Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 340. máls.

Þingskjal 635  —  340. mál.
Prentað upp.Tillaga til þingsályktunar

um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu
og um eflingu samstarfs við Evrópusambandið og Evrópuríki.

(Lögð fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Jafnframt ályktar Alþingi að ekki skuli sótt um aðild að Evrópusambandinu á nýjan leik án þess að fyrst fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort íslenska þjóðin stefni að aðild að Evrópusambandinu.
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að treysta tvíhliða samskipti og samvinnu við Evrópusambandið og Evrópuríki.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

Forsaga.
    Með ályktun Alþingis sem samþykkt var 16. júlí 2009 var þáverandi ríkisstjórn falið að leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið skyldi haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Allar götur síðan hefur það ferli sem hrundið var af stað með þessari þingsályktun sætt þungri gagnrýni. Langur vegur er frá því að um það hafi ríkt sú sátt og sá stuðningur sem almennt er talinn nauðsynlegur grundvöllur ferlis af því tagi sem hér um ræðir.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Ákvörðun um að hefja aðildarviðræður var hluti af pólitísku samkomulagi þáverandi stjórnarflokka. Þá hefur lengi legið fyrir að meiri hluti íslensku þjóðarinnar er á móti því að Ísland gangist undir skilmála Evrópusambandsins og gerist þannig meðlimur þess þótt vilji sé fyrir að kanna möguleika á aðild.
    Þáverandi stjórnarflokkar lögðust gegn því að íslenskir kjósendur yrðu spurðir hvort þeir vildu hefja viðræður við Evrópusambandið um aðild enda líklegt að vilji kjósenda væri ekki í samræmi við fyrrnefnt samkomulag stjórnarflokkanna. Hyggilegast hefði verið að þjóðaratkvæðagreiðsla hefði farið fram um hvort sótt skyldi um aðild en tillaga þess efnis var ítrekað felld í þinginu.
    Viðræðurnar við Evrópusambandið hafa reynst mun tímafrekari og erfiðari en að var stefnt af flutnings- og stuðningsmönnum aðildarumsóknarinnar. Í aðdraganda alþingiskosninga í apríl 2009 töldu stuðningsmenn aðildar að unnt yrði að greiða atkvæði um niðurstöðu aðildarviðræðnanna strax á árinu 2010, mjög líklega á árinu 2011 og örugglega fyrir árslok 2012.
    Í apríl árið 2013 var staða aðildarviðræðnanna sú að 11 köflum var lokið, í 16 köflum stóðu viðræður yfir, í tveim hafði verið afhent samningsafstaða. Samningsafstöður höfðu hins vegar ekki enn verið afhentar í þeim köflum sem snertu stærstu hagsmunamál Íslands, þ.e. fjórum köflum sem varða sjávarútvegs- og landbúnaðarmál. Þá átti að leita eftir samstarfi í gjaldmiðlamálum samhliða umsókn um aðild sem ekki varð af m.a. vegna skorts á samstöðu milli stjórnarflokkanna.
    Ljóst er að ekki var hægt að ljúka viðræðum við Evrópusambandið á skömmum tíma. Eftir voru stærstu hagsmunir Íslands í viðræðunum eins og að framan greinir. Fyrirséð voru mörg vandamál í þessum samningsköflum þar sem ekkert var í hendi um hvernig farið yrði með kröfur og hagsmuni Íslands.

Núverandi staða.
    Flokkarnir sem mynda núverandi ríkisstjórn hafa það báðir á stefnuskrá sinni að hag Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Þetta er staðfest í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar jafnframt því sem tekið er fram að aðildarviðræðum verði ekki framhaldið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu:
    „Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“
    Frá því að ríkisstjórnin hóf störf hefur þessari stefnu hennar verið hrundið í framkvæmd. Viðræðum við Evrópusambandið hefur verið hætt og samninganefnd Íslands, ásamt samningahópum, hefur verið leyst frá störfum.
    Utanríkisráðuneytið samdi í október 2013 við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands um að vinna úttekt á stöðu aðildarviðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Þessi úttekt liggur nú fyrir og hefur verið kynnt sérstaklega á Alþingi. Jafnframt hefur hún verið birt opinberlega ásamt ítarlegum fylgigögnum.

Um skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.
    Af skýrslu Hagfræðistofnunar má ráða að þær vonir sem fyrrverandi stjórnarflokkar bundu við að aðildarviðræður gætu tekið skamman tíma hafi ekki orðið að veruleika. Þvert á móti hafi, þegar ríkisstjórnarskipti urðu, ekki enn verið farið að ræða efnislega við sambandið um helstu hagsmunamál Íslands og hvaða lausnir mætti finna í þeim tilvikum. Er þetta ekki síst áberandi á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar. Fram kemur í sérstökum leiðarvísi 1 sem stækkunarstjóri Evrópusambandsins gefur út og af hálfu Evrópusambandsins hefur það verið ítrekað að ekki eigi sér stað eiginlegar samningaviðræður. Varasamt sé að nota það orðalag vegna þess að það gefi til kynna að menn séu að semja um eitthvað. Viðræður við Evrópusambandið snúist ekki um að semja heldur snúist þær um það með hvaða hætti umsóknarríkið ætli að aðlaga sig reglum sambandsins.
    „Hugtakið „samningaviðræður“ getur verið blekkjandi. Aðildarviðræður snúast um skilyrði og tímasetningar umsækjandans fyrir samþykki, innleiðingu og beitingu ESB-reglna – um það bil 100.000 blaðsíðna af þeim. Þessar reglur (einnig þekktar sem acquis sem er franska og þýðir „það sem hefur verið samþykkt“) eru aftur á móti ekki umsemjanlegar. Fyrir umsækjendur snýst þetta einfaldlega um að samþykkja hvernig og hvenær þeir taki upp og innleiði reglur og málsmeðferðarreglur ESB. Hvað ESB varðar er mikilvægt að það fái tryggingu fyrir dagsetningu og skilvirkni innleiðingar reglnanna hjá hverjum umsækjanda“. 2
    Í skýrslunni er því ágætlega lýst hvernig það ferli sem nú er viðhaft í aðildarviðræðum við ný ríki hefur ekki lengur það pólitíska og það víðsýna yfirbragð sem það hafði þegar t.d. var samið við fyrrum aðildarríki EFTA í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar, hvað þá heldur þegar sýnin um sameinaða Evrópu bar menn langa leið í viðræðum við nýfrjáls ríki Austur- Evrópu. Þvert á móti er þetta ferli nú fyrst og fremst embættismannadrifið þar sem aðalatriðið er að geta staðfest innleiðingu ESB-reglna og ef ekki er fallist á slíkt er beitt þrýstingi í formi skilyrða fyrir opnun eða lokun kafla og þannig settur steinn í götu framgangs viðræðna. Skiptir í þessu efni engu hvort um er að ræða ríki sem þegar uppfyllir öll skilyrði aðildar og er þegar aðlagað að grunngildum Evrópusambandsins og stórum hluta regluverks sambandsins. Sama skal yfir alla ganga. Þannig virðist sem ferlið sé um flest tiltölulega ósveigjanlegt og taki lítið tillit til sérstakra aðstæðna.
    Þessu til viðbótar er sérstök ástæða til að hafa í huga að nokkur aðildarríki ESB hafa í gegnum aðildarferli Íslands notað það á einum eða öðrum tímapunkti til að ná fram eigin sértækum hagsmunum fremur en að horfa til þess að ESB kynni sem heild að hafa stærri og breiðari hagsmuni af því að fá fleiri ríki inn í sambandið frá þessum hluta álfunnar. Nægir hér að nefna reglulegar tengingar Icesave-málsins við ferlið og þá staðreynd að aðildarríkin mörg hver, ásamt framkvæmdastjórn ESB, virðast hafa talað fyrir því að sett yrðu opnunarviðmið vegna mikilvægasta samningskaflans, um sjávarútveg, að því er virðist m.a. vegna óleystrar deilu um skiptingu makrílstofnsins. Það leiddi til þess að í fjögur ár var ekki hægt að ræða þann kafla við ESB umfram það að rýna þær reglur sem giltu annars vegar innan ESB og hins vegar á Íslandi. Vegna fyrrgreindrar tregðu tókst þó ekki einu sinni að leggja rýniskýrslurnar fram áður en hlé var gert á viðræðunum.
    Þetta allt saman færir heim sanninn um það að ferlið sem viðhaft er við stækkun ESB og hvernig einstök aðildarríki kjósa að beita því til þess að reyna að vinna að framgangi eigin hagsmunamála er ekki þess eðlis að það falli að þeirri stöðu sem Ísland er í, t.d. sem hluti af innri markaði ESB í 20 ár og Schengen-samstarfinu svo dæmi séu tekin. Það er einnig óásættanlegt að vera hluti af einhliða aðlögunarferli þar sem jafnframt má eiga von á því að það verði notað til að beita Ísland þvingunum í öðrum óskyldum málum. Slíkt þjónar ekki meginhagsmunum Íslands.

Um framhaldið.
    Það er engum vafa undirorpið að þegar fyrrverandi ríkisstjórn lagði af stað í þessa umfangsmiklu vegferð hafði hún hvorki til þess traust bakland né raunverulegan vilja til að klára ferlið með aðild að Evrópusambandinu.
    Evrópusambandið er bandalag 28 ríkja sem eðlilega gerir kröfu um að umsóknarríki ætli sér af fullri alvöru aðild að sambandinu. Það að sækja um aðild til þess eins að sjá hvað er í boði er framkoma sem ekki er í samræmi við skilning Evrópusambandsins á merkingu aðildarumsóknar þar sem ekki er um samningaviðræður að ræða.
    Þrátt fyrir að Ísland hafi gert hlé á aðildarviðræðum, leyst upp samninganefnd og samningahópa, horfið frá þátttöku í IPA o.s.frv. nýtur Ísland enn formlegrar stöðu umsóknarríkis í aðildarferli (e. candidate status). Slíkt gefur til kynna með vissum hætti að Ísland sé enn í aðildarferli að ESB, sem ekki er raunin.
    Að öllu þessu virtu telur ríkisstjórnin nauðsynlegt að ekki ríki neinn vafi um það hver sé staða aðildarumsóknarinnar eða hver staða Íslands sé í því sambandi og að best fari á því, í ljósi stefnu ríkisstjórnarflokkanna og með hliðsjón af skýrslu Hagfræðistofnunar, að aðildarumsóknin verði dregin til baka.

Treyst tvíhliða samskipti og samvinna við Evrópusambandið og einstök Evrópuríki.
    Alþingi samþykkti 26. febrúar 2013 þingsályktun um aukin áhrif Íslands á ákvarðanir á vettvangi Evrópusamstarfs. Sú ályktun er mikilvægur vegvísir í átt til þess að styrkja hagsmunagæslu Íslands á vettvangi Evrópusamvinnunnar.
    Helstu samstarfsaðilar Íslands á mörgum sviðum eru og verða í Evrópu og því er mikilvægt að treysta þau sambönd enn frekar þrátt fyrir að umsókn um Evrópusambandsaðild verði dregin til baka. Styrkja þarf áfram samband Íslands við einstök Evrópuríki og Evrópusambandið í heild. Í þessu samhengi er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES- samningurinn) burðarás samstarfs og samskipta Íslands við Evrópusambandið og aðildarríki þess.
    Því hefur verið haldið fram að með því samstarfi sem nú fer fram á grundvelli EES-samningsins hafi Íslendingar takmörkuð áhrif og megi lúta því að þurfa að taka við tilskipunum og ákvörðunum frá Evrópusambandinu án þess að geta lagt þar mikið til málanna.
    Mikil vinna hafði farið fram um árabil áður en til aðildarumsóknar kom, m.a. í nokkrum nefndum, til að greina leiðir fyrir Ísland til þess að auka áhrif sín á mótun og töku ákvarðana sem snerta EES-samninginn. Í þessum athugunum kemur það m.a. fram að með aukinni þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdri Evrópusamstarfi megi auka áhrif Íslands við mótun og töku ákvarðana á þessum vettvangi.
    Þannig hafi það ótvírætt gildi fyrir Ísland að auka vægi samvinnu okkar við Evrópusambandið á grundvelli EES-samningsins. Það megi gera án aðildar að Evrópusambandinu. Því miður var ekki unnt að hrinda þessum tillögum í framkvæmd þar sem til þess skorti fjármuni í kjölfar efnahagshrunsins. Brýnt er hins vegar, eftir að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu verður dregin til baka, að vinna á þessu sviði verði sett í forgang og undirbúningsstarf frá fyrri árum nýtt í þeim tilgangi sem að framan er lýst.
    Sjá nánar fylgiskjöl I og II.

Um tillögugreinina.
    Í tillögugreininni er lagt til að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu verði dregin til baka og að ekki verði lögð inn aðildarumsókn að nýju án þess að leitað sé álits þjóðarinnar á því hvort stefna skuli að aðild að Evrópusambandinu. Er þetta í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að hag Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins og byggt á reynslunni af því hve óheppilegt er að stíga svo afdrifaríkt skref fyrir framtíð þjóðarinnar án þess að tryggja samstöðuna sem best áður en til Evrópusambandsins sé leitað.
    Í 2. mgr. tillögunnar er áréttuð ályktun Alþingis frá 26. febrúar 2013 og miðar hún í senn að góðu samstarfi við Evrópusambandið og virkri hagsmunagæslu gagnvart því á grundvelli EES-samningsins, Schengen-samstarfsins og annarra samninga sem gilda á milli Íslands og sambandsins.
    Að lokum er rétt að hnykkja á því að þessi tillaga til þingsályktunar byggist á mati á íslenskum þjóðarhagsmunum og því hvernig þeirra verði best gætt. Samþykkt tillögunnar felur því ekki á nokkurn hátt í sér einhvers konar mat á gildi Evrópusambandsins eða ágæti samvinnu þjóða innan þess.Fylgiskjal I.


Niðurstöður og tillögur nefndar um tengsl Íslands og Evrópusambandsins.

    Nefndin telur að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn) hafi staðist tímans tönn og að hann sé sá grundvöllur sem samskipti Íslands og ESB byggjast á og rétt er að þróa áfram. Breytingar innan Evrópusambandsins, aukið vægi þings þess og fjölgun aðildarríkja hafa ekki hróflað við EES-samningnum. Íslensk stjórnvöld, Alþingi og ríkisstjórn, hafa hrundið ákvörðunum vegna aðildarinnar skipulega í framkvæmd og þær stofnanir, sem eiga að fylgjast með framkvæmd samningsins, Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og EFTA-dómstóllinn hafa orðið virkir þátttakendur í framkvæmdinni gagnvart Íslandi.
    Schengen-samstarfið verður sífellt viðameira. Innan Evrópusambandsins gætir þeirrar viðleitni, að samvinna ríkjanna á sviði laga og réttar verði ekki lengur á grundvelli þjóðréttarsamninga eins og nú er heldur flytjist undir fyrstu stoð sambandsins og þar með meirihlutaákvarðanir á vettvangi þess. Framkvæmd Schengen-samningsins hvílir efnislega á dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og stofnunum þess. Nauðsynlegt er að fylgjast náið með laga- og stofnanaþróun á þessu sviði innan Evrópusambandsins.
    Það er mat nefndarinnar, að framkvæmd EES- og Schengen-samninganna hafi almennt gengið vel. Ágreiningsefni hafa verið leyst innan ramma samninganna, en það verður ekki gert án góðrar eftirfylgni. Þegar á heildina er litið telur nefndin, að vel hafi til tekist á vettvangi Alþingis og framkvæmdavaldsins að vinna að framgangi mála á grundvelli EES- og Schengen-samninganna og vel hefur tekist til við að gæta hagsmuna Íslands þegar litið er til þátttöku í nefndum, aðlagana og við stækkun EES 2004. Ráðuneytin og sendiráð Íslands í Brussel gegna lykilhlutverki við þessa hagsmunagæslu, en í sendiráðinu starfa ekki aðeins embættismenn úr utanríkisráðuneytinu heldur einnig frá öðrum ráðuneytum. Við framkvæmd Schengen-samningsins hvílir meginþunginn á dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og starfsmönnum þess. Nefndin telur mikilvægt að tryggð verði öflug starfsemi á vegum ráðuneyta og sendiráðsins í Brussel og jafnframt lögð rækt við náið samstarf við starfsmenn EFTA, sem búa yfir mikilli þekkingu á öllum álitaefnum vegna framkvæmdar EES-samningsins. Í tillögum nefndarinnar felst síður en svo gagnrýni á hið góða starf, sem unnið hefur verið á þessum vettvangi á undanförnum árum, heldur ber að líta á þær, sem ábendingu um, hvert stefna skuli til að styrkja þessa hagsmunagæslu enn betur.
    Nefndin er sammála um að æskilegt sé að samskipti Íslands við Evrópusambandið verði aukin á ýmsum sviðum og er víða að finna ábendingar þess efnis í skýrslu nefndarinnar. Þar má nefna að Íslendingar taka þegar virkan þátt í tæplega 200 nefndum og sérfræðingahópum framkvæmdastjórnar ESB en full ástæða er til að efla þá þátttöku og nýta með því enn frekar þau tækifæri sem gefast til að hafa áhrif á stefnumótun sambandsins í þessum efnum. Þá telur nefndin miklu skipta að fylgjast náið með því, hvernig samstarf Evrópusambandsríkjanna þróast á sviði utanríkis- og öryggismála.
    Í stuttu máli telur nefndin nauðsynlegt að Ísland leggi áherslu á aukna þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdu Evrópusamstarfi, með það að markmiði að auka áhrif Íslands á mótun og töku ákvarðana á þessum vettvangi. Í því sambandi telur nefndin sérstaklega mikilvægt að hugað sé að eftirfarandi atriðum:

1. Tengsl stjórnmálamanna.

A. Ríkisstjórn.

     1.      Á vettvangi Stjórnarráðsins er nauðsynlegt að samhæfa á öflugan hátt frumkvæði, hagsmunagæslu og eftirfylgni við framkvæmd EES-samningsins. Tryggð verði á einum stað í Stjórnarráðinu sýn yfir þróun samskiptanna við ESB og samræmd samvinna við einstök ráðuneyti við úrlausn mála.
     2.      Ríkisstjórn gefi Alþingi árlega skýrslu um þróun EES- og Schengen mála, sem og um helstu stefnumál ríkisstjórnarinnar í samskiptum við Evrópusambandið.
     3.      Ríkisstjórn kynni Alþingi tillögur framkvæmdastjórnar ESB um nýjar gerðir, helstu breytingartillögur ráðherraráðs og Evrópuþings, samþykktar gerðir, ESB-áætlanir, grænbækur, hvítbækur og önnur stefnumótandi skjöl svo fljótt sem unnt er.
     4.      Lögð verði rík áhersla á að fylgjast með áhersluatriðum forysturíkis Evrópusambandsins hverju sinni og ræða við ráðherra eða embættismenn þess, ef meðal þeirra eru álitaefni, sem sérstaklega snerta hagsmuni Íslands.
     5.      Ráðherrar og ráðuneyti haldi góðum tengslum við stjórnanda síns málaflokks innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og skrifstofu hans.

B. Alþingi.
     1.      Kjörin verði Evrópunefnd á Alþingi, sem fylgist með tengslum Íslands og Evrópusambandsins, einkum framkvæmd EES-samningsins en einnig lagaþróun á vettvangi Schengen-samstarfsins.
     2.      Alþingi eigi fulltrúa í sendiráði Íslands í Brussel, sem fylgist með framvindu mála í samskiptum þings Evrópusambandsins og framkvæmdastjórnar og miðli upplýsingum til Evrópunefndar og fastanefnda þingsins.
     3.      Fastanefndir Alþingis eigi þess kost að fylgjast með þróun einstakra EES-gerða á sínu verksviði.
     4.      Evrópunefnd Alþingis og fastanefndir fái reglulega lista yfir tillögur framkvæmdastjórnar ESB, sem síðar kunna að verða teknar upp í landsrétt sem lög eða stjórnvaldsreglugerðir.
     5.      Þingflokkum sé gert kleift að rækta samskipti við systurþingflokka á Evrópuþinginu.

2. Tengsl embættismanna.
     1.      Réttur til fundarsetu í nefndum og sérfræðingahópum framkvæmdastjórnar ESB sé nýttur sem best til gæslu íslenskra hagsmuna.
     2.      Innan Stjórnarráðsins sé ferðasjóður til að auðvelda einstökum ráðuneytum á grundvelli rökstuddra umsókna að senda fulltrúa sína eða sérfræðinga til funda í Brussel. Þá verði einnig skapað fjárhagslegt svigrúm til að bregðast við útgjöldum, ef einstök mál krefjast sérstakrar athygli.
     3.      Þá verði einnig skapað fjárhagslegt svigrúm til að bregðast við útgjöldum, ef einstök mál krefjast sérstakrar athygli.
     4.      Starfsmenn ráðuneyta og opinberra stofnana fái aukin tækifæri til að starfa tímabundið hjá EFTA, ESA og EFTA-dómstólnum til að auka reynslu og þekkingu þeirra á ESB og EES-samstarfinu.
     5.      Starfsmenn ráðuneyta og opinberra stofnana fái tækifæri til að starfa sem sérfræðingar á kostnað íslenska ríkisins hjá framkvæmdastjórn ESB, ef áhugi er fyrir slíku af hálfu framkvæmdastjórnarinnar.
     6.      Tryggð sé virk þátttaka embættismanna og sérfræðinga í nefndum vegna Schengen-samstarfsins.

3. Samstarf innan EFTA.
    Nefndin telur miklu skipta, að lögð sé rækt við samstarf EFTA-ríkjanna við framkvæmd EES-samningsins. Á vettvangi EFTA er unnið að öflun upplýsinga og stuðlað að því að miðla þeim til þeirra, sem hlut eiga að máli, auk þess sem starfsmenn EFTA taka þátt í fjölda funda með fulltrúum ESB og fylgjast náið með því, sem er að gerast á vettvangi ESB. Er það mat nefndarinnar, að virk aðild Íslands að allri starfsemi EFTA sé mikilvægur liður í því að rækta góð tengsl við ESB.
    Á vegum EFTA starfa mikilvægar stofnanir, sem fylgjast með framkvæmd EES-samningsins, það er Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og EFTA-dómstóllinn. Í báðum þessum stofnunum eru Íslendingar í forystu og hefur að mati nefndarinnar tekist vel að skipa þessum stofnunum þann sess, sem þeim ber samkvæmt EES-samningnum.

4. Aukin upplýsingagjöf.
     1.      Stofnaður verði gagnabanki á grundvelli upplýsinga frá ráðuneytum og EFTA um þátttöku Íslands í nefndum og sérfræðingahópum ESB.
     2.      Birtur verði opinberlega rafrænn listi yfir nefndir og sérfræðingahópa ESB með aðild Íslands sem og aðrar nefndir og sérfræðingahópa ESB sem Ísland / EES/EFTA-ríkin hafa aðgang að.
     3.      Árlega sé birt tölfræði um þátttöku Íslands í samstarfsáætlunum ESB með upplýsingum um þátttökugjald og styrki.
     4.      Árlega sé birtur listi yfir lög og stjórnvaldsreglur, sem samþykkt eru eða settar á grundvelli aðildarinnar að EES- og Schengen-samningunum.
     5.      Árlega sé birtur listi yfir fjölda gerða sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn viðkomandi ár, tegundir þeirra (tilskipanir, reglugerðir o.s.frv.) og uppruna (þ.e. hvort þær komi frá framkvæmdastjórn, ráðherraráði eða ráðherraráði og Evrópuþingi).

5. Samstarf hagsmunaaðila.
    Víðtækt samstarf hefur þróast milli ýmissa hagsmunasamtaka á Evrópuvettvangi. Nefndin telur, að samvinna af þessu tagi sé til þess fallin að treysta tengslin við Evrópusambandið og stuðla að víðtækari umræðum en ella væri um þau málefni, sem snerta Ísland sérstaklega á hinum evrópska vettvangi.

6. Upplýsingagjöf til almennings.
    Nefndin telur mikilvægt að almenningur hafi tækifæri til að kynna sér þátttöku Íslands í Evrópusamstarfi og skýrt verði hver hafi ábyrgð á því innan Stjórnarráðsins að tryggja aðgengi almennings að slíkum upplýsingum.

7. Kennsla á sviði Evrópufræða.
    Eftir viðræður við fulltrúa íslenskra háskóla er nefndinni ljóst að á þeim vettvangi er mikill og vaxandi áhugi á Evrópufræðum. Fjöldi námskeiða í Evrópufræðum eru í boði innan háskólanna og sífellt fleiri námsmenn afla sér þekkingar á þessu sviði. Nefndin fagnar þessari þróun og telur hana nauðsynlega til að efla þekkingu á þátttöku Íslands í Evrópusamstarfi.
Nefndin telur skynsamlegt fyrir ráðuneyti að gefa námsmönnum tækifæri til þess að kynnast Evrópusamstarfi á þeirra vegum, til dæmis með starfsnámi eða þátttöku í fundum í Brussel og við greiningu á einstökum viðfangsefnum á vettvangi Evrópusamstarfsins.

8. Schengen-samstarfið.
    Nefndin lítur á það sem mjög mikilvægan þátt í starfi sínu, að hafa kynnt sér rækilega þróun Schengen-samstarfsins og stofnanir, sem komið hafa til sögunnar vegna þess. Hvetur nefndin til virkrar þátttöku Íslands í þessu samstarfi, sem snýst í æ ríkara mæli um gæslu öryggis og samvinnu í því skyni að sporna við alþjóðlegri glæpastarfsemi.

    Sjá nánar: www.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/2557Fylgiskjal II.


Úr skýrslu utanríkismálanefndar um fyrirkomulag
á þinglegri meðferð EES-mála.


1. Inngangur.
    Með bréfi, dags. 13. febrúar 2008, óskaði forseti Alþingis eftir því við utanríkismálanefnd að hún mótaði tillögur um fyrirkomulag þinglegrar meðferðar EES-mála. Bréfið var sent í framhaldi af fundi formanns utanríkismálanefndar og formanns Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA með forsætisnefnd 16. nóvember 2007. Utanríkismálanefnd telur að brýnt sé að endurskoða skipulag og þinglega meðferð EES-mála á Alþingi. Of lítið samráð hefur verið haft við Alþingi um meðferð EES-mála hér á landi og því hefur þingið ekki komið með nægilega öflugum hætti að ákvarðanatökuferli innan EES. Í hnotskurn hafa eftirfarandi vankantar einkennt aðkomu Alþingis að EES-málum undanfarin ár:
    Gildandi reglum um þinglega meðferð EES-mála hefur ekki verið fylgt hin síðari ár.
    Nánast engin upplýsingagjöf hefur átt sér stað um mál á tillögu- og mótunarstigi um árabil.
    Fjölmargar ESB-gerðir, tilskipanir og reglugerðir, hafa verið teknar inn í EES-samninginn án þess að tryggt hafi verið að Alþingi væri fyrirfram upplýst um tilvist þeirra hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eða að til stæði að innleiða þær í EES-samninginn.
    Hlutverk Alþingis í framkvæmd EES-samningsins hefur minnkað með árunum og í ákveðnum tilvikum hefur afgreiðsla EES-mála á Alþingi nánast orðið að formsatriði.
    Í þessari skýrslu er farið yfir raunhæfar leiðir til úrbóta. Skýrslan hefur að geyma þrjá meginkafla: Fyrst er rakin þróun og umræða um þinglega meðferð EES-mála hérlendis, þá er tæpt á fyrirkomulagi þessara mála í Noregi og því næst koma athugasemdir og tillögur utanríkismálanefndar. Í lokaorðum er að finna samantekt tillagna nefndarinnar. Eftir vandlega skoðun telur utanríkismálanefnd nauðsynlegt að gera breytingar á reglum um þinglega meðferð EES-mála auk þess sem grípa þarf til aðgerða til að auka getu þingsins til að fjalla um Evrópumál. Tillögur nefndarinnar birtast í heild sinni á blaðsíðum 23–24 í þessari skýrslu en helstu áherslur eru þessar:
    Upplýsingagjöf til Alþingis og samráð stjórnvalda við utanríkismálanefnd um EES-mál á tillögu- og mótunarstigi verði aukið og formfest.
    Upplýsingagjöf til Alþingis og reglulegt samráð stjórnvalda við utanríkismálanefnd fyrir fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar, þar sem ákvarðanir eru teknar um hvaða ESB-gerðir skulu teknar upp í EES-samninginn, verði gert að skilyrði.
    Utanríkisráðherra, eða aðrir fagráðherrar eftir atvikum, komi á fundi utanríkismálanefndar þegar til umfjöllunar eru EES-mál á tillögu- og mótunarstigi.
    Utanríkisráðherra, eða aðrir fagráðherrar eftir atvikum, komi á fundi utanríkismálanefndar fyrir fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar og þar sem utanríkismálanefnd veiti ráðherra leiðbeinandi tilmæli um afgreiðslu mála í sameiginlegu EES-nefndinni.
    Aukin áhersla verði lögð á að meta fyrr hver áhrif EES-gerðar kunni að verða á íslensk lög og hagsmuni.
    Settar verði skýrar og samræmdar reglur um hvernig EES-mál eru lögð formlega fyrir Alþingi, m.a. um að stjórnskipulegum fyrirvara á ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar verði einungis aflétt með þingsályktun.
    Sérstakri upplýsingasíðu um Evrópumál verði komið upp hjá Alþingi eða utanríkisráðuneytinu sem veitir yfirsýn yfir mál sem koma til umfjöllunar í sameiginlegu EES-nefndinni.
    Þessar áherslur enduróma að hluta tillögur í skýrslu Evrópunefndar frá mars 2007. Utanríkismálanefnd er meðvituð um þá auknu skuldbindingu í starfi sem tillögur hennar hafa í för með sér. Fjölga þarf fundum nefndarinnar þar sem við munu bætast fundir sem sérstaklega eru helgaðir EES-málum. Þá er ljóst að starfsskilyrði nefndarinnar og stuðning við hana innan skrifstofu Alþingis þarf að bæta. Nefndinni og einstökum nefndarmönnum þarf jafnframt að tryggja svigrúm til að fylgja eftir þeim málum sem pólitískur áhugi er á með milliliðalausum samskiptum við Evrópuþingið.

Neðanmálsgrein: 1
    1 ec.europa.eu/enlargement/pdf/publication/20110725_understanding_enlargement_en.pdf
Neðanmálsgrein: 2
    2 The term „negotiation“ can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate´s adoption, implementation and application of EU rules – some 100,000 pages of them. And these rules (also known as acquis, French for „that which has been agreed“) are not negotiable. For candidates, it is essentially a matter of agreeing how and when to adopt and implement EU rules and procedures. For the EU, it is important to obtain guarantees on the date and effectiveness of each candidate´s implementation of the rules.“