Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 373. máls.

Þingskjal 682  —  373. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um endurskoðendur, nr. 79/2008 ,
með síðari breytingum (eftirlit endurskoðendaráðs o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Við 6. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Endurskoðendaráð hefur eftirlit með því að ekki sé brotið gegn þessu ákvæði.
     b.      1. málsl. 10. mgr. orðast svo: Hafi endurskoðandi lagt inn réttindi sín eða þau verið felld niður, tímabundið eða ótímabundið, skal nafn hans fellt út af skrá, sbr. 1. mgr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                  Endurmenntunin skal að lágmarki svara til 20 klukkustunda á ári og samtals 120 klukkustunda á þriggja ára tímabili. Endurmenntunartímabil skal vera það sama fyrir alla endurskoðendur. Endurmenntunartímabil endurskoðanda sem fær löggildingu í fyrsta sinn hefst 1. janúar árið eftir að löggilding er veitt og skal viðkomandi sækja endurmenntun í hlutfalli við þann tíma sem þá er eftir af viðkomandi endurmenntunartímabili.
     b.      Orðið „hverju“ fyrra sinni í 3. mgr. fellur brott.
     c.      Í stað orðanna „á hverju þriggja ára tímabili“ í 4. mgr. kemur: á hverju endurmenntunartímabili.

3. gr.

    Á eftir 11. gr. laganna kemur ný grein, 11. gr. a, svohljóðandi:
    Endurskoðandi skal varðveita vinnuskjöl vegna endurskoðunar á tryggan og öruggan hátt í sjö ár frá áritunardegi endurskoðunar.

4. gr.

    4. tölul. 13. gr. laganna felur brott.

5. gr.

    Í stað orðsins „fylgjast“ í 2. mgr. 15. gr. laganna kemur: hafa eftirlit.

6. gr.

    Við 17. gr. laganna bætast fimm nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Nú lætur endurskoðandi ekki skipast við áminningu skv. 2. mgr. eða hann vanrækir alvarlega skyldur sínar að mati endurskoðendaráðs eða hefur ítrekað verið áminntur vegna brota sinna, án þess að starfsemi hans teljist komin í gott horf, og skal þá ráðið fella réttindi hans til endurskoðunarstarfa niður tímabundið. Áður en til þess kemur skal það gefa honum kost á að koma sjónarmiðum sínum að sé þess kostur.
    Telji endurskoðendaráð að endurskoðandi, sem ráðið hefur tímabundið fellt niður réttindi hjá, hafi bætt að fullu úr því sem ábótavant var og var tilefni niðurfellingar skal ráðið afturkalla niðurfellinguna.
    Tímabundin niðurfelling réttinda getur ekki verið lengur en til tólf vikna.
    Nú veitir endurskoðendaráð endurskoðanda áminningu eða fellir niður réttindi hans tímabundið og skal þá ráðið tilkynna ráðuneytinu það þegar í stað.
    Hafi endurskoðandi ekki bætt að fullu úr því sem ábótavant var og var tilefni niðurfellingar skal endurskoðendaráð leggja til við ráðherra að réttindin verði felld niður ótímabundið. Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. helst niðurfelling réttinda endurskoðanda meðan mál er til meðferðar hjá ráðherra.

7. gr.

    Við 7. mgr. 18. gr. laganna bætist: og rökstudd álit skv. 2. mgr. 17. gr. Birta skal nöfn endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja.

8. gr.

    Á eftir 18. gr. laganna kemur ný grein, 18. gr. a, svohljóðandi:
    Endurskoðendur, endurskoðunarfyrirtæki, starfsmenn endurskoðunarfyrirtækja og aðrir þeir sem aðkomu hafa að endurskoðunarverkefnum skulu veita endurskoðendaráði allar þær upplýsingar sem ráðið óskar eftir í tengslum við þau verkefni sem endurskoðendaráði eru falin í lögunum. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar samkvæmt þessari grein.
    Endurskoðendaráð hefur heimild til að óska eftir upplýsingum og gögnum frá öðrum aðilum í tengslum við verkefni sem endurskoðendaráði eru falin í lögum þessum.

9. gr.

    Á eftir 2. mgr. 22. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Endurskoðendaráð skal bera ábyrgð á að reglulegt gæðaeftirlit með störfum endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja fari fram, sbr. 3. tölul. 2. mgr. 15. gr. Heimilt er að leggja sérstakt gjald á endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki til að standa straum af kostnaði við gæðaeftirlit sem beinist að störfum þeirra.

10. gr.

    Á eftir 26. gr. laganna kemur ný grein, 26. gr. a, svohljóðandi:
    Ráðherra getur afturkallað starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækis:
     1.      hafi fyrirtækið fengið starfsleyfið á grundvelli rangra upplýsinga,
     2.      fullnægi fyrirtækið ekki ákvæðum 3. gr. og 4. mgr. 4. gr.,
     3.      að tillögu endurskoðendaráðs, sbr. 3. mgr. 25. gr.
    Áður en til afturköllunar kemur skv. 1. mgr. skal fyrirtækinu veittur hæfilegur frestur til úrbóta sé unnt að koma úrbótum við.
    Afturköllun á starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækis skal tilkynnt stjórn þess og rökstudd skriflega. Starfræki fyrirtækið útibú eða þjónustustarfsemi í öðru ríki skal tilkynningin send lögbærum eftirlitsaðilum í því ríki.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 1. málsl. 9. gr. öðlast þó gildi 1. janúar 2015.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um endurskoðendur, nr. 79/2008. Hluti þess var lagður fram af efnahags- og viðskiptaráðherra á 140. löggjafarþingi og af atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra á 141. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu frá því að það var lagt fram á fyrri þingum. Nánar er farið yfir þær breytingar í almennum athugasemdum.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Fimm ár eru frá því að núgildandi lög um endurskoðendur tóku gildi og hafa ráðuneytinu borist ábendingar endurskoðendaráðs um atriði sem valdið hafa ráðinu vandkvæðum við framkvæmd þess eftirlits sem því er falið í lögunum. Einnig hafa ráðuneytinu borist ábendingar frá Félagi löggiltra endurskoðenda. Talið var rétt að ráðast í þær breytingar sem lagðar eru fram í þessu frumvarpi til að gera lögin skýrari með tilliti til úrræða og eftirlits endurskoðendaráðs.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem ætlað er að koma til móts við ábendingar endurskoðendaráðs sem og ábendingar sem borist hafa frá Félagi löggiltra endurskoðenda. Komin er fimm ára reynsla á núgildandi lög og hafa komið fram ábendingar þessa aðila hvað betur megi fara varðandi hlutverk eftirlitsaðila endurskoðenda og framkvæmd laganna.
    Lagt er til að kveðið verði sérstaklega á um það í lögunum að endurskoðendaráð hafi eftirlit með því að engir aðrir en endurskoðendur og endurskoðendafyrirtæki noti orðin endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki í starfs- eða firmaheitum sínu. Talið var rétt að taka af allan vafa um hverjum ber að hafa eftirlit með þessu ákvæði.
    Bent hefur verið á að óvissu gætir varðandi birtingu ákvarðana endurskoðendaráðs en sérstaklega er tiltekið í lögunum að endurskoðendaráð skuli birta opinberlega og rekja alla úrskurði ráðsins en ekki er minnst rökstudd álit ráðsins. Er því lagt til í frumvarpi þessu að rökstudd álit ráðsins skuli einnig birt opinberlega og að birt skuli nöfn þeirra endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja sem um ræðir.
    Í frumvarpinu er lagt til að framkvæmd gæðaeftirlitsins verði flutt frá Félagi löggiltra endurskoðenda til endurskoðendaráðs en endurskoðendaráð ber, samkvæmt núgildandi lögum, ábyrgð á að reglulegt gæðaeftirlit endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja fari fram. Einnig verði tekið sérstaklega fram að heimilt sé að leggja sérstakt gjald á endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki til að standa straum af kostnaði við gæðaeftirlitið.
    Gerð er tillaga um að endurskoðendaráði verði heimilað að fella niður réttindi endurskoðanda til endurskoðunarstarfa tímabundið í 12 vikur ef endurskoðandi lætur ekki skipast við áminningu eða hann vanrækir alvarlega skyldur sínar að mati endurskoðendaráðs eða hefur ítrekað verið áminntur vegna brota sinna, án þess að starfsemi hans teljist komin í gott horf. Þannig getur endurskoðendaráð fellt niður í 12 vikur réttindi endurskoðanda sem t.d. sinnir endurskoðunarverkefnum án þess að vera með gilda starfsábyrgðartryggingu.
    Bent hefur verið á að mikilvægt sé að lögin tiltaki skyldu endurskoðenda til að varðveita vinnuskjöl vegna endurskoðunar á tryggan og öruggan hátt og er talið eðlilegt hvað tímalengd varðar að miðað sé við geymslutíma bókhaldsgagna, þ.e. sjö ár frá áritunardegi endurskoðunar, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald.
    Lögð er til breyting á endurmenntunartímabili endurskoðenda þannig að í stað þess að hver endurskoðandi hafi sérstakt endurmenntunartímabil, eins og nú er, verði aðeins eitt endurmenntunartímabil fyrir alla endurskoðendur. Þeir endurskoðendur sem fá réttindi innan tímabilsins skila endurmenntunareiningum í hlutfalli við þann tíma sem viðkomandi hefur haft réttindi. Gera verður breytingar á reglugerð um endurmenntun endurskoðenda til samræmis við þessa tillögu.
    Gerð er tillaga um að skýrt verði með hvaða hætti ráðherra geti afturkallað starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækja þegar fyrirtæki hafa fengið starfsleyfið á grundvelli rangra upplýsinga, þau fullnægja ekki ákvæðum laganna um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis eða eftir tillögu endurskoðendaráðs.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið þótti ekki kalla á sérstaka skoðun á samræmi við stjórnarskrá.

V. Samráð.
    Við samningu frumvarpsins hafði ráðuneytið samráð við endurskoðendaráð og Félag löggiltra endurskoðenda. Komu aðilar með gagnlegar ábendingar um efnisatriði frumvarpsins.

VI. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarp þetta að lögum mun það stuðla að betra og skilvirkara eftirliti með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum. Endurskoðendaráði eru með frumvarpinu veittar auknar heimildir, m.a. til að kalla eftir gögnum vegna framkvæmdar eftirlits með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum. Ráðið getur fellt niður starfsréttindi tímabundið og það fær skýrari heimildir til að birta álit sín opinberlega. Lagt er til að endurskoðendaráði verði falið að bera ábyrgð á að reglulegt gæðaeftirlit fari fram og að framkvæmdin sé ekki lengur í höndum Félags löggiltra endurskoðenda. Kostnaður við framkvæmd gæðaeftirlits hjá endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki hefur verið greiddur af viðkomandi aðila sem gæðaeftirlit er framkvæmt hjá og lagt er til að sú framkvæmd haldist.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í a-lið 1. gr. er lagt til að kveðið verði sérstaklega á um það í lögunum að endurskoðendaráð hafi eftirlit með því að ekki noti aðrir en endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki orðin endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki í starfs- eða firmaheitum sínum þar sem talið er að ekki sé skýrt samkvæmt lögunum hverjum ber að hafa eftirlit með þessu ákvæði sem ekki er talið falla beint undir valdsvið endurskoðendaráðs. Tekið er af skarið með það að endurskoðendaráð hafi heimild til að vera í samskiptum við slíka aðila. Samkvæmt núgildandi lögum virðist ætlunin einungis hafa verið sú að ráðið eigi aðeins að hafa afskipti af endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum. Berist endurskoðendaráði ábendingar að aðili brjóti gegn þessu ákvæði ber ráðinu að taka málið til skoðunar.
    Í b-lið 1. gr. er lagt til að skýrt verði þegar talað er um niðurfellingu réttinda í 4. gr. laganna að þar sé átt við bæði tímabundna og ótímabundna niðurfellingu þar sem í 6. gr. þessa frumvarps er lögð til tímabundin svipting. Er þá í framhaldinu endurskoðandi tekinn af opinberri skrá yfir endurskoðendur, sbr. 1. mgr. 4. gr., þegar réttindi hans eru felld niður tímabundið. Skal þá ráðherra auglýsa tímabundnu niðurfellinguna í Lögbirtingablaði eins og ótímabundnu niðurfellinguna og tilkynna endurskoðendaráði og Félagi löggiltra endurskoðenda, sbr. 7. mgr. 4. gr. laganna.

Um 2. gr.

    Lögð er til breyting á endurmenntunartímabili endurskoðenda þannig að í stað þess að hver endurskoðandi hafi sérstakt endurmenntunartímabil, eins og nú er, sé aðeins eitt endurmenntunartímabil fyrir alla endurskoðendur. Núverandi fyrirkomulag hefur valdið vandkvæðum við eftirlit með því að endurskoðendur uppfylli ákvæði laganna og reglugerðar um endurmenntun. Því er lagt til að allir endurskoðendur verði að uppfylla endurmenntunarkröfur innan sama þriggja ára tímabils. Þeir endurskoðendur sem fá réttindi innan tímabilsins skila endurmenntunareiningum í hlutfalli við þann tíma sem viðkomandi hefur haft réttindi á því tímabili. Gera verður breytingar á reglugerð um endurmenntun endurskoðenda til samræmis við þessa tillögu.

Um 3. gr.

    Lagt er til að endurskoðendum verði gert að varðveita vinnuskjöl vegna endurskoðunar á tryggan og öruggan hátt í sjö ár frá áritunardegi endurskoðunar. Bent hefur verið á að mikilvægt sé að lögin tiltaki skyldu endurskoðenda til að varðveita vinnuskjöl vegna endurskoðunar á tryggan og öruggan hátt og er talið eðlilegt hvað tímalengd varðar að miðað sé við geymslutíma bókhaldsgagna, þ.e. sjö ár frá áritunardegi endurskoðunar, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald.

Um 4. gr.

    Lagt er til í frumvarpinu að framkvæmd gæðaeftirlits með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum verði flutt frá Félagi löggiltra endurskoðenda til endurskoðendaráðs, sbr. 9. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr.

    Lagðar eru til orðalagsbreytingar í 2. mgr. 15. gr. laganna þannig að í stað þess að kveðið sé á um að endurskoðendaráð skuli sérstaklega „fylgjast“ með komi að endurskoðendaráð skuli sérstaklega „hafa eftirlit“ með. Ekki er um efnislega breytingu að ræða.

Um 6. gr.

    Gerð er tillaga um að endurskoðendaráði verði heimilað að fella niður réttindi endurskoðanda til endurskoðunarstarfa tímabundið í 12 vikur ef endurskoðandi lætur ekki skipast við áminningu eða hann vanrækir alvarlega skyldur sínar að mati endurskoðendaráðs eða hefur ítrekað verið áminntur vegna brota sinna án þess að starfsemi hans teljist komin í gott horf. Þannig getur endurskoðendaráð fellt niður í 12 vikur réttindi endurskoðanda, t.d. til að koma í veg fyrir að endurskoðandi sinni endurskoðunarverkefnum án þess að vera með gilda starfsábyrgðartryggingu. Sambærilega heimild er að finna í lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa þar sem eftirlitsnefnd Félags fasteignasala er heimilað að svipta fasteignasala löggildingu tímabundið í tilteknum tilvikum.

Um 7. gr.

    Nokkurrar óvissu hefur gætt um birtingu ákvarðana endurskoðendaráðs þar sem einungis var tekið fram í lögunum að birta skuli opinberlega og rekja alla úrskurði ráðsins og er því talin óvissa um birtingu rökstuddra álita ráðsins skv. 17. gr. laganna. Er því lagt til að það verði tekið skýrt fram að rökstudd álit ráðsins skuli einnig birt opinberlega. Þar er einnig lagt til að nöfn endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja verði birt. Skv. 3. mgr. 8. gr. laganna er endurskoðandi opinber sýslunarmaður við framkvæmd endurskoðunarstarfa. Það er mikilvægt fyrir samfélagið að endurskoðandi gæti óhæðis og sýni hlutleysi í starfi sínu þar sem notendur endurskoðaðra ársreikninga eru jafnan þriðju aðilar sem ekki standa í beinum tengslum við ráðningarsamband endurskoðandans og verkkaupa. Þannig reiða fjárfestar sig á endurskoðuð reikningsskil við ákvörðunartöku um fjárfestingar. Talið er að það hafi almenn varnaðaráhrif að birta niðurstöður þar sem aðilar eru nafngreindir auk þess sem það geti skipt máli fyrir þriðju aðila að fá vitneskju um tiltekin brot á lögunum.

Um 8. gr.

    Lagt er til að endurskoðendum, endurskoðunarfyrirtækjum, starfsmönnum endurskoðunarfyrirtækja og öðrum þeim sem aðkomu hafa að endurskoðunarverkefnum verði skylt að veita endurskoðendaráði upplýsingar í tengslum við þau verkefni sem ráðinu eru falin með lögunum. Er hér átt við eftirlit skv. 15. gr. laganna, mál sem ráðið tekur til meðferðar að eigin frumkvæði skv. 16. gr. laganna og samvinnu við erlenda eftirlitsaðila skv. 15. gr. laganna.
    Jafnframt er lagt til að kveðið verði á um það í lögunum að endurskoðendaráði sé heimilt að óska eftir upplýsingum og gögnum frá öðrum aðilum í tengslum við þau verkefni sem ráðinu eru falin með lögunum. Eins og segir í skýringum við 1. mgr. er hér átt við eftirlit skv. 15. gr. laganna, mál sem ráðið tekur til meðferðar að eigin frumkvæði skv. 16. gr. laganna og samvinnu við erlenda eftirlitsaðila skv. 15. gr. laganna.

Um 9. gr.

    Í 15. gr. núgildandi laga er endurskoðendaráði falið eftirlit með því að reglulegt gæðaeftirlit með störfum endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja fari fram og í 13. gr. laganna er Félagi löggiltra endurskoðenda falið í samráði við endurskoðendaráð að annast gæðaeftirlit með störfum endurskoðenda. Í þessu frumvarpi er lagt til að endurskoðendaráði sé falið að bera ábyrgð á að reglulegt gæðaeftirlit fari fram og framkvæmdin sé ekki lengur í höndum Félags löggiltra endurskoðenda. Jafnframt er talið rétt að kveðið sé sérstaklega á um það í ákvæðinu að heimilt sé að leggja á endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki gjald til að standa straum af kostnaði við gæðaeftirlit sem beinist að störfum þeirra. Endurskoðendur hafa greitt sérstaklega fyrir gæðaeftirlit sem beinist að þeim og verður svo áfram. Kostnaður við gæðaeftirlitið felst í kostnaði gæðaeftirlitsmanna við framkvæmd gæðaeftirlitsins og umsýslu eftirlits- og framkvæmdaraðila gæðaeftirlitsins, svo sem hvað varðar undirbúning og skipulagningu, yfirferð og samantekt gæðaeftirlitsins.

Um 10. gr.

    Gerð er tillaga um að skýrt verði með hvaða hætti ráðherra geti afturkallað starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækja hafi fyrirtæki fengið starfsleyfið á grundvelli rangra upplýsinga, fullnægi þau ekki ákvæðum laganna um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis eða að tillögu endurskoðendaráðs. Ráðherra hefur sambærilega heimild til niðurfellingar réttinda endurskoðenda.

Um 11. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi nema 1. málsl. 9. gr. varðandi færslu á framkvæmd gæðaeftirlitsins frá Félagi löggiltra endurskoðenda til endurskoðendaráðs þar sem gæðaeftirlit 2014 er þegar hafið.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um endurskoðendur,
nr. 79/2008, með síðari breytingum (eftirlit endurskoðendaráðs o.fl.).

    Með frumvarpi þessu er ætlunin að færa í lög ýmsar tillögur og ábendingar endurskoðendaráðs og Félags löggiltra endurskoðenda er varða framkvæmd laganna. Helstu breytingar sem í frumvarpinu felast eru eftirtaldar. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að framkvæmd gæðaeftirlits með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum verði flutt frá Félagi löggiltra endurskoðenda til endurskoðendaráðs. Í því skyni er í frumvarpinu lagt til að heimilt verði að leggja sérstakt gjald á viðkomandi aðila til að standa straum af kostnaði við gæðaeftirlit sem beinist að störfum þeirra. Hér er um lögþvingað gjald að ræða, áþekkt því sem nú þegar er innheimt af endurskoðendum samkvæmt gildandi lögum og er ætlað til að standa undir starfsemi endurskoðendaráðs. Kostnaður við gæðaeftirlitið felst í störfum gæðaeftirlitsmanna við framkvæmd gæðaeftirlitsins og umsýslu eftirlits- og framkvæmdaraðila gæðaeftirlitsins, svo sem undirbúningi og skipulagningu, yfirferð og samantekt gæðaeftirlitsins. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu hefur kostnaður við þetta gæðaeftirlit verið um 10 m.kr. á ári. Eftirlitsskyldir aðilar hafa í reynd verið að greiða fyrir gæðaeftirlitið þannig að hér er í sjálfu sér ekki um að ræða breytta framkvæmd heldur er ætlunin að skerpa á heimild fyrir gjaldtökunni í lögunum. Í öðru lagi er lögð til breyting á endurmenntunartímabili endurskoðenda þannig að í stað þess að hver endurskoðandi hafi sitt endurmenntunartímabil eins og nú er verði aðeins eitt tímabil fyrir alla endurskoðendur. Í þriðja lagi er lagt til að geyma skuli vinnugögn endurskoðenda á tryggan og öruggan hátt í sjö ár. Í fjórða lagi er lagt til að endurskoðendaráði verði í tilteknum tilvikum heimilað að fella tímabundið í 12 vikur niður réttindi endurskoðanda til endurskoðunarstarfa. Í fimmta lagi er gert ráð fyrir að endurskoðendur, endurskoðunarfyrirtæki, starfsmenn endurskoðunarfyrirtækja og aðrir sem aðkomu hafa að endurskoðunarverkefnum skuli veita endurskoðendaráði allar þær upplýsingar sem ráðið óskar eftir í tengslum við verkefni sem endurskoðendaráði eru falin í lögunum. Í sjötta lagi er lagt til að endurskoðendaráð skuli birta rökstudd álit opinberlega og skulu nöfn endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja birt. Í sjöunda lagi er lagt til að ráðherra geti í tilteknum tilvikum afturkallað starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækja.
    Í ljósi þessa fyrirkomulags og með hliðsjón af lögum um fjárreiður ríkisins telur fjármála- og efnahagsráðuneytið að innheimt gjald og ráðstöfun þess til að mæta kostnaði við gæðaeftirlit, sem leiða kann af ákvæðum frumvarpsins, beri að færa í fjárlög og ríkisreikning á svipaðan hátt og á við um önnur lögþvinguð eftirlitsgjöld og ráðstöfun þeirra. Felur það í sér að í fjárlögum verði veitt fjárheimild jafnhá lögboðna gjaldinu til að heimila ráðstöfun á því til endurskoðendaráðs. Áætlað er að árlegur kostnaður við gæðaeftirlit endurskoðendaráðs gæti numið í kringum 10 m.kr., sem færist þá til gjalda í ríkisreikningi. Á móti komi jafnháar tekjur af eftirlitsgjaldinu sem færist á tekjuhlið ríkissjóðs. Lögfesting frumvarpsins eykur því veltuna sem færist í reikningshald ríkissjóðs sem þessu nemur en ætti ekki að hafa áhrif á afkomu hans.