Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 375. máls.

Þingskjal 686  —  375. mál.Frumvarp til laga

um heimild til að staðfesta fjárfestingarsamning við Algalíf Iceland ehf. um smáþörungaverksmiðju á Reykjanesi.

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)
1. gr.
Heimild.

    Ráðherra er veitt heimild til að staðfesta fyrir hönd ríkisstjórnarinnar fjárfestingarsamning við Algalíf Iceland ehf. (félagið) sem undirritaður var 28. janúar 2014 með fyrirvara um heimild Alþingis.
    Starfsemi félagsins skal vera í samræmi við íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli, nema að því leyti sem á annan veg er mælt fyrir í lögum þessum.
    Fjárfestingarsamningur sá sem ráðherra undirritar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og veitt er heimild til að staðfesta samkvæmt lögum þessum skal birtur í B-deild Stjórnartíðinda.

2. gr.
Verkefnið.

    Verkefnið sem lög þessi taka til felur í sér að félagið rekur smáþörungaframleiðslu við Ásbrú á Reykjanesi, eins og nánar er kveðið á um í fjárfestingarsamningnum.

3. gr.
Undanþágur frá lögum.

    Félagið skal undanþegið ákvæðum 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, þar sem sett eru þau skilyrði að 4/ 5 hlutar hlutafjár hlutafélags séu eign íslenskra ríkisborgara, að meiri hluti atkvæða á hluthafafundum sé í höndum íslenskra ríkisborgara og að allir stjórnendur séu íslenskir ríkisborgarar.
    Félagið skal undanþegið ákvæðum 2. mgr. 42. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, þar sem þess er krafist að meiri hluti stjórnarmanna og framkvæmdastjóri einkahlutafélags skuli vera búsettir á Íslandi, svo og sambærilegum ákvæðum er kunna síðar að verða leidd í lög.

4. gr.
Skattlagning og gjaldtaka.

    Félagið skal greiða skatta og önnur opinber gjöld sem almennt eru lögð á hér á landi, eftir þeim reglum sem um þau gilda samkvæmt lögum á hverjum tíma, nema að því leyti sem á annan veg er fyrir mælt í lögum þessum.
    Þrátt fyrir ákvæði í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og breytingar sem síðar kunna að verða á þeim lögum skal félagið greiða 18% tekjuskatt. Fastafjármunir sem tengjast félaginu teljast vera byggingar, vélar og almennir rekstrarfjármunir með föstu hlutfalli sem skulu flokkaðir skv. 37. og 38. gr. laga nr. 90/2003.
    Félagið skal undanþegið stimpilgjöldum af öllum stimpilskyldum skjölum sem félagið gefur út eða stofnað er til í tengslum við uppbyggingu vegna fjárfestingarverkefnisins.
    Almennt tryggingagjald sem félagið greiðir skal vera 50% lægra en það sem kveðið er á um í lögum um tryggingagjald eins og þau eru og verða á samningstímanum.
    Hlutfall fasteignaskatts sem félagið greiðir skal vera 50% lægra en áskilið hámarkshlutfall skv. II. kafla laga nr. 4/1995. Sama regla skal gilda við breytingar sem síðar kunna að verða á þeim lögum.
    Gjaldhlutfall gatnagerðargjalds sem félagið greiðir skal vera 30% lægra en samkvæmt almennri gjaldskrá Reykjanesbæjar.
    Félagið skal undanþegið markaðsgjaldi samkvæmt lögum nr. 38/2010, um Íslandsstofu, með áorðnum breytingum, sem og öðrum ámóta eða efnislega svipuðum sköttum eða gjöldum sem kynnu að verða lögð á síðar, til viðbótar við eða í staðinn fyrir markaðsgjald.
    Á því ári sem nýjar eignir eru teknar í notkun getur félagið valið að fyrna þær eignir með hlutfalli árlegrar fyrningar í stað heils árs fyrningar eins og annars er kveðið á um í 34. gr. laga nr. 90/2003. Þrátt fyrir ákvæði 42. gr. laga nr. 90/2003 er félaginu heimilt að fyrna eignir sínar þannig að ekki standi eftir niðurlagsverð.
    Innflutningur eða innkaup innan lands af hálfu eða fyrir hönd félagsins á byggingarefnum, hráefnum og öllum öðrum framleiðsluaðföngum, sem nauðsynleg eru til reksturs verksmiðjunnar, vélum og búnaði og öðrum framleiðslutækjum og varahlutum í verksmiðjuna og til reksturs hennar, skulu undanþegin íslenskum aðflutningsgjöldum samkvæmt tollalögum, nr. 88/2005, og lögum nr. 97/1987, um vörugjald, svo og hvers kyns ámóta eða efnislega svipuðum sköttum og gjöldum sem kynnu að verða lögð á til viðbótar við eða í staðinn fyrir slík gjöld.
    Ívilnanir, undanþágur, undantekningar og önnur ákvæði þessarar greinar skulu halda fullu gildi í 10 ár frá þeim tíma sem til viðkomandi skattskyldu eða gjaldskyldu er stofnað af hálfu félagsins, en þó aldrei lengur en í 13 ár frá gildistöku samningsins, þrátt fyrir síðari breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, lögum nr. 38/2010, um Íslandsstofu, tollalögum, nr. 88/2005, lögum nr. 97/1987, um vörugjald, lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, eða öðrum lögum eða afleiddum lögum sem annars kynnu að takmarka eða draga úr áhrifunum sem stefnt er að með ákvæðum greinarinnar.
    Almenn ákvæði íslenskra laga um tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á og í gildi eru á hverjum tíma og varða skattframtal, framtalsfrest, álagningu, endurskoðun, endurálagningu, innheimtu, gjalddaga og greiðslu, sem og aðrar uppgjörsreglur varðandi tekjuskatt, virðisaukaskatt og útsvar, auk andmæla og ágreinings í tengslum við þau, skulu gilda um félagið.
    Á gildistíma fjárfestingarsamningsins getur félagið valið að almenn ákvæði íslenskra skattalaga, eins og þau eru á hverjum tíma, gildi um það fremur en sérákvæði fjárfestingarsamningsins. Beiðni um slíka breytingu skal gerð með skriflegri tilkynningu sem lögð skal fram eigi síðar en 1. júní á almanaksári áður en breytingin á að taka gildi. Berist slík beiðni skulu ríkisstjórnin, eigandinn og félagið þegar ganga til samninga um breytinguna yfir í hið almenna skattkerfi. Ríkisstjórnin, eigandinn og félagið skulu koma sér saman um aðferðir við framkvæmd slíkrar breytingar. Eftir það skal félagið lúta almennum íslenskum skattalögum það sem eftir er af gildistíma fjárfestingarsamningsins.

5. gr.
Framsal.

    Heimilt er að semja um framsal eignarhluta í félaginu eða á réttindum og skyldum félagsins samkvæmt fjárfestingarsamningnum með tilteknum skilyrðum sem koma fram í honum.

6. gr.
Lögsaga.

    Uppbygging, túlkun og framkvæmd samninga, sem eru gerðir innan ramma þessara laga, skal lúta íslenskum lögum og lögsögu íslenskra dómstóla.

7. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Með frumvarpi þessu er lagt til að ríkisstjórn Íslands og iðnaðar- og viðskiptaráðherra fyrir hennar hönd verði veitt heimild til að staðfesta fjárfestingarsamning við félagið Algalíf Iceland ehf. um smáþörungaverksmiðju við Ásbrú á Reykjanesi í samræmi við ákvæði frumvarpsins, en samningurinn var undirritaður 28. janúar 2014 með fyrirvara um samþykki Alþingis. Samningurinn er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að auka nýfjárfestingu á Íslandi, með áherslu á verkefni sem hafa jákvæð efnahagsleg áhrif í framtíðinni og stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi. Í þessu skyni hefur ríkisstjórnin einsett sér að styðja við stofnun nýrra útflutningsgreina á Íslandi sem hafa jákvæð heildaráhrif á samfélag og efnahag.

2. Tilefni og nauðsyn.
2.1. Ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.
    Þann 3. júlí 2010 gengu í gildi lög nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, en markmið þeirra laga var að efla nýfjárfestingu í atvinnurekstri, samkeppnishæfni Íslands og byggðaþróun með því að tilgreina hvaða ívilnanir heimilt væri að veita vegna nýfjárfestinga hér á landi og hvernig þeim skuli beitt. Á grundvelli laganna var iðnaðarráðherra veitt heimild til að gera samninga fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um aðkomu ríkisins og, eftir atvikum, sveitarfélaga vegna nýfjárfestinga hér á landi. Með lögunum var horfið frá því fyrirkomulagi að samþykkja sérlög um ívilnanir fyrir einstök fyrirtæki, en fyrir gildistíma laganna höfðu nokkur slík sérlög verið samþykkt. Í því sambandi má m.a. nefna lög nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, lög nr. 12/2003, um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði, lög nr. 51/2009, um heimild til samninga um álver í Helguvík, og lög nr. 57/2010, um heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ. Í þessum lögum er kveðið á um að þar tilgreind félög, sem stofnuð eru í þeim tilgangi að reisa og reka viðkomandi álver eða gagnaver, skuli greiða skatta og önnur opinber gjöld, sem almennt eru lögð á hér á landi, eftir þeim reglum sem um þau gilda samkvæmt lögum á hverjum tíma, nema að því leyti sem á annan veg er mælt í þeim lögum. Er síðan með tæmandi hætti talið upp í lögunum hvaða skattalegu frávik gilda fyrir viðkomandi félög, með sams konar hætti og talið er upp í fjárfestingarsamningum sem gerðir voru vegna álveranna og gagnaversins.
    Á grundvelli laga nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, með síðari breytingum, hafa á sl. árum verið gerðir fjárfestingarsamningar við sex félög. Lögin féllu hins vegar úr gildi 31. desember 2013 og því er nauðsynlegt að leita sérstakrar heimildar Alþingis fyrir fjárfestingarsamning við Algalíf Iceland ehf. Með frumvarpi því sem hér er lagt fram er með sams konar hætti og í lögum nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, og framangreindum sérlögum og fjárfestingarsamningum gert ráð fyrir því að almennar skattareglur gildi um félagið, með tilteknum frávikum sem með tæmandi hætti eru tilgreind í frumvarpinu.

2.2. Lýsing á Algalíf Iceland ehf. og fyrirhugaðri starfsemi í Reykjanesbæ.
    Félagið Algalíf Iceland ehf. var stofnað í ágúst 2012 og er að fullu í eigu einkahlutafélagsins Algalíf A/S, sem er með heimilisfesti í Noregi. Stærsti eigandi Algalíf A/S er norska félagið NutraQ A/S með 99,7% hlut. Starfsemi NutraQ A/S felst einkum í því að sjá fyrirtækjum í eigu Sanapharma A/S fyrir hráefni og tilbúnum vörum, en þessi tvö félög eru systurfélög og til helminga í eigu Kenneth Bern og Andres Flateer. Hjá NutraQ starfa 15 starfsmenn og var velta félagsins á árinu 2013 um 110 milljónir norskra króna eða um 2 milljarðar íslenskra króna. Fyrirhugað er að leggja niður norska félagið Algalíf A/S og sameina það Algalíf Iceland ehf. þegar rekstur þess síðarnefnda hefst.
    Algalíf Iceland var stofnað vegna áhuga eigenda og stjórnenda félagsins NutraQ A/S á að kanna aðstæður á Íslandi fyrir framleiðslu á náttúruefnum úr þörungum. Félagið skoðaði fleiri kosti fyrir framleiðsluna, m.a. í Bandaríkjunum. Niðurstaða eigenda var að Ísland væri ákjósanlegt fyrir starfsemina, m.a. vegna tærs vatns og orku frá endurnýjanlegum auðlindum. Fjárfestingarsamningur ríkisins og Algalíf Iceland ehf. er þó mikilvægur liður í að tryggja endanlega ákvörðun um að framleiðslan verði staðsett á Íslandi.
    Í dag er Algalíf Iceland ehf. í leiguhúsnæði við Ásbrú á Reykjanesi. Í húsnæðinu er skrifstofa félagsins og þar fer einnig fram undirbúningur og tilraunastarfsemi fyrir framleiðslu þörunga. Gert er ráð fyrir að starfsemin verði áfram í leiguhúsnæðinu. Félagið er einnig með á leigu skemmu sem hýsa mun fyrsta áfanga verksmiðjunnar, en þegar sá áfangi kemst í gang mun vinna hefjast við nýbyggingu til að hýsa framleiðslustarfsemi félagsins. Er stefnt að því að framleiðsla hefjist þar á árinu 2016. Gert er ráð fyrir að verksmiðja Algalíf Iceland ehf. muni nota 5 megavött af raforku til framleiðslunnar og hefur þegar verið gengið frá orkusamningi við HS orku um raforkukaup til 25 ára.
    Í byrjun ársins 2014 störfuðu 8 manns hjá félaginu við að undirbúa mögulega framleiðslu á Íslandi, en gert er ráð fyrir því að um 30 manns starfi hjá félaginu þegar reksturinn er kominn í fullan gang á árinu 2016.
    Vara sú sem fyrirhugað er að framleiða á Íslandi heitir Astaxanthin undir vörumerkinu Astalíf og er framleidd með ræktun og þurrkun á örþörungum sem nefnast Haematococcus Pluvialis. Útflutningur framleiðsluvörunnar verður í formi þurrkaðra þörunga ( algae meal). Virka efnið í framleiðsluvörunni nefnist Astaxanthin og er sterkt andoxunarefni sem notað er í fæðubótarefni og vítamínblöndur, auk þess að vera neytt sérstaklega í hylkjaformi. Framleiðslan er umhverfisvæn og veldur ekki mengun.

2.3. Aðdragandi og gerð fjárfestingarsamnings með fyrirvara um heimild Alþingis.
    Félagið Algalíf Iceland ehf. var stofnað samkvæmt íslenskum lögum í ágúst 2012. Þann 10. september sama ár barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu umsókn félagsins um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi. Umsóknin var send til nefndar um veitingu ívilnana vegna nýfjárfestinga á Íslandi sem skipuð var á grundvelli 17. gr. laga nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, en lögin féllu úr gildi 31. desember 2013. Nefndin var þannig skipuð að iðnaðarráðherra skipaði formann nefndarinnar og þá tilnefndu fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra sinn mann hvor. Í samræmi við framangreind lög óskaði nefndin eftir því við fjárfestingarsvið Íslandsstofu að það framkvæmdi arðsemisútreikninga fyrirhugaðs fjárfestingarverkefnis, sbr. 18. gr. fyrrgreindra laga. Að auki leitaði nefndin umsagnar Reykjanesbæjar um verkefnið, sbr. 3 mgr. 17. gr. fyrrgreindra laga. Ástæða er til að gera hér nokkuð nánari grein fyrir a) arðsemismati fjárfestingarsviðs Íslandsstofu og b) umsögn Reykjanesbæjar:
     a) Arðsemismat: Við mat á arðsemi fjárfestingarverkefnis óskar fjárfestingarsvið Íslandsstofu eftir rekstrar– og viðskiptaáætlun ásamt útskýringum á helstu atriðum þeirra. Enn fremur á það í beinum samskiptum við forsvarsmenn fjárfestingarverkefnis. Í tilviki Algalífs Iceland ehf. barst fjárfestingarsviði Íslandsstofu rekstraráætlun félagsins 16. maí 2013 og hinn 2. október sama ár barst henni viðskiptaáætlun þess. Þann 25. október 2013 kallaði fjárfestingarsvið Íslandsstofu eftir ítarupplýsingum frá félaginu og fékk þær afhentar 28. október 2013. Með bréfi dags 1. nóvember 2013 skilaði fjárfestingarsviðið nefndinni greinargerð með útreikningum á arðsemi og ávinningi af fjárfestingarverkefni Algalíf Iceland. Í niðurstöðum greinargerðarinnar kemur fram „að verkefnið skili umtalsverðum ábata fyrir íslenskt samfélag samkvæmt þeim forsendum sem eigendur hafa sett fram í rekstraráætlun sinni. Megin rökstuðningur þessarar niðurstöðu byggist m.a. á því að:
     *      Eigendur og stjórnendur hafa þegar skuldbundið sig fjárhagslega að verkefninu og eru fjárhagslega sterkir.
     *      Eigendur og stjórnendur hafa reynslu af skyldum verkefnum.
     *      Verkefnið er þjóðhagslega hagkvæmt, jafnvel við umtalsverð neikvæð frávik frá framlögðum áætlunum, svo sem vegna kostnaðaraukningar eða óhagkvæmrar gengisþróunar.
     *      Verkefnið uppfyllir væntingar um atvinnusköpun, byggðaþróun, skatttekjur og auknar útflutningstekjur. Veiting ívilnunar til fjárfestingarverkefnisins hefur því í för með sér efnahags- og samfélagslegan ávinning fyrir Ísland, jafnt til lengri sem skemmri tíma.“
    Helsta áhættan fyrir verkefnið að mati fjárfestingarsviðsins er að ef samkeppnin fer vaxandi til lengri tíma litið hefur það áhrif á söluverð afurðanna og dregur úr væntri arðsemi. Á móti kemur þó eins og segir í greinargerðinni „að Algalíf er hluti af lengri virðiskeðju aðaleigenda sem spannar allt frá framleiðslu hráefna og á neytendamarkaði. Við mat á verðþróun afurða hafa aðstandendur verkefnisins stuðst við íhaldssama nálgun þar sem einkum hefur verið byggt á sölusamningum með föstu verði sem er nú lægra en verð á markaði (spot).“
     b) Umsögn: Í umsögn Reykjanesbæjar, sem barst nefndinni í október 2013, kemur m.a. fram að verkefnið sé mjög áhugavert og að sveitarfélagið sé tilbúið að styðja það í hvívetna. Í umsögninni kemur einnig fram að Reykjanesbær sé tilbúinn að veita félaginu þær ívilnanir sem snúa að sveitarfélaginu og heimilaðar eru samkvæmt lögum nr. 99/2010.
    Nefndin lauk yfirferð umsóknar Algalíf Iceland ehf. um ívilnanir í nóvember 2013. Niðurstaða nefndarinnar er að verkefnið uppfylli skilyrði laga nr. 99/2010, með síðari breytingum, til að njóta ívilnana sem nánar skuli kveða á um í fjárfestingarsamningi. Nefndin lagði því til við ráðherra, með vísan til laga nr. 99/2010, að gerður yrði fjárfestingarsamningur vegna verkefnisins.
    Í desember 2013 afhenti iðnaðar- og viðskiptaráðherra forsvarsmönnum Algalíf Iceland ehf., bæjarstjóra Reykjanesbæjar og sérfræðingum í fjármála- og efnahagsráðuneytinu drög að fjárfestingarsamningi til athugasemda. Í yfirlýsingu, dags. 28. janúar 2014, staðfesti bæjarstjóri Reykjanesbæjar, f.h. Reykjanesbæjar, að hann hefði yfirfarið drögin að fjárfestingarsamningnum og að þau atriði samningsins er lytu að samþykkt Reykjanesbæjar væru í samræmi við samþykkt bæjarráðs Reykjanesbæjar, en þar er um að ræða lægra hlutfall fasteignaskatts og gatnagerðargjalds fyrir félagið. Reykjanesbær samþykkti fyrir sitt leyti að veita ráðherra heimild til undirritunar fjárfestingarsamningsins með framangreindum undanþágum.
    Þann 28. janúar 2014 undirritaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og Reykjanesbæjar fjárfestingarsamning við Algalíf Iceland ehf. með fyrirvara um heimild Alþingis. Í kjölfarið hófst undirbúningur að frumvarpi þessu og grundvallast það á þeim ákvæðum sem fjárfestingarsamningurinn tekur til.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í fyrsta lagi er ráðherra veitt heimild til að staðfesta fjárfestingarsamning við hið íslenska félag Algalíf Iceland ehf. um uppbyggingu á smáþörungaverksmiðju við Ásbrú á Reykjanesi. Gert er ráð fyrir að heildarfjárfesting félagsins nemi um 2 milljörðum íslenskra króna (17,6 milljónum bandaríkjadala). Á uppbyggingartíma verksmiðjunnar 2014–2016 er áætlað að unnin verði um 100–120 ársverk og þegar reksturinn er kominn á fullt á árinu 2016 verði að jafnaði unnin um 30 ársverk.
    Í öðru lagi er kveðið á um að félagið starfi samkvæmt ákvæðum íslenskra laga.
    Í þriðja lagi er kveðið á um að íslensk lög gildi um túlkun og skýringu fjárfestingarsamningsins og af honum leiðir að ágreiningur um efni hans á undir lögsögu íslenskra dómstóla.
    Í fjórða og síðasta lagi er kveðið á um skattlagningu og gjaldtöku vegna starfsemi félagsins en sú skattlagning og gjaldtaka verður í meginatriðum í samræmi við íslensk skattalög en með nokkrum sérákvæðum. Nánar er vísað til umfjöllunar um 4. gr. frumvarpsins varðandi upptalningu á þeim frávikum á sköttum og gjöldum sem lögð eru til með frumvarpinu, en í stuttu máli koma fram eftirfarandi ívilnanir:
     1.      Tekjuskattshlutfall félagsins verður 18%.
     2.      Félagið verður undanþegið stimpilgjöldum.
     3.      Tryggingagjald verður 50% lægra en kveðið er á um í lögum um tryggingagjald.
     4.      Fasteignaskattur verður 50% lægri en áskilið hámarkshlutfall, samkvæmt samningi við Reykjanesbæ.
     5.      Gatnagerðargjald verður 30% lægra en samkvæmt gjaldskrá Reykjanesbæjar.
     6.      Félagið verður undanþegið markaðsgjaldi.
     7.      Sérreglur gilda varðandi fyrningu eigna.
     8.      Félagið verður undanþegið íslenskum aðflutningsgjöldum af efnum til reksturs verksmiðjunnar.
     9.      Ýmis öryggisákvæði eru varðandi upptöku nýrra skatta.
    Öll eru frávikin afmörkuð við Algalíf Iceland ehf. og hið skilgreinda verkefni sem er smáþörungaframleiðsla við Ásbrú á Reykjanesi.
    Í 7. gr. fjárfestingarsamningsins er kveðið á um að hámark styrkhæfrar ríkisaðstoðar skv. 5. og 6. gr. samningsins (um skatta, opinber gjöld og aðflutningsgjöld) skuli vera 127,2 milljónir íslenskra króna. Fjárhæð ríkisaðstoðarinnar er sá mismunur sem myndast milli þess sem ríkið og sveitarfélagið hefðu fengið í tekjur ef engin ríkisaðstoð væri veitt og þess sem þau fá í tekjur með veitingu ívilnana. Við útreikning á heildarfjárhæðinni var stuðst við töflur um gengi og afvöxtun sem Eftirlitsstofnun EFTA gefur út.
    Í 19. gr. fjárfestingarsamningsins er að finna öryggisákvæði til tryggingar á réttri notkun ívilnana. Helstu atriðin þar eru eftirfarandi:
     *      Til tryggingar á réttri notkun ívilnana ber félaginu að senda atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti árlega skýrslu um framvindu fjárfestingarverkefnisins, hlut ívilnunar í framgangi þess, samtals fjárhæð veittrar ríkisaðstoðar á undanförnu ári og tilgreiningu á annarri starfsemi aðila ef einhver er. Ráðuneytið getur óskað þess að löggiltur endurskoðandi staðfesti þær upplýsingar sem félagið sendir ráðuneytinu í þessu skyni.
     *      Fella ber niður ívilnanir samkvæmt samningnum og endurkrefja um þegar veitta ívilnun komi í ljós að félagið eða fjárfestar hafi vísvitandi veitt rangar upplýsingar eða leynt upplýsingum sem höfðu áhrif á veitingu ívilnunarinnar. Endurkrefja ber um ívilnun ef hún hefur verið nýtt til annarra hluta en fjárfestingarverkefnis þess sem var forsenda veitingar hennar.
     *      Komi í ljós að ívilnun samkvæmt samningnum er komin umfram það hámark sem kveðið er á um í 7. gr. samningsins (þ.e. 127,2 milljónir íslenskra króna), eða aðrar þær heimildir sem fram koma í samningi þessum eða lögum um fullgildingu samningsins skal endurkrefja félagið um þann hlut sem umfram er og stöðva veitingu frekari ívilnunar.
     *      Ef ákvörðun um ívilnun er afturkölluð eða í kjölfar ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA um ólögmæta ríkisaðstoð skal endurkrefja félagið um þann hlut sem umfram er og stöðva veitingu frekari ívilnunar.
     *      Verði fjárfestingarverkefnið ekki að veruleika eða ef starfsemi félagsins verður verulega frábrugðin því fjárfestingarverkefni sem samningurinn miðar við innan 5 ára frá gildistöku samningsins skal félagið endurgreiða allar þær ívilnanir og ríkisaðstoð sem félaginu hefur verið veitt á grundvelli samningsins.
    Í fylgiskjölum með frumvarpinu er að finna eftirfarandi gögn:
     I.      afrit af fjárfestingarsamningnum milli ríkisstjórnar Íslands og Algalíf Iceland ehf.,
     II.      yfirlýsingu Reykjanesbæjar um hlutfall fasteignaskatts og gjaldhlutfall gatnagerðargjalds,
     III.      mat á áhrifum frumvarpsins á fjárhag sveitarfélaga skv. 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011,
     IV.      umsögn (kostnaðarmat) skrifstofu opinberra fjármála í fjármála- og efnahagsráðuneyti.

4. Samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum.
    Framleiðsluvara Algalíf Iceland mun falla í tollflokk 1212.2110 samkvæmt bindandi áliti tollstjóra, dags. 19. desember 2103. Tollflokkur þessi tekur m.a. til sjávargróðurs og annarra þörunga, einkum til nota í drykkjarvörur og lyf, nýtt eða þurrkað, en einnig sneytt, mulið eða sem duft. Með því að falla í tollflokk í 12. kafla tollskrárinnar fellur varan utan vörusviðs EES-samningsins og því taka ríkisstyrkjareglur EES ekki til vörunnar eða fjárfestingarsamningsins. Þar af leiðandi verður fjárfestingarsamningurinn og sú ríkisaðstoð sem í honum kann að felast ekki tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA. Í 13. gr. fjárfestingarsamningsins er hins vegar kveðið á um að ef í ljós komi eftir að starfsemi félagsins er hafin að samningurinn feli í sér ólögmæta ríkisaðstoð samkvæmt skuldbindingum Íslands að EES-rétti beri félagið ábyrgð á því og eigi ekki skaðabótakröfu á hendur íslenska ríkinu vegna þessa. Þá er í 19. gr. samningsins kveðið á um að í kjölfar ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA um ólögmæta ríkisaðstoð skuli endurkrefja félagið um þann hlut sem umfram er og stöðva veitingu frekari ívilnunar.

5. Samráð.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Algalíf Iceland ehf., fjármála- og efnahagsráðuneytið, Reykjanesbæ og Byggðastofnun.

6. Mat á áhrifum.
6.1. Áætluð samfélags- og efnahagsleg áhrif.
    Fjárfestingarverkefnið er ekki stórt í sniðum en það hefur mikla möguleika á að vaxa og skapa afleidd störf. Eins og fram hefur komið í frumvarpi þessu telja aðstandendur verkefnisins að hagstæð skilyrði séu nú fyrir hendi til að hefja ræktun smáþörunga sem nýttir verða til framleiðslu á fæðubótarefnum og vítamínblöndum. Nú þegar liggur fyrir áætlun félagsins um sölutekjur og uppbyggingu á verksmiðju að Ásbrú á Reykjanesi. Reiknað er með að heildarfjárfestingarkostnaður nemi um 2 milljörðum íslenskra króna.
    Ávinningurinn af fjárfestingunni er fólginn í þeim virðisauka sem til fellur við hana. Þessi virðisauki kemur m.a. fram í tekjuskatti, aðföngum og þjónustu og eftirspurn eftir vinnu. Hér verður gerð grein fyrir helstu þáttum þess í tengslum við fjárfestingarverkefnið:
    a) Tekjur: Að teknu tilliti til rekstraráætlunar Algalífs Iceland ehf. og áætlaðra gjalda vegna fasteignar– og lóðar má reikna með að samanlagðar tekjur ríkis og sveitarfélagsins á næstu 13 árum verði um 740 milljónir íslenskra króna á núvirði. Ekki er þá tekið tillit til tekjuaukningar ríkis og sveitarfélags, svo sem vegna kaupa á fjárfestingarvörum eða sölu þeirra, þjónustu fyrirtækja til félagsins, tekna vegna skatta af launum óbeinna og afleiddra starfa eða væntra tekna og neyslu heimila sem starfsemin getur leitt af sér.
    b) Atvinna: Á framkvæmdartíma Algalífs Iceland ehf. er gert ráð fyrir að um 100–120 ársverk verði unnin við uppbyggingu á húsnæði fyrir framleiðslustarfsemina. Á rekstrartímanum er síðan áætlað að um 30 manns starfi við framleiðsluna og þar af 7–8 með sérhæfða menntun. Gera má ráð fyrir því að flestir starfsmenn sem verða ráðnir hjá Algalíf Iceland ehf. á framkvæmdar- og rekstrartímanum búi á Suðurnesjunum. Verkefnið hefur því jákvæð áhrif á atvinnuástandið á svæðinu. Á árinu 2013 var meðalfjöldi atvinnulausra 776 (skráð atvinnuleysi) eða 6,8% af vinnuafli svæðisins. Leiða má að því líkum að skráð atvinnuleysi geti minnkað um allt að prósentustig á framkvæmdatímanum eða til ársins 2016 og um 0,2% á rekstrartímanum miðað við óbreytt atvinnuástand á svæðinu. Erfitt er að mæla nákvæmlega hvað skapast mörg óbein og afleidd störf á framkvæmdar- og rekstrartímanum. Í skýrslu Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri um Álver á Bakka við Húsavík: Mat á samfélagsáhrifum, sem birt var í janúar 2009, var reiknað með að heildaráhrifin þar yrði fjölgun upp á um það bil 1,5 óbeint og afleitt starf fyrir hvert nýtt starf að frádregnum ruðningsáhrifum. Það er í nokkuð góðu samræmi við aðrar greiningar sem gerðar hafa verið á samfélagsáhrifum af byggingu iðjuvera, sbr. greinargerð Byggðastofnunar dags 6. desember 2012 um iðjuver á Bakka á Húsavík. Á hitt ber að líta að þar sem umsvifin eru töluvert minni hjá Algalíf Iceland ehf. má gera ráð fyrir að áhrifin verði eitthvað minni. Gróflega má áætla að það skapist eitt starf fyrir hvern einn starfsmann sem ráðinn er til félagsins en að ruðningsáhrifin séu nánast engin.
    c) Tækni og þekking: Fjárfestingarverkefnið er á sviði líftækni og krefst mikillar sérhæfingar. Verkefnið er því kjörið fyrir útbreiðslu nýrrar tækni og þekkingar sem getur aukið enn frekar virðisauka og tekjur á Íslandi.
    d) Arðgreiðslur: Samkvæmt áætlunum félagsins verður ekki hagnaður af rekstri á fyrstu árum starfseminnar. Fyrst um sinn má búast við að hagnaður verði nýttur til að greiða kostnað við fjárfestinguna. Hugur eigenda stendur einnig til þess að fjárfesta í nýrri verksmiðju og framleiða aðra tegund af þörungi ef vel gengur, en fjármögnun slíks verkefnis liggur ekki fyrir. Þannig er varla að vænta mikilla arðgreiðslna hjá félaginu á næstu árum. Engin formleg arðgreiðslustefna liggur fyrir en það segir sig sjálft að fáist erlend fjárfesting til landsins má vænta þess að þeir sem leggi fram fjármagnið vilji fá einhvern arð af fjárfestingunni.

6.2. Áhrif á stjórnsýslu ríkisins.
    Ekki er talið að samningurinn hafi í för með sér umtalsverð áhrif á stjórnsýslu ríkisins. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mun fylgjast með framkvæmd samningsins. Samningurinn hefur þegar verið birtur í heild sinni á heimasíðu ráðuneytisins og verði frumvarp þetta að lögum mun ráðuneytið hlutast til um að samningurinn og efni laganna verði tilkynnt skattyfirvöldum og innheimtumönnum ríkissjóðs.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er ráðherra heimilað að staðfesta fjárfestingarsamning við Algalíf Iceland ehf. (félagið) um smáþörungaframleiðslu við Ásbrú á Reykjanesi, en samningurinn var undirritaður 28. janúar 2014 með fyrirvara um samþykkt Alþingis. Einnig er í greininni áréttað að félagið skuli starfa samkvæmt íslenskum lögum og reglum með þeim frávikum sem í frumvarpi þessu greinir. Loks er í greininni kveðið á um að fjárfestingarsamningurinn um verkefnið verði birtur í B-deild Stjórnartíðinda eftir staðfestingu Alþingis.

Um 2. gr.

    Í greininni er kveðið á um verkefnið sem lögin og fjárfestingarsamningurinn fjalla um. Verkefnið er skilgreint sem smáþörungaframleiðsla í verksmiðju félagsins við Ásbrú á Reykjanesi. Gert er ráð fyrir að heildarfjárfesting félagsins á Íslandi muni nema um 2 milljörðum króna (17,6 milljónum bandaríkjadala) og að um 30 manns muni starfa hjá félaginu. Um nánari lýsingu á verkefninu vísast til kafla 2.2. í almennum athugasemdum.

Um 3. gr.

    Með greininni eru lagðar til ákveðnar undanþágur frá almennum lögum vegna verkefnisins. Þar sem erlendir aðilar eru eigendur að félaginu er talið nauðsynlegt að heimila frávik frá því skilyrði laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna að 4/ 5 hlutar hlutafjár hlutafélags séu eign íslenskra ríkisborgara og að meiri hluti atkvæða á hluthafafundum sé í höndum íslenskra ríkisborgara, sem og að allir stjórnendur séu íslenskir ríkisborgarar. Skv. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, er það á færi ráðherra að veita undanþágur frá ákvæðinu en með tilliti til stærðar verkefnisins þykir eðlilegt að fjalla um undanþáguna í frumvarpi þessu.
    Þá er einnig lagt til að félagið skuli undanþegið ákvæðum 2. mgr. 42. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, þar sem krafist er að meiri hluti stjórnarmanna og framkvæmdastjóri einkahlutafélags skuli vera búsettir á Íslandi.

Um 4. gr.

    Fjárfestingarsamningurinn sem ráðgert er að staðfesta á grundvelli laganna verði frumvarpið að lögum byggist á því að íslensk skattalög gildi nema kveðið sé á um annað í fjárfestingarsamningnum og frumvarpi þessu. Í upphafi greinarinnar er sett fram sú aðalregla að félagið greiði alla almenna skatta og opinber gjöld hér á landi vegna starfseminnar samkvæmt lögum sem gilda á hverjum tíma með þeim sérákvæðum sem í greininni eru tilgreind. Önnur ákvæði greinarinnar eru því tæmandi upptalning frávika frá aðalreglunni.
    Í 2. mgr. er að finna ákvæði um tekjuskatt félagsins. Þar er kveðið á um að þrátt fyrir ákvæði í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og breytingar sem síðar kunna að verða á þeim lögum skuli félagið greiða 18% tekjuskatt. Þá er skilgreint að fastafjármunir sem tengjast félaginu teljist vera byggingar, vélar og almennir rekstrarfjármunir með föstu hlutfalli sem skulu flokkaðir skv. 37. og 38. gr. laga nr. 90/2003.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að félagið skuli undanþegið stimpilgjöldum af öllum stimpilskyldum skjölum sem félagið gefur út eða stofnað er til í tengslum við uppbyggingu vegna fjárfestingarverkefnisins.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að almennt tryggingagjald sem félagið greiðir skuli vera 50% lægra en það sem kveðið er á um í lögum um tryggingagjald eins og þau eru og verða á samningstímanum.
    Í 5. mgr. er fjallað um fasteignaskatt og kveðið á um að hlutfall fasteignaskatts sem félagið greiðir skuli vera 50% lægra en áskilið hámarkshlutfall skv. II. kafla laga nr. 4/1995. Sama regla skal gilda við breytingar sem síðar kunna að verða á þeim lögum.
    Í 6. mgr. er kveðið á um að gjaldhlutfall gatnagerðargjalds sem félagið greiðir skuli vera 30% lægra en samkvæmt almennri gjaldskrá Reykjanesbæjar.
    Í 7. mgr. er fjallað um markaðsgjald og kveðið á um að félagið skuli undanþegið markaðsgjaldi samkvæmt lögum nr. 38/2010, um Íslandsstofu, með áorðnum breytingum, sem og öðrum ámóta eða efnislega svipuðum sköttum eða gjöldum sem kynnu að verða lögð á síðar, til viðbótar við eða í staðinn fyrir markaðsgjald.
    Í 8. mgr. er kveðið á um að félagið geti, á því ári sem nýjar eignir eru teknar í notkun, valið að fyrna þær eignir með hlutfalli árlegrar fyrningar í stað heils árs fyrningar eins og annars er kveðið á um í 34. gr. laga nr. 90/2003. Þrátt fyrir ákvæði 42. gr. laga nr. 90/2003 er félaginu heimilt að fyrna eignir sínar þannig að ekki standi eftir niðurlagsverð.
    Í 9. mgr. er fjallað um aðflutningsgjöld og kveðið á um að innflutningur eða innkaup innan lands af hálfu eða fyrir hönd félagsins á byggingarefnum, hráefnum og öllum öðrum framleiðsluaðföngum, sem nauðsynleg eru til reksturs verksmiðjunnar, vélum og búnaði og öðrum framleiðslutækjum og varahlutum í verksmiðjuna og til reksturs hennar, skulu undanþegin íslenskum aðflutningsgjöldum samkvæmt tollalögum nr. 88/2005, og lögum nr. 97/1987, um vörugjald, svo og hvers kyns ámóta eða efnislega svipuðum sköttum og gjöldum sem kynnu að verða lögð á til viðbótar við eða í staðinn fyrir slík gjöld.
    Í 10. mgr. er kveðið á um að ívilnanir, undanþágur, undantekningar og önnur ákvæði þessarar greinar skulu halda fullu gildi í 10 ár frá þeim tíma sem til viðkomandi skattskyldu eða gjaldskyldu er stofnað af hálfu félagsins, en þó aldrei lengur en í 13 ár frá gildistöku samningsins, þrátt fyrir síðari breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, lögum nr. 38/2010, um Íslandsstofu, tollalögum, nr. 88/2005, lögum nr. 97/1987, um vörugjald, lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, eða öðrum lögum eða afleiddum lögum sem annars kynnu að takmarka eða draga úr áhrifunum sem stefnt er að með ákvæðum greinarinnar.
    Í 11. mgr. er með ótvíræðum hætti kveðið á um að félagið verði bundið af almennum ákvæðum íslenskra laga um tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á og í gildi eru á hverjum tíma og varða skattframtal, framtalsfrest, álagningu, endurskoðun, endurálagningu, innheimtu, gjalddaga og greiðslu, sem og aðrar uppgjörsreglur varðandi tekjuskatt, virðisaukaskatt og útsvar, auk andmæla og ágreinings í tengslum við þau.
    Í 12. mgr. er kveðið á um að á gildistíma fjárfestingarsamningsins geti félagið valið að almenn ákvæði íslenskra skattalaga, eins og þau eru á hverjum tíma, gildi um það fremur en sérákvæði fjárfestingarsamningsins. Beiðni um slíka breytingu skal gerð með skriflegri tilkynningu sem lögð skal fram eigi síðar en 1. júní á almanaksári áður en breytingin á að taka gildi. Berist slík beiðni skulu ríkisstjórnin, eigandinn og félagið þegar ganga til samninga um breytinguna yfir í hið almenna skattkerfi. Ríkisstjórnin, eigandinn og félagið skulu koma sér saman um aðferðir við framkvæmd slíkrar breytingar. Eftir það skal félagið lúta almennum íslenskum skattalögum það sem eftir er af gildistíma fjárfestingarsamningsins.
    Ákvæði 4. gr. frumvarpsins eru í samræmi við 4., 5. og 6. gr. fjárfestingarsamningsins. Í 7. gr. fjárfestingarsamningsins er kveðið á um að hámark styrkhæfrar ríkisaðstoðar skv. 5. og 6. gr. samningsins (um skatta, opinber gjöld og aðflutningsgjöld) skuli vera 127,2 milljónir íslenskra króna.

Um 5. gr.

    Í greininni kemur fram að heimilt sé að semja um framsal eignarhluta í félaginu eða á réttindum og skyldum félagsins samkvæmt fjárfestingarsamningnum með tilteknum skilyrðum sem koma fram í honum.
    Fjallað er um framsal í 2. og 15. gr. fjárfestingarsamningsins. Í 2. gr. samningsins kemur fram að samþykki ríkisstjórnarinnar sé áskilið fyrir framsali eignarhluta í félaginu þar til og eftir að starfsemi er hafin. Þar segir jafnframt að ekki skuli synja um eða draga slíkt leyfi með ósanngjörnum hætti. Ekki þarf slíkt leyfi þegar um er að ræða framsal minni hluta eignar, sem ekki er umfram 49% í heild, til félags eða félaga sem skráð eru í ríkjum innan OECD, eða veðsetningu allra eða einhverra slíkra hluta til tryggingar láni sem veitt er félaginu eða dótturfélögum þess og/eða félaginu til að auðvelda framkvæmd verkefnisins, eða sölu slíkra hluta við fullnustu samkvæmt slíkri veðsetningu til fyrirtækis eða fyrirtækja innan OECD. Þá er einnig kveðið á um að við framsal hlutdeildar í félaginu skuli framsalshafinn verða aðili að samningi þessum og að hann skuli staðfesta það með berum orðum með því að undirrita og afhenda ríkisstjórninni skriflega yfirlýsingu á því formi sem ríkisstjórnin getur fallist á, þar sem aðilinn sem fékk eignarhlutinn framseldan samþykkir alla skilmála og ákvæði samningsins og skuldbindur sig til að hlíta þeim í einu og öllu.
    Í 1. mgr. 15. gr. fjárfestingarsamningsins kemur fram að réttindi og skyldur samkvæmt samningnum verði ekki framseld, þeim afsalað eða falin öðrum án samþykkis gagnaðila, nema þar sem slíkt er sérstaklega heimilað í einstökum ákvæðum samningsins. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 15. gr. er félaginu þó samkvæmt samningnum heimilt að framselja réttindi og skyldur samkvæmt fjárfestingarsamningnum, án samþykkis ríkisstjórnarinnar, til fjármálastofnana sem tryggingu fyrir fjármögnun er tengist verkefninu. Þetta er gert með þeim áskilnaði að verði gengið að tryggingunni skuli gerður beinn samningur milli ríkisstjórnarinnar og viðkomandi fjármálastofnana og að ríkisstjórnin skuli samþykkja framsal réttinda og skyldna félagsins samkvæmt samningnum til fjármálastofnana, sem eru veðhafar, eða frekari sölu af hálfu fjármálastofnana til aðila sem eignast hlut í félaginu í verkefninu og uppfylla þau skilyrði sem almennt eru gerð til eigenda sambærilegra fjárfestingarverkefna.

Um 6. gr.

    Hér er kveðið á um að uppbygging, túlkun og framkvæmd samninga sem eru gerðir innan ramma þessara laga skuli lúta íslenskum lögum og lögsögu íslenskra dómstóla.

Um 7. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Fylgiskjal I.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Yfirlýsing Reykjanesbæjar um hlutfall fasteignaskatts og gjaldhlutfall gatnagerðargjalds.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal III.


Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti:

Mat á áhrifum frumvarpsins á fjárhag sveitarfélaga skv. 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.

    Með frumvarpinu, sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra leggur nú fram, er lagt til að ráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, verði veitt heimild til að semja við félagið Algalíf Iceland ehf. og eiganda þess um smáþörungaverksmiðju við Ásbrú á Reykjanesi í samræmi við ákvæði frumvarpsins. Verksmiðjan mun nota 5 megavött af raforku til framleiðslunnar og hefur þegar verið gengið frá orkusamningi við HS orku um raforkukaup til 25 ára.
    Gert er ráð fyrir að heildarfjárfesting félagsins nemi um 2 milljörðum íslenskra króna (17,6 milljónum bandaríkjadala). Á uppbyggingartíma verksmiðjunnar 2014–2016 er áætlað að unnin verði um 100–120 ársverk og þegar reksturinn er kominn á fullt á árinu 2016 verði að jafnaði unnin um 30 ársverk.
    Í desember 2013 afhenti iðnaðar- og viðskiptaráðherra forsvarsmönnum Algalíf Iceland ehf. og bæjarstjóra Reykjanesbæjar drög að fjárfestingarsamningi til athugasemda. Í yfirlýsingu, dags. 28. janúar 2014, staðfesti bæjarstjóri Reykjanesbæjar, f.h. Reykjanesbæjar, að hann hefði yfirfarið drögin að fjárfestingarsamningnum og að þau atriði samningsins er lytu að samþykkt Reykjanesbæjar væru í samræmi við samþykkt bæjarráðs Reykjanesbæjar, en þar er um að ræða lægra hlutfall fasteignaskatts og gatnagerðargjalds fyrir félagið. Reykjanesbær samþykkti fyrir sitt leyti að veita ráðherra heimild til undirritunar fjárfestingarsamningsins með framangreindum undanþágum.
    Á grundvelli laga nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, með síðari breytingum, hafa á sl. árum verið gerðir fjárfestingarsamningar við sex félög. Lögin féllu hins vegar úr gildi 31. desember 2013 og því er nauðsynlegt að leita sérstakrar heimildar Alþingis fyrir fjárfestingarsamning við Algalíf Iceland ehf.
    Með frumvarpi því sem hér er lagt fram er með sams konar hætti og í lögum nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, og framangreindum sérlögum og fjárfestingarsamningum gert ráð fyrir því að almennar skattareglur gildi um félagið, með tilteknum frávikum sem með tæmandi hætti eru tilgreind í frumvarpinu. Nánar er vísað til umfjöllunar um 4. gr. frumvarpsins varðandi upptalningu á þeim frávikum á sköttum og gjöldum sem lögð eru til með frumvarpinu, en í stuttu máli koma fram eftirfarandi ívilnanir:
     1.      Tekjuskattshlutfall félagsins verður 18% í stað 20%.
     2.      Félagið verður undanþegið stimpilgjöldum.
     3.      Tryggingagjald verður 50% lægra en kveðið er á um í lögum um tryggingagjald.
     4.      Fasteignaskattur verður 50% lægri en áskilið hámarkshlutfall, samkvæmt samningi við Reykjanesbæ.
     5.      Gatnagerðargjald verður 30% lægra en samkvæmt gjaldskrá Reykjanesbæjar.
     6.      Félagið verður undanþegið markaðsgjaldi.
     7.      Sérreglur gilda varðandi fyrningu eigna.
     8.      Félagið verður undanþegið íslenskum aðflutningsgjöldum af efnum til reksturs verksmiðjunnar.
     9.      Ýmis öryggisákvæði eru varðandi upptöku nýrra skatta.
    Öll eru frávikin afmörkuð við Algalíf Iceland ehf. og hið skilgreinda verkefni sem er smáþörungaframleiðsla við Ásbrú á Reykjanesi. Í 7. gr. fjárfestingarsamningsins er kveðið á um að hámark styrkhæfrar ríkisaðstoðar ríkis og sveitarfélagsins skv. 5. og 6. gr. samningsins (um skatta, opinber gjöld og aðflutningsgjöld) skuli vera 127,2 milljónir íslenskra króna. Fjárhæð ríkisaðstoðarinnar er sá mismunur sem myndast milli þess sem ríkið og sveitarfélagið hefðu fengið í tekjur ef engin ríkisaðstoð væri veitt og þess sem þau fá í tekjur með veitingu ívilnana. Áætlaður tekjumissir fyrir sveitarfélagið, miðað við að engar ívilnanir væru veittar, er um 32 milljónir króna á núvirði miðað við 13 ára tímabil sem heimilt er að veita ívilnanir. Á móti kemur að fjárfestingarverkefni skilar sveitarfélaginu strax á uppbyggingartímanum tekjum og störfum fyrir íbúa.
    Umsögn þessi var unnin í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og gerir sambandið ekki athugasemd við niðurstöðuna.Fylgiskjal IV.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um heimild til samninga við Algalíf Iceland ehf. um smáþörungaverksmiðju á Reykjanesi.

    Með frumvarpi þessu er iðnaðar- og viðskiptaráðherra veitt heimild til að staðfesta fjárfestingarsamning við Algalíf Iceland ehf. frá 28. janúar 2014. Samningurinn er í meginatriðum í samræmi við lög nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi. Með þeim lögum var horfið frá því fyrirkomulagi sem tíðkast hafði og fól í sér að gerðir voru sértækir fjárfestingarsamningar vegna einstakra verkefna á grundvelli sérstakra heimildarlaga frá Alþingi og samþykkis Eftirlitsstofnunar EFTA ef þess þyrfti með. Lögin áttu með þessu að tryggja að ferli við gerð fjárfestingarsamninga mundi styttast og verða einfaldara og í samræmi við ríkisstyrkjareglur EES-samningsins. Lögin féllu hins vegar úr gildi þann 31. desember 2013 og því er nauðsynlegt að leggja fram sérstakt frumvarp vegna þessa samnings. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er þó ekki talin vera þörf á að tilkynna þennan samning við Algalíf eða ríkisaðstoðina sem í honum felst til Eftirlitsstofnunar EFTA þar sem framleiðsla Algalífs falli utan vörusviðs EES-samningsins. Þá er ákvæði í samningnum um að ef í ljós kemur síðar að hann sé talinn fela í sér ólögmæta ríkisaðstoð þá beri félagið fjárhagslega ábyrgð á því og eigi ekki skaðabótakröfu á hendur íslenska ríkinu.
    Meginefni frumvarpsins snýr að ívilnunum á sköttum og opinberum gjöldum vegna uppbyggingar og reksturs á smáþörungaverksmiðju við Ásbrú í Reykjanesbæ. Helstu tillögur frumvarpsins eru: Í fyrsta lagi verði tekjuskattshlutfall félagsins 18% í stað 20% eins og lög kveða á um. Í öðru lagi verði félagið undanþegið stimpilgjöldum. Í þriðja lagi verði almenna tryggingagjaldið 50% lægra en kveðið er á um í lögum um tryggingagjald. Í fjórða lagi verði fasteignaskattur 50% lægri en áskilið hámarkshlutfall samkvæmt samningi við Reykjanesbæ. Í fimmta lagi verði gatnagerðargjald 30% lægra en samkvæmt gjaldskrá Reykjanesbæjar. Í sjötta lagi verði félagið undanþegið markaðsgjaldi sem nú er 0,05% af tryggingagjaldsstofni. Í sjöunda lagi gildi sérreglur um fyrningar fyrir félagið. Í áttunda lagi verði félagið undanþegið íslenskum aðflutningsgjöldum af efnum til reksturs verksmiðjunnar og í níunda lagi eru settir ýmsir fyrirvarar eða öryggisákvæði sem varða nýja skatta á tímabilinu. Einnig er kveðið á um að félagið verði undanþegið vissum ákvæðum laga um einkahlutafélög og lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna en þau ákvæði varða búsetu og ríkisfang eigenda, stjórnenda félagsins og handhafa atkvæða á hluthafafundum félagsins.
    Miðað við fyrirliggjandi rekstraráætlun Algalífs er áætlað að greiðslur vegna skatta og gjalda til hins opinbera sem veittar eru ívilnanir á nemi um 1.290 m.kr. en að þær væru um 1.518 m.kr. án þeirra miðað við 13 ára rekstrartíma. Ekki yrðu veittar frekari ívilnanir eftir það samkvæmt samningnum. Mismunurinn er um 228 m.kr. og má líta á það sem opinbera aðstoð sem félagið fær frá ríki og Reykjanesbæ. Í fjárfestingarsamningnum er sett þak á ívilnanir að fjárhæð 127 m.kr. en það er framangreind fjárhæð á núvirði miðað við 7,14% árlega afvöxtun. Um 75% fjárhæðarinnar, eða 95 m.kr., koma til vegna skatta og gjalda sem annars hefðu greiðst til ríkissjóðs en 25%, eða um 32 m.kr., vegna gjalda til sveitarfélagsins. Við útreikninginn var stuðst við viðmið og reglur um ríkisstyrki samkvæmt EES-samningnum. Þá er settur tímafrestur um gildi samningsins en réttur til ívilnana heldur fullu gildi í 10 ár frá þeim tíma sem til viðkomandi skattskyldu eða gjaldskyldu er stofnað af hálfu félagsins en þó aldrei lengur en í 13 ár frá gildistöku samningsins. Samkvæmt áætlunum félagsins er gert ráð fyrir að heildarfjárfesting þess nemi um 2 mia.kr. og áætlað er að á uppbyggingartíma verksmiðjunnar árin 2014–2016 verði unnin um 100 til 120 ársverk. Þegar reksturinn verði kominn á fullt skrið á árinu 2016 verði að jafnaði unnin um 30 ársverk hjá fyrirtækinu.
    Markmið stjórnvalda með gerð fjárfestingarsamningsins er m.a. að auka nýfjárfestingu á Íslandi og stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið lét meta verkefnið með tilliti til framangreinds og í því mati kemur fram að verkefnið uppfylli væntingar um atvinnusköpun, byggðaþróun, skatttekjur og auknar útflutningstekjur. Að því gefnu annars vegar að ekki væri ráðist í verkefnið hér á landi nema vegna framangreindra ívilnana og hins vegar að framleiðsluþættir eins og vinnuaflið hefðu að öðrum kosti verið ónýttir má telja að verkefnið hafi í för með sér beinan ávinning fyrir ríkissjóð sem nemi að hámarki um 1.240 m.kr. á næstu 13 árum, eða sem næmi hátt í 100 m.kr. á ári, en stærstur hluti þess væri í formi tekjuskatts. Á núvirði svarar það til um 740 m.kr. Eru þá ekki taldar með tekjur sveitarfélagsins, eða aðrir skattar og gjöld sem félagið greiðir að fullu né þau óbeinu efnahagslegu áhrif sem verkefnið kann að hafa í för með sér, svo sem afleidda þjónustu við fyrirtækið, tækniyfirfærslu o.fl. Þótt varla sé hægt að ganga út frá slíkri forsendu um vannýtingu framleiðsluþátta og gera megi ráð fyrir einhverjum ruðningsáhrifum vegna starfseminnar virðast allar horfur vera á að verkefnið gæti haft allnokkur jákvæð áhrif á tekjuhlið ríkissjóðs á komandi árum og að ekki ættu að falla til teljandi útgjöld í tengslum við samninginn þótt skattaframkvæmd verði aðeins tímafrekari vegna sérákvæðanna.