Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 371. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 680  —  371. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2013.


1. Inngangur.
    Á vettvangi NATO-þingsins árið 2013 bar hæst, eins og undanfarin ár, umræðu um aðgerð NATO í Afganistan sem er sú umfangsmesta í sögu bandalagsins. Verkefnið í Afganistan er fyrsta aðgerð NATO utan Evrópu og sú langfjölmennasta en sér nú fyrir endann á því með fyrirhuguðu brotthvarfi NATO frá Afganistan síðari hluta árs 2014. Alþjóðlegu öryggissveitirnar í Afganistan (ISAF) hafa starfað undir stjórn NATO frá því í ágúst 2003, en síðan þá hefur aðgerðum NATO utan Evró-Atlantshafssvæðisins fjölgað stórlega. Verkefnið hefur gengið samkvæmt áætlun miðað við að unnið sé út frá ákvörðun sem tekin var á leiðtogafundi NATO í Lissabon í nóvember 2010. Þar var lögð áhersla á að árið 2014 yrði yfirfærslu öryggismála í hendur Afgana lokið og Afganir gætu sjálfir tryggt eigið öryggi og byggt upp innviði samfélagsins bæði hvað varðaði her og lögreglu en NATO mundi veita áframhaldandi stuðning eftir þörfum. Nefndarmenn lýstu yfir áhyggjum af spillingu, óstöðugleika og viðbrögðum nágrannaríkja við brotthvarfi NATO auk getu innan lands varðandi þróun mála næstu missiri.
    Einnig ber að nefna umræðu um ástandið í Sýrlandi og áhyggjur NATO-þingmanna af straumi flóttamanna til nágrannaríkja en áætlað er að yfir tvær milljónir manna hafi flúið land. Lögð var áhersla á nauðsyn þess að fylgjast vel með þróun mála í nágrannaríkjum Sýrlands sem eigi á hættu að dragast inn í hringiðu óstöðugleika vegna borgarastríðsins í Sýrlandi. Jafnframt var tíðrætt um stefnu NATO sem samþykkt var á leiðtogafundi bandalagsins sem haldinn var í Chicago í maí 2012 og miðar að því að sameina krafta aðildarríkjanna meira en áður í þágu varnarviðbúnaðar í því skyni að nýta opinbera fjármuni betur á tímum mikils niðurskurðar. Stefnan gengur undir heitinu snjallvarnir (e. smart defense) eða samvinna um varnarbúnað og er ætlað að tryggja NATO nauðsynlegan búnað í samræmi við nýja grunnstefnu bandalagsins.
    Þá voru samskipti NATO við Rússland að vanda áberandi árið 2013. Áhersla var lögð á mikilvægi skipulags samstarfs NATO og Rússlands gegn sameiginlegum öryggisógnum eins og alþjóðlegum hryðjuverkum, útbreiðslu kjarnorkuvopna, sjóránum og ekki síst varðandi málefni Afganistans. Einnig var áhersla á niðurstöðu leiðtogafundarins í Lissabon árið 2010 þar sem Rússum var boðin samvinna um eldflaugavarnir. Erfitt hefur reynst að ná samstöðu milli aðila um hvernig samvinnu skuli háttað og hafnaði NATO kröfum Rússa um sameiginlega stjórn á eldflaugavarnakerfinu. Uppsetning á kerfinu er hafin þrátt fyrir andstöðu Rússa en stefnt er að því að varnarkerfið verði að fullu komið í gagnið árið 2020.
    Efnahagsleg tækifæri og hlutverk NATO á norðurskautssvæðinu voru jafnframt til umræðu. Í skýrslu um málið var lögð áhersla á Norðurskautsráðið sem aðalsamráðsvettvang norðurskautsríkjanna og mikilvægi þess að styðja við þann lagaramma og þá alþjóðasamninga sem eru til staðar á svæðunum og hafa gagnast vel. Í niðurstöðum skýrslunnar er áréttað að aðildarríki NATO hafi ekki skilgreint hlutverk bandalagsins á svæðinu en mikilvægt sé að fylgjast vel með þróun mála þótt útlit sé fyrir að deilur sem upp geti komið verði leystar á friðsamlegan hátt eins og hingað til. Þá sé aukin samvinna við norðurskautsríkin mikilvæg ekki síst þegar horft sé til öryggis- og björgunarmála á sjó og verndun umhverfis.
    Einnig var rætt um mikilvægi þess að NATO starfaði nánar með alþjóðlegum samstarfsaðilum, einkum Sameinuðu þjóðunum og Evrópusambandinu (ESB). Leysa þyrfti þann ágreining sem skapast hefði milli NATO og ESB sem sneri að stórum hluta að niðurskurði aðildarríkja ESB til varnarmála. Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar árið 2013 má nefna útfærslu NATO-þingsins og bandalagsins á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi, fjárveitingar til varnarmála og samstöðu innan NATO, kjarnorkuáætlun Írans, ástandið í Malí og mikilvægi þess að NATO-þingið kynnti starfsemi sína fyrir almenningi í aðildarríkjunum.

2. Almennt um NATO-þingið.
    NATO-þingið er þingmannasamtök sem hafa allt frá árinu 1954 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða öryggis- og varnarmál. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Á síðustu árum hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum NATO-þingsins fjölgað ört og hefur starfssvið þess verið víkkað til móts við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og ríkjum í Mið- og Austur-Evrópu. Tíu lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja hafa nú aukaaðild að þinginu (auk hlutlausu Evrópuríkjanna fjögurra Austurríkis, Sviss, Svíþjóðar og Finnlands) sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu. Störf þingsins beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild, efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hinu hnattræna öryggiskerfi. Með Rose- Roth áætluninni styður þingið nú einnig við þróun þingbundins lýðræðis í ríkjum álfunnar og nálægum ríkjum.

Hlutverk og starfssvið þingsins.
    Í Atlantshafssáttmálanum 1949 var ekki gert ráð fyrir þinglegri ráðgjafarsamkundu en með tímanum óx þeirri skoðun fylgi að nauðsyn væri á skipulegu samstarfi þjóðþinga í tengslum við og til stuðnings NATO. Þingið hefur ekki formlega stöðu innan bandalagsins en smám saman hefur komist á náin og virk samvinna stofnananna. Meginhlutverk þingsins er að efla samstöðu og samráð þjóðþinga á sviði öryggis- og varnarmála. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar og ársfundar að hausti.
    Starfsemi þingsins fer að mestu fram í fimm málefnanefndum, stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, efnahagsnefnd, vísinda- og tækninefnd og nefnd um borgaralegt öryggi. Auk þess fer mikið starf fram á vegum Miðjarðarhafshópsins sem þó hefur ekki stöðu formlegrar málefnanefndar. Þessar nefndir eru meginvettvangur umræðna, þær fjalla um samtímamál er upp koma á starfssviði þeirra og vinna um þær skýrslur. Nefndarálit eru oftast sett fram í formi tilmæla, yfirlýsinga eða ályktana sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um. Tilmælum er beint til Norður-Atlantshafsráðsins, sem fer með æðsta ákvarðanavald innan NATO, og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða. Ályktunum þingsins er hins vegar beint til ríkisstjórna aðildarríkjanna.
    Þótt þingið sé óháð NATO hafa samskipti þess við bandalagið smám saman tekið á sig fastara form. Á meðal formlegra samskipta má í fyrsta lagi nefna formleg svör við tilmælum þingsins af hálfu framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd Norður-Atlantshafsráðsins. Í öðru lagi flytur framkvæmdastjóri bandalagsins ávarp á vorfundum og ársfundum NATO- þingsins og svarar fyrirspurnum þingmanna. Í þriðja lagi kemur stjórnarnefnd NATO-þingsins og Norður-Atlantshafsráðið árlega saman til fundar í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Að lokum skal nefndur sameiginlegur fundur þriggja nefnda NATO-þingsins í Brussel í febrúarmánuði ár hvert til að greiða fyrir samskiptum við starfsmenn og embættismenn NATO, SHAPE (Supreme Headquarters Allied Powers in Europe – æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu) og Evrópusambandsins.

Fulltrúar á NATO-þinginu og forustumenn þess.
    Á NATO-þinginu eiga sæti 257 þingmenn frá aðildarríkjunum 28. Fjöldi fulltrúa frá hverju landi ræðst að mestu af fólksfjölda. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn en Ísland er í hópi þeirra smæstu með þrjá þingmenn. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn sem mega taka þátt í störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Ráðherrar í ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar á NATO-þinginu. Alls eiga 66 þingmenn frá 14 aukaaðildarríkjum sæti á NATO-þinginu og taka þeir þátt í nefndarfundum, utan funda stjórnarnefndar, og þingfundum en hafa ekki atkvæðisrétt. Þeir hafa þó rétt til þess að leggja fram breytingartillögur.
    Forustumenn þingsins eru sjö og eru sex þeirra, forseti og fimm varaforsetar, kjörnir ár hvert af fulltrúum á þingfundi. Sjöundi embættismaðurinn er gjaldkerinn en hann kýs stjórnarnefndin annað hvert ár. NATO-þinginu er stjórnað af stjórnarnefnd en í henni eiga sæti forseti, varaforsetar, gjaldkeri og nefndarformenn auk formanna allra landsdeilda aðildarríkja NATO.

3. Íslandsdeild NATO-þingsins og starfsemi hennar.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru fyrri hluta ársins 2013 Björgvin G. Sigurðsson, formaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Ragnheiður E. Árnadóttir, varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Birgitta Jónsdóttir, þingflokki Hreyfingarinnar. Varamenn voru Skúli Helgason, þingflokki Samfylkingarinnar, Ólína Þorvarðardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Eftir alþingiskosningarnar 27. apríl 2013 var ný Íslandsdeild kosin og gildir sú kosning deildarinnar fyrir allt kjörtímabilið samkvæmt þingsköpum. Þingið getur þó hvenær sem er kosið að nýju ef fyrir liggur beiðni meiri hluta þingmanna þar um. Aðalmenn seinni hluta starfsárs 2013 voru Þórunn Egilsdóttir, formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Össur Skarphéðinsson, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, og Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Kristján L. Möller, þingflokki Samfylkingarinnar, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Páll Jóhann Pálsson, þingflokki Framsóknarflokks. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang.
    Íslandsdeildin hélt fjóra undirbúningsfundi fyrir fundi NATO-þingsins.
    Skipting Íslandsdeildar í nefndir 2013 var eftirfarandi:
Stjórnarnefnd: Björgvin G. Sigurðsson/Þórunn Egilsdóttir
    Til vara: Ragnheiður E. Árnadóttir/Össur Skarphéðinsson
Stjórnmálanefnd: Björgvin G. Sigurðsson/Þórunn Egilsdóttir
    Til vara: Skúli Helgason/Páll Jóhann Pálsson
Varnar- og öryggismálanefnd: Ragnheiður E. Árnadóttir/Birgir Ármannsson
    Til vara: Birgir Ármannsson/Ragnheiður Ríkharðsdóttir
Nefnd um borgaralegt öryggi: Birgitta Jónsdóttir/Birgir Ármannsson
    Til vara: Ólína Þorvarðardóttir/Ragnheiður Ríkharðsdóttir
Efnahagsnefnd: Ragnheiður E. Árnadóttir/Össur Skarphéðinsson
    Til vara: Birgir Ármannsson/Kristján L. Möller
Vísinda- og tækninefnd: Björgvin G. Sigurðsson/Þórunn Egilsdóttir
    Til vara: Skúli Helgason/Páll Jóhann Pálsson
Vinnuhópur um Miðjarðarhafssvæðið: Birgitta Jónsdóttir/Össur Skarphéðinsson

4. Fundir NATO-þingsins.
    NATO-þingið heldur tvo þingfundi árlega, vorfund og ársfund að hausti. Á svokölluðum febrúarfundum heldur stjórnarnefndin fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður- Atlantshafsráðinu, auk þess sem stjórnmálanefnd, efnahagsnefnd og varnar- og öryggismálanefnd halda sameiginlegan fund. Jafnframt kemur stjórnarnefnd þingsins saman til fundar í mars eða apríl ár hvert. Þá sækir fjöldi NATO-þingmanna árlegan fund um Atlantshafssamstarfið sem fram fer í desember í samstarfi NATO-þingsins og bandaríska Atlantshafsráðsins. Loks halda nefndir og undirnefndir þingsins reglulega málstofur og fundi á milli þingfunda.
    Árið 2013 tók Íslandsdeildin þátt í febrúarfundunum í Brussel, stjórnarnefndarfundi í Kaupmannahöfn og ársfundi í Dubrovnik. Hér á eftir fylgja frásagnir af fundum sem Íslandsdeild sótti.

Febrúarfundir.
    Dagana 24.–26. febrúar var efnt til svonefndra febrúarfunda NATO-þingsins í Brussel en það eru sameiginlegir fundir stjórnmálanefndar, efnahagsnefndar og öryggis- og varnarmálanefndar. Fyrirkomulag fundanna var með hefðbundnum hætti, þ.e. sérfræðingar, embættismenn og herforingjar Atlantshafsbandalagsins héldu erindi um afmörkuð málefni og svöruðu spurningum þingmanna. Þá fór fram árlegur fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins með Norður-Atlantshafsráðinu í höfuðstöðvum NATO. Helstu mál á dagskrá fundarins voru stjórnmálastefna NATO, verkefni NATO í Afganistan og helstu niðurstöður fundar varnarmálaráðherra aðildarríkja NATO sem fram fór 21.–22. febrúar. Af hálfu Íslandsdeildar sótti Björgvin G. Sigurðsson, formaður, fundina auk Örnu Gerðar Bang ritara.
    Á fundunum voru m.a. rædd langtímaáhrif niðurskurðar aðildarríkjanna til varnarmála, þróun mála í Norður-Afríku og Miðausturlöndum og áhrif hennar á öryggi bandalagsins, viðbrögð NATO við nýjum öryggisógnum og útfærsla NATO-þingsins og bandalagsins á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi. Í opnunarávarpi sínu lagði Hugh Bayley, forseti NATO-þingsins, áherslu á mikilvægi þess að NATO-þingið kynnti starfsemi sína fyrir almenningi aðildarríkjanna og hvatti hann þingmenn til að sinna því kalli þegar heim kæmi. Þá sagði hann brýnt að NATO-þingið fylgdist vandlega með öryggisástandinu í Norður-Afríku og hvaða lærdóm mætti draga af því auk þess sem áframhaldandi áhersla yrði lögð á jafnrétti kynjanna og netöryggi.
    Á meðal fyrirlesara var James Appathurai, annar aðstoðarframkvæmdastjóri stjórnmála- og öryggissviðs NATO, sem flutti erindi um núverandi stjórnmálastefnu bandalagsins. Hann fjallaði um stefnuna í ljósi grunnstefnu NATO auk þess sem hann gerði grein fyrir framgangi helstu verkefna og áhersluatriða þeirra. Hann sagði verkefni NATO í Afganistan vera í forgangi og á áætlun miðað við að unnið sé út frá ákvörðun leiðtogafundarins í Lissabon í nóvember 2010 og að árið 2014 verði yfirfærslu öryggismála í hendur Afgana lokið. Markmiðið sé að Afganir geti sjálfir tryggt eigið öryggi og byggt upp innviði samfélagsins bæði hvað varðar her og lögreglu en NATO muni veita áframhaldandi stuðning eftir þörfum. Þá sagði hann að horft væri til kosninga í landinu sem haldnar voru í apríl 2013 og mikilvægt væri að þær færu lýðræðislega fram. Hann greindi frá vandamálum tengdum spillingu sem hafa verið áberandi í landinu auk þess sem það ríki mikil óvissa um það hvernig nágrannaríki Afganistans muni bregðast við eftir brotthvarf NATO 2014. Appathurai ræddi einnig um jákvæða þróun samvinnu hjá NATO, sem eitt af megináhersluatriðum bandalagsins og nefndi í því sambandi samstarfsyfirlýsingu við Austurríki sem nýverið var undirrituð. Hann sagði áherslu vera lagða á að gera störf NATO markvissari og hagkvæmari og auka samvinnu við ríki utan bandalagsins og alþjóðastofnanir, einkum Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið (ESB). Einnig greindi hann frá því að samskipti NATO og ESB hefðu ekki batnað eins og vonir stóðu til og þar sem vandamálin væru af pólitískum toga væri eingöngu hægt að leysa úr þeim á vettvangi stjórnmálanna. Þá væri áhersla lögð á málefni Norður-Afríku og Miðausturlanda og þeirrar þróunar sem þar ætti sér stað.
    Jaroslaw Skonieczka, deildarstjóri samstarfs og stjórnmála hjá NATO, hélt erindi um samband NATO við EAPC (Euro-Atlantic Partnership Council) -aðildarríki NATO og stefnu bandalagsins varðandi hugsanleg ný aðildarríki. Hann sagði umræður innan NATO um ójafnvægi varðandi fjárframlög Evrópu og Bandaríkjanna hafa verið áberandi og að sú þróun að Evrópa skeri enn frekar niður þegar kemur að varnarmálum hafi skapað óánægju hjá bandarískum stjórnvöldum. Þá sé jafnframt ójafnvægi milli aðildarríkja Evrópu þegar kemur að varnarmálum og hafi efnahagskreppan þar haft djúpstæð áhrif. Ljóst sé að leysa þurfi þann ágreining sem skapast hafi milli NATO og ESB og snúi að stórum hluta að niðurskurði aðildarríkja ESB til varnarmála. Þá sagði hann Mið-Asíu mikilvægt svæði sem veita þurfi athygli með samstarf í huga. Því sé afar brýnt að skilaboð NATO til stjórnvalda í Mið-Asíu séu skýr varðandi það hvernig NATO muni gegna stuðningshlutverki eftir að yfirfærsla öryggismála til Afgana hefur átt sér stað árið 2014. Jafnframt sagði hann samvinnu við Rússland afar mikilvæga, ekki síst varðandi Afganistan auk þess sem NATO horfi einnig til þess að þróa samstarf við nýja samstarfsaðila.
    Fjórir sendiherrar hjá NATO, Sorin Ducaru frá Rúmeníu, Philippe Errera frá Frakklandi, Haydar Berk frá Tyrklandi og Mariot Leslie frá Bretlandi, tóku jafnframt þátt í pallborðsumræðum með þingmönnum og svöruðu spurningum þeirra. Rætt var um uppbyggingu eldflaugavarnakerfis í Evrópu og þátttöku Rússa í verkefninu og bætt og aukin samskipti við ESB og Rússland. Þá voru þeir sammála um nauðsyn þess að viðhalda trúverðugum varnarútgjöldum á tímum efnahagskreppunnar.
    Hefðbundinn fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins og sendiherra aðildarríkja NATO í Norður-Atlantshafsráðinu, sem fer með æðsta ákvörðunarvald innan bandalagsins, fór fram í höfuðstöðvum NATO 25. febrúar 2013. Að venju sátu sendiherrar aðildarríkjanna fyrir svörum þingmanna en umræðum stjórnaði Alexander Vershbow, aðstoðarframkvæmdastjóri bandalagsins, sem jafnframt flutti inngangserindi. Hann lýsti yfir áhyggjum af niðurskurði aðildarríkjanna til varnarmála og hvatti þingmenn til að upplýsa ríkisstjórnir sínar og almenning um mikilvægi þess að fjárfesta í árangursríkum vörnum. Þá lagði hann áherslu á mikilvægi þess að niðurskurður á fjárframlögum til varnarmála yrði ekki svo mikill að hann veikti hæfni bandalagsins til að uppfylla varnarskuldbindingar sínar. Enn fremur greindi hann frá stöðu verkefna í Afganistan og framvindu mála varðandi þær umbreytingar sem unnið er að, auk skuldbindinga bandalagsins gagnvart afgönsku þjóðinni eftir yfirfærsluna árið 2014.
Björgvin G. Sigurðsson spurði Vershbow hversu lengi NATO gæti réttlætt það að standa hjá varðandi átökin í Sýrlandi og hvaða áhrif það gæti haft til framtíðar. Vershbow svaraði því til að ástandið í Sýrlandi væri gríðarlega flókið og ólíkt t.d. ástandinu í Líbýu. Ekki hafi verið óskað einróma eftir aðstoð NATO frá svæðinu og þar sem ályktun frá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna lægi ekki fyrir yrði ekkert aðhafst af hálfu NATO um íhlutun.
    Forseti NATO-þingsins, Hugh Bayley, lagði í máli sínu áherslu á mikilvægi þess fyrir framtíð NATO að vel tækist til við að leysa þau forgangsverkefni bandalagsins að viðhalda getu NATO til að bregðast við hættuástandi og yfirfærslu öryggismála í hendur Afgana árið 2014. Verkefnin væru gríðarlega vandasöm og krefðust mikils pólitísks vilja og stuðnings almennings. Á lokadegi febrúarfundanna var rætt um samskipti Bandaríkjanna og Evrópusambandsins, efnahagsmál og leiðir til að minnka áhrif niðurskurðar til varnarmála á getu NATO.

Marsfundur stjórnarnefndar.
    Hinn árlegi fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins fór að þessu sinni fram í Kaupmannahöfn. Á meðal helstu dagskrármála fundarins voru kynning á umbótum í dönskum varnarmálum, starfsáætlun NATO-þingsins fyrir árið 2013, skipulag og staðsetning þingfunda á næstu árum, umsókn Kósóvó um áheyrnaraðild að NATO-þinginu og fjármál þingsins. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sótti fundinn Ragnheiður E. Árnadóttir auk Stígs Stefánssonar, starfandi ritara.
    Peter Bartram, hershöfðingi og æðsti yfirmaður danska hersins, ávarpaði fundinn og gerði grein fyrir margvíslegum umbótum sem átt hafa sér stað innan danska heraflans á undanförnum árum. Þá gerði hann grein fyrir varnarstefnu danskra stjórnvalda sem tekur til áranna 2013–2017 en sjö af átta stjórnmálaflokkum á danska þinginu standa að samkomulagi um hana. Í kjölfar fjármálakreppunnar og niðurskurðar á ríkisútgjöldum hafa fjárframlög til varnarmála verið skert verulega. Þeirri skerðingu hefur einkum verið mætt með ýmiss konar hagræðingu samfara því að geta til þess að taka þátt í alþjóðlegum aðgerðum hefur verið aukin. Danir hafa tekið virkan þátt í alþjóðlegum aðgerðum og nefndi Bartram framlög danskra hersveita í Írak, Afganistan og Líbýu sem dæmi. Hagræðingin hefur m.a. náðst fram með fækkun herstöðva í Danmörku og mun sú fækkun væntanlega halda áfram þó við það sé nokkur andstaða byggð á byggðapólitískum sjónarmiðum. Þá verður fallið frá samningum um æviráðningar innan hersins. Um helmingur útgjalda til varnarmála fer í launakostnað og tengd gjöld og því hefur aukinn sveigjanleiki í starfsmannamálum mikil áhrif. Auk þess að viðhalda getu sinni til þátttöku í verkefnum erlendis hefur herinn beint sjónum sínum að nýjum forgangsmálum, samkvæmt fyrrnefndri varnarstefnu stjórnvalda, og nefndi Bartram sem dæmi annars vegar öryggi upplýsingakerfa og netvarnir og hins vegar norðurslóðir. Ragnheiður E. Árnadóttir spurði nánar út í áherslur varðandi öryggi á norðurslóðum. Bartram svaraði því til að aukin borgaraleg skipaumferð á norðurslóðum, hvort sem um væri að ræða fragtflutninga eða ferðamennsku, kallaði á aukið öryggi. Stefna danskra stjórnvalda er að eiga í góðum samskiptum og samvinnu við önnur ríki á norðurslóðum og forðast endurhervæðingu svæðisins. Yfirmenn herafla aðildarríkja Norðurskautsráðsins eiga árlega samráðsfundi og danski herinn mun vinna frekari greiningar á varnar- og öryggismálum á norðurskautssvæðinu.
     Hugh Bayley, forseti NATO-þingsins, fór yfir starfsáætlun þess á árinu 2013 og gerði grein fyrir skýrsluefnum einstakra nefnda. Á meðal málefna sem tekin voru fyrir voru Afganistan eftir brotthvarf hersveita NATO árið 2014, þróun snjallvarna og varnarsamvinna samkvæmt ákvörðunum leiðtogafundar NATO árið 2012, fjárveitingar til varnarmála og samstaða innan NATO, Íran og öryggi í Miðausturlöndum, og öryggi á norðurslóðum. Ákveðið var á fundinum að taka ástandið í Malí til sérstakrar umfjöllunar sl. ár í kjölfar hernaðaraðgerða Frakka þar sem hófust í janúar 2013. Þá var fjallað um hvernig NATO-þingið gæti unnið að samþættingu kynjasjónarmiða í sem flestum málaflokkum í samræmi við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi.
    Einnig var fjallað um umsókn Kósóvó um áheyrnaraðild að NATO-þinginu. Þjóðþingi Kósóvó hefur verið boðið reglulega að senda sendinefndir á hina tvo árlegu þingfundi NATO-þingsins og hefur nú sótt um formlega áheyrnaraðild. Alls eiga þjóðþing 14 ríkja áheyrnaraðild að NATO-þinginu. Bent var á að 8 aðildarríki NATO viðurkenna ekki sjálfstæði Kósóvó og þar sem þau áttu ekki öll fulltrúa á fundinum var ákvörðun um málið frestað. Loks var farið yfir fjármál NATO-þingsins og ársreikning fyrir árið 2012 sem var samþykktur samhljóða.
    
Ársfundur.
    Ársfundur NATO-þingsins fór fram í Dubrovnik dagana 11.–14. október sl. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundinn Þórunn Egilsdóttir, formaður, Össur Skarphéðinsson, varaformaður, og Birgir Ármannsson, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Um 350 þingmenn frá 27 aðildarríkjum NATO og fulltrúar yfir 20 annarra ríkja sóttu ársfundinn. Meginumræður fundarins fóru fram í fimm málefnanefndum þingsins á grundvelli skýrslna sem unnar voru af nefndarmönnum og fyrirlestra alþjóðlegra sérfræðinga um öryggismál. Þá var þingfundur haldinn þar sem fjallað var um þau mál sem hæst ber í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu og kosið um ályktanir og ákvarðanir þingsins.
    Við setningu þingsins sagði Hugh Bayley, forseti NATO-þingsins, frá nýlegri heimsókn sinni til Sýrlands og lýsti yfir áhyggjum af straumi flóttamanna til nágrannaríkja en áætlað er að yfir tvær milljónir manna hafi flúið land. Hann lagði áherslu á að svæðið í kringum Sýrland eigi það á hættu að dragast inn í hringiðu átaka og óstöðugleika og kallaði eftir aukinni viðleitni frá alþjóðasamfélaginu til að binda enda á hörmungarnar í Sýrlandi. Þá hvatti hann þær þjóðir sem samþykkt hafa ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um eyðingu efnavopna í Sýrlandi að standa við skuldbindingar sínar. Jafnframt ræddi hann um málefni Afganistans og mikilvægi þess að þau verði áfram forgangsverkefni eftir að yfirfærslu öryggismála frá NATO til Afgana hefur átt sér stað árið 2014. Einnig ræddi Bayley um eftirmál hörmunganna í Malí, ástandið á Vestur-Balkanskaga og mikilvægi þess að aðildarríki NATO sneiddu hjá því að bregðast við efnahagskreppu með niðurskurði fjár til varnarmála sem grafið gæti undan grundvallarskilyrðum varna.
    Stjórnmálanefnd NATO-þingsins tók til umræðu þrjár skýrslur um aukið vægi Asíu: skírskotun til NATO, aðra um samstarf NATO við Mið-Asíu og þá þriðju um öryggismál á norðurslóðum og hlutverk NATO. Pólski þingmaðurinn Jadwiga Zakrezewska var höfundur síðastnefndu skýrslunnar en í fjarveru hans kynnti danski þingmaðurinn John Dyrby Paulsen skýrsluna fyrir nefndarmönnum. Össur Skarphéðinsson tók þátt í umræðum nefndarinnar um málefni norðurslóða og lagði áherslu á gott svæðasamstarf á norðurslóðum sem styrkst hefði á undanförnum árum. Hann sagði Norðurskautsráðið aðalsamráðsvettvang norðurskautsríkjanna og stöðugt hafa eflst og nefndi í því sambandi bindandi samning norðurskautsríkjanna um leit og björgun á norðurslóðum sem samþykktur var á leiðtogafundi Norðurskautsráðsins í Nuuk 2011. Þá ræddi hann jafnframt mikilvægi þess að styðja við þann lagaramma og alþjóðasamninga sem eru til staðar á svæðinu og hafa gagnast vel.
    Jafnframt fjallaði vísinda- og tækninefnd á sínum fundi m.a. um nýjar hugmyndir í orkumálum fyrir hernað NATO, bætt skilyrði herafla NATO með bættu öryggi og ábyrgð og framtíð flughernaðar. Nefnd um borgaralegt öryggi ræddi m.a. um hvernig hlúa mætti að lýðræðislegri þróun á MENA-svæðinu, málefni Georgíu og helstu áskoranir og framtíðarhorfur í öryggismálum á Vestur-Balkanskaga. Lokadrög að skýrslum um umræðuefnin voru kynnt nefndarmönnum af skýrsluhöfundum.
    Varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins fjallaði um lokadrög að fjórum skýrslum á fundi sínum. Sú fyrsta fjallaði um Afganistan, til móts við árið 2014 og áfram, önnur um skynsamlega notkun þess fjármagns sem varið er til varnarmála og hernaðarlegs mikilvægis NATO, sú þriðja um samskiptin handan Atlantshafs og innleiðingu nýrrar grunnstefnu NATO með samvinnu að leiðarljósi og sú fjórða um vaxandi hættuástand í grennd við Evrópu: Nýtt norður/suður samstarf fyrir Sahel-svæðið (landsvæði í Afríku sem liggur á mörkum Sahara og gróðurlendisins í suðri).
    Efnahagsnefnd NATO-þingsins fjallaði í þremur skýrslum um efnahagslegt mikilvægi umbyltingar varðandi olíu- og gasvinnslu og viðskipti, útgjöld varðandi varnarmál, þjóðaröryggi og samstöðu innan bandalagsins og að lokum um samþættingu hagkerfa vatnasvæðis Miðjarðarhafsins. Össur Skarphéðinsson tók þátt í umræðum nefndarinnar og spurði m.a. fjármálaráðherra Króatíu, Ivan Vrdoljak, að því hvaða áhrif aðild að Evrópusambandinu (ESB) hefði haft á stöðu atvinnumála í landinu og hvaða takmarkanir stæðu í vegi fyrir inngöngu landsins í myntbandalag ESB. Ráðherrann svaraði því til að 460 þúsund störf hefðu beinlínis orðið til vegna ESB-aðildar. Varðandi myntbandalag ESB sagði hann skuldastöðu landsins ekki hagstæða og að áætlað væri að það tæki tvö ár fyrir landið að draga nægilega úr henni og í framhaldinu önnur þrjú ár að ná að uppfylla skilyrði bandalagsins um inngöngu og þar með að geta tekið upp evru sem gjaldmiðil.
    Danski þingmaðurinn Jeppe Kofod var höfundur skýrslu efnahagsnefndar um efnahagslegt mikilvægi olíu- og gasvinnslu. Össur spurði hann hverjar afleiðingarnar væru af óhefðbundinni framleiðslu í Rússlandi sem byggir hagvöxt sinn að miklum hluta á orkulindum, einkum gasi á norðurskautssvæðinu. Kofod sagði áhrifin gríðarlega mikil á efnahag Rússa og stöðu pólitísku forustunnar þar í landi. Þessi þróun mundi m.a. þrýsta á rússnesk stjórnvöld að auka samvinnu við aðrar þjóðir á sviði olíu- og gasframleiðslu.
    Áður en fundur stjórnarnefnda hófst var haldinn fundur þingmannaráðs NATO og Rússlands þar sem rætt var um samskipti og samstarf NATO og Rússlands. Á fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins var m.a. tekin ákvörðun um starfsemi og helstu viðfangsefni NATO- þingsins fyrir árið 2014. Rætt var um fjárhagsáætlun fyrir árið 2014 og hún samþykkt með smávægilegum breytingum frá árinu 2013.
    Þingfundur NATO-þingsins fór fram á fyrsta og síðasta degi ársfundarins þar sem tignargestir fluttu ávörp og svöruðu spurningum fundarmanna. Meðal þeirra sem fluttu erindi voru Hugh Bayley, forseti NATO-þingsins, Ivo Josipovic, forseti Króatíu, Josip Leko, þingforseti Króatíu, og Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO.
    Í ávarpi sínu fór Rasmussen m.a. yfir aðgerðir NATO í Afganistan, samskipti NATO og Rússlands og fjárhagsáætlun bandalagsins. Hann lýsti yfir áhyggjum af niðurskurði aðildarríkjanna til varnarmála og hvatti þingmenn til að upplýsa ríkisstjórnir sínar og almenning um mikilvægi þess að fjárfesta í árangursríkum vörnum. Þá lagði hann áherslu á mikilvægi þess að niðurskurður á fjárframlögum til varnarmála yrði ekki svo mikill að hann veikti hæfni bandalagsins til að uppfylla varnarskuldbindingar sínar. Jafnframt væri mikilvægt að auka aftur fjárframlög til varnarmála með batnandi efnahagsástandi. Hann sagði NATO treysta undirstöður öryggismála beggja vegna Atlantsála en aðildarríkin yrðu að gera betur þegar kæmi að því að kynna mikilvægi þess fyrir almenningi í aðildarríkjunum og auka skilning á mikilvægu hlutverki þess.
    Enn fremur samþykkti þingið ályktun þar sem ríkisstjórnir aðildarríkjanna eru hvattar til að efla hjálparstarf í ríkjum sem hafa tekið við milljónum flóttamanna frá Sýrlandi. Því næst fluttu skýrsluhöfundar framsögur um þær ályktanir sem málefnanefndirnar höfðu lagt fram og voru þær samþykktar.
    
„Transatlantic Forum“ fundur.
    „Transatlantic Forum“ fundur NATO-þingsins fór fram í Washington 2.–3. desember sl. en það er fundur sem NATO-þingið, Atlantshafsráð Bandaríkjanna og National Defence University (NDU) efnir til árlega um helstu málefni Atlantshafssamstarfsins í Washington D.C. Fundurinn fer fram í húsakynnum NDU í McNair-virki í Washington og var nú haldinn í þrettánda sinn. Þátttakendur voru þingmenn aðildarríkja og aukaaðildarríkja NATO-þingsins auk embættismanna og sérfræðinga í alþjóðamálum. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins Össur Skarphéðinsson, varaformaður, og Birgir Ármannsson, auk Stígs Stefánssonar, starfandi ritara.
    Megintilgangur hins árlega fundar er að gera fulltrúum NATO-þingsins kleift að ræða sameiginleg málefni er varða öryggi og varnir Evrópu og Bandaríkjanna við aðila úr bandaríska stjórnkerfinu, fræðasamfélaginu, hugveitum og öðrum stofnunum. Fundurinn er iðulega skipulagður á þann hátt að nokkur svið alþjóðamála sem mikið hefur borið á undangengin missiri eru tekin fyrir, bandarískir sérfræðingar halda framsöguerindi og eiga svo umræður við NATO-þingmenn.
     Í almennri umræðu um stöðu Atlantshafssamstarfsins var Brent Hartley, frá deild bandaríska utanríkisráðuneytisins sem fer með Evrópumál, framsögumaður en auk hans tóku fjölmargir þingmenn til máls. Í umræðunni kom m.a. fram að þótt margt togaði í og kallaði á utanríkispólitíska athygli Bandaríkjanna eins og aukin áhersla á Austur-Asíu, Miðausturlönd, átök í Georgíu og spenna um framtíðarþróun Úkraínu, hafi Obama forseti ítrekað undirstrikað að Evrópa væri mikilvægasti samstarfsaðili Bandaríkjanna í alþjóðamálum. Bandaríkin þyrftu á sterkri Evrópu að halda og það væri gagnkvæmt. NATO væri hryggjarstykkið í hinu alþjóðlega öryggiskerfi og tæki til mun fleiri ríkja en aðild segði til um í gegnum tengsl við svokölluð samstarfsríki. Þó væri áhyggjuefni að einungis tvö Evrópuríki uppfylla markmið bandalagsins um framlög til varnarmála. Þá kom fram að hleranir bandarískra öryggisstofnana í Evrópu, m.a. á símum leiðtoga ríkisstjórna, hefðu haft mjög slæm áhrif á traust og trúnað yfir Atlantsála sem byggja þyrfti upp að nýju. Össur Skarphéðinsson sagðist telja helstu áskorun NATO að sýna fram á að yfirlýst stefna um að taka við nýjum aðildarumsóknum væri virk. Það yrði ekki gert öðruvísi en með því að næsti leiðtogafundur NATO tæki ákvörðun um inntöku nýrra aðildarríkja en fjögur ríki, Georgía, Svartfjallaland, Bosnía og Hersegóvína og Makedónía, sækjast eftir aðild. Össur sagðist óttast um stöðu Georgíu nú þegar Rússland gerðist áhrifameira á alþjóðavettvangi. Í umræðunni sem fylgdi kom fram stuðningur við NATO-aðild Georgíu en um leið að vandi aðildarumsóknar landsins væri sá að landamæri þess væru ekki virt og valdhafar í Tíblisi hefðu ekki fulla stjórn á landinu. Þá þyrfti samhljóða stuðning allra bandalagsríkja til að taka Georgíu inn í bandalagið en hann lægi ekki fyrir við núverandi aðstæður.
    Í umfjöllun um möguleika á fríverslunarsamningi Bandaríkjanna og Evrópu kom fram að tollar eru þegar mjög lágir og mikið streymi fjárfestinga yfir Atlantshafið. Stærsta verkefnið í viðræðunum, og það sem mun hafa mest áhrif, er að semja um samræmingu staðla og regluverks á hinu væntanlega fríverslunarsvæði. Bandaríkjastjórn er umhugað um að halda fast í neytendavernd, matvælaöryggi og heilbrigðisstaðla sem tryggðir eru í bandarískum lögum og ætlar ekki að nota samræminguna til að draga úr regluverki. Báðir samningsaðilar horfa svo til þess að nota væntanlegt fríverslunarsamkomulag, ef af verður, til að breiða út sín gildi og sýn í alþjóðaviðskiptum og þrýsta á frekari skref í átt að aukinni fríverslun á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).
    Næst var fjallað um ástandið í Miðausturlöndum og fluttu Richard Hooker frá NDU og Frederic C. Hof frá Atlantshafsráðinu inngangsorð en auk þeirra tóku margir þingmenn til máls. Í umræðunum kom m.a. fram að horfa bæri á viðleitni Íran til að koma sér upp kjarnorkuvopnum í ljósi nýlegrar sögu ríkisins sem hefði annars vegar misst 800.000 manns í stríði við Írak á 9. áratug síðustu aldar sem Vesturlönd studdu og hins vegar horft upp á innrás og erlenda hersetu í Írak á árunum 2003–2011. Rætt var um nýtt samkomulag alþjóðasamfélagsins við Íran um friðsamlega kjarnorkuþróun og áhrif kjörs Hassan Rouhanis sem forseta Írans fyrr á síðastliðnu ári í því sambandi. Þá var fjallað um ástandið í Sýrlandi sem hefur versnað mjög á undanförnum mánuðum. Lítill áhugi er á meðal bandarísks almennings á virkri þátttöku eða beinni íhlutun Bandaríkjanna í landinu. Stjórn Assads forseta virðist ekki óttast íhlutun alþjóðasamfélagsins lengur og ræðst af hörku á íbúðarhverfi á valdi uppreisnarmanna vitandi að almennir borgarar verða helst fyrir árásunum. Þó er þess gætt að beita ekki efnavopnum til þess að búa ekki til ástæðu fyrir erlenda íhlutun. Ástandið er afar slæmt og er áætlað að helmingur íbúa Sýrlands þarfnist nú neyðaraðstoðar. Össur Skarphéðinsson sagði ákvörðun Obama Bandaríkjaforseta um að svara ekki efnavopnaárás sýrlenska stjórnarhersins á íbúðarhverfi í Damaskus í ágúst síðastliðnum hafa styrkt Assad forseta og markað þáttaskil í baráttunni um Sýrland. Spurði hann hvort Vesturlönd gætu setið hjá ef Assad ákveður að ganga milli bols og höfuðs á andstæðingum sínum. Fram kom það mat þátttakenda í umræðunni að eftir á að hyggja hefði alþjóðasamfélagið átt að grípa í taumana í Sýrlandi sumarið 2012. Síðan þá hefur allt þróast á verri veg og útlit er fyrir að enn syrti í álinn á komandi mánuðum og að ástandið í landinu verði verra að ári en það er nú. Vesturlönd munu væntanlega sitja hjá eins lengi og þau geta en þrýstingur á íhlutun mun aukast ef þróunin leiðir til fullkominnar upplausnar og falls sýrlenska ríkisins.
    Þá var rætt um baráttuna gegn hryðjuverkum. John McLaughlin, fyrrverandi starfandi forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, og James Q. Roberts, fyrrum yfirmaður skrifstofu baráttu gegn hryðjuverkum hjá varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, fluttu framsöguerindi en auk þeirra tóku fjölmargir þingmenn til máls. Í umræðum kom m.a. fram að miklar breytingar ættu sér stað á skipulagi hryðjuverka. Í stað eins stórs geranda með sterkt skipulag, fastar boðleiðir og miðstjórnarvald sem einkenndi al Kaída væru nú margir og smærri ótengdir hryðjuverkahópar starfandi sem erfitt væri að finna og henda reiður á. Þá hefði brotthvarf hersveita Bandaríkjanna frá Írak og Afganistan það í för með sér að annars vegar væri hætta á að hryðjuverkahópar fái aukið svigrúm til að athafna sig á þessum svæðum og hins vegar minnki möguleikar öryggisstofnana Bandaríkjanna til að fylgjast með þeim. Þá er það almennt svo að í kjölfar upplausnar og stjórnarfarsbreytinga arabíska vorsins nær vald ríkisstjórna í Miðausturlöndum sjaldnast langt út fyrir höfuðborgir og helstu þéttbýliskjarna og þar með verður til svigrúm til athafna fyrir herskáa hópa. Þá væru innlendar öryggisstofnanir í þessum ríkjum sem áður fylgdust með slíkum hópum sums staðar í upplausn og við það að marka sér nýtt hlutverk samfara nýjum valdhöfum. Hætta á hryðjuverkaárásum á Vesturlönd væri því meiri nú en fyrir tveimur árum. Þá kom fram að við beitingu ómannaðra loftfara til árása á leiðtoga hryðjuverkasamtaka væru slíkar árásir jafnan skipulagðar í samráði við gistiríki viðkomandi þótt annað hefði komið fram í fjölmiðlum.
    Einnig var fjallað um Afganistan. Ronald R. Neumann, fyrrverandi sendiherra, og John R. Allen, fyrrverandi hershöfðingi, fluttu inngangsávörp en auk þeirra tók fjöldi þingmanna þátt í umræðunni. Fram kom m.a. að vel hefði gengið að byggja upp innlendar öryggissveitir sem tekið hefðu við stjórn flestra svæða landsins og að brottflutningi ISAF-sveita NATO verði lokið fyrir árslok 2014. Eftir brottför fjölþjóðahersins þarf engu að síður mjög dyggan stuðning við stjórnvöld í Afganistan til að tryggja þau í sessi enda er öryggi og stöðugleiki forsenda þess að hagkerfið geti þróast eftir stríðstímann. Enn er ósamið milli stjórna Bandaríkjanna og Afganistan um hvort Bandaríkjaher verði með einhverja viðveru í landinu eftir 2014.

Nefndarfundir.
    Björgvin G. Sigurðsson sótti nefndarfundi stjórnmálanefndar í París í febrúar 2013. Birgir Ármannsson sótti nefndarfundi öryggis- og varnarmálanefndar í Izmir, Adana, Ankara og Istanbúl í september sl. Þá sóttu Össur Skarphéðinsson og Birgir Ármannsson ráðstefnu á vegum NATO-þingsins í Washington í desember sl.

Alþingi, 28. febrúar 2014.



Þórunn Egilsdóttir,


formaður.


Össur Skarphéðinsson,


varaformaður.


Birgir Ármannsson.





Fylgiskjal.


Ályktanir NATO-þingsins árið 2013.


     Ársfundur í Dubrovnik, 11.–14. október:
          Ályktun 401 um frekari stöðugleika á Vestur-Balkanskaga.
          Ályktun 402 um Afganistan: endurnýjun leiðarvísis varðandi stjórnmál, öryggismál og efnahagsmál frá árinu 2014.
          Ályktun 403 um efnahagslegt mikilvægi olíu- og gasvinnslu.
          Ályktun 404 um aukið mikilvægi Kyrrahafssvæðis Asíu fyrir NATO.
          Ályktun 405 um ástandið í Sýrlandi með skírskotun til heimshlutans og áhrif þess á nágrannaríki.
          Ályktun 406 um bætt skilyrði landhers NATO.
          Ályktun 407 um nýjar hugmyndir varðandi herafla NATO.