Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 342. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 639  —  342. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999,
með síðari breytingum.


Flm.: Vigdís Hauksdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 9. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „einn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn af fjárlaganefnd Alþingis“ í 2. málsl. kemur: og einn tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
     b.      3. málsl. orðast svo: Tveir stjórnarmenn skulu skipaðir án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Flutningsmenn telja nauðsynlegt að skerpa eftirlitshlutverk fjárlaganefndar gagnvart framkvæmdarvaldinu. Til þess að svo megi verða þarf nefndin að vera óháðari ráðherrum heldur en verið hefur fram til þessa. Í því felst m.a. að formaður eða fulltrúar fjárlaganefndar sitji ekki í stjórnum eða nefndum á vegum Stjórnarráðsins. Eitt af meginhlutverkum fjárlaganefndar er að hafa eftirlit með ráðherrum og til þess að hún hafi sem óbundnastar hendur í því hlutverki er lögð til breyting á ákvæði laganna um að fulltrúi fjárlaganefndar sitji í stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra. Þess í stað þykir eðlilegra að ráðherra skipi tvo fulltrúa í stjórnina.