eftirlitsgjald af fiskeldisstöðvum vegna kostnaðar við eftirlit með þeim. Í fjárlögum 2014 er gert ráð fyrir 1,4 m.kr. tekjum hjá Fiskistofu vegna eftirlitsgjaldsins. Áætlað er að tekjur Matvælastofnunar af eftirlitsgjaldinu verði hins vegar um 7,7 m.kr. á ári gangi þessi áform frumvarpsins eftir. Samkvæmt þessu munu tekjur af eftirlitsgjaldinu aukast frá því sem nú er sem skýrist m.a. af styrkari gjaldtökuheimildum. Gert er ráð fyrir að þjónustugjaldið teljist til ríkistekna í reikningshaldi ríkisins en að þær verði markaðar og renni til stofnunarinnar. Jafnframt er lagt til að Matvælastofnun skuli framvegis sjá um afmarkaða þætti eftirlits með fiskeldi sem Umhverfisstofnun er falið samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Fyrirhugað er að það verði gert á grundvelli þjónustusamnings við Umhverfisstofnun. Gert er ráð fyrir að 80% stöðugildi þurfi hjá Matvælastofnun til að sinna þessum verkefnum. Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu hafa tveir starfsmenn sinnt þessum fiskeldisverkefnum sem nú eiga að færast frá stofnuninni samkvæmt frumvarpinu og hefur kostnaður við þau verið um 20 m.kr. á ári. Má því gera ráð fyrir að með flutningi þessara verkefna til Matvælastofnunar muni svigrúm aukast hjá Fiskistofu til að sinna öðrum verkefnum sem heyra undir stofnunina.
    Í þriðja lagi eru lögð til ýmis nýmæli sem stuðla eiga að auknu öryggi í fiskeldi og draga úr umhverfisáhrifum fiskeldis. Þar má nefna að gert er ráð fyrir að í umsókn um rekstrarleyfi þurfi að koma fram upplýsingar um gæðakerfi fiskeldisstöðvar og að eldisbúnaður standist þær kröfur sem gerðar eru til hans. Þá þarf einnig að fylgja umsókninni burðarþolsmat viðkomandi sjókvíaeldis en gert er ráð fyrir að slíkt mat verði framkvæmt af Hafrannsóknastofnun eða af aðila sem ráðuneytið samþykki að fenginni bindandi umsögn Hafrannsóknastofnunar. Jafnframt er gert ráð fyrir því að umsækjandi rekstrarleyfis til sjókvíaeldis skuli fyrir útgáfu leyfis leggja fram sönnun þess að hann hafi keypt ábyrgðartryggingu fyrir því tjóni sem af starfseminni getur hlotist.
    Í fjórða lagi er lagt til að stofnaður verði sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins, umhverfissjóður sjókvíaeldis, sem verði á forræði ráðherra og hafi það að markmiði að lágmarka umhverfisáhrif sjókvíaeldis. Með sjóðnum skal greiða kostnað vegna burðarþolsrannsókna, vöktunar og annarra verkefna sem stjórn sjóðsins ákveður. Ráðherra skipar þriggja manna stjórn sjóðsins til fjögurra ára í senn en væntanlega verða þóknanir til hennar greiddar af tekjum sjóðsins. Gert er ráð fyrir að rekstrarleyfishafar í sjókvíaeldi greiði 6 SDR árgjald fyrir hvert tonn sem heimilt er að framleiða samkvæmt rekstrarleyfi og eiga tekjurnar að renna í sjóðinn. Matvælastofnun skal annast innheimtu gjaldsins en ráðherra er þó heimilt að fela innheimtumönnum ríkissjóðs eða öðrum aðilum innheimtu þess. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er áætlað að tekjur sjóðsins af gjaldinu verði um 45 m.kr. Með tillögu þessari er gert ráð fyrir því að stjórn sjóðsins taki ákvörðun um hvernig tekjum ríkisins af lögbundinni gjaldtöku verði varið til einstakra verkefna sem munu heyra undir sjóðinn. Hér virðist álitamál hvort heppilegra kynni að vera að í stað þess að stofnaður yrði nýr sjóður með fremur litla veltu í fjárlögum til að sinna þessum verkefnum yrði veitt fjárframlag til viðeigandi ríkisstofnunar sem falið væri að hafa umsjón með málaflokknum. Þá er vakin athygli á því að eins og fyrr segir er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að lögbundið árgjald til að fjármagna ríkisstarfsemi verði ákvarðað og greitt í erlendri mynt en ekki er vitað betur en að slíkt sé einsdæmi. Samkvæmt upplýsingum úr atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er ástæða þess fyrst og fremst sú að gjaldið leggst á rekstraraðila sem hafa tekjur af útflutningi og telja það óhentugt að greiða gjaldið í íslenskum krónum. Slíkt fyrirkomulag hlýtur þó að vekja upp álitamál um aðra skatta og skyldur sem þessi fyrirtæki greiða eða hvernig slík áform snúa að fyrirtækjum í öðrum útflutningsgreinum.
    Í fimmta lagi er lögð til heimild til handa Matvælastofnun um að beita dagsektum og jafnframt að heimila úrbætur á kostnað rekstrarleyfishafa fari hann ekki að fyrirmælum Matvælastofnunar. Gert er ráð fyrir að dagsektirnar renni í ríkissjóð.
    Í sjötta lagi er gert ráð fyrir að Umhverfisstofnun taki við hlutverki heilbrigðisnefnda sveitarfélaga varðandi útgáfu starfsleyfa fyrir eldi sjávar- og ferskvatnslífvera. Með þessari breytingu væri öll starfsleyfisskyld starfsemi varðandi fiskeldi færð á eina hendi með það að markmiði að einfalda stjórnsýslu þessara mála og gera hana skilvirkari. Samkvæmt núgildandi lögum veitir Umhverfisstofnun leyfi til eldis þar sem ársframleiðsla er meiri en 200 tonn og fráveita er til sjávar eða þar sem ársframleiðsla er meiri en 20 tonn og fráveita í ferskvatn. Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga hafa hins vegar gefið út starfsleyfi vegna eldis sem er undir framangreindum stærðarmörkum. Samkvæmt upplýsingum úr atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu hafa tekjur sveitarfélaga af þessari útgáfu verið óverulegar eða um 2 m.kr. árlega. Því má gera ráð fyrir að markaðar tekjur Umhverfisstofnunar vegna útgáfu starfsleyfa muni hækka sem því nemur til að standa undir umsýslukostnaði við útgáfuna. Reikna má með að kostnaður sveitarfélaga muni lækka samsvarandi vegna þessara verkefna sem flytjast til Umhverfisstofnunar.
    Eins og áður segir er í frumvarpinu lagðar til tvær nýjar gjaldtökuheimildir. Annars vegar er í 9. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir nýju þjónustugjaldi sem standa á undir kostnaði Matvælastofnunar við afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi til fiskeldis. Hins vegar er í 12. gr. frumvarpsins lagt til að rekstrarleyfishafar sjókvíaeldis skuli greiða árlegt gjald fyrir hvert tonn sem heimilt er að framleiða samkvæmt rekstrarleyfi og skal það renna óskipt til nýs umhverfissjóðs sjókvíaeldis eins og vikið var að hér á undan. Frumvarpið gerir ráð fyrir að framangreind gjöld, sem teljast vera lögþvingaðar ríkistekjur, renni beint til reksturs annars vegar Matvælastofnunar og hins vegar til nýs Umhverfissjóðs sjókvíaeldis. Fjármála- og efnahagsráðuneytið telur það ekki heppilegt fyrirkomulag að ríkistekjur séu markaðar með þessum hætti til reksturs ríkisaðila. Að mati ráðuneytisins ættu tekjur sem kveðið er á um í lögum og teljast til ríkistekna að renna í ríkissjóð og ákvörðun um fjárheimildir verkefna að vera tekin í fjárlögum hverju sinni.
    Gert er ráð fyrir að fjárheimild nýs umhverfissjóðs sjókvíaeldis verði um 45 m.kr. á ári en reiknað er með að hún verði fjármögnuð að fullu með gjaldtöku af rekstrarleyfishöfum í sjókvíaeldi. Þá má áætla að útgjöld Matvælastofnunar geti aukist um 13,2 m.kr. vegna kostnaðar í tengslum við útgáfu rekstrarleyfa og eftirlits með fiskeldi en gert er ráð fyrir að útgjöldin verði fjármögnuð með eftirlits- og þjónustugjöldum. Á móti má gera ráð fyrir að fjárheimild Fiskistofu lækki um 1,4 m.kr. vegna verkefna sem færast til Matvælastofnunar samkvæmt frumvarpinu og fjármögnuð eru með eftirlitsgjaldi. Að lokum er reiknað með að útgjöld Umhverfisstofnunar geti aukist um 2 m.kr. vegna verkefna sem færast til stofnunarinnar frá heilbrigðisnefndum sveitarfélaga en gert er ráð fyrir að sá kostnaður verði fjármagnaður með gjaldtöku við útgáfu starfsleyfa. Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að tekjur og gjöld ríkissjóðs geti aukist um 59 m.kr. en að afkoma ríkissjóðs verði að mestu óbreytt.