Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 208. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 612  —  208. mál.
Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Steinunni Þóru Árnadóttur
um kostnað við uppfærslu tekjuviðmiða vegna uppbóta á lífeyri.


     1.      Hver yrði kostnaður ef tekjuviðmið skv. 12. gr. reglugerðar nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri yrði hækkað/uppfært um sömu prósentutölu og bætur lífeyristrygginga hafa hækkað frá 1. nóvember 2010 til ársloka 2013?
    Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins er gert ráð fyrir að tekjuviðmið skv. 12. gr. reglugerðar nr. 1052/2009, um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, hefði hækkað um 20,43% á tímabilinu 1. nóvember til ársloka 2013 ef það hækkaði í sama hlutfalli og bætur lífeyristrygginga hafa hækkað á því tímabili. Tekjuviðmiðið væri því nú 240.860 kr. í stað 200.000 kr.
    Sé eingöngu miðað við réttindi þeirra lífeyrisþega sem fengu uppbótina greidda í janúar 2014 má gera ráð fyrir að framangreind hækkun tekjuviðmiðsins í 240.860 kr. gæti leitt til aukinna útgjalda ríkissjóðs um 6 millj. kr. á mánuði eða sem nemur 72 millj. kr. hækkun á ári. Því til viðbótar má reikna með að fleiri lífeyrisþegar sæktu um uppbótina ef tekjuviðmiðið yrði hækkað þar sem þeir ættu þá hugsanlega rétt til greiðslna í kjölfarið. Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar má gera ráð fyrir að fjöldi lífeyrisþega sem fengju greidda uppbót tvöfaldaðist ef tekjuviðmiðið yrði hækkað í 240.860 kr. sem aftur leiddi til þess að útgjöld ríkissjóðs yrðu um 144 millj. kr. á ári.

     2.      Er vilji hjá ráðherra til að hækka tekjuviðmiðið, sbr. 1. tölul., með gildistöku frá 1. nóvember 2014?
    Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins námu útgjöld félagslegrar aðstoðar vegna uppbótar á lífeyri skv. 1. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 1052/2009, um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, samtals 186,3 millj. kr. á árinu 2013, þ.e. að meðaltali um 15,5 millj. kr. á mánuði. Greiðsluþegar í desember 2013 voru samtals 1.463 en voru 1.992 á árinu 2012.
    Heildarfjárhæð greiðslna í janúarmánuði 2014 nam 14,6 millj. kr. og fengu samtals 1.112 einstaklingar greidda uppbót á lífeyri í þeim mánuði. Greiðsluþegum fækkar því áfram og útgjöld ríkissjóðs vegna þessa bótaflokks lækka áfram.
    Ljóst er að lágt hlutfall af heildarfjölda lífeyrisþega (47.476 einstaklingar í janúar 2014) fær greidda umrædda uppbót eða um 2,5%. Þykir ástæða til að skoða hvort réttara væri að nýta umrædda fjármuni til að koma til móts við lífeyrisþega með öðrum hætti þannig að nýtist fleirum í stað þess að hækka tekjuviðmið vegna uppbótarinnar. Langflestir þeirra lífeyrisþega sem njóta uppbótarinnar, eða um 60%, fá hana greidda vegna lyfjakostnaðar sem sjúkratryggingar greiða ekki, sbr. 2. tölul. 10. gr. reglugerðarinnar. Skoða má hvort ekki sé réttara að færa þessa fjármuni yfir til sjúkratrygginga þannig að þessir sömu einstaklingar fái endurgreiðslur úr sjúkratryggingum, t.d. vegna sjúkra- eða lyfjakostnaðar, hjálpartækja og rafmagnskostnaðar vegna súrefnissíunotkunar. Það hefði einnig þann kost að einfalda lífeyristryggingakerfið með því að fækka bótaflokkum, eins og nú er unnið að í nefnd á vegum ráðherra um endurskoðun á almannatryggingakerfinu. Er gert ráð fyrir því að þessi mál komi til skoðunar í vinnu þeirrar nefndar.

     3.      Er ráðherra hlynntur því að sett verði ný ákvæði í lög um félagslega aðstoð eða í reglugerð nr. 1052/2009 um að tekjuviðmiðið taki framvegis breytingum í réttu hlutfalli við hækkun bóta lífeyristrygginga?
    Með vísan til svars við 2. tölul. verður að svara þessari spurningu neitandi.