Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 238. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Prentað upp.

Þingskjal 727  —  238. mál.
Form.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um greiðslur yfir landamæri í evrum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund hennar komu Guðmundur Kári Kárason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Jóna Björk Guðnadóttir og Sigríður María Torfadóttir frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Páll Kolka Ísberg og Sigríður Rafnar Pétursdóttir frá Seðlabanka Íslands og Bergþóra Halldórsdóttir frá Samtökum atvinnulífsins. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja, Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitinu og Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja.
    Frumvarpið kemur í stað gildandi laga um greiðslur yfir landamæri í evrum. Þá felur það í sér minni háttar breytingar á lögum um greiðsluþjónustu og lögum um útgáfu og meðferð rafeyris. Frumvarpið mætir þörf fyrir innleiðingu Evrópugerða sem orðnar eru hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Markmið gerðanna er að veita borgurum og fyrirtækjum samræmda, örugga, notendavæna og áreiðanlega greiðsluþjónustu í evrum á samkeppnishæfu verði innan Evrópska efnahagssvæðisins, jafnframt því að tryggja að gjöld vegna greiðslna í evrum yfir landamæri ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins séu hliðstæð því sem gerist vegna greiðslna í evrum innan lands.
    Fyrir nefndinni kom fram gagnrýni á efni 4. gr. frumvarpsins. Bent var á að afleiðingar brota gegn ákvæðum laganna yrðu óhóflegar með tilliti til þeirra hagsmuna sem ætlunin væri að vernda með lagasetningunni. Var sérstaklega gagnrýnt að lagt væri til að heimilt yrði að leggja stjórnvaldssektir á einstaklinga, þ.e. starfsmenn greiðsluþjónustuveitenda. Nefndin telur gagnrýnina réttmæta og leggur því til breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi að í stað þess að Fjármálaeftirlitinu verði heimilað að leggja stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn tilteknum ákvæðum verði því aðeins heimilað að leggja stjórnvaldssektir á greiðsluþjónustuveitandann vegna slíkra brota. Með því telur nefndin komið í veg fyrir að starfsmenn hans séu útsettir fyrir stjórnvaldssektum vegna atvika sem eiga sér stað í starfi þeirra. Í öðru lagi er sú breyting lögð til að sektir verði ekki lagðar á einstaklinga vegna brota gegn ákvæðum laganna heldur aðeins á greiðsluþjónustuveitendur. Því til samræmis er í þriðja og síðasta lagi lagt til að 4. mgr. greinarinnar verði felld brott í heild sinni. Mat nefndarinnar er að með þeim breytingum sem hún leggur til muni ákvæði 4. gr. um stjórnvaldssektir vera í eðlilegu samræmi við þau markmið sem að er stefnt með frumvarpinu.
    Athygli nefndarinnar var vakin á ósamræmi í orðalagi 18. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011 og 25 gr. laga um rafeyri, nr. 17/2013. Í báðum tilvikum væri rætt um tryggilega varðveislu fjármuna en einungis kæmi skýrt fram í lögum um rafeyri að með því væri átt við að fjárfest skuli í öruggum, seljanlegum og áhættulitlum eignum. Að mati nefndarinnar er nauðsynlegt að samræmis sé gætt og því leggur nefndin til breytingu á 1. mgr. 18. gr. laga um greiðsluþjónustu. Með tillögunni er gert ráð fyrir að orðalag málsgreinarinnar færist nær orðalagi 1. mgr. 25. gr. laga um rafeyri og greiðslustofnun verði gert skylt að varðveita fjármuni notenda greiðsluþjónustu eða annarra greiðsluþjónustuveitenda tryggilega ásamt því að halda þeim aðgreindum frá öðrum fjármunum. Samhliða leggur nefndin til örlitlar orðalagsbreytingar á 1. mgr. 25. gr. laga um rafeyri og greiðslustofnun til samræmingar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 4. gr.
                  a.      Í stað orðanna „hvern þann“ í 1. mgr. komi: greiðsluþjónustuveitanda.
                  b.      Í stað 1. og 2. málsl. 2. mgr. komi einn málsliður, svohljóðandi: Sektir sem lagðar eru á greiðsluþjónustuveitanda geta numið frá 50 þús. kr. til 50 millj. kr.
                  c.      4. mgr. falli brott.
     2.      Við 7. gr.
                  a.      E-liður orðist svo: 1. mgr. 18. gr. laganna orðast svo:
                     Greiðslustofnun skal varðveita tryggilega fjármuni sem mótteknir hafa verið frá notendum greiðsluþjónustu eða frá öðrum greiðsluþjónustuveitendum vegna framkvæmdar greiðslu og halda þeim skýrt aðgreindum frá fjármunum í eigu greiðslustofnunar og fjármunum í eigu annarra en notenda greiðsluþjónustu. Fjármunir teljast tryggilega varðveittir ef þeir eru geymdir á innlánsreikningi hjá fjármálafyrirtæki eða ef fjárfest er með þeim í öruggum, seljanlegum og áhættulitlum eignum.
                  b.      Við greinina bætist nýr liður, svohljóðandi: 1. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 17/2013, um útgáfu og meðferð rafeyris, orðast svo: Rafeyrisfyrirtæki skal varðveita tryggilega fjármuni sem mótteknir hafa verið í skiptum fyrir rafeyri og halda þeim skýrt aðgreindum frá fjármunum sínum.

Alþingi, 12. mars 2014.



Frosti Sigurjónsson,


form., frsm.


Pétur H. Blöndal.


Willum Þór Þórsson.



Árni Páll Árnason.


Guðmundur Steingrímsson.


Steingrímur J. Sigfússon.



Vilhjálmur Bjarnason.


Líneik Anna Sævarsdóttir.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.