Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 414. máls.

Þingskjal 751  —  414. mál.Frumvarp til laga

um breytingar á ýmsum lögum vegna framlengingar á gildistíma samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms (gildistími bráðabirgðaákvæða o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)
I. KAFLI
Breyting á lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985,
með síðari breytingum.

1. gr.

    1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum orðast svo:
    Í samræmi við samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms frá 13. maí 2011, sem framlengt hefur verið til 31. desember 2014, með viðauka frá 5. mars 2014, greiðir ríkissjóður árlegt framlag á árunum 2011, 2012, 2013 og 2014 í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að standa straum af kennslukostnaði að viðbættu álagi fyrir stjórnunarkostnað vegna söngnáms á miðstigi og söng- og hljóðfæranáms á framhaldsstigi.

II. KAFLI
Breyting á lögum um námsgögn, nr. 71/2007, með síðari breytingum.
2. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða II í lögunum orðast svo:
    Á fjárlagaárinu 2014 greiðist framlag skv. 1. mgr. 6. gr. af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, f.h. sveitarfélaga. Í samræmi við samkomulag frá 5. október 2011, um tímabundnar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, og viðauka við það frá 5. mars 2014, verður framlagið innheimt af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember á næstliðnu ári.
    

III. KAFLI
Breyting á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, með síðari breytingum.
3. gr.

    4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II í lögunum orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 1. mgr. skal framlag samkvæmt þeirri málsgrein, á fjárlagaárinu 2014, greitt af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, f.h. sveitarfélaga. Í samræmi við samkomulag frá 5. október 2011, um tímabundnar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, og viðauka við það frá 5. mars 2014, verður framlagið innheimt af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember á næstliðnu ári.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum.
4. gr.

    3. tölul. ákvæðis til bráðabirgða VIII í lögunum orðast svo: Framlög ríkis og sveitarfélaga. Á árinu 2014 greiðast 50 millj. kr. af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, f.h. sveitarfélaga, til verkefnis varasjóðs húsnæðismála skv. 44. gr. Í samræmi við samkomulag frá 5. október 2011, um tímabundnar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, viðauka við það frá 5. mars 2014 og samkomulag um varasjóð húsnæðismála frá 23. nóvember 2010 verður framlagið innheimt af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember á næstliðnu ári.

V. KAFLI
Breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995,
með síðari breytingum.

5. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða XV í lögunum orðast svo:
    Á árinu 2014 greiðir Jöfnunarsjóður sveitarfélaga kostnað sveitarfélaga vegna eftirtalinna verkefna eftir því sem nánar er ákveðið í fylgiskjali með samkomulagi frá 5. október 2011, um tímabundnar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, og viðauka við það frá 5. mars 2014:
     a.      Sumardvalarheimilis í Reykjadal, sbr. fjárlagalið 08-809-1.35.
     b.      Tölvumiðstöðvar fatlaðra, sbr. fjárlagalið 08-809-1.15.
     c.      Vistheimilisins Bjargs, sbr. fjárlagalið 08-809-1.36.
    Í samræmi við samkomulag frá 5. október 2011, um tímabundnar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, og viðauka við það frá 5. mars 2014, verður kostnaður vegna verkefna skv. 1. mgr. innheimtur af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember á næstliðnu ári.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og fjármála- og efnahagsráðuneytið. Frumvarpið byggist á viðauka frá 5. mars 2014 við samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga, um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms, sem undirritað var 13. maí 2011 og útfært nánar í samkomulagi sömu aðila frá 5. október sama ár, um tímabundnar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Í báðum tilvikum var gildistími frá 1. júlí 2011 til 31. ágúst 2013. Með áðurnefndum viðauka við samkomulag ríkis og sveitarfélaga sem undirritaður var af hálfu mennta- og menningarmálaráðherra, innanríkisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og formanni og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga 5. mars 2014 hefur gildistími framangreindra samninga verið framlengdur til 31. desember 2014. Með frumvarpinu er gildistími tímabundinna bráðabirgðaákvæða í ýmsum lögum sem lögfest voru með lögum nr. 180/2011 framlengdur til 31. desember 2014.
    Á gildistíma samkomulagsins frá 13. maí 2011 veitti ríkissjóður framlag að fjárhæð 480 millj. kr. á ársgrunni vegna kennslukostnaðar í tónlistarskólum. Á móti skuldbundu sveitarfélög sig til að taka tímabundið yfir ný verkefni frá ríki sem námu 230 millj. kr. á ársgrundvelli samkvæmt samkomulagi frá 5. október 2011. Verkefni þessi voru fjármögnuð á þann hátt að framlög sveitarfélaga voru innheimt af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda í samræmi við ákvæði laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með áorðnum breytingum.
    Fljótlega kom í ljós að forsendur samkomulagsins um fjölda nemenda voru ekki nógu traustar og stefndu nokkrir af stærstu tónlistarskólum landsins í greiðsluþrot vegna þess að framlög samkvæmt samkomulaginu voru töluvert langt frá því að standa undir kennslukostnaði í þeim skólum. Eftir viðræður sveitarfélaga við fulltrúa þriggja ráðuneyta ákvað ríkisstjórnin að hækka greiðslu ríkisins um 40 millj. kr. á ári, sem kom að nokkru til móts við rekstrarvanda þessara tónlistarskóla. Jafnframt fór fram endurskoðun á reglum jöfnunarsjóðs sem leiddi til þeirrar breytingar að framlög til sveitarfélaga tóku mið af veittu kennslumagni sem nemendur fá í stað þess að vera föst viðmiðunarfjárhæð fyrir hvern nemanda.
    Af ýmsum ástæðum tókst ekki að hefja viðræður um framlengingu samkomulagsins fyrr en í maí 2013. Drög að viðauka við samkomulagið frá 2011 um eflingu tónlistarnáms lágu fyrir í byrjun júlí en tafir urðu á því að ganga endanlega frá málinu við mennta- og menningarmálaráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið og rann gildistími samkomulagsins því út 31. ágúst sl. án þess að fyrir lægi ákvörðun um fyrirkomulag á yfirstandandi skólaári. Þessi dráttur hafði þó ekki bein áhrif á starfsemi tónlistarskólanna á haustönn 2013 vegna þess að heimild var á fjárlögum ársins 2013 til að greiða framlag ríkisins til áramóta. Á árinu 2014 liggur einnig fyrir heimild á fjárlögum til þess að greiða alls 520 millj. kr. til tónlistarnáms þótt samkomulagið sé fallið úr gildi. Hins vegar er ekki lengur til staðar lagaheimild til þess að draga 230 millj. kr. hlutdeild sveitarfélaga í samkomulaginu frá framlögum jöfnunarsjóðs.
    Þar sem nú hefur verið gengið frá viðauka við samkomulagið frá 13. maí 2013 er frumvarp þetta lagt fram á Alþingi. Mikilvægt er að það hljóti samþykki sem fyrst svo hægt verði að tryggja fjármögnun þeirra verkefna sem sveitarfélögin eiga að standa straum af samkvæmt samkomulagi frá 5. október 2011. Um er að ræða eftirtalin lögákveðin verkefni:
     1.      Fjármögnun Endurmenntunarsjóðs grunnskóla, sbr. bráðabirgðaákvæði II við lög um grunnskóla, nr. 91/2008.
     2.      Fjármögnun og rekstur námsgagnasjóðs, sbr. 6. gr. laga um námsgögn, nr. 71/2007.
     3.      Fjármögnun varasjóðs húsnæðismála, sbr. samkomulag frá 23. nóvember 2010.
    Í frumvarpi því sem hér er lagt fram er gert ráð fyrir því að fjármögnun framangreindra verkefna verði áfram tímabundið á ábyrgð sveitarfélaga og er fjármögnun þeirra tryggð með því að framlög sveitarfélaga verði innheimt af úthlutun framlaga jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember á næstliðnu ári. Rétt þykir að taka fram að á grundvelli 2. gr. viðauka samkomulagsins framlengist samkomulagið frá 5. október 2011 til ársloka 2014. Af því leiðir að samkomulag um varasjóð húsnæðismála, frá 23. nóvember 2010, framlengist til jafn langs tíma. Af þeirri ástæðu er í 4. gr. frumvarps þessa gert ráð fyrir að framlag sveitarfélaga til varasjóðsins verði samtals 50 millj. kr. þótt í viðauka samkomulagsins sé tilgreind lægri fjárhæð, 30 millj. kr. sem er framlag ríkisins til þessa verkefnis samkvæmt tilgreindu samkomulagi.
    Önnur verkefni, sem sveitarfélögin fjármagna tímabundið, kalla ekki á breytingar á sérlögum en Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiðir tímabundið kostnað við þau verkefni fyrir hönd sveitarfélaga og er fjármögnun þeirra tryggð með sama hætti og að framan greinir. Um er að ræða eftirfarandi verkefni:
          Sumardvalarheimilis í Reykjadal, sbr. fjárlagalið 08-809-1.35
          Tölvumiðstöðvar fatlaðra, sbr. fjárlagalið 08-809-1.15
          Vistheimilisins Bjargs, sbr. fjárlagalið 08-809-1.36

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér er gert ráð fyrir framhaldi á umsýsluhlutverki sem falið var Jöfnunarsjóði sveitarfélaga samkvæmt samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms frá 13. maí 2011 og samkomulagi um tímabundna breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga frá 5. október 2011, sem veitt var lagastoð fyrir árin 2011, 2012 og 2013 með 1. gr. laga nr. 180/2011. Gildistími samkomulagsins hefur, með viðauka, dags. 5. mars 2014, verið framlengdur til 31. desember 2014 og er hér lagt til að umsýsluhlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði framlengt til 31. desember 2014.

Um 2. gr.

    Í greininni er lögð til framlenging á tímabundinni breytingu á lögum um námsgögn, nr. 71/2007, sbr. 2. gr. laga nr. 180/2011 í samræmi við framlengingu á samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um verkefnatilfærslu frá ríkissjóði til sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir því að umsýsla námsgagnasjóðs verði tímabundið áfram á hendi Sambands íslenskra sveitarfélaga, samhliða því að ábyrgð á fjármögnun sjóðsins verði hjá sveitarfélögum á árinu 2014. Gert er ráð fyrir að framlög sveitarfélaga til námsgagnasjóðs verði áfram innheimt af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember á næstliðnu ári.

Um 3. gr.

    Lagt er til að í stað 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II komi ný 4. mgr. við ákvæði til bráðabirgða II við lög um grunnskóla, nr. 91/2008, þar sem kveðið er á um að tímabundið framhald á fjármögnun endurmenntunarsjóðs grunnskóla af hálfu sveitarfélaga í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga á framlengdum gildistíma samkomulagsins, sbr. 3. gr. laga nr. 180/2011.

Um 4. gr.

    Lagt er til að í stað núverandi 3. tölul. við ákvæði til bráðabirgða VIII í lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum, komi nýr 3. tölul. þar sem kveðið er á um fjármögnun varasjóðs húsnæðismála á árinu 2014. Um er að ræða framlengda þátttöku sveitarfélaga í fjármögnun á varasjóði húsnæðismála fyrir árið 2014 skv. 3. tölul. ákvæðis til bráðabirgða VIII við lög nr. 44/1998 í samræmi við 2. gr. viðauka við samkomulag ríkis og sveitarfélaga frá 5. október 2011. Af því ákvæði leiðir að samkomulag um varasjóð húsnæðismála, frá 23. nóvember 2010, framlengist til 31. desember 2014. Gert er ráð fyrir að framlag sveitarfélaga til varasjóðsins verði samtals 50 millj. kr., sem skiptist þannig að sveitarfélög leggja til 20 millj. kr. og ríki 30 millj. kr. samkvæmt greindu samkomulagi.

Um 5. gr.

    Eins og lýst er í almennum athugasemdum með frumvarpinu er í viðauka við samkomulag ríkis og sveitarfélaga frá 5. október 2011, sem undirritaður var 5. mars 2014, kveðið á um tímabundna tilfærslu fjögurra verkefna frá ríki til sveitarfélaga sem ekki kalla á breytingar á sérlögum. Hér er lagt til að í stað ákvæðis til bráðabirgða XV í lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með áorðnum breytingum, komi nýtt ákvæði til bráðabirgða sem er hliðstætt 5. gr. laga nr. 180/2011, að teknu tilliti til breytinga á samkomulaginu frá 5. október 2011. Í hinu nýja ákvæði til bráðabirgða er kveðið á um fjármögnun eftirfarandi verkefna í samræmi við ákvæði samkomulagsins:
          Sumardvalarheimilis í Reykjadal, sbr. fjárlagalið 08-809-1.35.
          Tölvumiðstöðvar fatlaðra, sbr. fjárlagalið 08-809-1.15.
          Vistheimilisins Bjargs, sbr. fjárlagalið 08-809-1.36.
    Verkefnin sem hér um ræðir tengjast samkomulagi sem tók gildi 1. janúar 2011 um yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga en af ýmsum ástæðum voru þessi verkefni þá undanskilin við gerð heildarsamkomulags um þá verkefnatilfærslu. Gengið er út frá því að fjárhæðir til framangreindra verkefna verði í samræmi við fylgiskjal með umræddu samkomulagi frá 5. október 2011 og viðauka við það frá 5. mars 2014 og að Jöfnunarsjóður innheimti kostnað vegna þeirra af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember á næstliðnu ári.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal I.


Mennta- og menningarmálaráðuneyti:

Mat á áhrifum frumvarpsins á fjárhag sveitarfélaga
skv. 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.

    Mennta- og menningarmálaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa sameiginlega metið forsendur kostnaðaráhrifa vegna frumvarpsins. Það er lagt fram vegna framlengingar á gildistíma samkomulags ríkis og sveitarfélaga frá 13. maí 2011 um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms og framlengingar á samkomulagi sömu aðila frá 5. október um tímabundnar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í tengslum við fyrrgreint samkomulag. Frumvarpið felur í sér tímabundna verkefnatilfærslu frá ríki til sveitarfélaga með líkum hætti og gilti fyrir árin 2011, 2012 og 2013 með lögum nr. 180/2011. Framlengdur gildistími er í báðum tilvikum til 31. desember 2014.
    Á árinu 2014 veitir ríkissjóður framlag að fjárhæð 520 millj. kr. til tónlistarnáms á vegum sveitarfélaga sem ætlað er að gera nemendum kleift að stunda hljóðfæranám á framhaldsstigi og söngnám á mið- og framhaldsstigi, óháð búsetu. Á móti skuldbinda sveitarfélög sig til að taka tímabundið yfir eftirfarandi verkefni frá ríki sem nemur 230 millj. kr. á ársgrundvelli, sbr. viðauka, dags. 5. mars 2014, við samkomulag frá 5. október 2011, sbr. 2.–4. gr. frumvarpsins. Önnur verkefni, sem sveitarfélögin fjármagna tímabundið, kalla ekki á breytingar á sérlögum en í 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiði kostnað við þau verkefni fyrir hönd sveitarfélaga og innheimti kostnað vegna þeirra af úthlutuðum framlögum til sveitarfélaga.Fylgiskjal II.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna
framlengingar á gildistíma samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga
um eflingu tónlistarnáms (gildistími bráðabirgðaákvæða o.fl.).

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum vegna framlengingar á gildistíma samkomulags ríkis og sveitarfélaga um tímabundna breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í kjölfar samkomulags um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms sem var undirritað 13. maí árið 2011. Frumvarp þetta er efnislega hliðstætt ákvæðum laga nr. 180/2011 um sama efni sem féllu úr gildi í lok árs 2013. Með viðauka við þetta samkomulag ríkis og sveitarfélaga, sem var undirritaður 5. mars 2014, hefur gildistími þess verið framlengdur til 31. desember 2014 og tekur frumvarpið mið af því.
    Samkomulagið felur í sér að framlag ríkissjóðs til tónlistarfræðslu verði 520 m.kr. á árinu 2014 í samræmi við gildandi fjárlög. Ekki verður um frekari framlög að ræða úr ríkissjóði á gildistíma samkomulagsins. Ríkissjóður greiðir framlagið til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem greiðir styrki samkvæmt tilteknum úthlutunarreglum til sveitarfélaga vegna tónlistarnáms í hljóðfæraleik á framhaldsstigi og söngnáms á mið- og framhaldsstigi óháð búsetu nemenda. Samband íslenskra sveitarfélaga annast, í samvinnu við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, eftirlit með umfangi verkefnisins.
    Sveitarfélög skuldbinda sig á móti áfram til að standa tímabundið straum af verkefnum sem áður voru fjármögnuð af ríkinu og nema framlög vegna þeirra 230 m.kr. á ársgrundvelli. Að auki felur framlenging samkomulagsins í sér að samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um Varasjóð húsnæðismála, frá 23. október 2010, er framlengt um eitt ár og á þeim grundvelli er gert ráð fyrir því að sveitarfélögin greiði að auki 20 m.kr. til varasjóðsins, líkt og fram kemur í 4. gr. frumvarpsins. Miðað er við að framlög sveitarfélaga renni til eftirfarandi verkefna á árinu 2014: Tölvumiðstöðvar fatlaðra, Endurmenntunarsjóðs grunnskóla, Námsgagnasjóðs, Sumardvalarheimilisins í Reykjadal, Vistheimilisins Bjargs og Varasjóðs húsnæðismála.
    Varðandi frekari umfjöllun um hvern og einn lið frumvarpsins er vísað til fyrri umsagnar vegna sama máls sem fylgdi með frumvarpi um þetta málefni á þingskjali 491 á 140. löggjafarþingi.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum verða útgjöld ríkisins vegna verkefnisins þau sömu og gert er ráð fyrir í fjárlögum fyrir árið 2014, eða 520 m.kr. Á móti kemur að sveitarfélög fjármagna áfram af sínum tekjustofnum framlög sem samtals nema um 230 m.kr. vegna verkefna sem færast í þeirra umsjá.