Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 235. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 748  —  235. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Orkustofnun, nr. 87/2003,
og lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001,
með síðari breytingum (niðurlagning orkuráðs).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Jakob Björnsson fyrir hönd orkuráðs. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Íslenskum orkurannsóknum, orkuráði, Orkuveitu Reykjavíkur, RARIK ohf. og Samorku.
    Með frumvarpinu er lagt til að orkuráð verði lagt niður en slíkt var lagt til í tillögum nefndar um endurskipulagningu Orkusjóðs frá mars 2011. Verði frumvarpið að lögum munu verkefni orkuráðs flytjast til Orkustofnunar og sérstakri úthlutunarnefnd Orkusjóðs verður þá falið að gera tillögur um lánveitingar og greiðslur úr Orkusjóði. Í athugasemdum við frumvarpið eru nefndar tvær ástæður fyrir því að sérstakt orkuráð verði lagt niður. Í fyrsta lagi að Orkustofnun sé stjórnað af sérstökum árangursstjórnunarsamningi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og í öðru lagi að aðkoma ríkisins að orkumálum hafi tekið miklum breytingum frá því að ráðið var sett á laggirnar. Einnig kemur fram í athugasemdunum að viðfangsefni ráðsins hafi í ríkari mæli færst yfir í að meta tæknilega möguleika og útfærslur vegna verkefna Orkusjóðs.
    Bent var á við umfjöllun um málið í nefndinni að ekki væri samræmi milli athugasemda við 2. gr. og greinarinnar sjálfrar þar sem í athugasemdum kæmi fram að starfsmenn Orkustofnunar færu yfir umsóknir en sjálf lagagreinin bæri þess ekki merki. Fram kom að Orkustofnun hefði hingað til tekið umsóknir fyrir eftir að orkusjóði hefðu borist þær án þess að lögin beinlínis kvæðu á um það. Um það verklag er þó kveðið á í 3. gr. reglugerðar um orkusjóð. Nefndin telur mikilvægt að áfram verði tryggt að umsóknir verði yfirfarnar af sérfræðingum á viðkomandi sviði.
    Nefndin leggur til tvenns konar breytingar á frumvarpinu. Annars vegar er lagt til að lögin öðlist gildi 1. ágúst 2014 í stað þess að öðlast gildi við samþykkt. Hins vegar leggur nefndin til breytt heiti á þeirri einingu sem fer með verkefni orkuráðs þannig að hún nefnist ráðgjafarnefnd Orkusjóðs en ekki úthlutunarnefnd.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðsins „úthlutunarnefnd“ tvívegis í b-lið 2. gr. komi: ráðgjafarnefnd.
     2.      4. gr. orðist svo:
             Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 2014.
    Ásmundur Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 6. mars 2014.



Jón Gunnarsson,


form.


Kristján L. Möller,


frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.



Haraldur Benediktsson.


Björt Ólafsdóttir.


Páll Jóhann Pálsson.



Þorsteinn Sæmundsson.


Þórunn Egilsdóttir.