Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 345. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 649  —  345. mál.




Fyrirspurn


til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um tollvernd landbúnaðarvara.

Frá Haraldi Benediktssyni.


    Hvert er mat ráðherra á verðgildi tollverndar í krónum talið á þeim landbúnaðarvörum sem eru framleiddar hérlendis:
     a.      ef miðað er við gildandi reglur um álagningu tolla árið 2013,
     b.      ef miðað er við gildandi reglur um álagningu tolla árið 1995, uppreiknað til verðlags ársins 2013,
     c.      ef miðað er við heimildir íslenskra stjórnvalda til hámarksálagningar samkvæmt tollskrá á vörur sem nutu tollverndar árið 2013, sbr. a-lið?
    Svar óskast sundurliðað eftir köflum tollskrár sem hér segir:
          2. kafli: 0201, 0202, 0203, 0204, 0205, 0206, 0207, 0208, 0209, 0210.
          4. kafli: 0401, 0402, 0403, 0404, 0405, 0406, 0407, 0408, 0409, 0410.
          6. kafli: 0601, 0602, 0603, 0604.
          7. kafli: 0701, 0702, 0703, 0704.


Skriflegt svar óskast.


Greinargerð.

    Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) metur árlega verðgildi tollverndar landbúnaðarvara og reiknar hvað hún er stór hluti af heildarstuðningi við landbúnað. Verðgildið er þá áætlað í íslenskum krónum miðað við álagningu tolla eins og þeim er háttað á hverju ári fyrir sig. Álagning tolla er í fæstum tilvikum í samræmi við ýtrustu heimildir samkvæmt tollskrá. Með þessari fyrirspurn er leitað eftir mati stjórnvalda á verðgildi tollverndar á síðasta ári og hvernig verðmætið hefur þróast frá 1995. Enn fremur er óskað eftir áætlun á verðmætinu eins og það væri ef heimildir til álagningar tolla hefðu verið nýttar til fulls á síðasta ári.