Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 330. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 623  —  330. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um útboð seinni áfanga Dettifossvegar.


Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Brynhildur Pétursdóttir,
Kristján L. Möller, Bjarkey Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að hlutast til um að seinni áfangi Dettifossvegar (862), frá Dettifossi og niður á þjóðveg í Kelduhverfi, verði boðinn út án frekari tafa og í samræmi við gildandi samgönguáætlun.


Greinargerð.

    Uppbygging heilsársvegar að Dettifossi, og um leið tenging milli þjóðvegar 1 á Mývatnsöræfum og Norðausturvegar nr. 87 í Kelduhverfi, hefur lengi verið eitt af forgangsverkefnum í samgöngumálum á svæðinu. Koma þar til almennir samgönguhagsmunir og ótvíræðir hagsmunir ferðaþjónustunnar. Dettifoss, og reyndar Jökulsárgljúfur öll ásamt Ásbyrgi í nyrsta hluta Vatnajökulsþjóðgarðs, eru eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna á svæðinu. Vetrarferðamennska er nú í örum vexti á þessu svæði og er aðgengi að Dettifossi úr báðum áttum lykilatriði í framþróun hennar. Því varð niðurstaðan, þegar svonefndir ferðamannavegir komu sem skilgreindur vegaflokkur inn í samgönguáætlun, að Dettifossvegur yrði þar einna fremstur í flokki ásamt Suðurstrandarvegi sem nú er lokið.
    Fyrri hluta framkvæmda við Dettifossveg, þ.e. uppbyggingu vegar af Mývatnsöræfum og niður á móts við Dettifoss með afleggjara að fossinum og bílastæðum, lauk haustið 2010. Í gildandi samgönguáætlun var, og er, gert ráð fyrir að ráðist yrði í seinni áfangann í beinu framhaldi af þessari framkvæmd. Vegagerðin gekk því frá útboðsgögnum og auglýsti þennan seinni áfanga í riti sínu Framkvæmdafréttum sem væntanlegt útboð á árinu 2013, í fyrsta sinn 21. janúar 2013. 1 Því er meira en ár liðið frá því að fyrirhugað útboð var auglýst. Framkvæmdir eru þegar hafnar við ýmis önnur verk sem fyrirhugað útboð var auglýst á um svipað leyti eða jafnvel síðar.
    Skömmu fyrir jól lagði Kristján L. Möller alþingismaður fyrirspurn fyrir innanríkisráðherra um stöðu útboðs á framkvæmdum við Dettifossveg og hlaut þau svör að í júní hefði verið ákveðið að fresta útboði fram á vetur með það í huga að unnt yrði að hefja framkvæmdir næsta vor. Nú berast hins vegar af því fréttir að í vændum kunni að vera enn frekari tafir á því að ráðist verði í þetta verkefni og að útboð kunni að verða dregið svo mjög að engar framkvæmdir hefjist fyrr en á árinu 2015. Sá dráttur sem er orðinn á útboði verkefnisins, svo ekki sé nú talað um ef hann á að verða enn meiri, er að mati flutningsmanna tillögunnar með öllu óásættanlegur. Verður ekki betur séð en að með frestuninni sé framvindu jafnsettra verkefna samkvæmt samgönguáætlun beinlínis og stórlega raskað, þessari framkvæmd í óhag, án þess að breytt forgangsröðun hafi verið samþykkt af Alþingi. Slík vinnubrögð eru ótæk þó svo að Vegagerðinni sé vandi á höndum sökum þess mikla niðurskurðar á almennu framkvæmdafé sem hún nú sætir. Því er lagt til að Alþingi taki af skarið og feli innanríkisráðherra, sem er ábyrgur fyrir framkvæmd samgönguáætlunar, að hlutast til um að þetta verk verði boðið út án frekari tafa.
Neðanmálsgrein: 1
1     Framkvæmdafréttir, 1. tbl. 2013, bls. 8, Dettifossvegur (862), útboðsnúmer 12-056.