Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 380. máls.

Þingskjal 700  —  380. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008
(rafræn námsgögn o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




1. gr.

    2. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
    Ákvæði þessarar greinar taka einnig til skólameistara, annarra faglegra stjórnenda, og náms- og starfsráðgjafa.

2. gr.

    H-liður 1. mgr. 12. gr. laganna orðast svo: kennsla fari fram í skólahúsnæði sem uppfyllir lög og reglugerðir þar að lútandi.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 45. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „og efnisgjalds“ í 1. málsl. 1. mgr. og sömu orða í 2. mgr. kemur: efnisgjalds og gjalds fyrir rafrænt námsefni; og: efnisgjalds og gjaldtöku fyrir rafrænt námsefni.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Heimilt er í tilraunaskyni með sérstöku leyfi ráðherra að innheimta gjald fyrir rafrænt námsefni sem framhaldsskólar ákveða og er veigamikill hluti af námsefni í námsáfanga á skráðri námsbraut viðkomandi nemenda eða í áfanga sem þeir hafa ákveðið að stunda sem valgrein.

4. gr.

    Í stað orðsins „endurgjalds“ í 3. málsl. 1. mgr. 47. gr. laganna kemur: kvaða eða gjalda.

5. gr.

    Í stað orðanna „og 2013–2014“ í ákvæði til bráðabirgða V í lögunum kemur: 2013–2014, 2014–2015 og 2015–2016.

6. gr.

    Í stað orðanna „2011–2012“ í ákvæði til bráðabirgða VI í lögunum kemur: 2015–2016.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Frumvarpið hefur að geyma tillögur um breytingu á ákvæðum gildandi laga varðandi rétt náms- og starfsráðgjafa til að sækja um launuð námsorlof, viðurkenningu á húsnæði einkarekinna framhaldsskóla, gjaldtökuheimild vegna rafrænna námsgagna og afhendingu byggingarlóða undir framhaldsskólabyggingar án kvaða eða gjalda og tímabundna heimild framhaldsskóla til innheimtu efnisgjalda af nemendum auk innheimtu gjalda í kvöldskóla og fjarnámi. Þannig er lögð til sú breyting á 11. gr. laganna að sú grein, er fjallar um námsorlof, taki ekki aðeins til kennara, skólameistara og annarra faglegra stjórnenda heldur einnig til náms- og starfsráðgjafa. Jafnframt er lögð til breyting á h-lið 12. gr. laga um framhaldsskóla, þess efnis að kennsla skuli fara fram í skólahúsnæði sem uppfyllir lög og reglugerðir þar að lútandi. Þá er í frumvarpinu lögð til sú breyting á 45. gr. laganna að skólum verði heimilað, með sérstöku leyfi ráðherra, að innheimta gjald fyrir rafrænt námsefni. Einnig er lögð til sú orðalagsbreyting á 1. mgr. 47. gr. laganna að sveitarfélög skulu leggja til lóðir undir framhaldsskóla án kvaða eða gjalda. Loks eru lagðar til breytingar á ákvæðum til bráðabirgða V og VI í lögunum.

II.     Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting að ákvæði 11. gr. laga um framhaldsskóla, er fjallar um námsorlof, skuli ekki aðeins taka til kennara, skólameistara og annarra faglegra stjórnenda heldur einnig náms- og starfsráðgjafa. Hefur Kennarasamband Íslands bent á að náms- og starfsráðgjafar, með tilskilda menntun og réttindi, eigi að njóta sama réttar til launaðra námsorlofa og kennarar og skólastjórnendur vegna samspils laga og kjarasamninga og með tilliti til hefðar. Telja verður að réttur náms- og starfsráðgjafa hafi ekki í lögum annars vegar og kjarasamningum hins vegar fylgt rétti félagsmanna Kennarasambands Íslands í framhaldsskólum til að sækja um launuð námsorlof.
    Þá er lagt til að mælt verði fyrir um að kennsla skuli fara fram í skólahúsnæði sem uppfyllir lög og reglugerðir þar að lútandi, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Þessi breyting er lögð til með hliðsjón af ákvæðum laga og reglugerða um opinbert byggingareftirlit sem fram fer hjá öðrum stjórnvöldum, þar sem kveðið er á um fullnægjandi eftirlit með húsnæði þar sem atvinnustarfsemi fer fram, en ráðuneytið hefur ekki haft sérstakt eftirlit með húsnæði einkaskóla á framhaldsskólastigi umfram lögbundið eftirlit opinberra eftirlitsstofnana.
    Í frumvarpinu er enn fremur lagt til að skólum verði, með sérstöku leyfi ráðherra, heimilað að innheimta gjald fyrir rafrænt efni sem þeir ákveða að nýta í kennslu. Rafrænt námsefni hefur smám saman verið að ryðja sér til rúms í framhaldsskólum og þykir ljóst að það muni leysa hefðbundna útgáfu af hólmi að talsverðum hluta í náinni framtíð. Hafa útgefendur og áhugamenn um rafrænt námsefni bent á að tryggja verði greiðslur fyrir rafræna efnið með öðrum hætti en almennt gerist um prentað námsefni þar sem útbreiðsla þess á netinu valdi því að auðvelt sé að nálgast það án þess að greiða fyrir það með sama hætti og þegar prentaðar námsbækur eru keyptar. Því verði að tryggja að þeir sem nota rafræna efnið greiði fyrir kostnað við útgáfu þess. Með þeirri heimild sem hér er lögð til í 3. gr. frumvarps þessa er gert ráð fyrir að staðið verði fyrir tilraunaverkefni um miðlun og gjaldtöku fyrir rafrænt námsefni.
    Í 3. málsl. 1. mgr. 47. gr. núgildandi laga um framhaldsskóla er mælt fyrir um að lóðir undir framhaldsskóla skuli sveitarfélög leggja til án endurgjalds. Í 4. gr. frumvarps þessa er lögð til sú orðalagsbreyting að kveðið verði á um það að lóðir undir framhaldsskóla skuli sveitarfélög leggja til án kvaða eða gjalda. Verði þannig horfið til þess orðalags sem var í sambærilegu ákvæði eldri laga, nr. 80/1996, en af frumvarpi því er varð að lögum nr. 92/2008 og öðrum lögskýringargögnum verður ekki séð að vilji löggjafans hafi staðið til þess að gera þá breytingu að ríkið skyldi framvegis greiða gatnagerðargjöld af umræddum lóðum. Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvæði til bráðabirgða V í lögunum um heimildir framhaldsskóla til innheimtu efnisgjalda af nemendum gildi áfram tímabundið, eða út skólaárið 2015–16. Í 6. gr. frumvarps þessa er lagt til að ákvæði til bráðabirgða VI, sem heimilar framhaldsskólum innheimtu gjalda í kvöldskóla og fjarnámi að hámarki kr. 7.500 fyrir hverja námseiningu, verði framlengt tímabundið og gildi út skólaárið 2015–16.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að skólum verði með sérstöku leyfi ráðherra heimilað að innheimta gjald fyrir rafrænt efni sem þeir ákveða að nýta í kennslu. Gert er ráð fyrir því að ráðherra veiti skólum slíka heimild í tilraunaskyni í takmarkaðan tíma, bundið við tilteknar námsgreinar. Um frekari útfærslu þess yrði nánar kveðið á í reglugerð. Jafnframt er í frumvarpi þessu lögð til sú breyting á 11. gr. laganna að sú grein, er fjallar um námsorlof, taki ekki aðeins til kennara, skólameistara og annarra faglegra stjórnenda heldur einnig til náms- og starfsráðgjafa. Þá er lögð til breyting á h-lið 12. gr. laga um framhaldsskóla, þess efnis að kennsla skuli fara fram í skólahúsnæði sem uppfyllir lög og reglugerðir þar að lútandi. Einnig er lögð til sú orðalagsbreyting á 1. mgr. 47. gr. laganna að sveitarfélög skulu leggja til lóðir undir framhaldsskóla án kvaða eða gjalda. Loks eru lagðar til breytingar á ákvæðum til bráðabirgða V og VI í lögunum.

IV. Samráð.
    Við smíði upphaflegra frumvarpsdraga var haft samráð við þá aðila er áttu fulltrúa í nefnd er samdi frumvarp til laga um vinnustaðanám. Þeir aðilar eru eftirtaldir: Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samband íslenskra framhaldsskólanema, Félag íslenskra framhaldsskóla, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Jafnframt var haft samráð við öll starfsgreinaráð sem starfa á grundvelli 24. og 25. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008. Enn fremur var haft samráð við alla framhaldsskóla er bjóða upp á starfsnám. Frumvarp þetta hefur síðan þá tekið breytingum og hefur nú að geyma tillögur um breytingu á ákvæðum gildandi laga að því er varðar rétt náms- og starfsráðgjafa til að sækja um launuð námsorlof, viðurkenningu á húsnæði einkarekinna framhaldsskóla, gjaldtökuheimild vegna rafrænna námsgagna og afhendingu byggingarlóða undir framhaldsskólabyggingar án kvaða eða gjalda og tímabundna heimild framhaldsskóla til innheimtu efnisgjalda af nemendum auk innheimtu gjalda í kvöldskóla og fjarnámi. Haft var samráð við Kennarasamband Íslands um það ákvæði í frumvarpinu er lýtur að rétti náms- og starfsráðgjafa til að sækja um launuð námsorlof. Einnig er í frumvarpinu lagt til, að höfðu samráði við Félag íslenskra bókaútgefenda, að skólum verði, með sérstöku leyfi ráðherra, heimilað í tilraunaskyni að innheimta gjald fyrir rafrænt efni sem þeir ákveða að nýta í kennslu. Þá er lagt til, að höfðu samráði við ríkislögmann, að mælt verði fyrir um að lóðir undir framhaldsskóla skulu sveitarfélög leggja til án kvaða eða gjalda. Einnig eru í frumvarpinu ákvæði er lúta að því að kennsla skuli fara fram í skólahúsnæði er uppfylli lög og reglugerðir þar að lútandi, og gjaldtökuheimildum opinberra framhaldsskóla.

V.     Mat á áhrifum.
    1. gr. frumvarpsins lýtur að því að veita náms- og starfsráðgjöfum í framhaldsskólum rétt til að sækja um þau launuðu námsorlof sem þar eru veitt, en telja verður að réttur þeirra hafi ekki í lögum og kjarasamningum fylgt rétti félagsmanna Kennarasambands Íslands í framhaldsskólum til að sækja um launuð námsorlof. Ekki er gert ráð fyrir því að sú breyting hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð vegna fjölgunar námsorlofa.
    Eins og fram kemur í skýringum við 3. gr. frumvarpsins hefur rafrænt námsefni smám saman verið að ryðja sér til rúms í framhaldsskólum hér á landi. Tryggja þarf að þeir sem nota rafræna efnið greiði fyrir kostnað við útgáfu þess, en vandséð er að það náist öðruvísi en að skólum verði veitt heimild til að krefja nemendur um greiðslur fyrir aðgang að rafrænu efni sem þeim er gert að nýta í námi. Er því lagt til að skólum verði með sérstöku leyfi ráðherra heimilað að innheimta gjald fyrir rafrænt efni sem þeir ákveða að nýta í kennslu. Er gert ráð fyrir því að slík heimild verði veitt í tilraunaskyni í takmarkaðan tíma, bundið við tilteknar námsgreinar. Með framangreindri breytingu er þess vænst að fjölbreytni í útgáfu rafræns námsefnis muni aukast til muna og verð á útgefnu námsefni lækka með hagnýtingu á nýrri tækni. Þar með opnist nemendum greiðari aðgangur að fjölbreyttu og nútímalegu námsefni á lægra verði, þeim og skólastarfinu til hagsbóta.
    Í 3. málsl. 1. mgr. 47. gr. núgildandi laga um framhaldsskóla er mælt fyrir um að lóðir undir framhaldsskóla skuli sveitarfélög leggja til án endurgjalds. Í 4. gr. frumvarps þessa er lögð til sú orðalagsbreyting að kveðið verði á um það að lóðir undir framhaldsskóla skuli sveitarfélög leggja til án kvaða eða gjalda. Verði þannig horfið til þess orðalags sem var í sambærilegu ákvæði eldri laga, nr. 80/1996, en af frumvarpi því er varð að lögum nr. 92/2008 og öðrum lögskýringargögnum verður ekki séð að vilji löggjafans hafi staðið til þess að gera þá breytingu að ríkið skyldi framvegis greiða gatnagerðargjöld af umræddum lóðum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Kennarasamband Íslands hefur óskað eftir því við ráðuneytið að náms- og starfsráðgjöfum í framhaldsskólum verði veittur réttur til að sækja um þau launuðu námsorlof sem þar eru veitt ár hvert. Í lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, eru kennarar, skólameistarar og aðrir faglegir stjórnendur framhaldsskóla sagðir einir eiga rétt á að sækja um námsorlof. Sömu aðilar eru tilgreindir í reglugerð um námsorlof kennara og stjórnenda framhaldsskóla, nr. 762/2010. Þar af leiðandi hefur námsorlofsnefnd synjað umsóknum frá náms- og starfsráðgjöfum um námsorlof í framhaldsskólum. Kennarasamband Íslands segir í erindi sínu til ráðuneytisins að vegna samspils laga og efnis kjarasamninga, og með tilliti til hefðar, eigi náms- og starfsráðgjafar með tilskilda menntun og réttindi að njóta sama réttar til launaðra námsorlofa og kennarar og skólastjórnendur. Við mat á málinu bendir sambandið á að veiting námsorlofa byggist m.a. á því sem áunnist hefur í kjarasamningagerð. Þeir kjarasamningar sem taka til veitingar námsorlofa í framhaldsskólum taka jafnt til kennara, skólastjórnenda og náms- og starfsráðgjafa.
    Af framansögðu má ráða að réttur náms- og starfsráðgjafa hefur ekki í lögum og kjarasamningum fylgt rétti félagsmanna Kennarasambands Íslands í framhaldsskólum til að sækja um launuð námsorlof. Því verður að telja réttmætt að skýra rétt þeirra til að sækja um launuð námsorlof með því að geta náms- og starfsráðgjafa í þeirri grein laga um framhaldsskóla sem kveður á um rétt tiltekinna starfsmanna skólanna til að sækja um launuð námsorlof. Ekki er gert ráð fyrir að framangreind breyting hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð vegna fjölgunar námsorlofa.

Um 2. gr.

    Hér er lögð til sú breyting á h-lið 1. mgr. 12. gr. að fellt verði brott ákvæði þess efnis að skilyrði fyrir viðurkenningu skuli lúta að starfsaðstöðu og aðbúnaði kennara og nemenda og þjónustu við þá, en þess í stað mælt fyrir um að kennsla skuli fara fram í viðurkenndu skólahúsnæði sem uppfylli lög og reglugerðir þar að lútandi.
    Í gildandi lögum er kveðið á um það í h-lið 1. mgr. 12. gr. að skilyrði fyrir viðurkenningu sjálfstætt starfandi framhaldsskóla lúti m.a. að því að lagt skuli mat á starfsaðstöðu og aðbúnað kennara og nemenda og þjónustu við þá. Í reglugerð um viðurkenningu einkaskóla á framhaldsskólastigi, nr. 426/2010, er nánar mælt fyrir um málsmeðferð vegna viðurkenningar ráðherra. Í 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar kemur fram að í viðurkenningu ráðherra á starfsemi einkaskóla felist m.a. viðurkenning á starfsaðstöðu og aðbúnaði skóla. Í c-lið 3. gr. reglugerðarinnar segir að í umsókn um viðurkenningu skuli koma fram lýsing á starfsaðstöðu, þ.e. húsnæði skóla og aðbúnaði, ásamt vottorðum frá yfirvöldum heilbrigðis- og brunamála. Í j-lið 5. gr. reglugerðarinnar segir að meðal skilyrða viðurkenningar sé að starfsaðstaða skólans sé fullnægjandi að mati ráðuneytisins.
    Að mati ráðuneytisins er rétt að breyta h-lið 1. mgr. 12. gr. gildandi laga um framhaldsskóla um úttekt á skólahúsnæði í ljósi ákvæða um opinbert byggingareftirlit sem fram fer hjá öðrum stjórnvöldum, sbr. lög um mannvirki, nr. 160/2010, byggingarreglugerð, nr. 112/2012, lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, reglugerð um hollustuhætti, nr. 941/ 2002, og eldvarnaeftirlit samkvæmt ákvæðum laga um brunavarnir, nr. 75/2000, og reglugerðum settum með stoð í þeim lögum. Í framangreindum lögum og reglugerðum er kveðið á um fullnægjandi eftirlit með húsnæði þar sem atvinnustarfsemi fer fram og hefur ráðuneytið ekki haft sérstakt eftirlit með húsnæði einkaskóla á framhaldsskólastigi umfram það eftirlit sem opinberar eftirlitsstofnanir hafa með atvinnuhúsnæði. Samkvæmt tillögunni mun því úttekt á skólahúsnæði lúta ákvæðum laga og reglugerða þar að lútandi, þ.e. að byggingarfulltrúi hafi lokið úttekt samkvæmt ákvæðum gildandi byggingarreglugerðar og laga um mannvirki, heilbrigðiseftirlit hafi gert úttekt samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og eldvarnaeftirlit, í samvinnu við byggingarfulltrúa, gengið úr skugga um að húsnæði uppfylli kröfur samkvæmt lögum og reglugerðum um brunavarnir, auk þess sem Vinnueftirlit ríkisins hafi eftir atvikum gert úttekt á vinnuaðstöðu í skóla.

Um 3. gr.

    Í 51. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, er í fyrsta sinn ákvæði um að í fjárlögum skuli tilgreina ár hvert þá fjárhæð sem veitt er til að mæta kostnaði nemenda vegna námsgagna. Engin fjárhæð hefur enn verið veitt af fjárlögum í þessu skyni. Sá skilningur hefur verið ríkjandi að nemendur greiði sjálfir fyrir námsefni sitt. Um talsverðan kostnað er að ræða fyrir hvern og einn og er varlegt að áætla að nemandi í fullu námi greiði 60–90 þús. kr. á skólaári fyrir námsefni sem gerir 1,3–1,9 milljarða kr. alls á ári miðað við 21.000 nemendur í fullu námi.
    Ekki er kveðið á um það í lögum hver beri ábyrgð á útgáfu námsefnis í framhaldsskólum né hver skuli greiða kostnað af þeirri útgáfu. Útgáfa efnis er í höndum einkaaðila. Stærstur hluti efnis er gefinn út af starfandi bókaforlögum og seldur í bókaverslunum og á skiptibókamörkuðum sem kaupa notaðar bækur af nemendum og selja með álagningu. Nokkuð er einnig um að nemendur kaupi til viðbótar útgefnum námsbókum margvíslegt efni sem þeim er gert að hafa tiltækt. Þar er um að ræða ítarefni, glósur og verkefni sem gefin eru út og seld nemendum í skólunum.
    Rafrænt námsefni, sem er aðgengilegt á netinu, hefur smám saman verið að ryðja sér til rúms í framhaldsskólum þótt enn sé það í smáum stíl hér á landi. Öllum er ljóst að rafrænt námsefni hlýtur að leysa hefðbundna útgáfu af hólmi að talsverðum hluta í náinni framtíð. Útgefendur og áhugamenn um rafrænt námsefni hafa bent á að tryggja verði greiðslur fyrir rafræna efnið með öðrum hætti en almennt gerist um prentað námsefni. Útbreiðsla efnis á netinu sé með þeim hætti að alltaf verði auðvelt að nálgast það án þess að greiða fyrir með sama hætti og þegar prentaðar námsbækur er keyptar. Aldrei verði unnt að takmarka aðgang að rafrænu efni við þá eina sem greitt hafi fyrir það nema með mjög flóknum og dýrum aðferðum. Því verði að tryggja að þeir sem nota rafræna efnið greiði fyrir kostnað við útgáfu þess. Vandséð er að það náist öðruvísi en að skólum verði veitt heimild til að krefja nemendur um greiðslur fyrir aðgang að rafrænu efni sem þeim er gert að nýta í námi. Slík heimild er hvorki í núverandi lögum né reglugerð um gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla, nr. 614/2009.
    Hér er lagt til að skólum verði með sérstöku leyfi ráðherra heimilað að innheimta gjald fyrir rafrænt efni sem þeir ákveða að nýta í kennslu. Er því gert ráð fyrir að ráðherra veiti skólum slíka heimild í tilraunaskyni í takmarkaðan tíma, bundið við tilteknar námsgreinar. Nánar verður svo kveðið á um útfærslu, svo sem hámarksupphæðir, greiðslufyrirkomulag og upplýsingaskyldu skóla, í reglugerð.

Um 4. gr.

    Í 3. málsl. 4. mgr. 37. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 80/1996, var svohljóðandi ákvæði: Lóðir undir framhaldsskóla skulu sveitarfélög leggja til án kvaða eða gjalda. Við samþykkt nýrra laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, tók sambærilegt ákvæði í 3. málsl. 1. mgr. 47. gr. smávægilegum orðalagsbreytingum og varð svohljóðandi: Lóðir undir framhaldsskóla skulu sveitarfélög leggja til án endurgjalds.
    Í kjölfar gildistöku laga nr. 92/2008 hefur komið upp ágreiningur á milli ríkisins og einstakra sveitarfélaga þess efnis hvort lóðir sem sveitarfélög leggja til fyrir byggingu framhaldsskólahúsnæðis skuli bera gatnagerðargjöld samkvæmt lögum nr. 153/2006. Af hálfu þeirra sveitarfélaga hefur verið vísað til framangreindrar orðalagsbreytingar í framhaldsskólalögum, þ.e. að nú er ekki tekið fram sérstaklega í 1. mgr. 47. gr. laga nr. 92/2008 að sveitarfélag skuli leggja til lóð „án kvaða eða gjalda“. Af frumvarpi því sem varð að lögum nr. 92/2008 og öðrum lögskýringargögnum verður ekki séð að vilji löggjafans hafi staðið til þess að gera þá breytingu að ríkið skyldi framvegis greiða gatnagerðargjöld af umræddum lóðum. Fyrir liggur staðfesting á slíkum skilningi í áliti sem ríkislögmaður veitti fjármála- og efnahagsráðuneyti 17. ágúst 2012. Með vísan til þessa er því lagt til að horfið verði aftur til þess orðalags sem var í 3. málsl. 4. mgr. 37. gr. laga nr. 80/1996.

Um 5. gr.

    Með 45. gr. laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla, voru gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla þrengdar frá því sem var í fyrri lögum um framhaldsskóla, nr. 80/1996. Í 2. mgr. 7. gr. þeirra laga var gert ráð fyrir því að heimilt væri að innheimta efnisgjald af nemendum sem nytu verklegrar kennslu vegna efnis sem skóli léti þeim í té og þeir þyrftu að nota í námi sínu. Hámark gjaldsins var ákveðið 50.000 kr. á skólaári eða 25.000 kr. á önn. Í b-lið 1. mgr. 45. gr. gildandi laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, er við það miðað að innheimta efnisgjalds sé ekki heimil fyrir efni sem nemendum er látið í té samkvæmt einhliða ákvörðun skóla svo sem í skylduáföngum á verknámsbrautum. Þó sé heimilt að innheimta efnisgjald fyrir efni sem skóli lætur nemendum í té ef þeir hafa af því ávinning eða sérstök not svo sem vegna smíðisgripa í áföngum sem nemendur stunda í frjálsu vali.
    Á 137. löggjafarþingi 2009 var samþykkt á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 92/2008, um framhaldsskóla, þess efnis að þrátt fyrir ákvæði b-liðar 1. mgr. 45. gr. væri framhaldsskólum heimilt fram til loka skólaárs 2011–2012 að innheimta af nemendum í verklegu námi efnisgjald fyrir efni sem skóli léti þeim í té. Breytingin var gerð þar sem ljóst var að óbreytt lög hefðu í för með sér skertar tekjur þeirra framhaldsskóla sem bjóða upp á verklegt nám þar sem ekki var reiknað með hækkun á fjárlögum til að mæta þeirri tekjuskerðingu. Framangreind breyting á heimild til töku efnisgjalds var enn framlengd til loka skólaárs 2013–14 á 140. löggjafarþingi 2012.
    Í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014 er ekki gert ráð fyrir auknum framlögum til efniskaupa sem óhjákvæmilega leiðir af gildistöku b-liðar 1. mgr. 45. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008. Í því ljósi er lagt til að ákvæði til bráðabirgða V um heimildir framhaldsskóla til innheimtu efnisgjalda af nemendum gildi áfram tímabundið, eða út skólaárið 2015–2016.

Um 6. gr.

    Með 45. gr. laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla, voru gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla þrengdar frá því sem var í fyrri lögum um framhaldsskóla, nr. 80/1996. Þannig var ákveðið í 4. mgr. að hámarksfjárhæð gjalds af nemendum í kvöldskóla og fjarnámi skyldi miðast við 10% af meðalkennsluframlagi á nemanda í fullu námi samkvæmt fjárlögum. Í reglugerð, nr. 614/2009, um gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla var hámarkið útfært þannig að taka mætti allt að 2.500 kr. gjald fyrir hverja námseiningu.
    Fyrir gildistöku laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, var framhaldsskólum heimilt að innheimta allt að þriðjungi kennslukostnaðar með nemendagjöldum. Framlög til skólanna í fjárlögum miðuðust þá við 2/3 af kostnaði við nemanda í fullu námi. Eftirstandandi þriðjungi var mætt með nemendagjöldum. Til að mæta lækkun heimilda skóla til innheimtu kennslugjalda í 10%, eins og gildandi lög um framhaldsskóla gera ráð fyrir, verður að hækka framlög í fjárlögum úr 67% í 90% af nemendaígildum í kvöldskóla og fjarnámi. Sú hækkun hefur ekki fengist. Alþingi ákvað því með lagabreytingu árið 2009 að heimila skólum gjaldtöku í kvöldskóla og fjarnámi að hámarki 7.500 kr. á hverja námseiningu.
    Samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er ekki reiknað með hækkun framlaga til kennslu í kvöldskóla og fjarnámi umfram 2/3. Því er ljóst að kennslukostnaði framhaldsskóla, sem bjóða upp á framangreint nám, verður ekki mætt nema heimild fáist til að halda áfram innheimtu hærri nemendagjalda en lög um framhaldsskóla ráðgera. Því er lagt til að ákvæði til bráðabirgða VI, sem heimilar framhaldsskólum innheimtu gjalda í kvöldskóla og fjarnámi að hámarki kr. 7.500 fyrir hverja námseiningu, verði framlengt tímabundið og gildi út skólaárið 2015–2016.

Um 7. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008 (rafræn námsgögn o.fl.).

    Í frumvarpi þessu eru settar fram tillögur um breytingar á ákvæðum gildandi laga að því er varðar rétt náms- og starfsráðgjafa til að sækja launuð námsorlof, viðurkenningu á húsnæði einkarekinna framhaldsskóla, gjaldtökuheimild vegna rafrænna námsgagna, afhendingu byggingarlóða undir framhaldsskólabyggingar án kvaða eða gjalda og tímabundna heimild framhaldsskóla til innheimtu efnisgjalda af nemendum auk innheimtu gjalda í kvöldskóla og fjarnámi.
    Í frumvarpinu er lagt til að náms- og starfsráðgjöfum í framhaldsskólum verði veittur réttur til að sækja um launuð námsorlof. Lög um framhaldsskóla, nr. 92/2008, mæla fyrir um rétt kennara, skólameistara og annarra faglegra stjórnenda til að sækja um launuð námsorlof og hefur Kennarasamband Íslands nú óskað eftir því að náms- og starfsráðgjöfum í framhaldsskólum verði veittur sami réttur. Breytingin felur ekki í sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð þar sem fjöldi orlofa hefur verið ákveðinn í kjarasamningum. Þá er lagt til að skilyrði fyrir viðurkenningu einkaskóla á framhaldsskólastigi verði breytt með þeim hætti að kennsla fari fram í viðurkenndu skólahúsnæði sem uppfyllir viðeigandi lög og reglugerðir í staðinn fyrir að kveðið sé á um að mat skuli lagt á starfsaðstöðu og aðbúnað kennara og nemenda og þjónustu til þeirra. Einnig er lagt til að í skólum verði, með sérstöku leyfi ráðherra, heimilað að innheimta gjald fyrir rafrænt efni sem þeir ákveða að nýta í kennslu. Ráðherra geti veitt skólum slíka heimild í tilraunaskyni í takmarkaðan tíma, bundið við tilteknar námsgreinar. Nánar verði svo kveðið á um útfærslu, svo sem hámarksupphæðir, greiðslufyrirkomulag og upplýsingaskyldur skólanna í reglugerð. Þá er lagt til að horfið verði til fyrra orðalags sem fram kemur í lögum um framhaldsskóla, nr. 80/1996, en þar segir að sveitarfélög skuli leggja til lóðir undir framhaldsskóla án kvaða eða gjalda á meðan núgildandi lög kveða á um að lóðir skuli leggja fram án endurgjalds. Á þessi breyting að fyrirbyggja ágreining um gatnagerðargjöld.
    Í frumvarpinu er einnig lagt til að bráðabirgðaákvæði V og VI um gjaldtökuheimild framhaldsskóla verði framlengd til skólaársins 2015-2016. Ákvæðin heimila skólum þrátt fyrir ákvæði 1. og 4. mgr. 45. gr. laganna annars vegar að innheimta af nemendum efnisgjald og hins vegar að taka sérstakt gjald af nemendum í fjarnámi og í námi utan reglubundins daglegs starfstíma sem má nema allt að 7.500 kr. á hverja námseiningu. Efnisgjaldinu hefur verið ætlað að skila um 200 m.kr. á ári í tekjum til framhaldsskólanna og koma í veg fyrir að rekstrarstaða þeirra versni enn frekar. Í ljósi erfiðrar stöðu ríkissjóðs er ekki talið vera svigrúm til að auka framlög til skólanna og því er lagt til að þessi bráðabirgðaákvæði laganna verði framlengd enn um sinn.
    Verði frumvarpið lögfest er því ekki gert ráð fyrir að það muni hafa í för með sér áhrif á útgjöld ríkissjóðs frá því sem gert er ráð fyrir í forsendum gildandi fjárlaga.