Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 390. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 716  —  390. mál.




Fyrirspurn



til forsætisráðherra um styrkveitingar til menningarminja.

Frá Brynhildi Pétursdóttur.


     1.      Voru í gildi skriflegar verklagsreglur í ráðuneytinu þegar styrkjum til menningarminja var úthlutað, sbr. svar ráðherra í þingskjali 636? Ef svo er, var þeim verklagsreglum fylgt?
     2.      Voru styrkirnir auglýstir og þá hvar? Hvernig var tryggt að jafnræðisreglur væru virtar?
     3.      Hvað er átt við þegar ráðherra vísar í framangreindu svari til fyrirliggjandi gagna og umsókna? Byggðust styrkveitingar í einhverjum tilfellum á gömlum umsóknum? Var styrkur í einhverjum tilfellum veittur á grundvelli gagna sem ráðuneytið óskaði eftir að eigin frumkvæði þar sem umsókn lá ekki fyrir?
     4.      Hvernig fór fram faglegt mat á umsóknum í ráðuneytinu í samráði við stofnanir þess?
     5.      Með hvaða hætti hefur ráðuneytið brugðist við þeim ábendingum sem vísað er til í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 4351/2005?


Skriflegt svar óskast.

Greinargerð.

    Fyrirspyrjandi lagði 22. janúar sl. fram fyrirspurn til ráðherra um menningarminjar og græna hagkerfið (sjá 280. mál yfirstandandi þings). Ráðherra svaraði þeirri fyrirspurn ekki fyllilega í öllum atriðum. Á það sérstaklega við um 3. og 4. tölul. þar sem spurt var um verklagsreglur ráðuneytisins, hvort styrkir hefðu í öllum tilfellum byggst á skriflegum umsóknum og hvernig ráðuneytið tryggði að jafnræðis væri gætt.