Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 326. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 732  —  326. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni um innflutning frá þróunarsamvinnuríkjum Íslands.


     1.      Hvaða tollar og gjöld eru lögð á innflutning helstu vöruflokka frá þeim ríkjum sem Ísland er í formlegri þróunarsamvinnu við, þ.e. Úganda, Malaví og Mósambík?
    Tollar á vörur, sem upprunnar eru í fátækustu þróunarríkjum heims (GSP-ríkjum), skulu falla niður til samræmis við niðurfellingu tolla á vörum sem upprunnar eru á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 119/2002 um tollfríðindi við innflutning vara sem upprunnar eru í fátækustu þróunarríkjum heims. Úganda, Malaví og Mósambík falla öll undir flokk fátækustu þróunarríkja heims.
    Tollfríðindi samkvæmt reglugerðinni taka til eftirtalinna vara í tollskrá.
    1.     Vara sem falla undir tollskrárnúmer í köflum 25 til og með 97 í tollskrá, að frátöldum vörum sem taldar eru upp í viðauka 1 við ofangreinda reglugerð. Í þessu felst að engir tollar eru lagðir á iðnaðarvörur en þær falla undir kafla 25 til og með 97 í tollskrá.
    2.     Vara sem unnar eru úr landbúnaðarhráefni, enda falli þær undir tollskrárnúmer sem talin eru upp í viðauka 2 við ofangreinda reglugerð. Í þeim viðauka er hins vegar í viðauka við töflu 1 tilgreindur magntollur sem lagður er á tilteknar vörur, svo sem jógúrt, súkkulaði, tilteknar pastategundir o.fl. Fjölmargar landbúnaðarafurðir eru tollfrjálsar við innflutning til Íslands, svo sem ávextir, hnetur, kaffi, te, ýmis konar korn, olíur, fræ, feiti, o.fl.
    3.     Fisks og annarra sjávarafurða, enda falli þær undir tollskrárnúmer sem talin eru upp í viðauka 3 við ofangreinda reglugerð. Í þessu felst að innflutningur sjávarafurða er tollfrjáls.
    Önnur aðflutningsgjöld á borð við virðisaukaskatt, vörugjöld o.fl. þarf þó að greiða eftir atvikum þrátt fyrir að vara sé tollfrjáls.

     2.      Hvert hefur verið verðmæti árlegs innflutnings frá þessum ríkjum síðastliðin fimm ár?
    Í eftirfarandi töflu má sjá CIF-verðmæti innflutnings í milljónum króna frá ríkjunum þremur.

2009 2010 2011 2012 2013
Úganda 3,8 4,6 5,2 5,2 5,4
Malaví 0 0 1,5 2,6 0,7
Mósambík 0 5,2 0,5 0 0

     3.      Hvað hefur íslenska ríkið haft í tekjur af tollum og gjöldum vegna innflutnings frá ríkjunum þremur á þeim tíma?
    Í töflunni hér að aftan koma fram tekjur í krónum af tollum og öðrum gjöldum, svo sem virðisaukaskatti og vörugjöldum, vegna innflutnings frá ríkjunum þremur.

2009 2010 2011 2012 2013
Úganda 914.776 1.188.286 1.317.631 2.321.494 1.069.832
Malaví 0 0 101.926 207.562 149.281
Mósambík 0 1.321.844* 128.893 40.134 25.253

    *Þar af 1.321.271 kr. GPS-tæki, ein sending.