Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 302. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 691  —  302. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Líneik Önnu Sævarsdóttur
um fegrunar- og lýtaaðgerðir á kynfærum kvenna.


     1.      Hvaða reglur gilda um upplýsingagjöf lýtalækna til landlæknis um lýtaaðgerðir? Er munur á upplýsingagjöfinni eftir því hvort aðgerðirnar eru gerðar af læknisfræðilegum ástæðum eða af öðrum ástæðum?
    Sömu reglur gilda um upplýsingagjöf lýtalækna til landlæknis og annarra heilbrigðisstarfsmanna. Samkvæmt 8. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, skipuleggur landlæknir og heldur skrár á landsvísu um heilsufar, sjúkdóma, slys, lyfjaávísanir, fæðingar og starfsemi og árangur heilbrigðisþjónustunnar. Í ákvæðinu er jafnframt kveðið á um skyldu heilbrigðisstarfsmanna að veita landlækni þær upplýsingar sem honum eru nauðsynlegar til að halda heilbrigðisskrá. Í reglugerð nr. 548/2008, um heilbrigðisskrár, er fjallað nánar um gerð og vinnslu heilbrigðisskráa. Í þeirri reglugerð er jafnframt kveðið á um skyldu heilbrigðisstarfsmanna til að veita landlækni nauðsynlegar upplýsingar til að halda heilbrigðisskrár.
    Landlæknir heldur samskiptaskrá sjálfstætt starfandi sérfræðinga, sbr. 8. tölul. 2. mgr. 8. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, og skulu persónuauðkenni í þeim skrám dulkóðuð, sbr. 3. mgr. 8. gr. sömu laga. Samkvæmt 21. gr. reglugerðar um heilbrigðisskrár er tilgangur samskiptaskrár sjálfstætt starfandi sérfræðinga að afla þekkingar um starfsemi þeirra, hafa eftirlit með þjónustunni, tryggja gæði hennar og meta árangur. Í samskiptaskrá sjálfstætt starfandi sérfræðinga skulu skráðar upplýsingar um samskipti við starfsstöðvar þeirra. Skrá skal upplýsingar um nafn og kennitölu sjúklings en auk þess skal skrá á stöðluðu formi upplýsingar um hjúskaparstöðu, búsetusveitarfélag og póstnúmer, ríkisfang, læknanúmer heilsugæslulæknis, bókunartíma og tímasetningu og tegund samskipta, hver vísaði einstaklingi, tilefni samskipta, greiningar- og meðferðarkóða, auðkenni starfsstöðvar, númer ábyrgra meðferðaraðila og hvaða aðili átti að sinna eftirliti eftir samskipti. Samkvæmt reglugerðinni eru sömu kröfur gerðar um upplýsingagjöf lýtalækna án tillits til þess hvert tilefni aðgerðar er. Félag íslenskra lýtalækna hefur vakið athygli ráðherra á því að hér séu meiri kröfur gerðar til skila á upplýsingum á þessu sviði heilbrigðisþjónustu en t.d. á Norðurlöndunum, einkum hvað varðar fegrunarlækningar, og hefur félagið óskað eftir því að ráðuneytið skoði það sérstaklega. Málið er til skoðunar í ráðuneytinu.

     2.      Hversu margar lýtaaðgerðir eru gerðar árlega á kynfærum kvenna? Hversu margar af þeim eru gerðar á skapabörmum? Hversu margar eru til þrengingar á leggöngum? Hversu margar þeirra eru hvíttunaraðgerðir í kringum endaþarm og kynfæri? Hversu margar brjóstastækkanir eru framkvæmdar árlega?
    Ekki liggja fyrir upplýsingar hjá embætti landlæknis um fjölda þeirra aðgerða sem spurt er um. Landlæknir innkallar árlega upplýsingar frá öllum sjálfstætt starfandi sérfræðingum á landinu, þar á meðal lýtalæknum. Hafa skil sérfræðinga á starfsemisupplýsingum til embættisins aukist ár frá ári, en aukin innleiðing á rafrænni sjúkraskrá auðveldar gagnaskilin. Yfir 90% sérfræðinga skiluðu inn starfsemisupplýsingum til embættisins fyrir árið 2012. Lýtalæknar eru meðal þeirra sérfræðinga sem ekki hafa skilað upplýsingum til embættisins þrátt fyrir innköllun embættisins og liggja því ekki fyrir upplýsingar um framangreindar aðgerðir.

     3.      Hversu margar lýtaaðgerðir á skapabörmum eru gerðar á stúlkum undir 18 ára aldri?
    
Þessar upplýsingar liggja ekki fyrir, sbr. svar við 2. tölul. fyrirspurnarinnar.

     4.      Hverjar eru skyldur lýtalækna varðandi fræðslu til sjúklinga um hugsanlegar auka- eða hliðarverkanir aðgerða, um nauðsynlegt reglulegt eftirlit eftir aðgerðir og um möguleg áhrif þessara aðgerða á fæðingar og brjóstagjöf?

    Upplýsingaskylda lýtalækna, sem og annarra lækna, fer eftir ákvæðum laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997. Í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur fram að sjúklingur eigi rétt á upplýsingum um fyrirhugaða meðferð ásamt upplýsingum um framgang hennar, áhættu og gagnsemi. Ef meðferð fylgir áhætta eða ef líkur eru á aukaverkunum eða öðrum fylgikvillum er það réttur fólks að fá greinargóðar upplýsingar.
    Embætti landlæknis gaf út bæklinginn Brjóstastækkun – almennar upplýsingar í samráði við Félag íslenskra lýtalækna, þar sem ítarlegar upplýsingar er að finna um brjóstastækkanir. Bæklinginn má nálgast á vef embættisins: www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item2234/2308.pdf.