Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 269. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 671  —  269. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Vigdísi Hauksdóttur um skattsvik.


     1.      Hve margir unnu árlega hjá skattrannsóknarstjóra við að upplýsa skattsvik árin 2007– 2013?
    Eftirfarandi tafla sýnir heildarstarfsmannafjölda embættisins. Allir starfsmenn embættisins, að undanskildum rekstrarstjóra, starfa með einum eða öðrum hætti að skattrannsóknum og/eða refsimeðferð vegna ætlaðra skattalagabrota.

Ár Starfsmannafjöldi Stöðugildi alls
2013 29 28,2
2012 30 29,2
2011 31 30,4
2010 31 30,1
2009 22 22
2008 22 22
2007 21 21

    Þessar upplýsingar og þau svör sem á eftir koma er nauðsynlegt að skoða í heildarsamhengi við aðrar stofnanir skattkerfisins og hlutverk þeirra. Í XI. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er að finna ýmis ákvæði um skattyfirvöld. Í 103. gr. laganna segir að skattrannsóknarstjóri ríkisins skuli hafa með höndum rannsóknir samkvæmt þeim lögum og lögum um aðra skatta og gjöld sem á eru lögð af ríkisskattstjóra eða honum falin framkvæmd á. Í sömu grein segir einnig að skattrannsóknarstjóri ríkisins geti að eigin frumkvæði eða eftir kæru hafið rannsókn. Þá skal hann annast rannsóknir í málum sem til hans er vísað, sbr. 6. mgr. 96. gr. laganna. Í 102. gr. tekjuskattslaga er fjallað um skatteftirlit. Þar segir að ríkisskattstjóri annist skatteftirlit samkvæmt þeim lögum og lögum um aðra skatta og gjöld sem honum er falin framkvæmd á. Jafnframt segir að skatteftirlitið taki til hvers konar könnunar á réttmæti skattskila fyrir og eftir álagningu opinberra gjalda og samtímaeftirlits með rekstraraðilum. Í fyrrnefndri 6. mgr. 96. gr. segir að hafi ríkisskattstjóri grun um að skattsvik eða refsiverð brot á lögum um bókhald og ársreikninga hafi verið framin skuli hann tilkynna það skattrannsóknarstjóra ríkisins sem ákveður um framhald málsins. Þá er einnig vert að nefna að þegar endurálagning hefur farið fram í framhaldi af skatteftirliti eða skattrannsókn taka tollstjóri eða aðrir innheimtumenn ríkissjóðs (sýslumaður) við málinu og annast innheimtu þeirra skatta sem af skatteftirliti eða skattrannsóknum leiðir.

     2.      Hvað nema upplýst skattsvik háum fjárhæðum eftir tegundum skatta og árum?
    Í töflunni hér að aftan eru niðurstöður rannsókna skattrannsóknarstjóra á meintum undandregnum skattstofnum í þúsundum króna talið, án álags, sem lokið var við á árunum 2007– 2013.
    Í skjalinu er einnig gerð grein fyrir mögulegum rekstrargjöldum og innskatti sem kunna að koma til lækkunar á vanframtöldum skattstofnum, sem og fjármagnstekjum sem ranglega eru taldar fram sem slíkar. Vakin er athygli á því að fjárhæðir í einstökum málum geta tekið breytingum í ferli endurákvörðunar, sem fram fer í kjölfar rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra, sem eftir atvikum getur verið hjá ríkisskattstjóra, yfirskattanefnd eða dómstólum.
    Þá er ástæða til að vekja athygli á því að mál er sæta rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra sæta ekki öll endurákvörðun skattstofna í kjölfar rannsóknar. Á það einkum við um þann málaflokk sem varðar vanhöld á greiðslu virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda, svonefnt vörslufé. Hið sama á við um brot eins og t.d. vanhöld á skilum ársreikninga til opinberrar birtingar hjá ársreikningaskrá. Hafi skattstofnar áður verið áætlaðir, til að mynda sökum þess að ekki hafi verið staðin skil á lögbundnum skattskilagögnum, er tekið tillit til þeirrar áætlunar við endurákvörðun skattstofna.

Ár Vanframt. rekstrartekjur Möguleg rekstrargjöld Offramtalin rekstrargjöld Vanframt. skattsk. velta Vanframt. útskattur Mögulegur innskattur Offramt. innskattur
2013 185.131 94.043 193.605 788.012 171.930 60.035 14.874
2012 423.825 46.501 24.581 1.455.662 364.420 131.593 33.282
2011 254.820 11.141 0 1.542.039 379.658 48.458 16.905
2010 271.404 13.398 547.156 337.438 82.672 1.234 12.759
2009 627.543 262.658 2.487 919.529 226.199 54.576 8.857
2008 1.270.734 799.517 11.400 2.638.500 646.310 226.956 5.057
2007 855.091 397.675 91.944 1.148.938 280.956 72.107 10.776
Samtals 3.888.548 1.624.932 871.173 8.830.118 2.152.146 594.959 102.510
Ár Vanframtalið reiknað endurgjald Vanframt. launagr. til starfsm. Vanframt. tekjur Offramt. fjárm.tekjur Vanframt. fjárm.tekjur Vangr. vsk/ stgr. Annað
2013 0 146.837 2.957.682 155.900 734.182 662.270 10.713
2012 9.996 0 1.512.766 847.753 1.340.717 621.930 3.565.064
2011 2.592 0 1.940.766 1.875.324 4.315.044 824.536 0
2010 0 5.241 1.179.007 33.664 1.087.102 658.857 533.502
2009 61.819 0 125.768 94.629 80.349 721.882 0
2008 128.775 437.310 24.299 0 138.131 1.187.470 150.575
2007 109.261 262.072 0 40.000 2.750 685.283 190.746
Samtals 312.442 851.459 7.740.289 3.047.270 7.698.275 5.362.228 4.450.599

     3.      Hverjar eru refsingarnar verði fólk eða fyrirtæki uppvíst að skattsvikum?
    Refsingar vegna skattalagabrota eru ávallt fésektir en jafnframt fangelsisrefsing sé um alvarleg brot að ræða.

Ár SRS
(þús. kr.)
YSKN
(þús.kr.)
Dómstólar (þús.kr.) Samtals (þús.kr.)
2013 33.460 298.630 1.416.620 1.748.710
2012 58.440 264.800 856.391 1.179.631
2011 34.210 239.055 718.395 991.660
2010 45.600 548.840 1.386.544 1.980.984
2009 52.830 319.910 794.673 1.167.413
2008 82.620 126.560 851.811 1.060.991
2007 93.370 193.830 315.601 602.801
Samtals 400.530 1.991.625 6.340.035 8.732.190

    Taflan sýnir fésektir vegna skattalagabrota ákvarðaðar á árunum 2007–2013 af hálfu skattrannsóknarstjóra, yfirskattanefndar og dómstóla.
    Fésektir héraðsdómstóla vegna skattalagabrota námu alls 6.527.647.123 kr. og fésektir dæmdar af Hæstarétti alls 960.127.774 kr. vegna umræddra ára. Í framangreindri töflu hefur verið tekið tillit til breytinga Hæstaréttar frá dæmdri fésekt í héraði, eftir því sem við á.
    Fangelsisrefsing var yfirleitt ákvörðuð samhliða fésekt í þeim málum sem sættu ákærumeðferð fyrir dómi. Í langflestum tilvikum var um skilorðsbundna refsingu að ræða.