Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 187. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Prentað upp.

Þingskjal 745  —  187. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 42/2009, um visthönnun vöru
sem notar orku, með síðari breytingum (innleiðing tilskipunar og viðurlagaákvæði).


Frá atvinnuveganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Egil Jónsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Ingibjörgu Halldórsdóttur frá Mannvirkjastofnun og Helgu Sigmundsdóttur og Tryggva Axelsson frá Neytendastofu. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Mannvirkjastofnun og Neytendastofu.
    Í frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum um visthönnun vöru sem notar orku sem miða að því að leiða í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/15/ EB. Sú tilskipun fjallar um ramma til að setja fram kröfur varðandi visthönnun að því er varðar orkutengdar vörur. Í frumvarpinu felst útvíkkun á gildissviði laganna. Þau eiga nú aðeins við um vörur sem nota orku en samkvæmt breytingunni munu þau taka til allra orkutengdra vara, þ.m.t. íhluta í vörur sem nota orku. Í samræmi við breytt gildissvið er lagt til að heiti laganna verði breytt þannig að verði frumvarpið að lögum kallist þau lög um visthönnun vöru sem tengist orkunotkun. Einnig eru í frumvarpinu skilgreindar betur valdheimildir Neytendastofu vegna eftirlits og brota á lögunum þannig að hún hafi sömu stjórnsýsluúrræði og hún hefur samkvæmt öðrum lögum.
    Fram kom við umfjöllun um málið að eftirtaldar vörur muni heyra undir lögin verði frumvarpið að lögum: gluggar, einangrunarefni og vörur ætlaðar vatnsnotkun, t.d. sturtuhausar og kranar. Hingað til hafa lögin aðallega gilt um rafföng, svo sem sjónvörp, þvottavélar og ljósaperur.
    Einnig var við umfjöllun um málið bent á að áhrif á innlenda framleiðendur, t.d. glugga- og einangrunarefnis, gætu verið nokkur og þar geti verið um lítil fyrirtæki að ræða. Nefndin tekur undir ábendingu í umsögn um málið þar sem bent er á mikilvægi þess að vel sé staðið að leiðbeiningum og upplýsingagjöf til þeirra sem ákvæði frumvarpsins ná til verði frumvarpið að lögum og einnig að einfalda eftirlit eins og kostur sé.
    Nefndin leggur til þá breytingu á frumvarpinu að Mannvirkjastofnun sinni eftirliti á grundvelli þeirra. Stofnunin annast nú þegar markaðseftirlit með rafföngum sem eru varanlega tengd mannvirkjum samkvæmt lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga. Þá má benda á að til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd er frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum vegna færslu eftirlits með rafföngum til Mannvirkjastofnunar (213. mál).
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      Við 5. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Í stað orðsins „Neytendastofa“ í 3. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 10. gr.; og orðsins „Neytendastofu“ í 2. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 10. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Mannvirkjastofnun.
     2.      Í stað orðsins „Neytendastofa“ í 2. mgr. 6. gr. og hvarvetna annars staðar í frumvarpinu komi, í viðeigandi beygingarfalli: Mannvirkjastofnun.
     3.      Við 10. gr.
              a.      Í stað orðanna „áfrýjunarnefndar neytendamála“ í 3. mgr. og tvívegis í 4. mgr. b-liðar komi: úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
              b.      C-liður (13. gr.) orðist svo:

Áfrýjun ákvarðana Mannvirkjastofnunar.

                     Ákvörðunum sem Mannvirkjastofnun tekur á grundvelli laga þessara má skjóta til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem starfar á grundvelli laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
                     Ákvörðun Mannvirkjastofnunar verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála liggur fyrir.
                     Nú vill aðili ekki una úrskurði úrskurðarnefndar og getur hann þá höfðað mál til ógildingar fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um úrskurð úrskurðarnefndar.
                     Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurðar nefndarinnar né heimild til aðfarar.
    
    Ásmundur Friðriksson og Björt Ólafsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. mars 2014.



Jón Gunnarsson,


form.


Þorsteinn Sæmundsson,
frsm.

Lilja Rafney Magnúsdóttir.



Haraldur Benediktsson.


Kristján L. Möller.


Páll Jóhann Pálsson.



Þórunn Egilsdóttir.