Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 339. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 648  —  339. mál.




Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur um skýrslu
um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvenær mun rannsóknarnefnd sem var falið að semja skýrslu um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna skila forseta skýrslunni?

    Miðað við upplýsingar frá rannsóknarnefndinni er fastlega gert ráð fyrir að nefndin skili Alþingi skýrslunni eigi síðar en innan mánaðar.
    Eins og fram kemur í greinargerð með fyrirspurninni samþykkti Alþingi 10. júní 2011 þingsályktun um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna, nr. 42/139. Þar var gert ráð fyrir að nefndin skilaði Alþingi skýrslu um rannsóknina eigi síðar en 1. júní 2012. Nefndin tók til starfa 27. september 2011 og hefur því verið að störfum í tæp tvö og hálft ár.
    Eftir að nefndin hóf störf kom skýrt í ljós að sú verkefnaskrá sem hafði falist í ályktun Alþingis var miklu umfangsmeiri, flóknari og tímafrekari en talið hafði verið í upphafi og krafðist mikillar aðkeyptrar sérfræðiþjónustu. Mun meiri kostnaður varð því af starfi nefndarinnar en áætlað hafði verið. Í þessu sambandi er líka rétt að hafa í huga að rannsóknin tekur til fjórtán sparisjóða og eins stórs sparisjóðsbanka og umfang fjögurra stærstu sparisjóðanna var svipað og Landsbanka Íslands fimm árum fyrir bankahrunið 2008. Því tók verulegan tíma að skipuleggja umfang rannsóknarvinnunnar og ráða sérfræðinga til starfa. Ljóst er að nefndinni voru sett of þröng tímamörk í ályktun Alþingis og því hafa væntingar um lengd rannsóknarinnar reynst óraunhæfar.
    Það hefur verið afstaða forsætisnefndar að virða beri sjálfstæði rannsóknarnefndarinnar. Forsætisnefnd hefur jafnframt ekki talið sig hafa heimild til afskipta af störfum hennar svo lengi sem rannsóknin er samkvæmt þeirri verkefnaskrá sem Alþingi fól henni að starfa eftir með ályktun sinni.
    Störf þeirra þriggja rannsóknarnefnda sem Alþingi hefur komið á fót síðan 2008 hafa nokkrum sinnum komið til umfjöllunar í forsætisnefnd, enda hefur þeim ekki auðnast að ljúka störfum á tilskildum tíma og kostnaður við störf þeirra orðið mun meiri en ætlað var í upphafi.
    Forsætisnefndarmenn hafa verið sammála um að mikilvægt sé að framvegis verði rannsóknarnefndum ekki komið á fót fyrr en fyrir liggur skýr og afmarkaður verkefnarammi og raunhæf kostnaðaráætlun auk þess sem settar verði verklagsreglur um störf nefndanna. Með hliðsjón af þessari umræðu ákvað forsætisnefnd á fundi 20. ágúst 2013 að fela lagaskrifstofu Alþingis að taka saman í greinargerð upplýsingar um reynsluna af störfum þeirra þriggja rannsóknarnefnda sem skipaðar hafa verið sem og að meta framkvæmd laga um rannsóknarnefndir. Greinargerðin verður afhent forsætisnefnd í kjölfar þess að sparisjóðanefndin lýkur störfum.
    Alþingi samþykkti í nóvember 2012 ályktun um að skipa þriggja manna rannsóknarnefnd er rannsaki einkavæðingu og sölu hlutabréfa í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. og tengd málefni á árunum 1998–2003. Sú rannsóknarnefnd hefur þó enn ekki verið skipuð því að niðurstaða forsætisnefndar var, að höfðu samráði við þingflokka, að ný rannsóknarnefnd tæki ekki til starfa fyrr en lokið væri þeirri úttekt á störfum rannsóknarnefnda sem vísað var til hér á undan.