Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 317. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 642  —  317. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Elsu Láru Arnardóttur
um heilbrigðisstofnanir á Vestfjörðum.


     1.      Hvernig á 39,3 millj. kr. framlag sem á samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2014 að renna til heilbrigðisstofnana á Vestfjörðum að skiptast á milli heilbrigðisþjónustu á Patreksfirði og heilbrigðisþjónustu á Ísafirði?
    Við 2. umræðu frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014 var samþykkt á Alþingi 30 millj. kr. viðbótarfjárveiting til Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða til að styrkja rekstrargrunn stofnunarinnar í samræmi við forgangsröðun í þágu heilbrigðisþjónustunnar og til undirbúnings sameiningar stofnana. Fjárveitingunni verður skipt á þjónustusvæði þegar sameining heilbrigðisstofnana í heilbrigðisumdæminu liggur fyrir.

     2.      Eru áform um sameiningu heilbrigðisstofnananna ástæða þess að í fjárlögum fyrir árið 2014 hefur fjárlagaliðurinn 08-721 Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði verið felldur brott og öll fjárveitingin til heilbrigðisstofnana á Vestfjörðum, 1.553,7 millj. kr., færð á fjárlagaliðinn 08-726 Heilbrigðisstofnun Vestfjarða?
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014 er greint frá fyrirhugaðri sameiningu heilbrigðisstofnana á Norðurlandi, Suðurlandi og Vestfjörðum í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu. Markmiðið með sameiningu er að auka möguleika á samstarfi og samnýtingu, kennslu heilbrigðisstétta og öflugri og stöðugri mönnun ásamt því að skapa sterkari rekstrar- og stjórnunareiningar. Við 2. umræðu frumvarps til fjárlaga voru fjárveitingar Heilbrigðisstofnunarinnar á Patreksfirði millifærðar á fjárlagaliðinn 08-726 Heilbrigðisstofnun Vestfjarða .

     3.      Hefur ráðherra haft samráð við heimamenn og sveitarstjórnir í Vesturbyggð vegna fyrirhugaðrar sameiningar? Ef ekki, hvenær stendur það til?
    Ráðherra heimsótti Heilbrigðisstofnunina á Patreksfirði 15. nóvember sl. og sat fundi með starfsfólki stofnunarinnar þar sem m.a. voru rædd áform um sameiningu heilbrigðisstofnana í heilbrigðisumdæmi Vestfjarða. Sama dag átti hann fund með sveitarstjórnum á svæðinu um áformaða sameiningu.

     4.      Verður heimamönnum í Vesturbyggð boðið að koma að undirbúningi sameiningarinnar og stefnumótun reksturs heilbrigðisþjónustu á Patreksfirði og að hafa áhrif á niðurstöður þeirrar vinnu?
    Við áframhaldandi undirbúning sameiningarinnar verður haft samráð við heimamenn, jafnt starfsmenn sem sveitarstjórnarmenn. Að mati ráðherra er einnig mikilvægt að samráð haldi áfram að sameiningu lokinni.

     5.      Hver er skoðun ráðherra á því sem nefnt hefur verið í tengslum við umrædd sameiningaráform, að þörf sé á að breyta lögum til að tryggja aðkomu fulltrúa samfélagsins, t.d. sveitarfélaga, að stefnumótun og stjórn viðkomandi stofnana?

    Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu eru ekki stjórnir yfir heilbrigðisstofnunum. Hins vegar er til skoðunar í ráðuneytinu hvernig unnt er að koma á meiri tengslum heilbrigðisstofnana og þeirra svæða sem þeim er ætlað að þjóna. Engin ákvörðun hefur verið tekin um á hvaða formi slíkum tengslum yrði best fyrir komið. Því hefur ekki verið tekin afstaða til þess hvort ástæða sé til að leggja fram tillögur til Alþingis um breytingar á heilbrigðislögum í þessa veru.