Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 297. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 711  —  297. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Merði Árnasyni
um tillögur starfshóps um póstverslun.


    Í desember 2013 skilaði starfshópur um póstverslun, sem skipaður var af forsætisráðherra 3. apríl sama ár, tillögum að ráðstöfunum til að skapa póstverslun viðeigandi samkeppnisstöðu til hagsbóta fyrir neytendur og atvinnufyrirtæki. Starfshópurinn var undir forustu forsætisráðuneytisins og sátu í hópnum m.a. fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins ásamt fulltrúum annarra ráðuneyta sem og hagsmunaaðilum á borð við Neytendasamtökin, Samtök verslunar og þjónustu o.fl.
    Starfsemi póstverslana er settur ákveðinn rammi, annars vegar með lögum nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, og hins vegar með lögum nr. 46/2000, um húsgöngu- og fjarsölusamninga. Þá gilda um starfsemi póstverslana einnig ákvæði tollalaga, nr. 88/2005, sem og ákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, auk reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi, reglugerðar nr. 336/1993 um innheimtu virðisaukaskatts af blöðum og tímaritum sem send eru í áskrift erlendis frá í pósti og svo reglugerðar nr. 1100/2006 um vörslu og tollmeðferð vöru.
    Hafa ber í huga að gerður var almennur fyrirvari við tillögur starfshópsins þar sem það væri vandkvæðum bundið að meta til hlítar beinar og óbeinar afleiðingar tillagnanna á samkeppnisstöðu innlendra aðila, hag neytenda og afkomu ríkissjóðs.

     1.      Hver er afstaða ráðherra til þeirra tillagna starfshóps um póstverslun frá desember 2013 að:
                  a.      erlendum fyrirtækjum sem selja vörur og póstleggja til Íslands verði heimilt að innheimta og skila virðisaukaskatti og aðflutningsgjöldum af þeim vörum sem seldar eru til landsins,
                  b.      aðflutningsgjöld verði felld niður af hrað- og póstsendingum sem teljast undir 2.000 kr. að fob-verðmæti,
                  c.      skil, skipti og viðgerðir póstsendra vara án endurálagningar aðflutningsgjalds verði gerð auðveldari með reglugerðarbreytingu,
                  d.      ráðist verði í átak til að tryggja skilvirka upplýsingagjöf um umsýslugjöld flutningafyrirtækja,
                  e.      heimild hraðflutningafyrirtækja til niðurfellingar aðflutningsgjalda á hraðsendingum sem teljast undir 2.000 kr. að fob-verðmæti taki bæði til fyrirtækja og einstaklinga í hópi viðskiptavina, ef ekki verður farið að tillögunni í b-lið,
                  f.      með reglugerðarbreytingu og nýjum vinnureglum hjá tollstjóra verði tryggt að einstaklingar og fyrirtæki sitji við sama borð og greiði sama gjald vegna tollafgreiðslu í póstverslun,
                  g.      útfylling útflutningsskýrslna fyrir útflytjendur sem ekki hafa mikil umsvif verði einfölduð?

a.    Starfshópurinn lagði til að erlendum fyrirtækjum sem selja vörur og póstleggja til Íslands verði heimilað að innheimta og skila virðisaukaskatti og aðflutningsgjöldum af þeim vörum sem seldar eru til landsins. Slíkt yrði að skoða sérstaklega af hálfu ráðuneytisins og yrði að huga að ýmsum þáttum áður og ef til slíkrar heimildar kæmi, þ.m.t. með hvaða hætti skráning færi fram, hvernig sendingar yrðu merktar hefðu aðflutningsgjöld þegar verið greidd o.s.frv. Þá þyrfti sérstaklega að skoða hvort nauðsynlegt væri að gera erlendu fyrirtæki skylt að skrá útibú hér á landi eða fela innlendum umboðsmanni með heimilisfesti hérlendis fyrirsvar o.fl. Áður en hugað verður að breytingum af þessu tagi er mikilvægt að hafa samráð við fulltrúa ríkisskattstjóra og embætti tollstjóra.
b.     Telja má að talsvert hagræði sé af því að fella niður aðflutningsgjöld af hrað- og póstsendingum undir 2.000 kr. að fob-verðmæti, bæði fyrir neytendur og umsýsluaðila, þ.e. þá sem höndla með sendingar. Það kemur því vel til greina að innleiða slíka verðmætareglu, að því gefnu að unnt verði að gæta þess að niðurfellingin verði ekki misnotuð.
c.    Í XI. kafla reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi er m.a. fjallað um undanþágu frá aðflutningsgjöldum vegna skila á vöru, skipta og viðgerða. Komi til slíkrar reglugerðarbreytingar er mikilvægt að samráð sé haft við embætti tollstjóra.
d.    Starfshópurinn lagði ekki til að sett yrðu í lög ákvæði um skyldu flytjenda, þar á meðal hraðflutningafyrirtækja, til að birta gjaldskrá um umsýslugjöld vegna tollafgreiðslu. Þá er að finna í íslenskum lögum reglur er kveða á um birtingu gjaldskrár fyrirtækja sem selja vörur og þjónustu á markaði. Ekki þykir ástæða til að ráðast í frekara átak til að tryggja slíka upplýsingagjöf.
e.    Slíkt yrði að skoða sérstaklega en hafa skal í huga að ekki er óeðlilegt að mismunandi reglur gildi eftir því hvort um rekstraraðila eða einstakling er að ræða.
f.    Staða neytenda og fyrirtækja er ólík og því ekki óeðlilegt að um þá aðila gildi mismunandi reglur. Þá skal hafa í huga að rekstraraðilar geta nýtt kostnað á borð við aðflutningsgjöld til frádráttar skattskyldum tekjum en slíka heimild hafa neytendur almennt ekki.
g.    Vert er að huga að endurskoðun á ákvæði 141. gr. tollalaga, nr. 88/2005, sem fjallar um skil á einfölduðum útflutningsskýrslum, ásamt reglugerð nr. 1100/2006, þannig að það nái tilgangi sínum. Mikilvægt yrði að hafa samráð við embætti tollstjóra áður en farið yrði í breytingar á umræddu ákvæði.

2.    Við hvaða ráðstöfunum má búast af hálfu ráðuneytisins eða undirstofnana þess í framhaldi af tillögum starfshópsins?
    Vilji er til þess að taka vissar tillögur starfshópsins til skoðunar og hefur ráðherra í því skyni fengið á fund til sín fulltrúa Neytendasamtakanna og Íslandspósts hf. Vilji liggur til þess að skoða einföldun á innheimtu og gera hana skilvirkari en mikilvægt er að hafa samráð við fagaðila á borð við ríkisskattstjóra, embætti tollstjóra ásamt fulltrúum frá Íslandspósti hf. áður en ráðist yrði í slíkar breytingar. Þá er enn fremur mikilvægt að kanna sérstaklega hver áhrif slíkra ráðstafana yrðu með tilliti til afkomu ríkissjóðs sem og íslenskrar verslunar. Þannig yrði að meta til hlítar beinar og óbeinar afleiðingar slíkra ráðstafana á samkeppnisstöðu innlendra aðila, hag neytenda og afkomu ríkissjóðs.