Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 148. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 713  —  148. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna,
nr. 21/1992 (úthlutunarreglur).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Umsögn barst frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Með frumvarpinu er brugðist við áliti umboðsmanns Alþingis (mál nr. 6109/2010). Í því áliti komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að breytingar á úthlutunarreglum sjóðsins þyrfti að kynna fyrir fram með skýrum hætti og nægilegum fyrirvara þannig að þeir aðilar sem málið snerti hefðu raunhæft tækifæri til að gera viðeigandi ráðstafanir og bregðast við breyttri framkvæmd. Lagt er til að sett verði tiltekin tímamörk um það hvenær reglurnar skuli kynntar.
    Nefndin tekur undir þau sjónarmið að mikilvægt sé að setja inn ákvæði sem kveður á um tiltekin tímamörk fyrir kynningu umræddra reglna, sérstaklega í ljósi áðurnefnds álits umboðsmanns. Einnig vekur nefndin athygli á nýlegum dómi héraðsdóms í máli Stúdentaráðs Háskóla Íslands gegn Lánasjóði íslenskra námsmanna þar sem ágreiningur var um umræddar reglur Lánasjóðsins. Nefndin telur þá dagsetningu sem tiltekin er í frumvarpinu, 1. febrúar, ekki ganga. Engu síður telur nefndin mikilvægt að gera þá kröfu til stjórnvalda að breytingar á reglum án undanfarandi lagabreytinga séu undirbúnar og kynntar með þeim fyrirvara að þeir sem breytingarnar varða eigi þess kost að gæta hagsmuna sinna. Námsárið miðast yfirleitt við 1. júní ár hvert samkvæmt því sem segir í 2. gr. reglugerðar nr. 478/2011 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og telur nefndin nauðsynlegt að reglurnar séu kynntar tímanlega fyrir þá dagsetningu. Í ljósi framangreinds telur nefndin rétt að gera breytingartillögu um tímamörk kynningar reglnanna og miða við 1. apríl ár hvert.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað „1. febrúar“ í síðari málslið 1. gr. komi: 1. apríl.

Alþingi, 11. mars 2014.



Unnur Brá Konráðsdóttir,


form.


Vilhjálmur Árnason,


frsm.


Páll Valur Björnsson.



Líneik Anna Sævarsdóttir.


Elsa Lára Arnardóttir.


Guðbjartur Hannesson.



Helgi Hrafn Gunnarsson.


Jóhanna María Sigmundsdóttir.


Svandís Svavarsdóttir.